Umsögn um þingmál 268; aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni

Að beiðni allsherjar- og menntamálanefndar hefur stjórn BÍL fjallað um tillöguna og komist að þeirri niðurstöðu að mikilvægt sé að hún nái fram að ganga. Nægir í því sambandi að benda á slæma útkomu íslenskunnar í Evrópuverkefni um stöðu tungumálanna innan tölvu- og upplýsingageirans þar sem íslenskan stóð næstverst að vígi af 30 Evróputungumálum, eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni.

Tillagan gerir ráð fyrir að skipuð verði nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni sem fái það hlutverk að gera aðgerðaáætlun um innleiðingu tiltekinna þátta í opinberri málstefnu, þ.e. notkun hennar í stafrænni upplýsingatækni. Auk þess verði nefndinni falið að kostnaðarmeta innleiðinguna og gera áætlun um fjármögnun hennar. Það síðastnefnda gæti bent til þess að allsherjar- og menntamálanefnd ætli nefndinni að sækja fjármagn til verkefnisins út fyrir ramma fjárlaga. Engu að síður er í greinargerð með tillögunni undirstrikað að ólíklegt sé að einkafyrirtæki sjái sér hag í að þróa máltæknibúnað á markaðsforsendum og því einnig haldið fram að ekki sé hægt að láta nauðsynlegar rannsóknir í þessum málaflokki ráðast af úthlutun samkeppnissjóða þar sem um sé að ræða rannsóknir sem leiði af lagaskyldu. Það er því vandséð að sérfræðinganefndin hafi aðra kosti varðandi tillögur að fjármögnun aðgerðanna en gegnum fjárlög.

Stjórn BÍL leyfir sér að leggja til að horft verði vítt yfir svið sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni þegar skipað verður í nefndina og nefnir í því sambandi mikilvægan þátt listamanna og hönnuða sem nýta sér stafræna tækni í störfum sínum. Með aukinni áherslu á akademíska nálgun í menntun hönnuða og listafólks og með stórstígum framförum í stafrænni tækni auglýsinga- og upplýsingafyrirtækja, fyrirtækja í leikjahönnun og fyritækja á sviði vöruhönnunar, hefur rutt sér til rúms ný þekking á hinum stafræna vettvangi, sem gæti reynst gagnleg við áætlanagerð þá sem sérfræðinganefndinni verður falin. Einnig er mikilvægt við vinnu af þessu tagi að leita til fólks sem hefur skapandi tök á tungumálinu.

Raunar er tíminn sem sérfræðinganefndinni er gefinn til starfans skv tillögunni orðinn afar knappur, svo líklegt er að rýmka þurfi þar eitthvað um, en engu að síður er mikilvægt að vinnan við áætlunina dragist ekki á langinn.