Innra starf FLÍ – Stjórn
Í stjórn FLÍ á starfsárinu sátu Sara Martí Guðmundsdóttir, formaður, Kolbrún Halldórsdóttir, gjaldkeri og Una Þorleifsdóttir, ritari. Varamenn í stjórn voru Páll Baldvin Baldvinsson, Tryggvi Gunnarsson og Agnar Jón Egilsson.
Stjórn hélt alls 12 fundi á árinu í tengslum við daglega umsýslu félagsins. Þá voru haldnir tveir félagsfundir, annar til að fjalla um og samþykkja nýja kjarasamninga FLÍ við Þjóðleikhúsið og hinn til að fjalla um og samþykkja nýja kjarasamninga félagsins við Borgarleikhúsið.

Árið í heild-

  • Samningar við Þjóðleikhúsið endurnýjaðir.
  • Samningar við Borgarleikhúsið endurnýjaðir.
  • Ný og skilvirkari heimasíða leit dagsins ljós.
  • Nú geta félagsmenn gerst meðlimir í BHM á mjög einfaldan hátt í gegnum nýja heimasíðu félagsins.
  • Í vinnslu eru nýjar verklagsreglur við Borgarleikhúsið vegna undirbúningsvinnu leikstjóra.
  • Undirbúningur fyrir stofnun Kynningarmiðstöðvar íslenskra sviðslista.
  • Kannaður vilji fagfélaga í sviðslistum á auknu samstarfi félaganna.
  • Breytingar á lögum félagsins (félagsgjöld).
  • Utanumhald um fulltrúa FLÍ í nefndum, ráðum og stjórnum utan félagsins.
  • Tókum þátt að stýra árlegum leikaraprufum FÍL, FLÍ og leikhúsanna.
  • Umsóknir nýrra félaga.
  • Regluleg samskipti við félaga FLÍ með t-pósti.

Fyrir utan að sinna daglegum rekstri félagsins og vera til staðar fyrir þá leikstjóra sem hafa þurft að leita til félagsins á árinu, fólst vinnan á árinu að mestu í endurnýjun samninga við Þjóðleikhús og Borgarleikhús, uppfærslu félagatalsins, gerð nýrrar og skilvirkari heimasíðu, frumvkæði að því að koma Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista á laggirnar og vinna að bættri framtíð félagsins, með því að hefja undirbúningsvinnu sem gæti mögulega leitt af sér sameiningu fagfélaga í sviðslistum í náinni framtíð.

Þá var talsvert unnið í fjármálum félgasins í samstarfi við endurskoðunarskirfstofu félagsins og BHM, keyptur aðgangur að hugbúnaðarkerfi (dk-hugbúnaður) sem auðveldar félaginu að fylgjast með stöðunni gagnvart sjóðum BHM og einfaldar ársuppgjör. Eitt af verkefnum síðasta árs var að gera það eins einfalt og hægt væri fyrir leikstjóra að verða hluti af BHM og með nýrri heimasíðu er þetta orðið mjög þægilegt, einfalt og skilvirkt.

Nokkrir leikstjórar leituðu til félagsins vegna skorts á verklagsreglum þegar kemur að samningsferli við Borgarleikhúsið. Félagið lagði til að gerðar yrðu skýrar verklagsreglur sem Borgarleikhússtjóri tók mjög vel í. Nú eru þessar verklagsreglur í vinnslu. Voru drög að reglunum send til kynningar Ara Matthíassyni þjóðleikhússtjóra að hans ósk, enda eðlilegt að sambærilegar reglur verði í gildi við alla samningsaðila FLÍ.

Talsverðar breytingar eru að verða á starfsemi Sviðslistasambands Íslands og tók FLÍ þátt í að vinna að þeim breytingum. Áfram hefur verið unnið að framgangi frumvarps til laga um sviðslistir, sem enn á eftir að vinna frekar og einnig hefur verið unnið að nýjum reglum um Grímuna. Þá var ákveðið að skipa dómnefnd sem færi á allar sýningar og fengi greitt fyrir. Þessi dómnefnd myndi ekki vera “leynileg” og hún yrði valin af fagfélögunum.

Loks má nefna starf við endurnýjun Félags um Listaháskóla Íslands, en á árinu tók til starfa nýr samstarfsvettvangur listgreinanna og skólans, Bakland LHÍ, og á FLÍ aðild að Baklandinu fyrir hönd leikstjóra. Þá mætti stjórnarmaður FLÍ á opinn dag sviðslistanemenda LHÍ og gerði grein fyrir starfi og mikilvægi félagsins.

Nýir félagar á árinu – Einn félagi bættist í félagahópinn árinu, Halla Margrét Jóhannesdóttir.

Kjaramál – Samningar við fjármálaráðuneytið um kjör leikstjóra við Þjóðleikhúsið voru framlengdir með samkomulagi til febrúarloka 2015 en ekki var gert nýtt samkomulag um kaupliði fyrr en í nóvember. Hækkuðu taxtar um 9,65% frá 1. mars 2015. Skyldu þeir svo hækka um 6,5% 1. júní 2016, um 4,5% 1. júní 2018. 1. febrúar 2019 kemur eingreiðsla, 70.000, til þeirra leikstjóra sem eru í fullu starfi í desember 2018. Þá inniber samkomulagið hlutfall fyrir leikstjóra af persónuuppbót og orlofsuppbót.

Samninganefnd félagsins undirritaði samninga við RÚV hjá sáttasemjara 26. sept. 2014 og samþykkti félagsfundur, þá hafa þeir legið á vef félagsins síðan. Ekki tókst að ljúka gerð samkomulags um verk sem RÚV á í safni sínu, þar sem RÚV átti ekki skrá þeirra í gagnagrunni en gerð bókun um að stofnuninni væri skylt að leggja slíka skrá fram. Næstu misseri var margítrekað skriflega að Ríkisútvarpið yrði að standa við skil á fullnægjandi gögnum um verk leikstjóra í fórum útvarpsins og síðast við ráðningu Þorgerðar E. Sigurðardóttur í starf forstöðumanns útvarpsleikhússins. Brást hún snarlega við en torvelt reyndist að samræma skrár, bæði úr tölvukerfum og af eldri skrám. Barst skrá ekki frá safnadeild útvarpsins fyrr en 13. apríl sl. á pappír og var ekki mögulegt að fá hana í stafrænu formi. Við skoðun reyndist hún meingölluð: þar vantaði erlent heiti verka, nafn höfundar, útsendingardag, endurtekningar, nöfn leikstjóra, þýðenda, höfunda og leikara. Skráin tók einungis til þeirra verka sem nú finnast í safni RUV en ekki allra útvarpsleikrita sem hafa verið flutt frá 1930 til 2016 en talið er frá 1940. Fullkomin skrá er forsenda þess að hægt sé að hefja viðræður við RUV, ásamt FÍL, Rithöfundasambandi og Leikskáldafélagi, um ný viðmið sem geti leitt til þess að hlutur leiklistar á dagskrá og í vefmiðlum RUV verði meiri.

Viðræður hófust við stjórn Leikfélags Reykjavíkur þann 7. desember 2015 um hækkun á kaupliðum kjarasamnings. Á þeim fundi kom fram að framkvæmdastjóri LR hafði reiknað hækkun á taxta frá mars 2015, sem fjármálaráðuneytið hafði uppreiknað á laun frá 1. nóvember 2014. Samningaviðræður við stjórn LR voru erfiðar og stóð stjórn LR staðföst á því að engar hækkanir yrðu á samningi leikstjóra á borð við þær sem fjármálaráðuneyti hafði samþykkt. Var ekki boðað til framhaldsfundar af hálfu stjórnar LR að tillögu formanns hennar, Þorgerðar Gunnarsdóttur lögfræðings.

Þann 4. febrúar var stjórninni sent tilboð sem gerði ráð fyrir að Leikfélag Reykjavíkur greiddi sömu laun og Fjármálaráðuneytið samþykkti. Þess var krafist að LR greiddi ábót á samninga frá 1. mars sem næmi hækkun. Var gengist við þeim kröfum og samningur undirritaður þann 25. febrúar. Gerir hann ráð fyrir sömu hækkun og fyrri samningurinn við Fjármálaráðuneytið og Þjóðleikhús en þrem mánuðum síðar: 6,5% þann 1. september í haust, 4,5% hækkun 1. september 2017, 3% hækkun 1. september 2018. Breyting var gerð á skilgreiningu verkefna í 1.2.2.og fellt burt orðið “Venjuleg”

Í lok árs 2015 og upphafi árs 2016 var ákveðið að vara félagsmenn skriflega við ítrekuðum vanefndum af hálfu forráðamanna Leikfélags Reykjavíkur sem kölluðu félaga til vinnu en vildu síðan ekki greiða þeim laun þegar hætt var við verkefnin. Að því gerðu óskaði leikhússtjóri LR, Kristín Eysteinsdóttir; eftir fundi og voru henni send drög að verklagsreglum sem getið er um hér að ofan. Standa vonir til að sú bókun við kjarasamning verði afgreidd og samþykkt fyrir vorið

Þá hefur samninganefnd lýst nauðsyn þess við stóru leikhúsin að gerð verði starfslýsing aðstoðarleikstjóra, samin launatafla fyrir lausráðna og fastráðna starfsmenn sem sinni því starfi, rétt eins aðstoðarmanns leikstjóra og dramaturgs. Hafa stjórnendur þeirra lýst vilja sínum að skoða þau drög með jákvæðum hug.

Ljóst er að það er enn þá langhlaup framundan í samningamálum FLÍ. Þeir samningar sem unnið var að á liðnu starfsári eru varnarsamningar og krefjast þess að þeir leikstjórar sem sóst er eftir haldi fast fram þeirri staðreynd að taxtar samninganna eru lágmarkstaxtar. Þá er nauðsynlegt að hvetja leikstjóra til að uppfæra ferilsskrár sínar jafnharðan og gæta vel að réttindum sínum. Enn eru brögð að því að félagsmenn geri samninga í nafni einkafyrirtækja, eða sem verktakar á eigin kennitölu og mikilvægt að í slíkum tilfellum gleymist ekki að reikna 40% álag vegna verktöku eða að greiða félagsgjald til FLÍ af reiknuðu endurgjaldi.

Samninganefnd FLÍ skipa nú:

Páll Baldvin Baldvinsson formaður,
Sara Marti Guðmundsdóttir
Tryggvi Gunnarsson

Menningarsjóður – Tilgangur sjóðsins er að stuðla að þróun íslenskrar leiklistar með því að veita leikstjórum styrki til a) framhaldsnáms, b) rannsóknarstarfa, c) ferðalaga erlendis til að kynna sér það sem efla mætti listþroska þeirra

Menningarsjóður FLÍ úthlutanir 2015 Stjórn menningarsjóðs FLÍ, er skipuð Kolbrúnu Halldórsdóttur gjaldkera stjórnar FLÍ, Rúnari Guðbrandssyni kjörinn á aðalfundi FLÍ 2015 og Ara Matthíassyni þjóðleikhússtjóra, sem tilnefndur er af stjórn SSÍ. Samtals var á árinu 2015 úthlutað kr. 400.000.- til fimm félaga, þeirra Steinunnar Knútsdóttur, Sveins Einarssonar, Elfars Loga Hannessonar, Stefáns Jónssonar og Hörpu Arnardóttur. Tilkynnt verður um fyrri úthlutun 2016 á aðalfundi FLÍ 2016.

Menningarsjóður 2015-2016
Gjaldkeri FLÍ: Kolbrún Halldórsdóttir
Fulltrúi Leiklistarsambands Íslands: Ari Matthíasson
Fulltrúi FLÍ: Rúnar Guðbrandsson


Bandalag íslenskra listamanna
Formaður FLÍ er fulltrúi leikstjóra í stjórn BÍL. Stjórn BÍL fundar að jafnaði einu sinni í mánuði og sinnir heildarhagsmunum listamanna. Helstu baráttumál BÍL á árinu voru:

– að koma á framfæri við stjórnvöld Sóknaráætlun fyrir listir og skapandi greinar;
– baráttan fyrir skráningu tölulegra upplýsinga um listir og skapandi greinar;
– efling launasjóða listamanna, með áherslu á nýja þriggja ára áætlun um fjölgun mánaðarlauna og hækkun mánaðargreiðslu;
– listmenntun á öllum skólastigum, ekki síst efling Listaháskóla Íslands og baráttan fyrir verkefninu “List fyrir alla” (áður nefnt Menningarbakpokinn);
– samstarf við heildarsamtök listamanna á Norðurlöndunum um sameiginleg málefni;
– endurbætur lagaumhverfis listgreinanna, ekki síst varðandi löggjöf á vettvangi höfundarréttar, í því skyni hélt BÍL nýverið málþing um höfundarrétt í samstarfi við höfundarréttarsamtökin;
– fjölgun atvinnutækifæra listamanna og þeirra sem starfa innan skapandi greina, með áherslu á landsbyggðina og menningarsamninga landshlutasamtaka sveitarfélaga, auk baráttu fyrir því að samningarnir verði færðir frá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og aftur undir ráðuneyti menningarmála;
– samstarf við Reykjavíkurborg undir hatti menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur, m.a. vinna faghóps við tillögur að styrkveitingum til list- og menningartengdra verkefna;
-auk umsagna um lagafrumvörp til Alþingis, þar vegur nú sem fyrr þyngst umsögn BÍL um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Fulltrúi FLÍ í stjórn BÍL 2015-16
Aðalmaður: Sara Martí Guðmundsdóttir
Varamaður: Una Þorleifsdóttir

Fulltrúaráð IHM
Aðal tilgangur IHM er að annast innheimtu gjalda af tækjum, diskum, plötum og öðrum hlutumsem henta til hliðrænnar eða stafrænnar upptöku.

Þau tíðindi urðu á Alþingi þann 16. febrúar 2016 að öll þrjú frumvörpin um höfundarrétt, sem voru komin fram, voru samþykkt sem lög frá Alþingi. Þessi mál varða samningskvaðaleyfi, munaðarlaus verk og lengdan verndartíma hljóðrita.

Þetta eru að sjálfsögðu góðar fréttir en ekki er baráttan unnin þar sem mikilvægasta frumvarpið, um eintakagerð til einkanota, hefur enn ekki verið lagt fram á þinginu. Meðan ekki fæst fram breyting á þeim gjöldum sem lögð eru á tæki og tól sem henta til eintakagerðar til einkanota, halda tekjur höfunda og flytjenda áfram að dragast saman, en innheimta IHM-gjalda hefur dregist umtalsvert saman á síðustu árum.Þær tekjur sem FLÍ fær úthlutað úr sjóði IHM renna í Menningarsjóð FLÍ og voru á árinu komnar niður í 100.000.- krónur.

Aðilar að IHM eru STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar), SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda), RSÍ (Rithöfundasamband Íslands), Hagþenkir, (Félag höfunda fræðirita og kennslugagna), (Blaðamannafélag Íslands), SKL (Samtök kvikmyndaleikstjóra), F-SÍK (Framleiðendafélagið – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda), FÍL (Félag íslenskra leikara), FK (Félag kvikmyndagerðamanna), Myndstef og FLÍ (Félag leikstjóra á Íslandi).

Aðalfundur kýs einn aðalmann og einn varamann í fulltrúaráð IHM. Kjörtímabil þeirra er í eitt ár.

Fulltrúar FLÍ í fulltrúarráði IHM 2015-2016
Aðalmaður: Sara Martí Guðmundsdóttir
Varamaður: Kolbrún Halldórsdóttir

Fulltrúaráð Listahátíðar –
Formaður hefur setið í fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík. Stjórn FLÍ hefur beitt sér fyrir því á vettvangi fulltrúaráðsins að hlutverk Listahátíðar í Reykjavík verði endurskoðað og það greint hvort þróunin í hátíðarhaldi innan borgarinnar kalli á breytingar á því fyrirkomulagi sem Listahátíð hefur verið rekin eftir.

Á ársfundi fulltrúaráðsins 8. október 2014 lagði formaður FLÍ fram tillögu um starfshóp sem fengi það hlutverk að skoða stöðu Listahátíðar og framtíðarhorfur. Tillagan mælti fyrir um að hópurinn hefði eftifarandi atriði til hliðsjónar við vinnu sína:

  • Fyrir liggur að fjárhagsstaða hátíðarinnar er sveiflukennd og ótrygg.
  • Listahátíð þarf að keppa um fjármagn við hinar nýju hátíðir, sem sækja stuðning til sömu aðila og Listahátíð.
  • Sérstaða hátíðarinnar er orðin óljósari en áður, með tilkomu nýrra, sérhæfðra hátíða í borginni.
  • Listafólk hefur gagnrýnt launastefnu Listahátíðar og telur að hún búi innlendum listamönnum önnur kjör en erlendum.
  • Hátíðin hefur glímt við sveiflur í starfsmannahaldi, sem draga úr krafti starfseminnar.
  • Starfshópurinn skal leggja mat á ofangreinda þætti og geri tillögur til stjórnar um úrbætur.

Fulltrúaráðið samþykkti tillöguna og fól mennta- og menningarmálaráðherra stjórn Listahátíðar að skipa starfshópinn. Á fulltrúaráðsfundi 2015 kom svo í ljós að stjórninni hafði láðst að skipa hópinn með þeim hætti sem tillagan gerði ráð fyrir. Þegar nýr stjórnarformaður tók til starfa í stjórn Listahátíðar haustið 2015, var ráðist í það að koma hópnum á laggirnar og hefur hann fundað reglulega frá í janúar 2016. Fulltrúar í hópnum eru auk formanns stjórnar Listahátíðar Þórunn Sigurðardóttir, Svanhildur Konráðsdóttir frá menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar, Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL og Margrét Norðdal varaformaður stjórnar Listahátíðar, sem er ritari hópsins.

Aðalfundur kýs einn aðalmann og einn varamann í fulltrúaráð Listahátíðar. Kjörtímabil þeirra er í eitt ár.

Fulltrúar FLÍ í fulltrúaráði Listahátíðar 2015-2016
Aðalmaður: Sara Martí Guðmundsdóttir
Varamaður: Una Þorleifsdóttir

Þjóðleikhúsráð –
Þjóðleikhúsráð fundaði með u.þ.b. mánaðar millibili á s.l. leikári. Framan af voru skýrslur af rekstar- og leikhússtjórn á hendi leikhússtjóra þar sem skipuritsbreytingar hafa átt sér stað og staða rekstarstjórnunarhluta hússins er í endurskilgreiningu með aukinni aðkomu leikhússtjóra.

Aðalfundur FLÍ kýs einn aðalmann og einn varamann í Þjóðleikhúsráð. Kjörtímabil þeirra er í 3 ár. Á kjörtímabili fulltrúa í þjóðleikhúsráði hafa orðið breytingar á fulltrúum á starfsárinu 2015-16.

Agnar Jón Egilsson var aðalfulltrúi og Una Þorleifsdóttir varafulltrúi fram að sumarfríi ráðsins 2015 en þá var beðið eftir að mennamálaráðherra skipaði nýja fulltrúa FLÍ í ráðið út frá tilnefningum félagsins. Skipun menntamálaráðherra dróst á langinn og þar af leiðandi einnig seta fyrrnefndra fulltrúa FLÍ í ráðinu. Sara Martí formaður FLÍ tók svo við sem aðalfulltrúi FLÍ í þjóðleikhúsráði þegar ráðherra að lokum skipaði nýtt ráð. Páll Baldvin Baldvinsson var þá skipaður varafulltrúi. Nýr fulltrúi FLÍ hefur aðeins setið tvo fundi þar sem tekin voru fyrir öryggismál hússins eftir stórslys sem einn leikari hússins varð fyrir í febrúar sl.

Fulltrúar FLÍ í Þjóðleikhúsráði 2015-2016
Aðalmaður: Agnar Jón Egilsson/ Sara Martí Guðmundsdóttir
Varamaður: Páll Baldvin Baldvinsson

Sviðslistasamband Íslands –
Sviðslistasamband Íslands er sameiginlegur vettvangur allra þeirra starfsgreina og stofnana sem vinna að málefnum sviðslista á Íslandi. Á starfsárinu hafa meginverkefni SSÍ verið eftirfarandi:

  • Breytingar á lögum SSÍ: Helstu breytingar eru þær að enginn á lengur beina aðild að sambandinu og fækkar því í fulltrúaráðinu frá 40 manns niður í 13. Enn er í skoðun hvort sviðslistahátíðir ættu að eiga fulltrúa í ráðinu.
  • Gríman: Á fulltrúaráðsfundi í september 2015 var samþykkt að setja af stað starfshóp til að endurskoða reglur Grímunnar og koma með tillögur að úrbótum. Allir hagsmunaaðilar SSÍ eiga fulltrúa í þessum starfshóp sem hefur nú hafist handa og er að vinna að nýjum reglum Grímunnar.
  • Ekki fór frumvarp um sviðslitir fyrir Alþingi og enn hefur ekki náðs sátt um alla þætti þess innan fulltrúaráðsins. Aftur verður farið í að vinna að þessu frumvarpi á næsta starfsári.
  • Stofnun Kynningamiðstöðvar. Hugmyndin er að miðstöðin verði sjálfseignarstofnun sem allir helstu hagsmunaaðilar sviðslista stofna.

Marta Nordal verður áfram formaður SSÍ. Ari Matthíasson og Steinunn Birna Ragnarsdóttir eru fulltrúar SAVÍST. Birna Hafstein er fulltrúi fagfélaga, varamaður hennar er Páll Baldvin Baldvinsson. Orri Huginn Ágústsson verður áfram fulltrúi SL.

Formaður FLÍ hverju sinni er sjálfkjörinn í fulltrúaráð SSÍ. Aðalfundur kýs einn varamann í fulltrúaráð LSÍ sem situr í eitt ár.

Fulltrúar FLÍ í fulltrúaráði LSÍ 2015-2016
Aðalmaður: Sara Martí Guðmundsdóttir
Varamaður: Una Þorleifsdóttir

Valnefndir Grímunnar –
Í ár tilnefnir FLÍ fulltrúa í valnefndir Íslensku sviðslistaverðlaunanna Grímunnar. Skipa þarf í þrjár valnefndir;
Aðalvalnefnd sviðsverka 2 fulltrúa
Valnefnd barnaverka 2 fulltrúa
Valnefnd útvarpsverka 1 fulltrúa

Nú í ár verður í síðasta sinn tilnefnt með því sniði sem hefur verið undanfarið ár. Nefnd á vegum SSÍ hefur verið að vinna að nýjum reglum Grímunnar til að auka á trúverðugleika verðlaunanna. Ákveðið hefur verið að á næsta ári muni 9 manna Grímunefnd sjá allar sýningar og fá greitt fyrir. Þessi nefnd verður ekki leynileg eins og áður hefur verið.

Leikminjasafn Íslands –
FLÍ á fulltrúa í fulltrúaráði Leikminjasafns Íslands sem boðað er til fundar einu sinni á ári. Aðalfundur Leikminjasafns Íslands var haldinn í Iðnó 13. maí 2015 og var þar gerð grein fyrir starfsemi safnsins á árinu. Safnið hefur lagt áherslu á að endurnýja gagnabanka um leiksýningar á Íslandi frá 1887 til dagsins í dag og gerð nýrrar heimasíðu. Hvort tveggja var kynnt á fundinum. Fulltrúar sviðslistastofnana hafa nú skipað “skrásetjara” sem hafa fengið það hlutverk að fylla upp í eyður í grunninum og annast skráningu á nýjum frumsýningum. Þannig er gert ráð fyrir að grunnurinn muni viðhalda sjálfum sér án beinnar aðkomu safnsins og það verði á ábyrgð þeirra sem hafa skráningarleyfi í grunninn að upplýsingarnar í honum séu ávallt uppfærðar. Þá er vinna hafin við að koma hluta safnkostsins, þ.e. bókum, handritum, leikskrám, tímaritum og öðru pappírskyns í varanlegar geymslur og skráningu í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Þannig verður sá hluti leiklistararfsins gerðu aðgengilegur fræðimönnum og almenningi. Þá er unnið að nýrri stefnu fyrir safni, endurnýjun stofnskrár þess og grisjunarstefnu.

Aðalfundur kýs einn aðalmann og einn varamann í fulltrúaráð Leikminjasafns Íslands. Kjörtímabil þeirra er í eitt ár.

Fulltrúar FLÍ í stjórn Leikminjasafns Íslands starfsárið 2015-2016
Aðalfulltrúi FLÍ: Jakob S. Jónsson
Varafulltrúi FLÍ: Ásdís Þórhallsdóttir

Talía-loftbrú –
Talía er sjóður í eigu Félags íslenskra leikara, Félags leikskálda og handritshöfunda, Félags leikstjóra á Íslandi og Reykjavíkurborgar. Markmið og tilgangur sjóðsins er að styðja við sýningu og kynningu á íslenskri sviðslist erlendis og er sjóðurinn ætlaður sjálfstætt starfandi listamönnum. Staða sjóðsins er ágæt en ekki hefur náðst að koma á samtali um áætlanir um að auka burði hans og tryggja að hann geti vaxið, starfað og stutt íslenskt sviðslistafólk til frambúðar.

Stjórn skipar einn áheyrnarfulltrúa í stjórn Talíu. Kjörtímabil þeirra er í eitt ár.

Fulltrúi FLÍ í stjórn Talíu 2015-2016
Sara Martí Guðmundsdóttir

Samráðsnefnd fagfélaga í sviðslistum –
Samráðsnefndin vinnur á grundvelli samþykktar fulltrúaráðs SSÍ. Þar er henni falið það hlutverk að standa að tilnefningum í nefndir og ráð fyrir hönd SSÍ samkvæmt samþykktum verklagsreglum SSÍ. Samráðsnefndin hefur á undanförnum árum kastað óformlega á milli sín hugmyndum um stofnun stærra fagfélags eða stéttarfélags sem innibæri allt starfsfólk sviðslistanna en málið er á byrjunarstigi.

Á liðnu ári var ekki mikil virkni í samráðsnefndinni og hélt hún enga fundi.Þá var hún ekki virkjuð af formanni SSÍ við vinnu að tilnefningum í ráð og nefndir. Félag leikstjóra hefur verið drifkraftur í þessu samtali milli fagfélaganna en nefndin virðist ekki virka sem skildi og því þyrfti að leita nýrra leiða til að virkja hana til góðra verka ef vilji er til að nefndin starfi áfram.

Í samráðsnefndinni sitja formenn allra fagfélaganna eða fulltrúar þeirra.

Fulltrúar FLÍ 2015-2016
Aðalmaður: Una Þorleifsdóttir
Varamaður: Agnar Jón Egilsson

BHM –
Nokkur reynsla er nú komin á veru FLÍ í heildarsamtökum háskólamanna BHM. Góður fundur átti sér stað á árinu með stjórnarmönnum FLÍ og formanni og framkvæmdastjóra BHM. Fundurinn einkenndist af velvilja og jákvæðni. Hugmyndir eru uppi um að félög listamanna innan raða BHM gætu sameinast um starfsmann sem mögulega gæti haft vinnuaðstöðu í höfuðstöðvum BHM. Þau mál verða til frekari skoðunar á starfsárinu framundan. Á starfsárinu 2014-15 einsetti stjórn FLÍ sér að gera úrbætur í kynningu á réttindum félagsmanna í sjóði BHM. Á síðasta ári hefur sú vinna skilað þeim árangri að nú eru fleiri félagar sem nýta sér þau réttindi sem fylgja því að greiða í sjóði BHM. Þó er ljóst að betur má ef duga skal og enn er hlutfall FLÍ félaga sem greiða í BHM of lágt.

Félagsmenn hafa upplifað hátt flækjustig varðandi skilagreinar og þær skyldur sem fylgja aðild en stjórn hefur reynt að bæta úr því með bættu upplýsingaflæði og fræðslu til félaga. Mikilvægt er að halda áfram þeirri vinnu að kynna BHM fyrir félagsmönnum.

Nauðsynleg einföldun á greiðlsuferli í sjóði BHM hefur verið unnin og er nú mjög einfalt fyrir félagsmenn að byrja að afla sér réttinda með því að greiða sjóðsgjöld af leikstjóratekjum sínum. Inni á heimasíðu FLÍ eru nú greinargóðar og einfaldar upplýsingar um BHM og hlekkur inn á heimasíðu BHM þar sem félagar geta gengið frá einföldum skilagreinum.

Formaður FLÍ hverju sinni á sæti í formannaráði BHM. Stjórn skal tilnefna varamann formanns. Varamaður FLÍ í formannaráði BHM er Tryggvi Gunnarsson.

Aðalfundur BHM
Stjórn hverju sinni skal tilnefna fulltrúa á aðalfund BHM. Fjöldi fulltrúa veltur á fjölda félagsmanna í FLÍ.

Fulltrúaráð Sjúkrasjóðs BHM
Stjórn hverju sinni skal tilnefna fulltrúa Í fulltrúaráð Sjúkrasjóðs BHM. Er hann skipaður til eins árs. Fulltrúi FLÍ í fulltrúaráði Sjúkrasjóðs BHM var Kolbrún Halldórsdóttirog varamaður Tryggvi Gunnarsson á starfsárinu 2015-16.

Fulltrúaráð Orlofssjóðs BHM
Stjórn hverju sinni skal tilnefna fulltrúa Í fulltrúaráð Orlofssjóðs BHM. Er hann skipaður til eins árs. Fulltrúi FLÍ í fulltrúaráði Orlofsjóðs BHM var Kolbrún Halldórsdóttir og varamaður var Tryggvi Gunnarsson á starfsárinu 2015-16.

Norrænt samstarf – NSIR
FLÍ er aðili að NSIR, Sambandi Norrænna leikstjórafélaga. Noregur tók við formennsku í sambandinu 2014 og breytist formennskan ár hvert eftir því í hvaða landi fundurinn verður haldinn. NSIR er samræðuvettvangur leikstjóra á Norðurlöndum og mjög gagnlegur þegar kemur að því að bera saman bækur um kaup og kjör leikstjóra og breytingar innan leikhúsheimsins í Skandinavíu.

Á þessum fundum eru fluttar skýrslur allra félaga þar sem farið er yfir það helsta sem gerst hefur hjá félögunum. Síðasti fundur var haldinn í Kaupmannahöfn í júní 2015 og voru fulltrúar FLÍ á þeim fundi tveir, þau Sara Martí og Gunnar I Gunnsteinsson. Næsti fundur verður haldinn í Finnlandi í Október 2016.

Fulltrúar FLÍ 2015-2016:
Sara Martí Guðmundsdóttir

Rekstur FLÍ –
Á aðalfundi FLÍ 2015 kom fram að fjárhagsstaða félagsins hefur farið versnandi á síðustu árum. Fyrst kom hrunið, sem veikti eignastöðuna nokkuð og við það bættist fremur lág ávöxtun á sjóðum félagsins eftir hrun. Svo hefur það haft áhrif að ákvörðun var tekin 2014 um að auka greiðslur til stjórnar félagsins vegna aukins álags af veru félagsins í BHM. Þá hefur það líka áhrif að á síðustu þremur árum hefur verið gerð gangskör að því að endurnýja alla samninga félagsins og hefur samninganefnd FLÍ fengið greitt fyrir fundarsetur. Af þessum ástæðum var ákveðið á aðalfundi 2015 að hækka lágmarksgjald það sem félagar greiða til félagsins úr kr. 15.000.- í kr. 24.000.- Um leið var gerð sú breyting á lögum félagsins að allir skyldu greiða lágmarksgjaldið, einnig þeir sem greiða til félagsins af tekjum sem þeir afla gegnum verkefni sem unnin eru á samningum félagsins.

Niðurstaða rekstrarins 2015 er sú að tapi hefur nú verið snúið í hagnað, þ.e. á árinu er tekjuafgangur að upphæð kr. 949.471.- en á árinu 2014 tapaði félagið tæpum 3,7 milljónum króna. Staðan er þó ekki betri en svo að fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld er staðan neikvæð sem nemur kr. 1.390.654.- Þetta þýðir að tekjur félagsins duga ekki fyrir nema broti af rekstrinum og að ávöxtun sjóða félagsins, sem nam kr. 2.559.257.- er það sem heldur heildarniðurstöðunni réttu megin við núllið.

Vegna taps áranna 2013 og 2014 benda endurskoðendur félagsins stjórn á það í áritun sinni að nauðsynlegt sé að brugðist verði við ójöfnuðu eigin fé, sem var í árslok tæpar 4,7 milljónir króna. Eiginfjárstaðan er þó eilítið betri en 2014, hún er nú jákvæð sem nemur 22,7 milljónum króna (var 22.06 2014).

Ástæður neikvæðrar rekstrarstöðu FLÍ eru þær hversu fáir félagar greiða gjöld til félagsins, en félagsgjöldin eru einu tekjur félagsins. Á árinu voru 104 félagar á félagaskrá, af þeim greiddu einungis 7 félagar gjöld til félagsins alla mánuði ársins. 13 greiddu flesta mánuði ársins. Á fyrstu mánuðum ársins 2016 eru einungis 19 félagar að skila gjöldum gegnum innheimtukerfi BHM. Við þetta bætist að 39 félagar eru 60 ára og eldri, en samkvæmt lögum FLÍ eru þeir undanþegnir félagsgjaldi. Sumir þeirra eru þó að greiða af launum sem þeir afla fyrir verkefni sem unnin eru á samningum félagsins. Af 104 skráðum félögum 2015 voru 15 sem hvorki greiddu lágmarksfélagsgjaldið né af launum sínum gegnum BHM.

Höfundarréttarráð
Höfundaréttarráð er vettvangur fyrir kynningu og umræðu um þau málefni höfundaréttar sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á listir og samfélag. FLÍ á rétt til setu í höfundaréttarráði. Menntamálaráðherra eða sá sem hann nefnir í sinn stað skal vera í forsæti á fundum höfundaréttarráðs. Boða skal til fundar í höfundaréttarráði einu sinni á ári, að jafnaði.

Á liðnu ári hafa fagfélög listamanna tekið þátt í að fjalla um þrjú frumvörp til laga um breytingar á höfundalögum, þau fjölluðu um einkaréttindi höfunda og samningskvaðir, munaðarlaus verk og lengri verndartími hljóðrita. Þau urðu öll að lögum fyrir jól 2015. Hins vegar hefur ákall fagfélaganna um að mennta- og menningarmálaráðherra legði fram fjórða frumvarpið, um eintakagerð til einkanota, engu skilað og enn er það mál ekki komið fram á Alþingi. Til að þrýsta á ráðherra um framlagningu frumvarpsins gekkst BÍL fyrir málþingi um höfundarrétt í mars sl. ásamt höfundarréttarsamtökunum STEF, Fjölís, Myndstef og IHM. Málþingið bar yfirskriftina “Lifað af listinni” og til þess var boðið fulltrúum þingflokkanna á Alþingi. Umræðan snerist um ýmsa þætti höfundarréttar þó mestur þungi hafi verið í umfjjöll síðasttalda frumvarpið, – eintakagerð til einkanota, enda skiptir það frumvarp mestu fyrir hagsmuni höfunda og flytjenda. Á því frumvarpi veltur framhaldslíf IHM-sjóðsins sem hefur hrunið á síðustu árum. Á árinu 2004 skilaði IHM-sjóðurinn um 94 milljónum (þ.e. 174 milljónum framreiknað til 2016) en á árinu 2015 innheimti sjóðurinn einungis rúmar 7 milljónir króna, af því komu einungis 102 þúsund krónur í hlut FLÍ.

Fulltrúi FLÍ í höfundarréttarráði 2015 – 2016
Sara Martí Guðmundsdóttir

Ávarp formanns –
Á undanförnu ári var gerð allsherjar tiltekt hjá félaginu. Við hreinsuðum til í félagatalinu og tókum til í fjármálum félagsins. Þegar staða félagsins tók að skýrast, kom í ljós að félagið getur ekki haldið úti starfsemi (þó einungis séu greidd alger lágmarkslaun fyrir störf stjórnar og samninganefndar) til lengdar án þess að tæma sjóði félagsins á örfáum árum. Verkefnið framundan er því að skoða til hlítar þá möguleika sem eru í stöðunni. Við gætum t.d. skoðað möguleikana á því að sameinast öðrum fagfélögum og myndað stærra fagfélag fyrir sviðslistamenn. Slíkt kynni að verða hagstætt þegar til lengri tíma er litið og gæti gert okkur kleift að ráða starfsmann til að sinna félögum sviðslistanna innan sjóðakerfis BHM. Önnur leið væri að hækka enn frekar félagsgjöld, sem er ekki líklegt til vinsælda, sérstaklega þegar skoðað er hversu fáir félagar standa undir því að greiða þau. Í þessu sambandi má líka nefna hugmyndir núverandi stjórnar um að félögum beri að greiða fasta félagsgjaldið til 67 ára aldurs. Þá mætti hugsa sér enn frekari sparnað, t.d. mætti segja upp skrifstofuhúsnæðinu og leggja skrifstofu FLÍ niður. Nú eða hætta að greiða þær þóknanir sem eru greiddar til stjórnar og samninganefndar, en þar með er líklegt að það sem hefur áunnist á síðustu árum í formfestu og utanumhaldi fari forgörðum. Það er því mjög erfitt að taka til í svo flóknu batteríi, sem þetta félag er, þegar ekki er neinn í að minnsta kosti hálfu starfi til þess að sinna því. Stjórnin sinnir daglegum rekstri skrifstofu og heimasíðu og hefur líka gengt hlutverki samninganefndar auk þess að sinna leikstjórum sem þurfa á aðstoð að halda. Svo skiptir stjórn á sig embættum í ýmsum nefndum og ráðum, sem félagið hefur skuldbundið sig til að sinna. Mikið meira er ekki á bætandi. Ég trúi því að ef fagfélögin sameinist í eitt félag, væri hægt að ráða manneskju til að sinna stóru verkefnunum og um leið hefjist betra og prógressívara samtal um framtíð sviðslista á Íslandi, þar sem ein samninganefnd getur komið saman og unnið að bættum samningum fyrir alla sem starfa við sviðslistir. Nú er búið að stofna Kynningarmiðstöð Íslenskra sviðslista og held ég að það verði til þess að bæta samtalið og samskiptin innan geirans. Allt þetta gerir sviðslistamenn sterkari gagnvart stjórnvöldum, gagnvart launagreiðendum, gagnvart áhugasömum bókurum erlendis og ég trúi því að við getum tekið meira pláss á Íslandi og beðið um meira ef við stöndum saman sem heild. Ég legg til að starfsáætlun næsta árs verði stutt og hnitmiðuð og ráðist verði í stóru verkefnin sem verði að sameina fagfélögin í sviðslistum og að endurnýja samninga við MAk og RÚV og hefja samningaviðræður við ÍÓ og LHÍ. Starfsáætlunin er stefnumótandi skjal og gefur almennum félögum tækifæri til þess að móta starf og stefnu félagsins. Mörg af markmiðunum sem sett eru í starfsáætlun eru augljóslega framtíðar-markmið sem nást jafnvel ekki á starfsárinu en að þeim er unnið jafnt og þétt. Á síðasta starfsári vour t.a.m. endurnýjaðir samningar við Þjóðleikhús og Borgarleikhús og vill formaður koma á framfæri þökkum fyrir hönd félagsmanna til samninganefndar FLÍ fyrir mikið og óeigingjarnt starf sem hún hefur innt af hendi.
Sara Martí Guðmundsdóttir
formaður FLÍ