Í lögum um heiðurslaun listamanna sem tóku gildi 1. september 2012 segir í 3. gr.: „Forseti Alþingis skal skipa nefnd þriggja manna sem allsherjar- og menntamálanefnd leitar umsagnar hjá um þá listamenn sem til greina kemur að njóti heiðurslauna Alþingis. Skal einn tilefndur af ráðherra menningarmála, einn af Bandalagi íslenskra listamanna og einn af samstarfsnefnd háskólastigsins.“

Umrædd nefnd var aðeins einusinni kölluð saman frá því hún var skipuð, en í henni sátu Sigríður Dúna Kristmundsdóttir skipuð af ráðherra, Hulda Stefánsdóttir af samstarfsnefnd háskólastigsins og undirritaður var fulltrúi BÍL. Þessi eini fundur átti sér stað þann 21. desember sl. og átti að skila tillögum „eigi síðar en kl. 19:00 í kvöld“, eins og sagði í tölvupósti frá starfsmanni þingsins.

Það gefur augaleið að þetta vinnulag er vanvirðing bæði við þá sem eiga að vinna verkið og eins hina sem komu til umsagnar og talar sínu máli um þá takmörkuðu virðingu sem heiðurslaunin hafa notið hjá hinu háa Alþingi.

Engu að síður reyndi nefndin eftir bestu getu að vinna það verk sem henni var falið og vill undirritaður í framhaldi af því láta eftirfarandi í ljós:

  1. Í fyrsta lagi var oft á tíðum óljóst hvernig þær tillögur sem bárust væru til komnar. Í sumum tilvikum virtust þær komnar frá einstaklingum úti í bæ sem höfðu hug á að mæla með sér til heiðurslauna. Í því sambandi vaknar spurningin um hlutverk nefndarinnar. Í ljósi þess hve þær tillögur sem bárust virtust handahófskenndar og í sumum tilfellum ó- eða illa rökstuddar, lá í hlutarins eðli að nefndi bætti þar um betur. Og nýtti sér þá yfirsýn sem nefndarmenn töldu sig hafa yfir flóru íslenskra listamanna og hverju þeir hefðu áorkað á sinni starfsævi.

 

  1. En er það hlutverk nefndarinnar eins og hún er skilgreind í lögunum? Þar er einungis talað um að hún eigi að vera umsagnaraðili um þær tillögur sem berast frá allsherjar- og menntamálanefnd. Ef sú hefði verið raunin að þessu sinni hefði nefndin ekki haft úr miklu að moða. Kveða þarf skýrar á um þetta atriði í skipunarbréfinu.

 

  1. Það er skoðun undirritaðs að tillögur að verðugum þiggjendum heiðurslauna eigi alfarið að vera í höndum nefndar sem skipuð sé fulltrúum úr röðum listamanna og fræðasamfélagsins, auk fulltrúa ráðherra. Að sjálfsögðu gæti hver sem væri sent nefndinni tillögur, en að lokum væri það nefndin ein sem tæki rökstudda ákvörðun um þá sem til álita kæmu og síðan væri endanleg ákvörðun í höndum þingsins – á grunni tillagna nefndarinnar. Með þeim hætti væru meiri líkur á að valið væri vandað og stutt rökum.

Hugleiðing utan efnis og þó innan:

Engum blandast hugur um að íslensk menning siglir nú krappari sjó en oft áður. Valda því m.a. augljósar lífsháttabreytingar samfara tæknibyltingum við miðlun efnis. Háværar viðvörunarbjöllur klingja um þessar mundir varðandi stöðu íslenskrar tungu sem jafnframt telst vera líftaugin í sjálfri tilvist þjóðarinnar. Fulltrúar úr fræðasamfélagi og lista eru dögum oftar leiddir fram til að lýsa þessari þróun og benda á hættumerkin. Vandinn er að slíkir viðmælendur tengjast í vitund almennings of mjög þeim hagsmunum sem eiga undir högg að sækja hverju sinni. Við gerum t.a.m. ráð fyrir því að málfræðingur tali út frá hagsmunum fræðigreinarinnar, myndlistarmaður út frá sínu fagi, rithöfundur sínu, tónlistarmaður … o.s.frv. Það skortir sárlega vettvang sem stæðið ofar og þann vettvang hef ég leyft mér að kalla „Íslenska akademíu“. Ég sé fyrir mér að meðlimir hennar væru heiðurslistamenn á hverjum tíma. Í nær öllum tilvikum er þetta fólk sem hefur að mestu lokið sínu æviverki, stendur að minnsta kosti ekki í hagsmunabaráttu við aðra listamenn eða aðrar listgreinar og býr yfir ómetanlegri reynslu og yfirsýn. Orð frá þeim ættuð hefðu þar af leiðandi þyngri vikt og meira vægi.

Að sjálfsögðu þyrfti slík akademía sitt utanumhald, Þjóðmenningarhúsið væri hennar kjörni fundarstaður og á hennar snærum væri starfsfólk sem skipulegði af færni og myndarskap ráðstefnur og málþing um íslenska menningu.

Á komandi ári eru 100 ár síðan Ísland hlaut sjálfstæði. „Íslensk akademía“ væri verðug gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín af því tilefni.

Gjört í Reykjavík þ. 14. september 2017

Pétur Gunnarsson