Aðalfundur BÍL telur ekki vansalaust hvernig komið er fyrir heiðurslaunum íslenskra listamanna. Um þau virðast hvorki gilda lög né reglur að því er varðar fjölda eða fyrirkomulag og sjálf úthlutunin með öllu tilviljanakennd og eftir geðþótta þingmanna hverju sinni. Bandalag íslenskra listamanna telur brýnt að þeim verði komið á fastari fót, fjöldi þeirra sé í samræmi við þörfina, úthlutunin á hendi faglega skipaðrar nefndar og sjálf upphæðin ámóta hlutfall af starfslaunum listamanna og almennt gildir um eftirlaun.
Á aðalfundi BÍL 2010 var reifuð tillaga um að komið yrði á fót íslenskri akademíu sem hefði þann tilgang að nýta reynslu og færni eldri listamanna með skipulögðum hætti. Til að útfæra þessa hugmynd frekar skipaði stjórn BÍL nefnd sem í áttu sæti Ásta Ólafsdóttir frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Hallveig Rúnarsdóttir frá Félagi íslenskra tónlistarmanna, Pétur Gunnarsson frá Rithöfundasambandi Íslands, Ragnar Bragason frá Félagi íslenskra kvikmyndagerðarmanna og Randver Þorláksson frá Félagi íslenskra leikara. Nefndin hittist í fjórgang og komst að eftirfarandi niðurstöðu.
Akademíur skipaðar listamönnum eru starfandi í öllum menningarlöndum, sumar hafa starfað um árhundruð, aðrar komu til sögunnar á síðastliðinni öld. Rökin fyrir tilvist þeirra eru fjölbreytileg, en þau sem okkur eru efst í huga lúta að því að nýta og virkja þá reynslu sem eldri listamenn búa yfir. Samankomnir yrðu meðlimir akademíunnar einskonar vökumenn íslenskrar menningar, þeir myndu ráðslaga um stöðu mála hverju sinni, hafa frumkvæði að fyrirlestrum, efna til málþinga og hugsanlega veita viðurkenningar og verðlaun.
Ástæðulaust er að hræðast orðið “akademía”, upprunaleg merking orðsins er einfaldlega “garðurinn hans Akademnos” – þar sem heimspekingurinn Platon og félagar voru vanir að hittast. Hægt væri að hugsa sér að íslenska akademían kæmi mánaðarlega saman í hinu vannýtta Þjóðmenningarhúsi, þannig að kostnaður við húsnæði væri hverfandi. Að sjálfsögðu yrði að gera ráð fyrir einhverjum útgjöldum vegna utanumhalds við að skipuleggja fundi og ráðstefnur.
En hverjir myndu skipa þessa Akademíu og hverjir ættu að skipa í hana? Nú þegar er til úrvalshópur listamanna sem hafa hlotið heiðurslaun íslenska ríkisins í viðurkenningarskyni fyrir listrænan feril sinn. Slíkur hópur væri prýðilega til þess fallinn að mynda uppistöðu íslenskrar akademíu. Einn er þó hængur á og hann er sá að samkvæmt núverandi fyrirkomulagi eru þeir sem þiggja heiðurslaun valdir af Alþingi Íslendinga, án þess að valinu til grundvallar liggi nokkurt hlutlægt mat. Þetta er óviðunandi og í mótsögn við kröfu tímans um gagnsæi við töku ákvarðana. Við teljum því nauðsynlegt að áður en til stofnunar akademíu geti komið þurfi að koma á nýrri skipan við úthlutun heiðurslauna.
Tillaga okkar að ályktun er svohljóðandi:
Aðalfundur BÍL telur ekki vansalaust hvernig komið er fyrir heiðurslaunum íslenskra listamanna. Um þau virðast hvorki gilda lög né reglur að því er varðar fjölda eða fyrirkomulag og sjálf úthlutunin með öllu tilviljanakennd og eftir geðþótta þingmanna hverju sinni. Bandalag íslenskra listamanna telur brýnt að þeim verði komið á fastari fót, fjöldi þeirra sé í samræmi við þörfina, úthlutunin á hendi faglega skipaðrar nefndar og sjálf upphæðin ámóta hlutfall af starfslaunum listamanna og almennt gildir um eftirlaun.
Rökstuðningur:
Um störf samfélagsins gildir almennt að þau eru mæld og metin til fjár og þeim sem þau inna af höndum er umbunað í samræmi við framlagða vinnu. Þetta á þó ekki við um störf listamanna, nema að takmörkuðu leyti, launin sem þeir uppskera eru sjaldnast í samræmi við framlagið og iðulega undir hælinn lagt hvort eða hvenær þau greiðast. Hinar óreglulegu tekjur listamanna gera síðan að verkum að greiðslur þeirra í lífeyrissjóði eru stopular sem aftur bitnar enn frekar á kjörum þeirra að endaðri starfsævi.
Samfélag sem nærist af listum hlýtur að búa svo um hnúta að listamenn sem komnir eru á efri ár njóti verðskuldaðrar umbunar. Um nokkra hríð hafa svokölluð heiðurslaun listamanna verið við lýði og val á þeim sem þau hljóta verið í höndum Alþingis. Það gefur augaleið að slíkt er tæplega til þess fallið að skapa sátt eða tryggja gagnsæi enda varla hægt að ætlast til þess að þingmenn hafi yfirsýn yfir listir og listamenn á hverri tíð. Bandalag íslenskra listamanna telur brýnt að fyrirkomulagi heiðurslauna sé fundinn annar og markvissari farvegur, fjöldi þeirra sé í hlutfalli við fjölda þeirra sem fást við listir, upphæðin í samræmi við eftirlaun almennt og að sjálfu valinu komi fagfólk af sviðum fræða og lista.