Forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir skrifar grein í Fréttablaðið í morgun:
Í leiðara Friðriku Benónýsdóttur 11. febrúar er lýst áhyggjum af því að listamenn séu í auknum mæli hættir að trúa á gildi listarinnar og sé meira í mun að sanna að þeir skaffi peninga en skapi góða list. Hún rekur fyrir þessu tvær meginástæður, annars vegar aukna áherslu á hagræn áhrif skapandi greina og hins vegar neikvæða umfjöllun um listir almennt.
Umræðu um hagræn áhrif lista og skapandi greina má rekja til sameiginlegs áhuga listamanna og fræðimanna á því að vita efnahagslegt umfang listastarfsemi í landinu. Það var árið 2010 sem settir voru opinberir fjármunir í rannsókn, sem leiddi í ljós umtalsverð hagræn áhrif greinanna. Atvinnuvegir þjóðarinnar hafa áratugum saman verið kortlagðir og fyrir þeim gerð grein í árlegum þjóðhagsreikningum, en hingað til hefur þáttur listamanna og hönnuða verið nánast ósýnilegur í þessum reikningum.
Listamenn stíga fram
Þessu vilja listamenn breyta, sem er eflaust ein af ástæðum þess að þeir hafa sjálfir orðið sýnilegir í umræðunni um þátt skapandi greina í þjóðarhag. Friðrika virðist gagnrýnin á þá þátttöku þar sem hún segir að listamenn hafi hvað eftir annað beitt sér fyrir umræðum um þessi hagrænu áhrif, jafnvel haldið um þau málþing.
Bandalag íslenskra listamanna, sem samanstendur af fjórtán fagfélögum listafólks og arkitekta, hefur á undanförnum árum gengist fyrir málþingum í tengslum við aðalfund sinn. Umfjöllunarefnin hafa verið fjölbreytt en þingið 2013 fjallaði að sönnu um skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna. Þar var undirstrikað mikilvægi þess að listir og menning eignuðust fastan sess í þjóðhagsreikningum, en jafnframt komu fram svipaðar áhyggjur og lýst er í leiðara Friðriku, af aukinni áherslu á markaðssjónarmið í umfjöllun um listir og þeirri hættu að eigið gildi listanna gæti horfið í skuggann af yfirþyrmandi umfjöllun um þjóðhagslegt vægi þeirra.
Von um aukið vægi skapandi greina
Umræðan um hin hagrænu áhrif er ný af nálinni, hún helst í hendur við þörf á fjárhagslegri endurskipulagningu samfélagsins eftir hrun og speglar áætlanir nágrannalanda okkar um uppbyggingu starfa í skapandi greinum. Hún á sér líka rætur í breyttu munstri listmenntunar, sem hefur á seinni árum verið að færast til í kerfinu með þróun listnáms á háskólastigi.
Einnig eru skýr merki um breytingar á uppbyggingu fagfélaga listafólks og meðvitund listamanna um kjör sín, t.d. með inngöngu æ fleiri félaga í Bandalag háskólamanna. Þá eru ótalin áform stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna um að hefja sókn í uppbyggingu atvinnutækifæra innan hins skapandi geira, en slíkar yfirlýsingar kveikja von meðal listamanna um aukið vægi greinanna. Með þetta í huga væri beinlínis undarlegt ef listamenn leiddu þessa umræðu hjá sér.
Friðrika veltir hins vegar fyrir sér hvort niðrandi umfjöllun um störf listamanna sé farin að skjóta rótum í hugskoti þeirra sjálfra og verði þess beinlínis valdandi að þeim sé meira í mun að skaffa peninga en skapa góða list. Það dreg ég í efa. Vissulega þykir listamönnum oft nóg um þegar fjölmiðlar og samskiptamiðlar fyllast af athugasemdum á borð við þær að leggja beri niður Þjóðleikhúsið eða Sinfóníuhljómsveit Íslands, að misráðið hafi verið að ljúka byggingu Hörpu eða að listamenn ættu að fá sér eðlilega vinnu eins og venjulegt fólk. Satt að segja óttast ég fremur að gusur af þessu tagi hafi áhrif á tiltrú stjórnvalda og þeirra sem halda utan um opinbera fjármuni en að þær ógni listrænum metnaði listamannanna.
Ég vil leyfa mér að ljúka þessu greinarkorni með því að þakka Friðriku Benónýsdóttur fyrir leiðarann og viðurkenna að áhyggjur hennar eru ekki tilefnislausar, en á sama tíma langar mig að hvetja hana og aðra áhugamenn um menningarumfjöllun að hefja til vegs umræðu sem vegur upp á móti möntrunni um að listin sé fyrst og fremst markaðsvara. Mín gæfa er fólgin í því að starfa daglega með listafólki sem hefur fulla trú á gildi listarinnar sem byltandi afls í samfélaginu og hefur ekki í hyggju að selja Satan sál sína.