Kolbrún Halldórsdóttir, forseti Bandalags íslenskra listamanna, skrifar í KJARNANN þar sem hún hvetur stjórnmálamenn til að opna huga sinn fyrir mikilvægi listanna í samfélaginu og viðurkenna þær sem burðarstoðir í kraftmiklu og fjölbreyttu atvinnulífi um land allt.

Bandalag íslenskra listamanna er vettvangur sameiginlegra hagsmuna fagfélaga listafólks og hefur bandalagið átt í áralöngu samtali við stjórnvöld um þá hagsmuni. Í aðdraganda kosninga til Alþingis leggur stjórn BÍL sig eftir því að hitta forystufólk stjórnmálaflokkanna til að ræða helstu hagsmunamál listamanna og í síðustu viku fundaði stjórnin með fulltrúum þeirra flokka sem bjóða fram til þings á landsvísu, að undanskildum Miðflokknum og Flokki fólksins, sem ekki sendu fulltrúa til fundarins.

Í ljósi þess hve stutt er frá síðustu kosningum til Alþingis þá hafa málefnin sem listafólk óskar að ræða við stjórnmálamenn ekki breyst mikið frá samráðsfundum BÍL og frambjóðenda haustið 2016, enda komust málefnin sem þá brunnu á listamönnum hvergi á blað hjá fráfarandi ríkisstjórn. Til marks um það er stefnuyfirlýsinging þar sem talsverð áhersla var lögð á málefni tengd „skapandi greinum“ en ljóst af orðalagi og samhenginu að listirnar voru hvergi sjáanlegar í því mengi.

Málin sem stjórn BÍL leggur mesta áherslu á fyrir þessar kosningar eru eftirfarandi:
– BÍL telur tímabært að stofna sjálfstætt ráðuneyti lista og menningar og ef það nær ekki fram að ganga þá er óhjákvæmilegt að setja á stofn formlegan samráðsvettvang þeirra fimm ráðuneyta sem með núverandi skiptingu stjórnarmálefna fara með mál tengd listum og menningu. Slíkur vettvangur þyrfti að starfa samkvæmt vel skilgreindri áætlun með mælanlegum markmiðum og tímasettum aðgerðum.
– Þá telur BÍL nauðsynlegt að efna til formlegs samstarfs um stefnumótun í málefnum lista og menningar til 2022, en stjórn BÍL hefur unnið sóknaráætlun sem gæti orðið góður grunnur að því starfi. Þar er mælt fyrir um aukna áherslu á list- og menningartengt starf og forgangsröðun í þágu stofnana, sjóða og einstakra verkefna á listasviðinu. Í núgildandi fjármálaáætlun 2018 – 2022 virðist sem blása eigi til slíkrar sóknar en þegar grannt er skoðað þá er sáralítið að marka þau áform, þar sem þeim fylgir ekkert fjármagn auk þess sem þau eru sett fram án alls samráðs við geirann.
– Loks leggur BÍL áherslu á baráttumál listamanna, bæði höfunda og flytjenda, að skatthlutfall vegna tekna af höfunda- og rétthafagreiðslum verði hið sama og vegna annarra eignatekna t.d. fjármagnstekna, enda er höfundaréttur eignarréttur og því um sambærilegar greiðslur að ræða.

Fundarmenn sýndu þessum áherslum BÍL skilning og töldu samtalið af hinu góða, án þess að miklu væri lofað. Reyndar má segja að allir hafi þeir tekið undir mikilvægi þess að færa skattlagningu tekna af höfundagreiðslum til þess horfs sem BÍL leggur til. Einnig virtust menn sammála um nauðsyn þess að skýra merkingu hugtaksins „skapandi greinar“ enda ekki nægilega góður bragur á því að það nái einungis yfir greinar sem geta orðið andlag vörusölu eða sölu á þjónustu t.d. í hugverka- og þekkingariðnaði eða hugbúnaðar- og tæknigreinum, eins og raunin er í stefnuyfirlýsingu fráfarandi ríkisstjórnar, en þar eru listirnar bara nefndar á einum stað í langri upptalningu í kaflanum um menntamál.

Fyrir þessar kosningar hvetur listafólk stjórnmálamenn til að opna huga sinn fyrir mikilvægi listanna í samfélaginu og viðurkenna þær sem burðarstoðir í kraftmiklu og fjölbreyttu atvinnulífi um land allt. Bandalag íslenskra listamanna er tilbúið í samstarf við stjórnvöld um átak í starfsumhverfi listafólks, sem leitt geti til þess að listum og menningu verði bættur sá niðurskurður sem varð á opinberum framlögum til geirans eftir hrun og blásið verði til sóknar í þágu lista og menningar á öllum sviðum.