Aðalfundur BÍL 2011 fól stjórn BÍL að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum listamanna með því að fylgja eftir ályktunum aðalfundar 2011. Þar að auki vinni stjórnin að eftirtöldum verkefnum á árinu:

Opinber stefna í menningu og listum. Fylgt verði eftir sjónarmiðum BÍL í því augnamiði að sem flest áherslumál BÍL skili sér inni í lokaniðurstöðu stefnumótunar stjórnvalda í menningu og listum.

Kortlagning skapandi greina. BÍL verði áfram virkt afl í vinnunni við kortlagningu skapandi greina, sem stjórnvöld hyggjast leiða til lykta á næstu mánuðum. Í þeirri vinnu er mikilvægt að upplýsingum um hagrænt gildi skapandi greina og umfang þeirra í efnahagslífi þjóðarinnar verði haldið til haga með skipulegum hætti og þeim gerð skil í þjóðhagsreikningum eins og gildir um aðrar burðarstoðir atvinnulífsins. Á sama tíma þarf að tryggja að eigið gildi menningar og lista verði viðurkennt.

Opinber stuðningur við listir og menningu. Lögð verði áhersla á sjónarmið BÍL um faglegar fjárveitingar til lista og menningarverkefna með því að styrkja lögbundna sjóði á borð við launasjóði listamanna, Kvikmyndasjóð, Tónlistarsjóð, Bókmenntasjóð, sjóð til starfsemi Sjálfstæðu leikhúsanna, Listskreytingasjóð og Barnamenningarsjóð.

Kjör listamanna og skattaleg staða. Unnið verði að því að bæta kjör og skattalega stöðu listamanna. Tekjur vegna endurleigu hugverka verði með sama hætti og aðrar leigutekjur. Tekjuviðmið skattyfirvalda varðandi reiknað endurgjald listamanna verði í samræmi við listamannalaun. Sérstaða listamanna gagnvart atvinnuleysistryggingum verði viðurkennd svo þeim verði gert kleift að sækja slíkar bætur reynist þess þörf. Skattaleg staða listamanna sem selja listmuni verði leiðrétt og frítekjumark þeirra hækkað.

Ímynd BÍL. Lögð verði drög að því að BÍL fái nýja heimasíðu og efnt verði til samkeppni um nýtt lógó fyrir BÍL.

Höfundarréttarmál. BÍL beiti sér í baráttunni fyrir hagsmunum höfunda og eigenda flutningsréttar sem eiga efni á vefnum. Áhersla verði lögð á að leita leiða til að draga úr ólöglegu niðurhali og efna til fræðslu meðal almennings um mikilvægi löglegara leiða við efnisöflun. Einnig verði unnið að því að tryggja höfundarrétt á öðrum sviðum, t.a.m. á sviði byggingalistar.

Lottómál. Möguleikar listgreinanna á að eignast hlutdeild í ágóða íslenska lottósins verði kannaðir til hlítar.

Listalaus dagur. BÍL taki þátt í að gera 11. nóvember 2011 að listalausum degi um allt land, í því augnamiði að vekja athygli á starfi listamanna, umfangi þess og þýðingu fyrir samfélagið.