Starfsáætlun SÍM fyrir starfsárið 2014 – 2015
Stjórn SÍM vinnur að hagsmunamálum listamanna. Á starfsárinu 2014-2015 vill stjórn SÍM leggja áherslu á að bæta samtalið milli stjórnar og félagsmanna og styrkja með því ímynd SÍM innan frá. Stjórn SÍM telur að leiðin að betra starfsumhverfi stjórnar og félagsmanna felist í virku samtali sem mun leiða til vitundarvakningar og þátttöku félagsmanna í starfsemi SÍM.
Að auki leggur stjórn SÍM áherslu á eftirfarandi verkefni:
A Betri upplýsingar um starfsumhverfi myndlistarmanna. Helsta baráttumál þessa starfsárs og komandi ára snýr að starfsumhverfi myndlistarmanna og hvernig auka megi almennar tekjur innan greinarinnar. Til að svo megi verða þarf betri yfirsýn og upplýsingar yfir starfsumhverfi myndlistarmanna en SÍM býr yfir. Á seinni hluta þessa starfsárs mun SÍM framkvæma launa- og skoðanakönnun hjá félagsmönnum samtakanna, líkt og gert var árið 1995. Með slíkri könnun telur stjórn SÍM að félagið fái öflugt tæki, sem nota má í hagsmunabaráttunni félagsins og til grundvallar samningum vegna sýningarhalds (sjá lið B.).
B Laun vegna sýningarhalds. Stjórn SÍM mun áfram beita sér fyrir því að listamenn fái laun vegna vinnu við eigin sýningar í listasöfnum og sýningarsölum hérlendis, en sú vinna hófst 2012. SÍM mun líta til sænska MU samningsins, sem listamannasamtökin í Svíþjóð (KRO) gerðu við þarlend stjórnvöld. Stjórn SÍM vill beita sér fyrir því að gerð verði viðlíka launaviðmið og samningar fyrir listamenn sem farið verði eftir vegna sýningarhalds. Á starfsárinu mun SÍM hefja og taka upp viðræður við opinber söfn til að kanna grundvöll fyrir launaviðmiðum sambærilegum og í MU samningnum.
C KÍM. Stjórn SÍM vill beita sér fyrir því að stjórnvöld efli rekstur KÍM og skerpi á hlutverki stofnunarinnar. KÍM er sérhæfð kynningarmiðstöð sem gegnir veigamiklu hlutverki fyrir kynningu á listamönnum, m.a. Í tengslum við þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum. Efla þarf samstöðu og tengsl milli SÍM og KÍM.
D Listskreytingasjóður. Stjórn SÍM telur nauðsynlegt að efla starfsemi listskreytingasjóðs, t.d. með því að gera hann sýnilegri og styrkja umfjöllun um starfsemi hans. Stjórn SÍM vill beita sér fyrir því að fylgt sé lögbundnum ákvæðum um að 1% af kostnaði við opinberar byggingar sé varið í myndskreytingar. Liður í þessari eftirfylgni felst í virku samtali við félagsmenn SÍM og mun stjórnin óska eftir ábendingum um mál sem taka þarf til skoðunar.
Einnig vill stjórn SÍM hvetja Reykjavíkurborg til að huga að stofnun listskreytingasjóðs Reykjavíkurborgar. Seinustu tíu ár hefur mikið verið byggt af opinberum byggingum á vegum Reykjavíkur, t.a.m. skólabyggingum. Rannsóknir sýna að myndlist er nauðsynlegur hluti af starfsemi skóla á öllum stigum og myndlæsi lykilþáttur í uppeldishlutverki stofnanna. Meiri samtímalist í opinberum byggingum stuðlar auk þess að betri líðan allra starfsmanna. Listskreytingasjóður Reykjavíkurborgar myndi tryggja að þessi mikilvægu atriði myndu ná fram að ganga.
E Sækja um aðild að BHM
Stjórn SÍM mun senda umsókn um að verða aðildarfélag að Bandalagi Háskólamanna (BHM) nk. haust og mun umsóknin verða tekin fyrir á aðalfundi BHM í apríl 2015. BHM er bandalag hagsmunatengdra félaga eða stéttarfélaga sem starfa að fag- og vinnumarkaðslegum málefnum félagsmanna sinna. BHM styður við starf aðildarfélaga, eflir þekkingu félagsmanna á kjara- og réttindamálum og gætir hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnvöldum. Núverandi stjórn SÍM telur að það sé orðið tímabært að félagsmenn SÍM hafi aðgang að sjúkrasjóði, styrktarsjóði og orlofssjóði og telur það vera lið í styrkja kjarabaráttu listamanna að SÍM gerist aðili að BHM.
Sýnileiki myndlistar – Dagur myndlistar
Dagur myndlistar á þessu ári verður haldinn í október. Á síðustu árum hafa myndlistarmenn opnað vinnustofur sínar og haldið kynningar í skólum landsins í tilefni dagsins. Stjórn SÍM vill áfram vinna að því að gera Dag myndlistar sem veglegastan. Á fyrsta félagsfundinum sem verður haldið 28 mai. Verður Dagur myndlistar tekið fyrir og langar stjórn biðja félagsmenn að koma með hugmyndir hvernig væri hægt að gera daginn betri og sýnilegri.
Skrifstofa SÍM vinnur að því að uppfæra UMM síðuna og er það von okkar að síðan verði komin með nýtt útlit á árinu með skilvirkari uppsetningu sem auðveldar félagsmönnum að uppfæra síðuna sína og halda við.
Stefnt er að því að breyta fréttabréfinu í fréttarit sem myndi koma út þrisvar á ári. Í ritinu mun formaður skrifa formála, auk þess sem það verður innlit hjá og stutt kynning á listamanni sem leigir vinnustofu hjá SÍM. Einnig verður kynning á einum gestalistamanni og aðsend grein frá félagsmanni. Er það von stjórnar að þetta verði liður í ða efla innri starfsemi SÍM og þar af leiðandi bæta ímynd félagsins. Að auki verða almennir félagsfundir haldnir á kvöldin og boðið verður upp á kvöldverð á þeim kvöldum. Stjórnin mun bjóða gest á hvern slíkan félagsfund sem myndi vera með stutta kynningu á honum/henni og hans starfi.
Gestavinnustofurnar í Seljavegi þurfa á viðhaldi að halda. Stefnt er að því að mála og skipta út þeim húsgögnum sem eru komin á ára sinni eins og fjárhagur leyfir.
SÍM tók til leigu stóra salinn í Korpúlfsstöðum. Unnið er að hugmyndum hvernig best væri að nýta hann. Allar hugmyndir eru velþegnar.