Rithöfundasamband Íslands telur vel á fimmta hundrað félagsmenn, ritlistamenn sem skrifa allar tegundir ritverka fyrir alla miðla. Sambandið veitir upplýsingum til félagsmanna um réttindamál á sviði höfunda- og útgáfuréttar auk þess að sjá um endurnýjun og breytingar á gildandi samningum um notkun á verkum íslenskra rithöfunda. Hagsmunagæsla RSÍ fyrir höfunda er víðtæk og þá fer sambandið einnig með umsýslu og úthlutun á greiðslum frá Fjölís, IHM, Hljóðbókasafni og Námsgagnastofnun. Skrifstofa RSÍ sér líka um úthlutun á greiðslum úr Bókasafnssjóði höfunda. RSÍ rekur Höfundamiðstöð sem er innheimtumiðstöð höfunda og þá er verkefnið Skáld í skólum rekið á vegum RSÍ, en það er víðtæk og metnaðarfull bókmenntadagskrá höfunda fyrir öll grunnskólastig á landsvísu.
Formaður RSÍ er Kristín Helga Gunnarsdóttir og hefur hún sinnt því embætti í tvö ár nú á vordögum 2016. Í stjórn RSÍ sitja: Jón Kalman Stefánsson, varaformaður, Hallgrímur Helgason, Andri Snær Magnason, Vilborg Davíðsdóttir og varamennirnir Gauti Kristmannsson og Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Framkvæmdastjóri RSÍ er Ragnheiður Tryggvadóttir. Auk hennar starfa verkefnisstjórar á vegum sambandsins.
Eitt af stærri verkefnum liðins starfsárs hefur verið baráttan fyrir hækkun Bókasafnssjóðs höfunda. Bókasafnssjóður var fyrirvaralaust skertur um nær helming á milli áranna 2013 og 2014, fór þá úr 42,6 milljónum króna í 23 milljónir króna. Hann náði fyrri stærð um áramótin 2015 og eftir þrotlaus samtöl og fundahöld með hlutaðeigandi hefur tekist að koma sjóðnum upp í ríflega 70 milljónir á yfirstandandi fjárlagaári. Það verður að teljast stór áfangasigur fyrir höfunda, en markmiðið er þó að þessi sjóður nái 300 milljónum króna á núgildandi verðlagi, enda um að ræða afnot almennings af sköpunarverki höfunda.
Stjórn RSÍ hefur líka unnið að því í samvinnu við ráðuneyti að tryggja þessum sjóði lagalegt umhverfi svo hann komist út úr þeim aðstæðum að stækka og minnka eftir geðþótta stjórnmálamanna á milli ára. Sambærilegir sjóðir nágrannalandanna eru byggðir á sameiginlegum samningum höfunda og stjórnvalda og er það markmið okkar að sjóðurinn fái slíkt umhverfi. Samstarfshópur RSÍ og ráðuneytis hafa komist að viðunandi niðurstöðu og unnið er að tæknilegri úrlausn.
Þá stóð RSÍ á liðnu ári, ásamt útgefendum og bókasöfnum, að rafbókaþingi, og kallaði þar saman alla þá hagsmunaaðila sem standa eiga vörð um höfundarétt og miðlun á rafrænu formi. Þetta samstarf lofar góðu og ákveðið var að efna reglulega til slíkra þinga og kalla stjórnvöld til samstarfs.
RSÍ lét sig varða um afdrif Gröndalshúss í Grjótaþorpi á liðnu ári. Þau gleðitíðindi bárust í desember að húsið verður áfram í eigu Reykjavíkurborgar og starfrækt í þágu bókmenntanna. Reykjavík – Bókmenntaborg UNESCO mun annast rekstur og gestaíbúð fyrir skáld og fræðimenn verður starfrækt í kjallara hússins.
Árlegt upphlaup vegna listamannalauna er nýafstaðið. Það var með harkalegasta móti að þessu sinni og veist að æru og heiðri einstaka höfunda á opinberum vettvangi. Rithöfundar bera að jafnaði hita og þunga af þessari árlegu umræðu, sem er í senn ígrunduð og yfirveguð, ofsafengin og illa upplýst. RSÍ hefur í einu og öllu farið að lögum frá ráðuneyti varðandi tillögur í úthlutunarnefndir en í kjölfar ábendinga kallaði stjórn RSÍ strax eftir aðstoð frá aðildarfélögum BÍL við að bæta verkferla og ná fram armslengd frá stjórnum. Önnur aðildarfélög BÍL eru enda í svipaðri aðstöðu og RSÍ í þessum efnum. Forseti BÍL brást vasklega við kalli frá RSÍ um að mynda starfshóp um bætt verklag og samhæfðar vinnureglur fyrir aðildarfélögin.
Alþjóðlegt samstarf Rithöfundasambands Íslands er talsvert og er sambandið í nánu samstarfi við systurfélög á Norðurlöndum og þátttakandi í Evrópusamstarfi. Rithöfundasambandið á aðild að Norræna rithöfunda- og þýðendaráðinu, Evrópska rithöfundaráðinu og starfar með Baltneska rithöfundaráðinu. Auk þess sendir sambandið fulltrúa sína til þátttöku á námskeiðum og ráðstefnum víðsvegar um heim, aðallega þó innan Evrópu. Rithöfundasamband Íslands hefur aðsetur í eigin húsnæði, Gunnarshúsi, að Dyngjuvegi 8, Reykjavík. Þar er skrifstofa sambandsins ásamt skáldaskjóli, og íbúð á neðri hæð sem ætluð er erlendum rithöfundum, þýðendum og handritshöfundum sem sækja Ísland heim til að vinna að tímabundnum verkefnum. Íbúðin er mikið notuð af erlendum kollegum. Auk þess er boðið upp á vinnustofu höfunda í Gunnarshúsi, en þar er vinnuaðstaða fyrir fjóra til fimm listamenn til að sinna verkum sínum.
RSÍ á og rekur tvö hús á landsbyggðinni, Norðurbæ á Eyrarbakka og Sléttaleiti í Suðursveit. Þar er einnig góð vinnuaðstaða fyrir félagsmenn ásamt því að félagsmenn hafa aðgang að annarri aðstöðu hérlendis og erlendis í gegnum Rithöfundasambandið og systursamtök þess.