Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna felur stjórn BÍL að leita eftir viðræðum við stjórnvöld um framtíðarfyrirkomulag opinberra fjárframlaga til lista og menningar með það að markmiði að auka fagmennsku og skilvirkni í úthlutunum. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að efla lögbundna sjóði sem hafa skilgreindu hlutverki að gegna við fjármögnun lista- og menningarstarfs. Þar er um að ræða Bókmenntasjóð, Kvikmyndasjóð, sjóð til stuðnings starfsemi Sjálfstæðu leikhúsanna, Tónlistarsjóð, Barnamenningarsjóð og launasjóði listamanna. Einnig þarf að skoða möguleika á að fjölga sjóðunum, t.d. er full þörf á hönnunarsjóði og útflutningssjóði íslenskrar tónlistar.

Greinargerð:

Krafa um aukna fagmennsku í úthlutun opinberra fjármuna hefur verið ofarlega á baugi víða í samfélaginu, en í lista- og menningargeiranum hefur hún verið mjög afdráttarlaus. Ástæða þess er sú að erfiðlega hefur gengið að fá skilning stjórnvalda á mikilvægi þeirra sjóða sem hafa lögbundið hlutverk í fjármögnun lista- og menningarstarfs. Hins vegar hefur fjárlaganefnd Alþingis úthlutað háum upphæðum á ári hverju til ýmissa menningarverkefna án nokkurra faglegra mælikvarða eða eftirfylgni með verkefnunum. Á sama tíma hafa sjóðirnir varla haldið í við vísitöluhækkanir og síðastliðin tvö ár hafa þeir orðið fyrir miklum niðurskurði.

Eftir hrun efnahagslífsins 2008 hefði mátt ætla að dregið yrði úr handahófskenndri úthlutun fjárlaganefndar, en sú er ekki raunin. Í nýsamþykktum fjárlögum fyrir árið 2011 úthlutar fjárlaganefnd af ýmsum safnliðum fjármunum til menningarverkefna, samkvæmt umsóknum sem hún auglýsir eftir, upphæð sem nemur á þriðja hundrað milljónum króna. Það er umtalsvert hærri upphæð en fjárlögin gera ráð fyrir að Tónlistarsjóður, Bókmenntasjóður, Barnamenningarsjóður, Listskreytingasjóður, starfsemi Sjálfstæðu leikhúsanna og starfsemi áhugaleikfélaga fá til úthlutunar samanlagt.

Sjóðirnir sem taldir eru upp í tillögugreininni hér að framan eiga það sammerkt að við þá starfa úthlutunarnefndir og/eða stjórnir sem skipaðar eru fagfólki úr viðkomandi listgrein (undantekning er danslistin sem þarf nauðsynlega að fá fagfólk til að meta umsóknir um danssýningar). Sjóðsstjórnirnar starfa eftir úthlutunarreglum, sem leiðir það af sér að allar umsóknir eru metnar á sama mælikvarða. Þá fylgjast nefndirnar með að verkefnin séu framkvæmd og að skilyrði styrkveitinga séu uppfyllt. Kvikmyndasjóður hefur eðli málsins samkvæmt nokkra sérstöðu hvað úthlutun varðar, en þar er umsóknar- og matsferlið engu að síður allt unnið af fagfólki í greininni.

Nú þegar hagræn áhrif skapandi greina í samfélaginu eru ljósari en áður er brýnt að auka fagmennsku og skilvirkni í úthlutunum opinberra fjármuna til lista- og menningarstarfs. Fyrstu niðurstöður kortlagningar skapandi greina leiða í ljós að einungis 13% af þeim 191 milljarði sem skapandi greinar veltu árið 2009 koma gegnum opinber framlög, en jafnframt að úr þeim fjármunum tekst að skapa mikil samfélagsleg verðmæti, bæði í formi peninga en ekki síður óáþreifanleg verðmæti sem aldrei verða metin til fjár en skipa Íslendingum verðugan sess meðal menningarþjóða.