Ráðstefna um listkennslu í skólum

Í fyrri hluta september sótti forseti BÍL UNESCO ráðstefnu í Vilnius, eða svo hann sé nákvæmur:

 

Regional Preparatory Conference (Europe, North America)

“Synergies between Arts and Education”

for the World Conference on Arts Education

 

Á þessari ráðstefnu var að finna nokkurs konar þversneið þess þjóðflokks sem tekið hefur að sér að móta það sem við kemur listkennslu í skólum í Evrópu og Norður Ameríku.

Yfirgnæfandi meirihluti ráðstefnugesta kom úr röðum embættismanna, skólamálafræðinga og starfsfólks ráðuneyta og stofnana. Samkvæmt opinberum þátttökulista var ég eini fulltrúi listamanna á ráðstefnunni.

Það er fljótsagt að innihald og form framsöguerinda bar öll einkenni þess að verið var að ræða um sköpun og list af fólki sem virðist fremur hafa lært um fyrirbærið en upplifað það. Fyrir vikið yfirsást flestum sem til máls tóku það sem etv. brennur mest á listamönnum þegar listmenntun ber á góma; nefnilega það að grunn- og framhaldsskólar kalli eftir auknu samstarfi við lifandi listamenn af öllu tagi. Þess í stað var togast á um uppeldisfræðilegar kenningar og aðferðafræðileg mynstur sem áttu lítið sameiginlegt með raunveruleika sköpunargleði og sköpunarferlis í huga starfandi listamanns.

Það var í heildina fremur niðurdrepandi að sitja undir lestrinum, ekki síst í ljósi þess hversu vel andrúmsloftið rímaði við þá akademísku/pólitísku forsjárhyggju sem nær æ sterkari tökum á íslenskum menningar- og menntaheimi. Á kostnað samstarfs við listamenn.

Ég mun við betra tækifæri gera grein fyrir einstökum atriðum sem áhugaverð gætu reynst, en gott yfirlit um efni hvers erindis var að berast mér rétt í þessu og sá ég þá að sú upprifjun gæti reynst notadrjúg við greinargerðina.

Fari áhugasama hins vegar að lengja eftir frekari fregnum, hvet ég þá til að hafa samband við mig hið snarasta. Hjá mér liggur m.a. áhugavert efni sem ekki er á tölvutæku formi en þess virði að eiga stund með í ljósritunarkompunni.

 

Kær kveðja,

Þorvaldur Þorsteinsson