BÍL – Bandalag íslenskra listamanna, sem eru heildarsamtök listafólks í fjórtán aðildarfélögum, telur mikilvægt að finna leiðir til að framtíðaráform um uppbyggingu verkefnatengdra sjóða á vettvangi lista og hönnunar gangi eftir. Í því skyni leggur BÍL til eftirfarandi breytingar á fjárlagafrumvarpi 2014:

Framlag til Kvikmyndamiðstöðvar hækki úr 110,6 í 127,2

Framlag til Kvikmyndasjóðs hækki úr 624,7 í 1.020,0

Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna hækki úr 68,5 í 89,8

Framlag til Tónlistarsjóðs hækki úr 44,9 í 81,1

Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar hækki úr 0 í 20,0

Verkefnið Tónlist fyrir alla hækki úr 0 í 6,0

Bókasafnssjóður höfunda hækki úr 22,0 í 42,6

Miðstöð íslenskra bókmennta hækki úr 66,6 í 92,0

Myndlistarsjóður hækki úr 0 í 45,0

Hönnunarsjóður hækki úr 0 í 45,0

Barnamenningarsjóður hækki úr 3,9 í 8,0

Handverkssjóður hækki úr 0 í 15,0

Styrkir á sviði listgreina hækki úr 35,5 í 64,6

Samningar sveitarfélaga um menningarmál úr 207,4 í 230,4

Samningur við Akureyrarbæ um mennmál.úr 138,0 í 140,4

Kynning á menningu og listum erlendis úr 10,6 í 12,0

Samtals leggur BÍL til hækkun þessara liða úr 1.332,7 í 2,039,1 eða um 706,4 milljónir

Bandalag íslenskra listamanna gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir erfiðri stöðu ríkissjóðs og virðir tilraunir stjórnvalda til að koma böndum á opinber útgjöld. Það er hins vegar bjargföst sannfæring okkar, sem gætum hagsmuna listamanna og hönnuða, að það fé sem ríkissjóður leggur til verkefnatengdra sjóða á listasviðinu sé mikilvæg fjárfesting í hugviti og sköpunarkrafti, sem muni skila sér margfalt bæði með beinum hætt í ríkissjóð en ekki síður í bættum lífsgæðum og fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna. Þessi sjónarmið eru studd gildum rökum í ýmsum skýrslum um hagræn áhrif lista og menningar.

Þá leggur Bandalag íslenskra listamanna áherslu á að mennta- og menningarmálaráðuneytinu verði gert það kleift að viðhalda samningum við miðstöðvar listgreina og hönnunar; Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Íslenska tónverkamiðstöð, Hönnunarmiðstöð og Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, sú síðasttalda er raunar enn í burðarliðnum og þarf verulega á opinberum stuðningi að halda til að komast almennilega á legg. En þessar miðstöðvar gegna lykilhlutverki í kynningu lista og menningar á erlendri grund, m.a. með því að veita faglega ráðgjöf ráðuneytum, sveitarfélögum, sendiskrifstofum Íslands, Íslandsstofu og markaðsskrifstofum útflutningsfyrirtækja.

Loks leggur BÍL áherslu á að mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, geri nýja áætlun um áframhaldandi vöxt og viðgang launasjóða listamanna á komandi fjárhagsári. Slík áætlun var í gildi á árabilinu 2009 – 2011, en fjöldi mánaða í sjóðunum hefur staðið í stað síðan sú áætlun rann sitt skeið.

Stjórn BÍL sendi erindi til fjárlaganefndar 29. október sl. þar sem þess var óskað að fulltrúar BÍL fengju að koma á fund nefndarinnar til að fylgja úr hlaði erindi þessu, en þau svör bárust frá starfsmanni nefndarinnar Ólafi Elfari Sigurðssyni að nefndin tæki ekki lengur á móti gestum öðrum en þeim sem hún boðaði sérstaklega á sinn fund. Þetta þykir okkur miður, þar sem fulltrúar BÍL hafa árum saman átt fundi með nefndinni í aðdraganda fjárlaga, ýmist nefndinni allri eða hluta hennar. Af því tilefni óskar stjórn Bandalagsins eftir því að nefndin bjóði fulltrúum BÍL til fundar einhvern næstu daga með það að markmiði að ræða inntakið í erindi þessu.

Reykjavík 11. nóvember 2013

Virðingarfyllst,
f.h. stjórn Bandalags íslenskra listamanna,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti