Stjórn og sambandsráð SÍM
Stjórn SÍM skipuðu frá 15. apríl 2015 Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður, Erla Þórarinsdóttir varaformaður, Gunnhildur Þórðardóttir ritari, Steingrímur Eyfjörð og Sindri Leifsson meðstjórnendur, Helga Óskarsdóttir og Sigurður Valur Sigurðsson varamenn. Stjórnarfundir voru 12 talsins, þar með talið þrír sambandsráðsfundir. Jafnframt voru haldnir fjórir félagsfundir.

Stjórn SÍM vinnur að hagsmunamálum listamanna. Á starfsárinu 2015-2016 hefur stjórn SÍM lagt áherslu á herferðina VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM. Tilgangur hennar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna. Þungamiðja herferðarinnar er að kynna drög að framlagssamningi.

Við borgum myndlistarmönnum
Helsta baráttumál þessa starfsárs og komandi ára snýr að starfsumhverfi myndlistarmanna og hvernig auka megi almennar tekjur innan greinarinnar. Að frumkvæði Sambands íslenskra myndlistarmanna var ákveðið að setja saman starfshóp í byrjun árs 2015 í samstarfi við Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Hafnarborg menningar- og listamiðstöð, Nýlistasafnið, Listasafn Árnesinga og Listasafn Akureyrar. Í starfshópnum sátu fyrir hönd SÍM, Ilmur Stefánsdóttir og Úlfur Grönvold, myndlistarmenn. Fyrir hönd safnanna sátu Þorgerður Ólafsdóttir, safnstjóri Nýlistasafnsins, og dr. Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands. Verkefnastjóri starfshópsins var Ásdís Spanó, myndlistarmaður.

Starfshópnum var ætlað að móta tillögu að launasamningum fyrir listamenn sem sýna í söfnum á Íslandi og eru rekin eða styrkt af ríki eða sveitarfélögum. Starfshópurinn skilaði inn drögum að framlagssamningi ásamt greinargerð í byrjun október og var haldinn félagsfundur þann 14. október til þess að kynna drög að samningi fyrir félagsmönnum SÍM. Við gerð draganna leit starfshópurinn til sænska MU (Medverkande og utstallningsersattning) samningsins, en sænska ríkið skrifaði árið 2009 undir samning um þóknun til listamanna sem sýna verk sín í opinberum listasöfnum í Svíþjóð. Slík þóknun er viðbót við greiðslur fyrir flutning, uppsetningu og útgáfu á efni fyrir sýningar listamannsins. Í samningnum er kveðið á um að greiða þurfi sérstaklega fyrir alla vinnu sem listamenn taka að sér í tengslum við sýningar, bæði fyrir, eftir og meðan á sýningu stendur. Gera skal skriflegan samning um þau atriði sem greiða þarf laun fyrir, samkvæmt taxta samningsins, ásamt því að greiða þóknun fyrir sýnd verk. MU-samningurinn hefur verið fyrirmynd sambærilegra samninga í Noregi og Danmörku. Unnið er að gerð samninga í Finnlandi og Austurríki, með MU samninginn að leiðarljósi.

Herferðin VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM var sett formlega af stað 20. nóvember 2015 í Norræna húsinu. Tilgangur hennar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna. Þungamiðja herferðarinnar er samningur um þátttöku og framlag listamanna til sýningahalds. Á fundinum héldu erindi þau Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur, Ósk Vilhjálmsdóttir, myndlistarmaður og stjórnarmaður í Myndlistarráði, og Ástríður Eggertsdóttir, arkitekt og stjórnarmaður í Listskreytingarsjóði. Steinunn Eldflaug Harðardóttir var með tónlistaratriði fyrir og eftir fundinn. Á fundinum gátu gestir nálgast drög að Framlagssamningnum ásamt rauðri tösku sem var myndskreytt af Lóu Hjálmtýsdóttur.

Á fundinum opnaði formlega heimasíðan www.vidborgummyndlistarmonnum.info. Helga Óskarsdóttir setti upp síðuna og þar er að finna greinaskrif, myndbönd, ársskýrslur listasafna, launa- og skoðanakönnun hjá félagsmönnum SÍM sem var gerð árið 2014, drög að Framlagssamningnum og einnig áhugaverða tengla sem snúast um hagsmuni myndlistarmanna víðs vegar um heiminn. Stjórn SÍM fagnar mikilvægum áfanga með drögum að Framlagssamningi sem listasöfn og listamenn munu geta stuðst við. Söfnin sem unnu að drögunum með SÍM unnu á síðasta ári að kostnaðargreiningu sem byggði á sýningarhaldi aftur í tímann. Áætlað er að kostnaður við að fara eftir framlagssamningum sé tæplega 90 milljónir, sem skiptist niður á ríkið og sveitarfélög.

Kynning á drögum að framlagssamningi stendur nú sem hæst og hefur formaður SÍM ásamt Ásdísi Spanó verkefnastjóra verið með kynningar hjá Listasafni Íslands, FÍSOS, Menningar og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar, Vinstri Grænum, Akureyrarbæ, Mennta- og menningarmálaráðaneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Formaður SÍM hélt m.a. erindi um herferðina á málþinginu „Menntun til framtíðar“ sem ReykjavíkurAkademían og BHM stóðu fyrir.

Stjórn SÍM þakkar starfshópnum sem unnið hefur að gerð samningsins fyrir frábært starf og þakkar listasöfnunum fyrir samvinnuna og árangursríkt samstarf. Að lokum þakkar SÍM öllum þeim sem komið hafa að vinnu herferðarinnar „VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM“. Sérstakar þakkir fá Ásdís Spanó, Helga Óskarsdóttir, Berglind Helgadóttir, Björk Guðnadóttir, Habby Osk og Lóa Hjálmtýsdóttir.

Næstu mánuði verður afar mikilvægt að listamenn standi saman, berjist fyrir hagsmunum sínum og tryggi að framlagssamningurinn hljóti brautargengi hjá ríki og sveitarfélögum. Einungis þannig verða starfsaðstæður hér á landi sambærilegar við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.

Fundur fólksins
Fundur fólksins var haldinn 11. til 13. júní 2015 og var þriggja daga hátíð um samfélagsmál í Norræna húsinu. Hátíðin var vettvangur fyrir samfélagsumræður og var öllum opinn. Hátíðin er sjálfstæð og ekki tengd neinum hagsmunaöflum á Íslandi eða annars staðar, markmið hennar er að auka tiltrú á stjórnmál og styrkja uppbyggjandi pólitíska umræðu.

SÍM tók þátt í hátíðinni og stóð fyrir samtali milli einstaklinga sem starfa við myndlist og áhorfenda, um starfsumhverfi myndlistarmanna. Var þetta liður í undirbúningi á herferðinni „Við borgum myndlistarmönnum“. Formaður SÍM, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, stjórnaði samtalinu og bauð eftirtöldum fulltrúum einstaklinga sem starfa við myndlist að taka þátt: Hafþóri Yngvasyni, þáverandi safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, Ragnhildi Jóhanns og Önnu Fríðu Jónsdóttur, myndlistarmönnum og ritstjórum 4. tbl. Endemis, Jóni Óskari myndlistarmanni og Ásdísi Spanó sem var þá verkefnastjóri starfshópsins sem vann að tillögum að gjaldskrá vegna þóknunar til myndlistarmanna sem sýna í opinberum söfnum á Íslandi og rekin eru eða styrkt af ríki eða sveitarfélögum. SÍM bauð Svanhildi Konráðsdóttur, sviðstjóra Menningar- og ferðamálasviðs, og Illuga Gunnarsyni að taka þátt en þau voru því miður fráverandi. Eiríkur Þorláksson sérfræðingur mætti fyrir hönd Illuga.

SÍM aðildarfélag BHM, Bandalag háskólamanna
Stjórn SÍM sendi haustið 2014 inn umsókn um að verða aðildarfélag að Bandalagi Háskólamanna (BHM). Var umsóknin tekin fyrir á aðalfundi BHM þann 22. apríl 2015 og samþykkt. Umsóknin var liður í hagsmunabaráttu SÍM í gegnum fyrrnefndan framlagssamning. BHM er bandalag hagsmunatengdra félaga eða stéttarfélaga sem starfa að fag- og vinnumarkaðslegum málefnum félagsmanna sinna. BHM styður við starf aðildarfélaga, eflir þekkingu félagsmanna á kjara- og réttindamálum og gætir hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnvöldum. Stjórn SÍM fagnar því að félagsmenn hafi loksins aðgang að sjúkrasjóði, styrktarsjóði og orlofssjóði og telur það vera lið í að styrkja kjarabaráttu listamanna. Haldinn var félagsfundur 5. september þar sem Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri SÍM, kynnti hvaða skyldur og kjör felast í því fyrir félagsmenn SÍM að vera innan vébanda BHM.

Stara / vefrit – Útgáfa SÍM
STARA er rit Sambands íslenskra myndlistarmanna og leitast við að efla umræðu og þekkingu á myndlist ásamt því að segja frá starfsemi SÍM. STARA er birt bæði á íslensku og ensku og höfðar jafnt til fagfólks sem og áhugafólks um myndlist. Útgáfur STARA voru þrjár á árinu, 3. tbl kom út 16. apríl 2015, 4. tbl kom út 5. september 2015 og 6. tbl. kom út 14. nóvember 2015 og var íslenski hlutinn í 6. tbl. prentaður í fyrsta skipti í 500 eintökum og dreift frítt. Hægt er að nálgast STARA á heimasíðu SÍM og timarit.is.

Ritnefnd STARA skipa Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, Elísabet Brynhildardóttir, hönnuður og myndlistarmaður, Jón B. K. Ransu, myndlistarmaður, Auður Aðalsteinsdóttir, ritstjóri hjá Hugrás – vefriti Hugvísindasviðs, og Margrét Elísabet Ólafsdóttir, doktor í list- og fagurfræði og lektor við Háskólann á Akureyri. STARA er að hluta til fjármagnað af auglýsingatekjum og er það von stjórnar SÍM að í framtíðinni mun auglýsingatekjur standa straum af kostnaði blaðsins.

Myndlistarsjóður og Listskreytingasjóður
Stjórn SÍM setti af stað undirskriftasöfnun í október 2015 þar sem harðlega var mótmælt þeirri aðför sem gerð hefur verið að Myndlistarsjóði og Listskreytingasjóði undanfarin ár. Við skoruðum á Alþingi að sýna stórhug og framsýni með því að veita 52 milljónum króna í Myndlistarsjóð og 10 milljónum króna í Listskreytingasjóð fyrir árið 2016. Rúmlega 700 manns skrifuðu undir og skoruðu á þingmenn að snúa þessari þróun við og standa vörð um sjóðina. Áætlað var að afhenda undirskriftalistann til Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, við setningu herferðarinnar Við borgum myndlistarmönnum sem var haldin í Norræna húsinu 20. nóvember 2015 en hún afþakkaði og sagði málefnið ekki vera undir hatti fjárlaganefndar. Í ljósi þess að í landinu starfaði þingbundin ríkisstjórn, þ.e. þingið setur lögin og framkvæmdavaldið framkvæmir þau, og í ljósi þess að þegar afhending undirskriftarlistans átti að eiga sér stað var fjárlagafrumvarpið í þinglegri meðferð, sem þýðir að löggjafinn er að leggja línur fyrir framkvæmdavaldið varðandi eyrnamerkingu fjármuna hins opinbera fyrir árið 2016, var mikilvægt að fjárlaganefndin tæki á móti undirskriftalistanum og vegna þess fór formaður SÍM með undirskriftalistann til fjárlaganefndar mánudaginn 23. nóvember 2015.

Það voru nokkur vonbrigði þegar tilkynnt var að einungis 35 milljónir voru settar í Myndlistarsjóð og 1.5 milljónir í Listskreytingasjóð í lokagerð fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2016. Stjórn SÍM telur þó að öll vinnan sem var unnin hafi sáð fræjum og nýtist í áframhaldandi baráttu fyrir fjárlagaárið 2017.

Laun stundakennara
Formenn félagasamtaka listamanna á Íslandi hafa fundað vegna launa stundakennara. Í lok apríl 2015 var send út könnun til félagsmanna til þess að fá heildarmynd yfir stöðu stundakennara. Ákveðið var að setja saman starfshóp sem mun meta stöðu stundakennara og hvernig væri hægt að ná betri kjörum. Stjórn SÍM tilnefndi Eirúnu Sigurðardóttur og ásamt henni sitja Páll Baldvin Baldvinsson, Hörður Lárusson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal. Starfshópurinn hefur fundað fimm sinnum og er áætlað að stofna hagsmunafélag kennara við Listaháskóla Íslands. Starfshópurinn hefur skrifað drög að reglum fyrir félagið og er lögfræðingur frá BHM að fara yfir þau. Áætlað er að bjóða öllum kennurum Listaháskóla Íslands á fund og þar mun hagsmunafélag kennara verða stofnað og skipuð stjórn. Hagsmunafélagið mun hafa umboð til þess að þrýsta á um kjör og semja fyrir hönd kennara við Listaháskóla Íslands.

Dagur myndlistar
Dagur myndlistar var haldinn hátíðlegur laugardaginn 31. október 2015. Verkefnastjóri, Berglind Helgadóttir, lagði áherslu á að efla vitund almennings á fagstarfi myndlistarmannsins og á aukið aðgengi að upplýsingum um myndlist til að bæta þekkingu á faginu. Með Degi myndlistar er leitast við að efla myndlistarhugsun og stuðla að dreifingu og aðgengi myndlistar svo almenningur geti bæði skilið og nýtt sér hana til að auðga líf sitt með ýmsum hætti. Skapandi og gagnrýnin hugsun eru hornsteinar listar og umfram allt jákvæðir eiginleikar í samfélagi manna.

Ný vefsíða var sett í loftið um miðjan október. Efnið var gert aðgengilegra og forsíðan skilmerkilegri en um leið einfaldari. Bætt var við textum um verkefnið og skráningarblöð fyrir listamenn gerð aðgengileg. Upplýsingar um Dag myndlistar fyrri ára voru einnig gerðar aðgengilegri og skýrari. Hönnun vefsíðu var í höndum Elísabetar Brynhildardóttur.

Ein mikilvægasta hlið verkefnisins eru kynningar myndlistarmanna í grunn- og framhaldsskólum landsins enda fágætt tækifæri til að ná til mikilvægs fólks. Myndlistarmenn kynntu í 24 skólum og héldu eftirfarandi listamenn kynningar:

Rúrí, Sara Riel, Hulda Hákon, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir, Habby Ósk, Valgerður Hauksdóttir, Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Auður Ómarsdóttir, María Kjartans, Kristín Rúnarsdóttir, Kristbergur Óðinn Pétursson, Monika Frycova, Arnar Ómarsson, Arna Valsdóttir, Ólöf Dómhildur Jónsdóttir, Gunnar Jónsson, Jón Sigurpálsson og Ágúst Bjarnason. Þau fengu öll greidd 18.000 krónur fyrir hverja kynningu.

Opnar vinnustofur myndlistarmanna voru á deginum sjálfum, greinaskrif birtust í Fréttablaðinu og á visir.is vikuna fyrir Dag myndlistar og voru greinahöfundar Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, Libia Castro og Ólafur Ólafsson, listamenn, og Berglind Helgadóttir, verkefnastjóri Dags myndlistar.

Útbúin voru fjögur myndbönd þar sem áhersla var lögð á fjölbreytta miðla. Myndböndin voru gerð með það að markmiði að fræða almenning, þá sérstaklega ungt fólk á elstu stigum grunnskóla og í framhaldsskóla. Þeir viðmælendur sem tóku þátt voru Rakel McMahon, Halla Birgisdóttir, Bjarki Bragason og Guðjón Ketilsson.

Ákveðið var að auka sýnileika Dags myndlistar með því að stofna til samstarfs við bókasöfn í landinu. Fjölmörg söfn á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni tóku þátt og var fjölbreytileikinn í framsetningu þó nokkur; allt frá sýningum, þátttöku safngesta í skoðun á málverkum, námskeiðum og síðast en ekki síst, til framstillingar myndlistarbóka.

Berglind verkefnastjóri sótti um styrk í Samfélagssjóð Landsbanka Íslands og var lögð áhersla á kynningar listamanna í framhaldsskólum á landsbyggðinni. Verkefnið fékk 250.000 kr. til þessarar framkvæmdar fyrir árið 2016 og því verður hægt að senda listamenn af höfuðborgarsvæðinu víðsvegar um landsbyggðina til að halda kynningar í framhaldsskólum.

Stjórn SÍM þakkar öllum þeim sem tóku þátt í Degi myndlistar og Berglindi Helgadóttur verkefnastjóra fyrir vel unnin störf.

UMM
SÍM hefur umsjón með og rekur umm.is – Upplýsingavef um myndlist og myndhöfunda á Íslandi – en vefurinn er byggður á gögnum frá Upplýsingamiðstöð myndlistar sem starfrækt var um 10 ára skeið með stuðningi íslenska ríkisins. Gagnagrunnurinn er gríðarlega stór og margþættur og hefur reynst ómissandi fyrir ýmsar menningarstofnanir, myndlistarmenn, fræðimenn, kennara og erlenda sýningarstjóra.

Því miður er ekki hægt að uppfæra grunninn eins og er, þar sem kerfið (Dísill) að baki grunninum er orðið úrelt.

SÍM fékk verðtilboð varðandi uppfærslu gagnagrunnsins frá fyrirtækinu Skapalón sem hljóðaði upp á átta miljónir kr. SÍM lét Skapalón hanna forsíðu og fyrsta útlit síðunnar, til þess að geta farið og kynnt framtíðaráform gagnagrunnsins fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

  1. apríl 2015 áttu Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri SÍM, mjög góðan kynningarfund með Karítas Gunnarsdóttur, skrifstofustjóra, og Ragnheiði Þórarinsdóttur, deildarstjóra hjá mennta og menningarmálaráðaneytinu. Þar gáfu þær fyrirheit um að SÍM gæti fengið styrk fyrir helmingskostnaði við uppfærslu UMM eða fjórar milljónir kr. Þær ráðlögðu SÍM að senda inn umsókn strax eftir kynningarfundinn þar sem óskað væri eftir stofnstyrk fyrir nýjum upplýsingavef um íslenska myndlist og myndlistarmenn.
  2. maí 2015 óskaði ráðuneytið eftir ráðgjöf frá myndlistarráði vegna umsóknar SÍM um stofnstyrk. Myndlistarráð gaf neikvæða umsögn til ráðherra 22. júní 2015 og barst SÍM synjun á umsókn sinni þann 23. júlí 2015. Stjórn SÍM varð fyrir vonbrigðum vegna niðurstöðu málsins og óskaði eftir að fá afrit af umsögn myndlistarráðs.

Stjórn SÍM varð fyrir vonbrigðum með að myndlistarráð eða fulltrúar SÍM í myndlistarráði hafi ekki haft samráð við SÍM og óskað eftir kynningu á umsókninni áður en ráðið skrifaði umsögn til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þótt orðið hafi breytingar á miðlun upplýsinga um myndlist á netinu kemur það ekki í staðinn fyrir UMM því UMM er gagnagrunnur um íslenska myndlistarmenn þar sem upplýsingar koma meðal annars beint frá myndlistarmönnunum. Gagnagrunnurinn felur í sér bæði innri og ytri vef þar sem búið er að safna saman miklu magni af upplýsingum frá myndlistarmönnum seinustu 20 árin. Þær stofnanir sem myndlistarráð telur upp í umsögn sinni munu ekki geta veitt sömu upplýsingar og UMM.

Stjórn SÍM telur mikilvægt að allir aðilar sem koma að hagsmunabaráttu myndlistarmanna viðhafi gott samráð og hefur í hyggju að boða til fundar til þess að ræða um framtíð UMM. Er það von stjórnar að hægt verði að fjármagna verkefnið á næstkomandi starfsári.

Aðalfundur IAA / AIAP
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri SÍM, fóru á aðalfund IAA / AIAP (alþjóðasamtaka myndlistarmanna) sem var haldinn í Pilzen dagana 14. – 18. október 2015. Formaður SÍM óskaði eftir stuðningsyfirlýsingu frá IAA og AIAP vegna lokunar á íslenska skálanum í Feneyjartvíæringnum. Því miður vildu fulltrúar þjóðanna fá meiri tíma til þess að kynna sér málið og var ákveðið að það yrði kosið um stuðningsyfirlýsinguna á netinu. Hins vegar skorti á eftirfylgni af hálfu IAA / AIAP vegna málsins og slík kosning hefur enn ekki farið fram.

Haldið var málþing um stöðu myndlistarmanna í heiminum. Katarina Jönsson, formaður KRO, heildarsamtaka myndlistarmanna í Svíþjóð, var með mjög áhugaverðan og gagnlegan fyrirlestur um innleiðingu MU samningsins og eftirfylgni hans. Joseph Young myndlistarmaður sagði frá herferðinni „Paying artists“ sem er í gangi í Bretlandi og formaður SÍM var með erindi um fyrirhugaða herferð SÍM, „Við borgum myndlistarmönnum“ sem vakti mikla jákvæða athygli.

Skrifstofa SÍM
Á skrifstofu SÍM starfa nú sex starfsmenn í rúmum fjórum stöðugildum. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri SÍM, Guðrún Helgadóttir bókari, Hildur Ýr Jónsdóttir umsjónarmaður gestavinnustofa, Friðrik Weisshappel umsjónarmaður fasteigna, og Sigríður Björnsdóttir skrifstofustjóri.

Ný heimasíða SÍM var sett í loftið 5. september 2015. Efni var gert aðgengilegra og forsíðan skilmerkilegri en um leið einfaldari. Mikil vinna var lögð í textagerð og leitað var eftir góðu myndefni fyrir heimasíðuna. Hönnun vefsíðu var í höndum Elísabetar Brynhildardóttur og Auður Aðalsteinsdóttir sá um prófarkalestur. Stjórn SÍM þakkar þeim fyrir frábært samstarf og vel unnin störf.

Í framhaldi nýrrar heimasíðu var ákveðið að fá Elísabetu Brynhildardóttur til að hanna kynningarbækling, þar sem helstu upplýsingar um starfsemi og hlutverk SÍM kæmi fram á íslensku og ensku.

Vinnustofur
Í byrjun janúar 2016 rann út leigusamningur við Landsbankann um húsnæði í Súðavogi. Var það mikill missir fyrir félagsmenn SÍM. Skrifstofa SÍM hefur leitað að vinnustofuhúsnæði allt árið og lítur markaðurinn ekki vel út. Eftir mikla leit bauðst SÍM húsnæði til leigu við Auðbrekku í Kópavogi. Þar eru 15 vinnustofur og meirihlutinn stórar. SÍM hefur leigt út vinnustofur til listamanna um árabil. Nú leigja um 200 félagsmenn vinnustofur hjá SÍM en vinnustofurnar eru á Seljavegi, Nýlendugötu, Korpúlfsstöðum, Lyngási og Auðbrekku.

SÍM salurinn
SÍM salurinn, sem staðsettur er í höfuðstöðvum okkar í Hafnarstræti 16, stendur félagsmönnum til boða til sýningarhalds. Auglýst er eftir umsóknum einu sinni á ári og eru sýningartímabil oftast miðuð við einn mánuð. Sýningarnar hafa verið vel sóttar og hægt er að fylgjast með því hvað er á dagskrá bæði á heimasíðu og Facebook-síðu félagsins.

Árið 2014 voru settar upp sýningar af ýmsum toga og má þar á meðal nefna samsýninguna Mara auk einkasýninga Steinunnar Önnudóttur, Soffíu Sæmundsdóttur, Diddu H. Leaman, Georgs Óskars, Gunnhildar Þórðardóttur, Ólafar Bjarkar Bragadóttur, Matthíasar Rúnars Sigurðssonar, Ránar Jónsdóttur, Ólafs Þórðarsonar og Pálínu Guðmundsdóttur.
Aðventusýning með verkum félagsmanna var svo haldin í desember við góðar undirtektir.

SÍM gestavinnustofur í Reykjavík
123 erlendir listamenn dvöldu í gestavinnustofum SÍM 2015. Bætt var við tveimur herbergjum ásamt sameiginlegri vinnustofu á Seljavegi. Í hverjum mánuði heldur hópurinn listamannaspjall í SÍM salnum og í lok hvers mánaðar er einnig samsýning í SÍM salnum.

SÍM fékk styrk frá KK nord fyrir sex mánaða gestavinnudvöl fyrir árið 2015. SÍM auglýsti eftir umsóknum fyrir tveggja mánaða dvöl með KKnord styrk og hlaut Sebastian Mugge dvalarstyrkinn.

Stjórn SÍM hafði samband við Nýlistasafnið og bauð þeim að velja listamann til þess að koma í boði SÍM. Á þeirra vegum kom Emil Magnúsarson Borhammer frá Svíþjóð og var hann með einkasýningu í Nýlistasafninu.

Stjórn SÍM ákvað að bjóða sýningastjórum að koma í tilraunaskyni og var leitað til Birtu Guðjónsdóttur varðandi val á sýningastjórum. SÍM bauð Malene Dam, sýningastjóra frá Danmörku, og Virginija Januskevicite og Valentinas Klimasauskas, sýningastjórum frá Litháen. Sýningastjórarnir fóru í um það bil 24 vinnustofuheimsóknir og vonar stjórn SÍM að félagsmenn hafi átt við þá gott samtal og gefið þeim tækifæri á spennandi verkefnum.

SÍM átti í vinnustofuskiptum við París í Frakklandi og Vaanta í Finnlandi. Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir dvaldi í Vaanta og Anna Hrund Másdóttir dvaldi í París.


SÍM gestavinnustofur í Berlín
Frá árinu 2010 hefur SÍM haft gestavinnustofu í Berlín á leigu fyrir félagsmenn SÍM. Gestaherbergin eru tvö, Askja og Hekla. Gestavinnustofan er staðsett í Friedrichshain sem er lifandi hverfi. Þar býr fjöldi listamanna og hönnuða. Hverfið er iðandi af börum, kaffihúsum, veitingastöðum og skemmtilegum verslunum. Þar gefst félagsmönnum SÍM tækifæri á að leigja sér vinnuaðstöðu í mánuð í senn eða styttri tímabil yfir sumarið.

Stjórn SÍM ákvað að setja af stað tilraunaverkefni til tveggja ára og bjóða tveimur ungum félagsmönnum að dvelja frítt í gestavinnustofu SÍM í Berlín á hverju ári. Stjórn SÍM óskar Freyju Eilíf og Úlfi Karlssyni til hamingju með mánaðar dvalarstyrk í gestavinnustofu SÍM í Berlín. Freyja og Úlfur munu segja frá dvöl sinni í STARA ásamt því að gefa lesendum innsýn í listsköpun sína.

Félagsmönnum BÍL gefst kostur á að sækja um dvöl í gestavinnustofunum þegar pláss leyfir. Tekið er á móti umsóknum í vinnustofurnar allt árið.

Árið 2015 hefur verið mjög viðburðaríkt. Stjórn SÍM þakkar öllum nefndarmönnum sem hafa unnið gott starf fyrir SÍM á árinu og öllum þeim sem hafa komið að þeim mikilvægu verkefnum sem SÍM hefur unnið að.

Fyrir hönd stjórnar,

Jóna Hlíf Halldórsdóttir