Umsögn um þingmál 267 á þingskjali 503; um sóknaráætlun skapandi greina
Stjórn Bandalags íslenskra listamanna hefur, að beiðni allsherjar- og menntamálanefndar, fjallað um ofangreinda tillögu og vill koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.
Í greinargerð með tillögunni er getið um tillögu Alþingis nr. 22 sem samþykkt var á 139. löggjafarþingi hinn 7. apríl 2011. Sú tillaga var flutt af menntamálanefnd þingsins og hljóðar svo:
Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að koma á formlegum samstarfsvettvangi með aðild fulltrúa allra stjórnmálaflokka, iðnaðarráðuneytis og fulltrúa skapandi greina sem hafi það hlutverk að ræða starfsumhverfi skapandi greina á Íslandi og móta tillögur um hvernig megi styrkja stöðu þeirra í íslensku atvinnulífi. Lagt verði mat á hvernig opinber stuðningur nýtist skapandi greinum, forsendur úthlutunar og eftirlit með ráðstöfun fjárveitinga. Sérstaklega verði leitað leiða til að bæta rekstrarskilyrði skapandi greina á Íslandi, fjölga menntaúrræðum og störfum auk þess að ýta undir nýsköpun innan skapandi greina. Niðurstöðum verði skilað til Alþingis fyrir 1. október 2011.
Tillagan var samþykkt samhljóða með atkvæðum fimmtíu og tveggja þingmanna allra flokka, þ.á.m. atkvæðum núverandi forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og núverandi formanns allsherjar- og menntamálanefndar Unnar Brár Konráðsdóttur. Á grundvelli tillögunnar var svo settur á laggirnar starfshópur sá sem vann skýrsluna Skapandi greinar – Sýn til framtíðar og í kjölfarið var skipað þverfaglegt teymi sem fékk það verkefni að yfirfara tillögur skýrslunnar með það að markmiði að innleiða þær og koma greinunum fyrir með formlegum hætti innan stjórnsýslunnar. Eftir því sem stjórn BÍL kemst næst þá mun þetta teymi vera að stöfum undir forystu Karístasar Gunnarsdóttur skrifstofustjóra á menningarskrifstofu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, en það hefur því miður verið hljótt um störf þess frá því að það tók til starfa.
Í tillögum skýrslunnar Skapandi greinar – Sýn til framtíðar er komið inn á flesta þá þætti sem þingsályktunartillagan frá 2011 gerði ráð fyrir; þar má nefna formlegan samstarfsvettvang um málefni skapandi greina, einnig er í skýrslunni greinargott yfirlit yfir starfsumhverfi greinanna og tillögur um bætta stöðu þeirra í íslensku atvinnulífi. Þá hefur skýrslan að geyma greinargott yfirlit yfir opinberan stuðning við listir og tillögur að styrkingu þess kerfis sem unnið hefur verið eftir. Loks er komið inn á menntamálin og varpað fram hugmyndum um frekari aðgerðir í þágu bættrar menntunar í listum og skapandi greinum á öllum skólastigum, en sem fyrr segir þá eru allar þessar tillögur til meðferðar hjá samstarfshópi þeim sem settur var á laggirnar í framhaldi af útkomu skýrslunnar 2012.
Það er mat stjórnar BÍL að mikið starf hafi verið unnið til að búa í haginn fyrir öfluga sókn í málefnum skapandi greina. Það var því mikið áfall þegar ljóst var að sameiginlegt átak geirans og stjórnvalda, sem staðið hafði í fjörgur ár, var ekki virt sem skyldi í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar 2014. Það er óþarfi að rekja hér rúmlega 600 milljóna niðurskurð á fjárveitingum til verkefnatengdra sjóða lista og skapandi greina á yfirstandandi ári, en látið nægja að benda á umsögn BÍL um fjárlagafrumvarp 2014, sem aðgengileg er á vef Alþingis og vefsíðu BÍL.
Stjórn BÍL leggur áherslu á mikilvægi þess að nú verði blásið til endurnýjaðrar sóknar í atvinumálum listafólks og skapandi fólks og lýsir einlægum vilja til samstarfs um það verkefni. Það er mikilvægt að teymi það sem sett var á laggirnar innan stjórnsýslunnar 2012 fái áframhaldandi umboð til að starfa á grundvelli tillagna skýrslunnar Skapandi greinar – Sýn til framtíðar. Einnig er mikilvægt að haldið verði áfram þeirri vinnu sem komin var áleiðis undir hatti Hagstofu Íslands að finna leiðir til að skapandi atvinnugreinar verði sjálfsagður þáttur þjóðhagsreikninga, en það verkefni fór raunar að hiksta þegar ljóst var að fjármunir þeir, sem gert var ráð fyrir að kæmu inn í það verkefni í formi IPA-styrkja ESB, myndu ekki skila sér. Til frekari áréttingar því sem hér hefur verið nefnt fylgir umsögn þessari starfsáætlun BÍL, sem samþykkt var á aðalfundi BÍL 8. febrúar sl.