Umsögn um þingmál 266 á þingskjali 499; um ráðstafanir gegn málverkafölsunum
Stjórn Bandalags íslenskra listamanna hefur, að beiðni allsherjar- og menntamálanefndar, fjallað um ofangreinda tillögu og mælir með því að hún verði samþykkt.
Greinargerð tillögunnar er afar skýr um ástæður þess að mikilvægt er að hún nái fram að ganga. Það er dapurlegt að úrbætur þær sem mælt var fyrir um í skýrslu starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra frá 2005 skuli ekki hafa náð fram að ganga, þrátt fyrir tilraunir ráðherra til að koma afmörkuðum þingmálum þar að lútandi gegnum þingið. Það er líka umhugsunarefni að „stóra málverkafölsunarmálið“ skyldi hvorki hafa verið rannsakað né sótt á grundvelli höfundalaga, þrátt fyrir skýra lagaheimild þar um. Þá er það slæm tilhugsun að skilið hafi verið við það mál með þeim hætti að hvorki hafi verkin verið gerð upptæk, né þess krafist að falsaðar höfundarmerkingar væru fjarlægðar.
Stjórn BÍL tekur undir með flutningsmönnum tillögunnar að nauðsynlegt sé vernda íslenska menningararfleifð fyrir þeim spellvirkjum sem falsanir fela í sér og að mikilvægt sé að búa svo um hnúta að mál af þessu tagi séu leidd til lykta með sómasamlegum hætti og að lagaheimildir í fölsunarmálum sem upp kunna að koma í framtíðinni séu nýttar með þeim hætti sem löggjafinn hefur mælt fyrir um.