Stjórn BÍL skipa formenn aðildarfélaga BÍL. Stjórnin hélt 10 reglulega fundi á starfsárinu, auk þess sem haldnir voru nokkrir fundir um afmörkuð málefni, sem gerð verður sérstaklega grein fyrir í skýrslu þessari. Aðildarfélög BÍL eru fimmtán talsins. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum annarra stjórnarmanna sem komið hafa að starfi stjórnar BÍL á árinu:

  • Arkitektafélag Íslands; AÍ – formaður Aðalheiður Atladóttir / Helgi Steinar Helgason
  • Danshöfundafélag Íslands; DFÍ – formaður Katrín Gunnarsdóttir, varamaður Katrín Ingvadóttir / Tinna Grétarsdóttir
  • Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH –formaður Björn Th. Árnason
  • Félag íslenskra leikara; FÍL – formaður Birna Hafstein, varamaður Erling Jóhannesson
  • Félag íslenskra listdansara; FÍLD – formaður Irma Gunnarsdóttir, varamaður Guðmundur Helgason / Anna Norðdahl
  • Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT – formaður Hlín Pétursdóttir Behrens, varamaður Hallveig Rúnarsdóttir
  • Félag kvikmyndagerðarmanna; FK – formaður Hrafnhildur Gunnarsdóttir / Fahad Jabali, varamenn: Anna Þóra Steinþórsd / Jóhannes Tryggvas.
  • Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB – formaður Rebekka Ingimundardóttir
  • Félag leikskálda og handritshöfunda; FL – formaður Margrét Örnólfsdóttir, varamaður: Salka Guðmundsdóttir
  • Félag leikstjóra á Íslandi; FLÍ – formaður Páll Baldvin Baldvinsson
  • Félag tónskálda og textahöfunda; FTT – formaður Jakob Frímann Magnússon / Bragi Valdimar Skúlason
  • Rithöfundasamband Íslands; RSÍ – formaður Kristín Helga Gunnarsdóttir, varamaður Bjarni Bjarnason / Vilborg Davíðsdóttir
  • Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM – formaður Jóna Hlíf Halldórsdóttir, varamaður Eirún Sigurðardóttir / Steingrímur Eyfjörð
  • Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL – formaður Friðrik Þór Friðriksson
  • Tónskáldafélag Íslands; TÍ – formaður Þórunn Gréta Sigurðardóttir, varamaður: Þuríður Jónsdóttir

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2018):
Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur Kolbrún Halldórsdóttir og Jóna Hlíf Halldórsdóttir
varamenn Bragi Valdimar Skúlason og Birna Hafstein

Fulltrúar í faghópi MOFR 2017 :
Jón Bergmann Kjartans Ransu myndlistarmaður, form.
Sólveig Aðalsteinsdóttir myndlistarmaður, varam.
Lára Rúnarsdóttir tónlistarmaður
Hlín Pétursdóttir Behrens söngkona, varam.
Hávar Sigurjónsson rithöfundur og leikskáld
Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur, varam.
Erling Jóhannesson leikari
Aino Freyja Järvelä leikari
Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt fulltr. Hönnunarmiðst.

Kvikmyndaráð: Margrét Örnólfsdóttir
varamaður Bergsteinn Björgúlfsson

Fulltrúaráð Listahátíðar: Kolbrún Halldórsdóttir

Stjórn listamannalauna: Hlynur Helgason
varamaður Hlín Gunnarsdóttir

Stjórn Skaftfells: Jóna Hlíf Halldórsdóttir
varamaður Kolbrún Halldórsdóttir

Fagráð Íslandsstofu í li stum og skapandi greinum: Kolbrún Halldórsdóttir

Menningarfánaverkefni Reykjavíkur: Karen María Jónsdóttir

List án landamæra: Edda Björgvinsdóttir

Stjórn Gljúfrasteins: Kolbrún Halldórsdóttir

Listráð Hörpu: Ásmundur Jónsson

Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis: Páll Baldvin Baldvinsson
varamaður Þórunn Gréta Sigurðardóttir

Höfundarréttarráð: Kolbrún Halldórsdóttir

Sérfræðinganefnd KKN (verkefni): Signý Pálsdóttir
(ferðastyrkir): Sigtryggur Magnason

Starfshópur um málverkafalsanir: Jón B. Kjartanss. Ransu
varamaður Kolbrún Halldórsdóttir

Samstarfshópur um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins: Kolbrún Halldórsdóttir

„List fyrir alla“ – samráðshópur: Hildur Steinþórsdóttir og Davíð Stefánsson
„List fyrir alla“ – valnefnd: Agnes Wild og Áslaug Jónsdóttir
varamaður Benedikt Hermannsson

Austurbrú – fagráð menningar: Þórunn Gréta Sigurðardóttir

Starfshópur mmrn um starfsemi miðstöðva listgreina og hönnunar: Kolbrún Halldórsdóttir

Forseti BÍL situr fyrir hönd BÍL í Norræna listamannaráðinu Nordisk Kunstnerråd og er fulltrúi ráðsins í stjórn Circolo Scandinavo (varaforseti stjórnar síðan í mars 2015). Önnur trúnaðarstörf forseta eru eftirfarandi: forseti er fulltrúi BÍL í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar. Þá er hún ritari í stjórn Félags leikstjóra á Íslandi. Á árinu var formlega lögð niður starfsemi ECA – European Council of Artists, en þar hafði forseti BÍL gengt embætti forseta síðan 2011.

Stjórn BÍL hefur skipt með sér verkum á árinu þannig að Margrét Örnólfsdóttir formaður Félags leikskálda og handritshöfunda hefur gegnt starfi ritara og Björn Th. Árnason formaður Félags íslenskra hljómlistamanna – FÍH er gjaldkeri. Það er hins vegar fjármálastjóri FÍH, Friðgeir Kristinsson sem nú annast bókhald BÍL og skil á uppgjöri til endurskoðanda Helgu Þorsteinsdóttur. Skoðunarmenn reikninga 2017 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.

Stjórn BÍL hefur komið saman til reglulegra funda 10 sinnum á árinu, þar að auki fundaði stjórnin með fulltrúum stjórnmálaflokkanna í aðdraganda þingkosninga og sat samráðsfundi með fjórum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Einnig átti stjórn samráðsfund með stjórn listamannalauna og rektor Listaháskóla Íslands.

Starfið litað af stjórnmálaástandinu
Annað árið í röð einkenndist starf BÍL af atburðum á vettvangi stjórnmálanna, þar sem ríkisstjórnin Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem tók við völdum 11. janúar 2017, sprakk átta mánuðum síðar eða um miðjan september. Í kjölfarið var ákveðið að boða til nýrra kosninga og fóru þær fram 28. október eða réttu ári eftir að síðast var kosið. Ný ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tók svo við völdum mánuði eftir kosningar 30. nóvember. Þá þegar var ljóst að annað árið í röð yrði fljótaskrift á afgreiðslu fjárlaga, en sú undarlega staða hafði komið upp ári áður að þing var kallað saman til að afgreiða fjárlög án þess að ný ríkisstjórn hefði verið mynduð. Fjárlagafrumvarpið 2018 kom fram í þinginu tveimur vikum eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafði verið mynduð, fyrsta umræða fór fram 15. des., önnur umræða 22. des. og þriðja ekki fyrr en milli jóla og nýárs. Fjárlög 2018 voru svo samþykkt 29. desember 2017 eða 15 dögum eftir að þau voru lögð fram. Það þarf vart að fjölyrða um hversu erfitt það var fyrir hagsmunasamtök á borð við BÍL að ná tali af fjárlaganefnd við þessar aðstæður, enda fór það svo að þó BÍL sendi inn efnismikla umsögn um frumvarpið, þar sem allur list- og menningargeirinn var undir að undanskildum söfnunum, þá fékkst ekki fundur með nefndinni og engin af breytingartillögum BÍL náði fram að ganga. En meira um það síðar í skýrslunni.

Samstarfið við landsstjórnina
Grunnstoð í samstarfi ríkisstjórnar og BÍL er stefna stjórnvalda í málefnum lista og menningar eins og hún birtist í stjórnarsáttmála og þingmálum ríkisstjórnar á hverjum tíma. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var talsvert fjallað um eflingu skapandi greina, en þegar grannt var skoðað náðu þau áform einungis til nýsköpunar og þróunar í tæknigreinum og þekkingariðnaði, listir voru nefndar á einum stað í sáttmálanum, það var í kaflanum um menntamál. Þetta olli stjórn BÍL nokkrum áhyggjum, ekki síst vegna þess að fundað hafði verið með fulltrúum flokkanna í aðdraganda þingkosninga um málefni lista og menningar þar sem sett voru á dagskrá helstu áherslumál BÍL. Þegar þessar áherslur ríkisstjórnarinnar voru ljósar óskaði stjórn BÍL eftir fundum með þeim ráðherrum sem skv. forsetaúrskurði höfðu á sínu forræði mál tengd listum og menningu. Samráðsfundur með mennta- og menningarmálaráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni var haldinn 16. maí, fundur með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Jóni Gunnarssyni fór fram 24. maí, fundur með fjármálaráðherra 12. júní og fundað var með ráðherra nýsköpunar, ferðamála og hönnunar Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur 30. ágúst. Engin viðbrögð bárust við beiðni BÍL um fund með utanríkisráðherra Guðlaugi Þ. Þórðarsyni. Minnisblöð sem lágu til grundvallar samtalinu við þessa ólíku ráðherra eru öll aðgengileg á heimasíðu BÍL.

Samningsbundinn samráðsfundur og endurnýjun samnings
Eðli máls samkvæmt er samráðsfundur BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra sá sem mest er lagt í, enda er ákvæði um hann bundið í samstarfssamning þessara aðila og til hans mæta allir helstu samstarfsmenn ráðherrans á málasviðinu, þ.m.t. allir starfsmenn menningarskrifstofu ráðuneytisins og fulltrúar fjármálaskrifstofu. Um leið og ríkisstjórn hafði verið mynduð óskaði stjórn BÍL eftir að samráðsfundinum með nýjum mennta- og menningar-málaráðherra (KÞJ, erindi 19. janúar) yrði flýtt, í ljósi þeirrar óvissu sem hafði ríkt um forystu í málaflokknum frá þingkosningum haustið 2016. Við þeirri málaleitan fékkst það svar (8. febrúar) að til fundarins yrði boðað í apríl. Það voru stjórn BÍL nokkur vonbrigði ekki síst í ljósi þess að samstarfssamningur BÍL við ráðuneytið hafði runnið út um áramótin 2016/2017 og ekkert bólaði á nýjum samningi, þrátt fyrir eftirgangsmuni allt frá haustdögum 2016. Þegar staðið hafði í stappi við menningarskrifstofu ráðuneytisins um nokkurra mánaða skeið ritaði stjórn BÍL ráðherra bréf (18. mars) með ósk um að hann beitti sér í málinu og tryggði endurnýjun samningsins til næstu þriggja ára. Þá komst loks hreyfing á málið og var farið að vinna texta samningsins, sú vinna stöðvaðist þó óvænt þann 8. apríl þegar ráðuneytið tilkynni BÍL að „vegna flókinna samningsskilyrða eftir samþykkt laganna um opinber fjármál yrði samningurinn hafður til eins árs“. Stjórn BÍL gat ekki fallist á þetta og ritaði ráðherra á ný (18. apríl) og óskaði eftir tafarlausri lausn á málinu, enda hafði BÍL þá ekki fengið greitt framlag til rekstrar í rúmlega hálft ár. Þegar kom að samráðsfundinum, sem á endanum var ekki haldinn í apríl heldur 16. maí, þá var BÍL enn án samnings við ráðuneytið. Það fór þó á endanum svo að í lok samráðsfundarins var samningurinn lagður fram og ljóst að breytingatillögur BÍL á orðalagi samingsins höfðu náð fram að ganga, en samningurinn skyldi renna út 31. desember 2017 eða 7 ½ mánuði eftir undirritun. Þetta voru mikil vonbrigði ekki síst í ljósi þess að í hönd fór nítugasta afmælisár BÍL (2018) en fyrsti samstarfssamningurinn var einmitt undirritaður þegar haldið var upp á 70 ára afmælið (1998), svo stjórn BÍL hafði gert sér vonir um að ráðherra og ráðuneyti myndu sýna starfi BÍL meiri skilning á þeim tímamótum sem framundan eru í starfi heildarsamtaka listafólks á Íslandi.

Megináherslur BÍL á samráðsfundinum
Í minnisblaði BÍL fyrir fundinn var áhersla lögð á innleiðingu menningarstefnunnar sem Alþingi samþykkti vorið 2013 sem enn hefur ekki verið innleidd með neinum formlegum hætti. Spurt var hvort líta mætti á fjármálaáætlun ríkis-stjórnarinnar 2018 – 2022 sem aðgerðaáætlun í því skyni að innleiða menningarstefnuna, enda ýmis metnaðarfull áform að finna í fjármálaáætluninni, en gallinn var sá að þau áform voru ekki fjármögnuð að neinu leyti í nýjum fjárlögum og ekki heldur í áætluninni sjálfri. Þá var spurt út í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem gerði ráð fyrir innviðauppbyggingu í þágu kraftmikils atvinnulífs um allt land, sameiginlegri stefnu um málefni höfuðborgarsvæðisins, eflingu skapandi greina og auknum hlut lista og menningar í skólastarfi. Allt verkefni sem Bandalagið hefur vakið máls á við stjórnmálamenn gegnum tíðina og er reiðubúið að styðja. Því óskaði stjórn BÍL eftir áætlun um efndir þessara áforma en lýsti jafnframt áhyggjum yfir augljósri fjarveru listanna, ekki síst úr menginu „skapandi greinar“.

Enn sem áður lagði BÍL til að skráning tölfræði lista og menningar verði með svipuðum hætti og á öðrum Norðurlöndum, að hlutur listrannsókna verði viðurkenndur undir hatti Vísinda og tækniráðs og að menningarsamningar ríkisins undir sóknaráætlun landshlutanna verði virkjaðir á ný.. Önnur atriði sem BÍL vakti máls á tengdust baráttumálum einstakra listgreina, til dæmis má nefna átak SÍM „Borgum myndlistarmönnum“ og ákall um endurreisn Listskreytingasjóðs, kröfu sviðslistafélaganna um Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, áralanga baráttu dansara fyrir stefnu í málefnum listdanskennslu á grunn- og framhaldsstigi, kröfuna um uppbyggingu skólabókasafna, starfið á vettvangi verkefnisstjórnar um málefni kvikmyndageirans þ.m.t. um nám í kvikmyndagerð og þverfaglegt samráð um málefni menningar og ferðaþjónustu.

Loks var minnt á þrjú mikilvæg atriði sem BÍL hefur oft tekið upp við stjórnvöld og vill gjarnan eiga samstarf um;

-sanngjarna skattlagningu höfundarréttargreiðslna, að þær verði skattlagðar með sama hætti og fjármagnstekjur

-að nákvæm grein verði gerð fyrir stöðu og fjárþörf helstu menningarstofnana og sjóða sem starf listamanna grundvallast á, með það að markmiði að fullfjármagna geirann og

-að ráðist verði í nauðsynlegar úrbætur á stjórnsýslu málaflokksins þannig að ráðuneytin fimm, sem nú fara með tiltekna þætti hennar, stofni formlegan samstarfsvettvang í þágu bættrar stjórnsýslu lista og menningar a.mk. þar til hugmyndir BÍL um sjálfstætt ráðuneyti menningar ná fram að ganga.

Sjónarmið ráðherra á samráðsfundinum
Í fundargerð samráðsfundarins koma fram sjónarmið ráðherra og til að stikkla á stóru má nefna eftirfarandi atriði:

Ráðherra þykir málefnasviðið einkennast af fjölda smárra og stórra eininga, ótrúlega mörgum sjóðum og mismunandi verkefnum stórum og smáum. Hann muni setja af stað vinnu við forgangsröðun og nefnir í því sambandi stöðu íslenskrar tungu og máltækniverkefnið, ásamt málefnum bókaútgáfu og bókmenningar. Þá lýsir hann áhuga á hugmyndum SÍM sem koma fram í átaksverkefninu „Borgum myndlistarmönnum“ en af málefnum tónlistar sýnist honum nauðsynlegt að kanna möguleika á sameiningu tónlistartengdra sjóða, raunar vill hann skoða sameiningar stofnana og sjóða á sviði menningar og lista almennt. Skv. nýlegu svari hans við fyrirspurn á Alþingi séu sjóðir ætlaðir listsköpun 17 talsins að launasjóðunum meðtöldum og hann telji skynsamlegra að einfalda kerfið fremur en að flækja það, með það að markmiði að fjármunirnir nýtist sem best. Hann hafi ekki í hyggju að skerða fjárveitingarnar heldur einungis að endurskipuleggja kerfið.

Talsverð áhersla var lögð á að útskýra breytt vinnubrögð vegna nýrra laga um opinber fjármál, þannig þurfi stjórnvöld að marka stefnu til fimm ára í senn og mikil áhersla sé lögð á skýrslugjöf ráðherra til Alþingis þar sem greint verði frá fjárveitingum til einstakra ríkisaðila og verkefna og metinn ávinningur af ráðstöfun fjárveitinga með tilliti til settra markmiða. Verklag sem þetta kalli á allt aðra hugsun og muni bæta verulega vinnuna við fjárlagagerð. Þá greindi hann fundinum frá því að ástæða þess að ekki hafi verið hægt að gera þriggja ára samning við Bandalags íslenskra listamanna að þessu sinni væri sú að fjármálaráðuneytið hafi ekki samþykkt samninginn með tilliti til nýrra laga.

Ráðherra svaraði því til varðandi stjórnsýslu lista- og menningar að vissulega væri samráð milli ráðuneyta og við sveitarstjórnarstigið mikilvægt til að fylgja eftir hinum ýmsu verkefnum en engar ákvarðanir hafi verið teknar um stórfelldar breytingar á núverandi fyrirkomulagi og til að taka af allan vafa, þá stæði ekki til að brjóta upp skiptingu stjórnarráðsins með því að stofna annað ráðuneyti og bað fundarmenn að eyða ekki talanda og orku í að ræða það fram og til baka (tilvitnun í fundargerð samráðsfundar 16. maí 2017).

Það var mat stjórnar BÍL að árangur þessa fundar hafi ekki verið mikill, enda einungis tvær vikur eftir af vorþingi. Svo fór sem fór um haustið; þegar haldnir höfðu verið þrír fundir á haustþingi, slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu og boðað var til kosninga á ný.

Þingkosningar 2017
Annað árið í röð undirbjó BÍL samtal við frambjóðendur stjórnmálaflokkanna í aðdraganda Alþingiskosninga. Í þetta sinn voru ekki haldnir málefnafundir með fulltrúum hvers flokks fyrir sig, heldur var skipulagður einn fundur þar sem óskað var eftir þátttöku talsmanna flokkanna í málefnum lista og menningar. Eftirtaldir flokkar sendu þátttakendur til fundarins; frá Bjartri framtíð – Guðlaug Kristjánsdóttir, frá Framsóknarflokki – Lárus Lárusson, frá Pírötum – Snæbjörn Brynjarsson, frá Samfylkingu – Margrét Tryggvadóttir, frá Sjálfstæðisflokki – Vilhjálmur Bjarnason, frá Viðreisn -Páll Rafnar Þorsteinsson og frá Vinstri-grænum – Halla Gunnarsdóttir. Stjórn BÍL ákvað að byggja samtalið á því sem rætt hafði verið í aðdraganda kosninganna 2016 en fækkaði áherslupuntum í minnisblaðinu sem lá til grundvallar úr tíu (2016) í þrjú. Fundurinn var haldinn 9. október í húsnæði FÍH við Rauðagerði og í aðdraganda hans voru þeim sem höfðu tilkynnt þátttöku sendar eftirfarandi spurningar:

Hver er afstaða þins flokks til eftirfarandi mála:

  1. Sjálfstætt ráðuneyti lista og menningar og ef það nær ekki fram að ganga þá áætlun um samræmda stjórnsýslu í málefnum lista og skapandi greina með formlegum samráðsvettvangi þeirra ráðuneyta sem sinna málefnum hins skapandi geira.
  2. Formlegt samstarf um stefnumótun í málefnum lista og menningar til 2022, sbr. tillögur í sóknaráætlun BÍL frá 2015 og áform stjórnvalda í fjármálaáætlun 2018 – 2022, með megináherslu á eflingu máttarstólpa í list- og menningartengdu starfi jafnt stofnanir, sjóði og einstök verkefni.
  3. Skatthlutfall tekna vegna höfundagreiðslna verði hið sama og vegna annarra eignatekna t.d. fjármagnstekna, enda er höfundaréttur eignarréttur og því um sambærilegar greiðslur að ræða.

Svör stjórnmálamannanna voru nokkurn vegin á einn veg, þeir sýndu kröfu BÍL um sameinaða stjórnsýslu málefna lista og menningar skilning og höfðu ýmsar vangaveltur um úrbætur í þeim efnum. Þá töldu allir sem einn mikilvægt að stjórnvöld hefðu náið og gott samráð við geirann við stefnumótun, og allir lýstu sig reiðubúna til að tryggja sanngjarnari skattlagningu höfundarréttargreiðsla. Svo segja má að niðurstaða fundarins hafi verið jákvæð og nú heyri það upp á stjórn BÍL að fylgja þessum málum eftir við nýtt Alþingi sem kosið var 28. október.

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar
Niðurstaða kosninganna var sú að fyrri ríkisstjórn missti meirihluta sinn og mánuði eftir kosningar var ný ríkisstjórn mynduð undir forystu Vinstri-grænna, með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Endurnýjun var mikil í þingliðinu, annað árið í röð, þó ekki eins mikil og í kosningunum árið áður þegar yfir 50% þingmanna voru nýir, nú komu 19 nýir til leiks, en helmingur þeirra hafði setið áður á þingi um lengri eða skemmri tíma.

Það heyrir til tíðinda að listanna, listamanna og listnáms er getið með einhverjum hætti átta sinnum í stjórnarsáttmála Vinstri-grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Af innihaldi hans hljóta eftirfarandi efnisþættir að teljast markverðastir fyrir listageirann:

  • Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi. Þess vegna skiptir máli að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Hlutverk stjórnvalda er að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs. Unnin verður aðgerðaáætlun á grundvelli samþykktrar menningarstefnu.
  • Ríkisstjórnin ætlar að leggja sérstakra áherslu á listnám og aukna tækniþekkingu sem gera mun íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu.
  • Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins fyrir árið 2020 og Norðurlanda árið 2025 í samræmi við áætlanir Vísinda- og tækniráðs sem mun skipta sköpum fyrir bæði kennslu og rannsóknir í íslenskum háskólum. Unnið verður að lausn á húsnæðismálum Listaháskóla Íslands á kjörtímabilinu.
  • Hugað verður að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslenskt ritmál og fjölmiðla. Fyrsta skref verður að afnema virðisaukaskatt á bókum. Ráðist verður í gerð hagvísa fyrir menningu, listir og skapandi greinar. Áfram verður unnið að því að efla skapandi greinar sem vaxandi atvinnuveg á Íslandi. Höfundagreiðslur sem viðurkennd rétthafasamtök innheimta verða skattlagðar sem eignatekjur. Áfram verður unnið að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna.
  • Lögð verður áhersla á þátt hins opinbera í að auka kraft og fjölbreytni atvinnulífs um land allt og mikilvægi þess að Ísland búi sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum. Þeim munu fylgja nýjar kröfur um menntun og hæfni starfsfólks og að til staðar sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum, þ.m.t. hjá hinu opinbera og í rótgrónum greinum.
  • Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs mun renna til verkefna á þessu sviði.
  • Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki á fjölbreyttum málasviðum sem mikilvægt er að styðja við.

Umsögn BÍL um fjárlög 2018
Löng hefð er fyrir því að stjórn BÍL gefi fjárlaganefnd Alþingis umsögn um þá liði fjárlaga er varða listir og menningu. Framsetning umsagnarinnar hefur þróast þannig á undanförnum árum að ekki einasta er horft til stöðu launasjóða listamanna og verkefnatengdra sjóða heldur er horft til heildarmyndarinnar og skoðuð fjármögnun ríkisins á lykilstofnunum sem telja verður burðarstoðir í starfsumhverfi listafólks. Mikilvægt samstarf hefur því skapast við list- og menningartengdar stofnanir ríkisins við gerð umsagnarinnar með það sameiginlega markmið að leiðarljósi að beina sjónum þingmanna að afkomu listageirans í heild sinni. Í þessu samstarfi felst að stjórn BÍL talar óbeint máli stofnananna á vettvangi fjárlaganefndar, en forstöðumenn stofnananna reka sín mál frekar á vettvangi ráðuneytanna. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og verið litið svo á að það sé hagur beggja, stofnananna og sjálfstæða geirans.

Megininntak umsagnar BÍL við fjárlögin á seinustu árum hefur verið það að list- og menningargeirinn sé sárlega undirfjármagnaður og hafi verið það um margra ára skeið. Rökstuðningurinn er helst sá að niðurskurður opinberra fjárframlaga til bæði sjóða og stofnana á listasviðinu í kjölfar efnahagshrunsins hafi ekki skilað sér nema að litlu leyti til baka. Einnig bendir BÍL á að á árunum fyrir hrun hafi stjórnvöld þegar verið farin að draga úr fjárframlögum til menningarstofnana og talið það réttlætanlegt í ljósi þess að einkaaðilar og fyrirtæki á markaði höfðu á þeim tíma komið með umtalsvert fjármagn inn í geirann. Því er það mat BÍL að hraustlegrar leiðréttingar sé þörf á opinberum framlögum til list- og menningartengdra stofnana, launasjóða listafólks og verkefnasjóða. Slík leiðrétting sé forsenda þess að starfskjör listafólks lagist og störfum í listageiranum fjölgi. Það verður að segjast um þennan rökstuðning BÍL að hvergi í opinbera kerfinu er aðgengilegt talnaefni sem staðfestir þessar fullyrðingar eða hrekur, sem undirstrikar þörfina fyrir opinbera menningartölfræði. Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið er aðgengileg á vef BÍL.

Vinnulag við fjárlagagerðina
Á síðustu árum, eða allt frá 2013, hefur fjárlaganefnd Alþingis látið sér nægja að taka við umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið en ekki veitt okkur beina áheyrn, eins og tíðkast hafði um langt árabil þar áður, þrátt fyrir það óskar stjórn BÍL árlega eftir fundi með nefndinni eða fulltrúum hennar. Það var einnig gert nú, en eins og fram kemur framar í ársskýrslunni, var þeirri beiðni ekki sinnt og er það fimmta árið í röð sem nefndin neitar BÍL um fund. Þegar endanleg afgreiðsla fjárlaga lá fyrir, sendi stjórn BÍL formanni fjárlaganefndar erindi og óskaði eftir áheyrn um niðurstöðu fjárlaga, og til að ræða stöðu listanna og helstu menningarstofnana með tilliti til þess hversu lengi þessi viðkvæmi geiri hefur verið undirfjármagnaður. Það sem olli þó mestum kurr í baklandi listafólks var sú niðurstaða nefndarinnar að bæta 150 milljónum við málaflokkinn „listir og menning“ og úthluta af eigin hvötum og geðþótta til nokkurra list- og menningartengdra verkefna (eitthvað á annan tug verkefna), eftir því sem best var vitað án verklagsreglna og án þess að auglýsa eftir umsóknum. Slík vinnubrögð eru ófagleg með öllu og voru formlega aflögð 2012 í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sbr. frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis 15.11.2013 og reglur mmrn. um úthlutun styrkja útg. 10.10.2014.

Þann 17. janúar sl. hitti forseti BÍL formann og 1. varaformann fjárlaganefndar á fundi, þá Willum Þór Þórsson og Harald Benediktsson. Á fundinum voru ofangreind málefni rædd ásamt almennum vandkvæðum við innleiðingu nýju laganna um opinber fjármál, t.d. benti forseti á að ársfjórðungsskýrslur ráðherra hafi ekki enn litið dagsins ljós og komið á þriðja ár frá því lögin tóku gildi, yfirlit fylgiritsins hafi enn ekki verið uppfært þó tveggja vikna fresturinn frá samþykkt fjárlaga sé liðinn auk þess sem ekkert hafi heyrst af ráðstöfun varasjóða lista og menningar 2016 eða 2017. Þessum sjónarmiðum BÍL var að mestu leyti vel tekið af þingmönnunum tveimur og því lofað af formanninum að BÍL fengi annað tækifæri síðar á vorþinginu til að halda þessu samtali áfram og ræða framtíðarsamskipti BÍL og nefndarinnar.

Varðandi fylgirit fjárlagafrumvarps 2018, sem nefnt er hér að framan, þá er það lykilgagn þeirra sem fylgjast vilja með opinberum fjármálum, þar sem einungis stærstu drættir fjárlaga koma fram í sjálfum frumvarpstextanum eftir að ný lög um opinber fjármál gengu í gildi 01.01.2016. Sá kafli fylgiritsins, sem fjallar um menningu og listir hefur verið ófullkominn að því leyti að í flestum tilfellum eru þar einungis birtar samtölur liða, en sundurliðanir eru af skornum skammti. Þetta hefur reynst BÍL bagalegt í allri vinnu með fjárlagafrumvarpið, einkum vegna fjárlagaársins 2018 þar sem ráðuneytið lét undir höfuð leggjast að birta nauðsynlega sundurliðun á vefsíðu sinni, nokkuð sem hafði verið gert samviskusamlega árið áður. Vegna þessarar tregðu við að afla upplýsinga og vegna þess dráttar sem orðið hefur á uppfærslu fylgiritsins hefur stjórn BÍL ritað bréf til skrifstofustjóra opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneyti, sem á endanum ber ábyrgð á uppfærslu fylgiritsins. Svar við því erindi hefur ekki borist þegar þetta er ritað. Ljóst er að ástandið sem kallað var „ófremdarástand“ í ársskýrslu forseta BÍL 2016 hefur ekki lagast og erfiðleikar stjórnsýslunnar við að innleiða ný lög um opinber fjármál koma víða niður.

Samstarfssamningurinn 2018 – 2020
Svo sem að framan greinir þá fékkst samstarfssamningur BÍL og ráðuneytisins ekki framlengdur á síðasta ári nema til ársloka 2017, en samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir því að gert sé viðvart fyrir lok september óski annar hvor samningsaðila eftir því að samningurinn verði endurnýjaður. Eftir þessu ákvæði var farið og óskaði stjórn BÍL eftir endurnýjun samningsins 13. september. Vel var brugðist við og forseti boðaður til fundar í ráðuneytinu 5. október til að ræða inntak nýs samnings. Fundinn sátu tveir embættismenn menningarskrifstofu ásamt skrifstofustjóra og á fundinum kom fram að ráðuneytið myndi leggja til að þriggja ára samningur yrði gerður við BÍL og árleg upphæð myndi hækka nokkuð frá því sem nú er (upphæðin 2017 var 4,5 millj.). Þ. 4. desember ítrekaði BÍL erindið þar sem ekkert hafði heyrst frá ráðuneytinu í tvo mánuði. Viðbrögð voru engin, þá var aftur send ítrekun 19. desember, sem varð til þess að svar barst um að nú myndu samningsdrög berast „alveg á næstunni“. Síðasta vinnudag ársins, föstudaginn 29. desember, hafði ekkert svar borist og var þá send ítrekun og afrit af samskiptunum á ráðuneytisstjóra. Skömmu eftir áramót þ. 5. janúar bárust loks samningsdrög, sem ollu verulegum vonbrigðum þar sem árleg hækkun, sem okkur hafði áður verið tjáð að yrði rífleg, var einungis kr. 500.000.-. Viðbrögð BÍL við þeim pósti voru eðlilega nokkuð afundin. Þá barst um hæl afsökunarbeiðni og sagt að mistök hafi orðið í ritun samningsdraganna og lofað leiðréttingu, sem barst svo 8. janúar. Þar var staðfest að árlegt framlag ráðuneytisins yrði 6 milljónir, sem sagt hækkun um 1,5 milljón á ári fram til 2020. Stjórn BÍL þakkaði fyrir það en gerði þó nokkrar athugasemdir við texta samningsdraganna, sérstaklega við þá tillögu ráðuneytisins að þrengja málasviðið sem samningurinn og þar með ráðgjöf BÍL næði til. Við þeim tillögum hafa ekki borist formleg viðbrögð, en samtalið við ráðuneytið stendur yfir og vonir standa til að nýr samningur verði undirritaður áður en kemur að aðalfundi BÍL 17. febrúar.

Nýr mennta- og menningarmálaráðherra
Þann 4. desember, tíu og hálfum mánuði eftir að stjórn BÍL hafði boðið velkominn til starfa Kristján Þór Júlíusson, var ritað annað samskonar bréf það sem mennta- og menningarmálaráðherra nýrrar ríkisstjórnar, Lilja Alfreðsdóttir, var boðin velkomin til starfa og þess óskað, í ljósi þess að annað árið í röð væri skipt um ráðherra á miðjum vetri, að flýtt yrði árlegum samráðsfundi stjórnar BÍL með ráðherra og hennar starfsliði. Erindið var ítrekað 11. janúar og óskaði ráðherra þá eftir að hitta forseta BÍL með það að markmiði að kynna sér störf og sjónarmið BÍL áður en hinn samningsbundni samráðsfundur yrði haldinn. Á þeim fundi, sem haldinn var 24. janúar, voru ráðherra afhent helstu gögn um starfsemi BÍL, ársskýrslu og ársreikninga 2016, ásamt starfsáætlun og tillögu BÍL að sóknaárætlun í listum og skapandi greinum frá 2015. Einnig umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið 2018 og hugmyndir BÍL um skráningu tölfræði menningar. Þá gerði forseti ráðherra grein fyrir tregðunni við að fá nýjan þriggja ára samstarfssamning og kynnti jafnframt athugasemdirnar sem stjórn BÍL hefur gert við orðalag samningsdragana og þrengingu málasviðsins. Ráðherra lét í ljósi vilja til að flýta samráðsfundi BÍL og er þess að vænta að dagsetning hans verði ákveðin á næstunni.

Samráðsfundir með öðrum ráðherrum
Á seinustu árum hefur BÍL sóst eftir formlegum fundum með fleiri ráðherrum en mennta- og menningarmálaráðherra, þ.e. þeim ráðherrum, sem samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna, hafa skilgreint hlutverk gagnvart einhverjum þáttum lista og hönnunar.

  • Þetta eru utanríkisráðherra, sem fer með málefni tengd kynningu á Íslandi og því sem íslenskt er, m.a. með starfi sendiráða Íslands erlendis og Íslandsstofu, sem annast kynningarmál erlendis og markaðsetningu landsins, m.a. kynningu á list og menningu skv. lögum um stofnunina.
  • Ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sem fer með málefni nýsköpunar, hönnunar og hönnunarstefnu, endurgreiðslur á sviði kvikmyndagerðar og tónlistarupptöku, ásamt hugverkastefnu á sviði iðnaðar.
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, en undir hann heyra menningarsamningar landshlutasamtaka sveitarfélaga og Byggðastofnun sem fer með málefni samninganna. Raunar hafa menningarsamningarnir verið felldir inn í „uppbyggingarsjóði“ landsbyggðarinnar en eru þó fjármagnaðir af fjárlagalið mennta- og menningarmálaráðuneytis.
  • Fjármálaráðherra, sem hefur með framkvæmd laganna um opinber fjármál að gera, framsetningu fjármálaáætlunar og ber ábyrgð á framsetningu fjárlagafrumvarpsins.

Á nýliðnu starfsári tóku eftirtaldir ráðherrar þessara málaflokka á móti fulltrúum stjórnar BÍL: Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðar og nýsköpunarráðherra, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, öll úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Síðan ný ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tók við hafa fultrúar BÍL fundað með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. Minnisblöð frá öllum þessum fundum eru aðgengileg á vefsíðu BÍL.

Samstarfið við menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur
Samstarf BÍL og MOFR hefur verið í föstum skorðum síðasta árið, BÍL á tvo áheyrnarfulltrúa á fundum ráðsins og leggur til fjóra af fimm fulltrúum í faghóp ráðsins, sem hefur það hlutverk að gera tillögur um úthlutun styrkja til list- og menningartengdra verkefna, bæði til einstakra verkefna en tekur líka þátt í vinnunni við útnefningu borgarhátíða og langtímasamninga. Reykjavík hefur verið að auka stuðning sinn við list- og menningartengd verkefni. Í ár fjallaði faghópurinn um 179 umsóknir sem í heildina hljóðuðu upp á 282 m.kr. en úthlutað var til 103 verkefna rúmum 66 m.kr. – 8 listhópar, hátíðir og samtök fengu nýjan samning við borgina til þriggja ára en fyrir voru 20 hópar með samninga í gildi og Gjörningaklúbburinn var útnefndur listhópur Reykjavíkur 2018.

Á árinu lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina í menningar- og ferðamálaráði fram tillögu þess efnis að tveir ráðsmenn fengju aðkomu að fundum faghópsins sem fjallar um umsóknir um list- og menningartengda styrki og gerir tillögur til ráðsins um úthlutun. Stjórn BÍL var beðin um umsögn um tillöguna og mælti ekki með samþykkt hennar enda færi slík breyting gegn menningarstefnu borgarinnar þar sem áskilin er vönduð stjórnsýsla og áhersla lögð á samstarf út á við og inn á við. Fyirkomulagið byggi líka á reglunni um „hæfilega fjarlægð“ og standist ákvæði menningarstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2013 þar sem fjalllað er um faglega úthlutun til menningarstarfs sem byggi á vönduðu jafningjamati. Þess utan eigi ráðsmenn góðan aðgang að faghópnum sem fundar með ráðinu öllu um niðurstöðu sína áður en ráðið afgreiðir hana formlega. Það fór svo að ráðið felldi tillöguna.

Síðla árs var gengið frá því að borgin tæki virkan þátt í að bæta úr húsnæðisvanda Dansverkstæðisins með því að leigja húsnæði við Hjarðarhaga, sem gert verður upp svo það henti þörfum starfseminnar. Einnig voru á árinu gerðir nýir samstarfssamningar við Nýlistasafnið og Kling og Bang, en bæði söfnin hafa fengið góða aðstöðu í endurbyggðu Marshallhúsi á Granda. Það sem þó verður að telja til mestra tíðinda á list- og menningarsviðinu og er til vitnis um gott samstarfi borgar og BÍL, er sú niðurstaða Borgarráðs að auka fjárveitingar til Listasafns Reykjavíkur til að tryggja sanngjarnar greiðslur til myndlistarmanna sem sýna í safninu og samþykkja verklagsreglur þar um. Þriggja manna starfshópur á vegum borgarinnar vann tillögu að verklagsreglunum, í honum sátu Ólöf K. Sigurðardóttir safnstjóri Listasafnsins, Signý Pálsdóttir skrifstofustjóri menningar á menningar- og ferðamálasviði og Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL. Þannig hefur Reykjavíkurborg nú gengið fram fyrir skjöldu og brugðist við kalli SÍM sem hefur af miklum krafti haldið úti baráttu undir slagorðinu „Borgum myndlistarmönnum“. Líklegt er að nú verði pressan á ríkið aukin og einnig má telja líklegt að önnur listasöfn á vegum sveitarfélaga fylgi fordæmi borgarinnar á næstunni.

Eitt af nýmælum í stjórnsýslu borgarinnar, í þágu opinnar stjórnsýslu, er að nú hefur verið opnaður aðgangur að fundargerðum af ölllum sviðum og í öllum málaflokkum, þannig að fundargerðir menningar- og ferðamálaráðs eru nú aðgengilegar á vefnum.

Samráðsfundur með borgarstjóra
Árlegur samráðsfundur BÍL og borgarstjóra var haldinn í Höfða 8. maí og lagði BÍL upp með að ræða nokkur afmörkuð atriði menningarstefnu Reykjavíkur ásamt atriðum úr menntastefnu er varða listmenntun. Til grundvallar umræðunni lágu skilgreindar aðgerðir sem finna má í aðgerðaáætlun menningarstefnu borgarinnar:

1.kafli – aðgerð í farvegi: Reykjavíkurborg hvetur til og hefur samstarf um rannsóknir á hagrænum áhrifum menningar og skapandi greina. Til framtíðar verði hagræn, menningarleg, félagsleg og umhverfisleg áhrif metin, vægi hvers þáttar og samspil þeirra á milli.

BÍL telur að grundvallaratriði í kortlagningu á áhrifum lista og menningar í borginni sé að gera úttekt á þróun framlaga til lista og menningar. Greina þarf hvernig framlög hafa skipst milli stofnana og sjálfstæðrar starfsemi, milli hópa og einstakra listamanna, milli hátíða og annars konar verkefna. BÍL telur frekari rannsóknir á vægi greinanna byggja á slíkri kortlagningu og að miða beri úttektina við árabilið 2009 – 2016.

  1. kafli – 5 ára áætlun: Verklagsreglur fyrir menningarstofnanir Reykjavíkurborgar mótaðar í samvinnu forstöðumanna þeirra og Bandalags íslenskra listamanna sem miða að því að réttur listamanna til launa fyrir vinnuframlag sitt sé virtur og höfundaréttur þeirra hafður í hávegum.

Þessu ákalli var svarað með auknum fjármunum til Listasafns Reykjavíkur og verklagsreglum um greiðslur til myndlistarmanna (sjá framar í skýrslu þessari).

  1. kafli – 5 ára áætlun: Hvatt til áherslu á menningaruppeldi með því að efla fræðslustarfsemi menningarstofnana borgarinnar og að auka samstarf listamanna og skólafólks innan grunnskólans í nánu samstarfi við skóla- og frístundasvið.

Hér er lögð áhersla á samstarf listamanna og skólafólks og BÍL hvatti borgaryfirvöld til að tengjast langþráðu verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins „List fyrir alla“ með það að markmiði að reikvísk grunnskólabörn og kennarar þeirra fái notið þess sem verkefnið hefur að bjóða.

Stefna um tónlistarfræðslu – Tillögur starfshóps maí 2011: Tónlistarnám í Reykjavík tekur mið af þremur meginmarkmiðum aðalnámskrár tónlistarskóla: Uppeldislegum markmiðum, leikni- og skilningsmarkmiðum og samfélagslegum markmiðum. […] Gæðaviðmið taka mið af viðurkenndum gæðastuðlum, s.s. aðalnámskrá og öðrum sambærilegum alþjóðlegum viðmiðum. […] Reykjavíkurborg greiðir framlag til tónlistarkennslu samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla 75/1985.

Varðandi þennan þátt þá hvatti BÍL borgaryfirvöld til að nýta svigrúmið, sem skapast með stofnun menntaskóla tónlistarinnar og breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, til að endurreisa kerfið og slá öflugum stoðum undir starfsemi þeirra skóla sem starfa innan þess. Mikilvægt er að greiðslur borgarinnar til skólanna haldist í hendur við umsamin laun og að skólunum sé gert kleift að standa við ákvæði um bóklega kennslu og samspil meðfram einkakennslu svo sem námskrá kveður á um.

  1. kafli – Aðgerðir í farvegi: Fjölbreytt aðstaða til listsköpunar, listflutnings, sýninga og annarrar menningarstarfsemi hvort sem um er að ræða húsnæði í eigu borgarinnar eða annarra. Auk nýrra möguleika til aðstöðu gætu ýmis opin rými borgarinnar einnig komið til móts við þarfir listalífsins.

Í ljósi þessa hvatti BÍL borgaryfirvöld til að taka þátt í að leysa húsnæðisvanda Dansverkstæðis, sem þau og gerðu fyrir árslok (sjá framar í skýrslu þessari) en einnig var minnt á framtíðarmarkmið danslistarinnar, þ.e. stofnun Danshúss í Reykjavík.

  1. kafli – 5 ára áætlun: Aukin aðkoma listamanna að skipulagi og mótun mannvirkja á vegum borgarinnar, í samræmi við markmið í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030, ásamt áherslu á samþættingu lista við skipulag hverfa utan miðborgarinnar.

Stjórn BÍL ítrekaði fyrri athugasemdir sínar varðandi þörfina á fleiri opnum samkeppnum um arkitektúr og skipulag ásamt ákalli um aukna fagmennsku við framkvæmd þeirra.

  1. kafli – 5 ára áætlun: Tekið verði mið af 14. grein myndlistarlaga nr. 64/ 2012 um framlag til listaverka í nýbyggingum þar sem verja skal að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar.

Myndlistarlög mæla fyrir um að opinberar byggingar ásamt umhverfi þeirra, svo og önnur útisvæði í opinberri eigu, séu fegruð með listaverkum og að verja eigi a.m.k. 1% af heildarbyggingarkostnaði nýbygginga til að uppfylla þessa lagaskyldu. Þá er í lögunum ákvæði um að Alþingi veiti árlega fé í listskreytingasjóð til listaverka í opinberum byggingum (ríkis og sveitarfélaga) sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999. Staðreyndin er sú að ríkið hefur forsómað Listskreytingasjóð síðustu sex árin, þar sem framlagið til hans var skorið eftir hrun úr kr. 7,1 milljón 2010 í 1,5 milljónir, sem gerir sjóðnum ókleift að starfa. SÍM, AÍ og BÍL hafa gert alvarlegar athugasemdir við þessa niðurstöðu ríkisins í sjö ár og leggja nú til við borgaryfirvöld að þau gangi í lið með listamönnum og kanni hvernig borgin sinnir þeirri lagaskyldu sem á henni hvílir, með það að markmiði að auka hlut myndlistar í opinberum byggingum og umhverfi þeirra. Slíkar aðgerðir myndu auka þrýsting á ríkið og vonandi auka það fjármagn sem Alþingi ákvarðar Listskreytingasjóði í fjárlögum framtíðarinnar.

Stjórn BÍL fagnaði á fundinum nýrri aðgerðaáætlun á grundvelli ferðamálastefnu Reykjavíkur, en BÍL hefur um árabil lagt áherslu á aukið samtal ferðaþjónustunnar og hinna skapandi greina, m.a. með starfi innan Íslandsstofu en einnig innan menningar- og ferðamálaráðs þar sem áheyrnarfulltrúar BÍL hafa tök á að koma með tillögur og sjónarmið. Þá hvatti stjórn BÍL borgaryfirvöld til að þrýsta á ríkið og Hagstofu Íslands varðandi skráningu talnaefnis tengt þeim atvinnugreinum sem styðja við ferðaþjónustuna þ.m.t. listir og skapandi greinar.

Launasjóðirnir
Úthlutun úr launasjóðunum fór fram 1600 mánaðalaun til úthlutunar úr launasjóðum listamanna. Sótt var um 9.053 mánuði, svo munurinn er 7.453 mánuðir! Í þetta sinn var ekki úthlutað neinum ferðastyrkjum. Alls bárust 852 umsóknir um starfslaun frá einstaklingum og hópum. Umsækjendur voru samtals 1.529. Úthlutun fengu 370 listamenn. 2016 setti BÍL fram ákall til stjórnvalda, og raunar til stjórnmálaflokkanna sem rætt var við í aðdraganda þingkosninga það ár, um að gerð yrði þriggja ára áætlun um fjölgun mánaðarlauna í starfslaunasjóðum listamanna, þ.e. að þeim fjölgi úr 1600 í 2000 á þremur árum og um hækkun mánaðarlegrar greiðslu úr 350 þús. í 450 þús. strax 2017. Að auki yrði gerð áætlun um eflingu verkefnatengdra sjóða, ekki síst kvikmyndasjóðs og sviðslistasjóðs. Þessu ákalli var ekki sinnt af síðustu ríkisstjórn, en mögulega eru hagfelldari skilyrði uppi núna, þar sem ný ríkisstjórn heitir því í stjórnarsáttmála að efla bæði starfslaunasjóðina og verkefnatengda sjóði. Rétt er að taka fram að mánaðargreiðsla úr launasjóðunum um þessar mundir er kr. 377.402.-, framreiknað væru 450 þúsundirnar því rúmlega 485 þúsund. Greiðslurnar úr launasjóðunum eru verktakagreiðslur, svo þegar skoðað er hver launaliðurinn er í mánaðagreiðslu að upph. kr. 377.402.- , ef gert er ráð fyrir að 32% greiðslunnar fari í launatengd gjöld, er niðurstaðan tæpl. 256.633.- fyrir skatt. Það þarf ekki að fjölyrða um það hvort einhverri annarri háskólamenntaðri stétt í landinu sé boðið upp á sambærileg kjör. Til áréttingar má geta þess að árlega brautskráir Listaháskóli Íslands 110 – 120 með bakkalár- eða meistaragráðu í listum og hönnun. Það segir sig sjálft að krafa BÍL um áætlun um eflingu launasjóðanna er bæði eðlileg og sanngjörn.

Í mars hélt stjórn BÍL samráðsfund með stjórn listamannalauna og ræddi málefni sjóðanna og framtíðarþróun. Voru fundarmenn sammála um að halda áfram baráttunni fyrir því að launasjóðir listafólks á Íslandi verði fjármagnaðir með sambærilegum hætti og gert er á hinum Norðurlöndunum. Til þess að svo megi verða þarf að gera samanburð á kerfum landanna, sem BÍL hefur því miður ekki fengið ráðuneyti mennta- og menningar til að framkvæma, þrátt fyrir nokkrar tilraunir í þá átt. Stjórn BÍL telur að með samstilltu átaki og samstarfi við stjórn listamanna launa megi færa sönnur á það hversu undirfjármagnað okkar launasjóðakerfi er og hvernig okkar launasjóðir hafa átt undir högg að sækja, sem er alls ekki raunin á hinum Norðurlöndunum. Í ljósi þess að stjórnvöld virðast loks hugsa sér til hreyfings í þessum efnum er mikilvægt að málefnanlegt samtal eigi sér áfram stað milli stjórnar BÍL og stjórnar listamannalauna.

Á vettvangi samstarfs regnhlífarsamtaka listamanna á Norðurlöndunum verður áfram þrýst á um að gerður verði yfirgripsmikill og marktækur samanburður á starfskjörum listamanna í löndunum fimm og á sjálfstjórnarsvæðunum. Þessi brýna þörf var aðalumræðuefni samráðsfundar Norræna listamannaráðsins (Nordisk Kunstnerråd) sem haldinn var í Stokkhólmi 20. mars 2017 en næsti fundur í þessu norræna samstarfi verðu haldinn í Osló 23. mars nk.

Heiðurslaun Alþingis
Um miðjan ágúst sagði Pétur Gunnarsson rithöfundur sig frá setu í umsagnarnefnd heiðurslauna Alþingis, en hann hafði verið skipaður í nefndina af hálfu BÍL í desember 2012. Skipan Péturs hafði verið með fyrirvara, sem forseta Alþingis var gerð grein fyrir, þess efnis að stjórn BÍL felli sig ekki við fyrirkomulagið á heiðurslauna-útdeilingum Alþingis, telji annmarka á lögunum frá 2012 og tilefni sé til að eiga samtal um breytingar á inntaki og framkvæmd. Meðal þess sem Pétur gerði stjórn BÍL grein fyrir þegar hann sagði sig frá setu í nefndinni var t.d. að nefndin var einungis kölluð saman einu sinni á tímabilinu sem skipan Péturs stóð, þ.e. 21. desember 2016 og var gert að skila umsögn sinni um tillögur sem óljóst var hvernig voru til komnar fyrir kl. 19:00 þann sama dag. Pétur sendi stjórn BÍL hugleiðingar sínar um heiðurslaunin og „Íslenska akademíu“, sem lýst er í ályktun aðalfundar BÍL 2012. Hugleiðingar Péturs eru aðgengilegar á vef BÍL. Niðurlag þeirra hefur að geyma eftirfarandi hugmynd: Á komandi ári eru 100 ár liðin síðan Ísland hlaut sjálfstæði. „Íslensk akademía“ væri verðug gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín af því tilefni. Það kann að vera fullt tilefni til að ræða þessi mál við nýjan forseta Alþingis, þar sem samtalið við fyrverandi forseta skilaði engu.

Listmenntun
Eitt af meginmarkmiðum opinberrar menningarstefnu (frá 2013) er að efla listfræðslu og listkennslu í skólakerfinu öllu, m.a. með því að byggja áfram upp háskólanám í listum og efla rannsóknir á sviði menningar og lista. Þrátt fyrir þessa áherslu hefur BÍL ekki tekist að fá sérstakt samtal við menntamálaráðherra síðustu tveggja ríkisstjórna um listmenntun, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þó verður að þakka það sem vel er gert og á aðalfundi BÍL 2017 var sérstaklega fagnað þeim áfanga að stofnaður hafði verið framhaldsskóli á sviði tónlistarinnar með samningi við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík, einnig höfðu verið gerðar nokkrar breytingar á samkomulagi ríkisins og sveitarfélaganna sem lengi hafði verið knúið á um. Það breytir ekki því að langt er í land með að tryggja öllum börnum á öllum skólastigum hvar sem er á landinu nægilega kennslu í listum og öðrum skapandi greinum.

Í kaflanum um menntamál í menningarstefnunni er því heitið að öll skólastig verði efld í þágu þess háleita markmiðs að listir og menning séu meðal þess sem skiptir sköpum fyrir uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða í landinu. Í því sambandi hefur BÍL spurt: Hvernig má þá skýra skeytingarleysi stjórnvalda gagnvart háskólamenntun í listum, sem einungis er hægt að stunda gegn háum skólagjöldum, auk þess sem aðstaðan sem listnemum er búin óviðunandi aðstaða í ónýtu húsnæði? Baráttan fyrir bættri aðstöðu Listaháskóla Íslands hefur staðið árum saman, eiginlega allt frá stofnun skólans, og BÍL hefur beitt sér í samtali við stjórnvöld, en það er ekki fyrr en núna, þegar heilbrigðisyfirvöld hafa beinlínis lokað stærstum hluta af húsnæði skólans við Sölvhólsgötu, sem virðist hilla undir aðgerðir til að laga það versta. Enn hafa stjórnvöld ekki lagt fram hugmyndir um fjármögnun framtíðarhúsnæðis fyrir skólann. Ekki hefur heldur mótuð stefna um rannsóknir í listum eða ákveðið með hvaða hætti hlutur lista innan Vísinda- og tækniráðs verði aukinn. Ekki bólar heldur á fjármagni á fjárlögum sem tryggir að rannsóknarþátturinn í starfsemi Listaháskóla Íslands sé fjármagnaður með sama hætti og innan annarra háskóla. Og ekki hefur verið tekin ákvörðun um með hvaða hætti háskólanámi í kvikmyndagerð verður komið á legg.

BÍL hefur lagt sig fram við að beina sjónum ráðamanna, bæði ríkis og sveitarfélaga, að þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að efna fyrirheit um að námi í listdansi verði eflt og fái staðið jafnfætis tónlistarnámi í skólakerfinu. Samningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins við skólana um kennslu á framhaldsstigi rennur út í lok þessa skólaárs og erfitt hefur verið að fá svör frá ráðuneytinu um áform þeirra í framhaldinu. Úttekt skólanna stendur yfir og þrýst er á ráðuneytið um að eyða óvissu um rekstrarskilyrði þeirra. Annað atriði sem mikilvægt er að lokið verði við í mennta- og menningarmálaráðuneyti er að semja reglugerð um fjármögnun og skipan nám í listdansi sem geri viðurkenndum dansskólum kleift að sinna starfi sínu af þeim myndugleik sem efni standa til. Í því sambandi hafa fagfélög dansgeirans verið í samtali við samtök sveitarfélaga og reyna nú til þrautar að fá ráðuneytið með í það samtal. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og samstöðu BÍL, Félags íslenskra listdansara og Danshöfundafélags Íslands, hefur því miður ekki enn tekist að vekja stjórnvöld af dvala í málefnum danslistarinnar, en vonir standa til að hreyfing komist á málin með vorinu.

Umsagnir um þingmál
BÍL fékk þrjú þingmál til umsagnar á árinu;

  • þingsályktunartillögu um minningu tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar, landsbókavarðar og þjóðsagna-safnara, þar sem lagt er til að gerðar verði tvær lágmyndir af Jóni og haldin ráðstefna um störf hans. Umsögn BÍL var á þá leið að mikilvægt sé að vinna tillögur af þessu tagi í samstarfi við þá aðila sem gert er ráð fyrir að framkvæmi þær, í þessu tilfelli Háskóla Íslands og Landsbókasafn, en hvergi er tekið fram í tillögutexta að slíkt samráð hafi farið fram. Þá dró BÍL í efa að kostaðarmatið sem lá til grundvallar tillögunni væri alls kostar rétt. Loks stakk BÍL upp á því að allsherjar- og menntamálanefnd hugaði að því hvort sagan hafi að geyma upplýsingar um merkiskonu, sem mögulega mætti minnast með svipuðum hætti til að vega upp á móti þeim kynjahalla sem viðgengst í opinberum ákvörðunum um að gerðar séu lágmyndir, brjóstmyndir og styttur af körlum sögunnar. Málið náði ekki fram að ganga.
  • frumvarp um að 95. grein almennra hegningarlaga falli brott, en greinin fjallar um viðurlög við móðgun við erlenda þjóðhöfðingja, smánun þjóðartákna á borð við fána og eignaspjöll á sendiráðum og lóðum þeirra. Stjórn BÍL taldi rétt að mæla með samþykkt frumvarpsins, í ljósi þess að BÍL er málsvari tjáningarfrelsis og á aðild að alþjóðlegu samtökunum ARTSFEX sem helga sig baráttunni fyrir tjáningarfrelsi listamanna um heim allan. Málið náði ekki fram að ganga.
  • þingsályktunartillögu um framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskóla Íslands. Í samræmi við stefnu BÍL í málefnum listmenntunar á háskólastigi og áralanga þátttöku í baráttu LHÍ fyrir viðunandi húsnæði fyrir allar deildir skólans, mælti stjórn BÍL með samþykkt tillögunnar. BÍL rökstuddi þá afstöðu sína m.a með því að vitna til menningarstefnu samþykktir á Alþingi 2013 og leyfði sér að gagnrýna stjórnvöld fyrir að leggja fram fjármálaáætlun til næstu fimm ára án þess að gera ráð fyrir fjármunum til úrbóta á húsnæði LHÍ. Tillagan náði ekki fram að ganga.

Samhent stjórnsýsla – samráðsgátt
Á undanförnum árum hefur stjórn BÍL lagt hart að stjórnmálamönnum að bæta stjórnsýslu lista og menningar, bæði vegna þess hversu dreifður málaflokkurinn er orðinn um stjórnkerfið, en ekki síður vegna ónógra samskipta og erfiðleika við að fá svör við innsendum erindum. Það sem stjórn BÍL hefur talið að bæta myndi ástandið er sjálfstætt ráðuneyti menningar að norrænni fyrirmynd, en þangað til slík ákvörðun verður tekin þyrfti að gera áætlun um samræmda stjórnsýslu í málefnum lista, menningar og skapandi greina með formlegum samráðsvettvangi þeirra ráðuneyta sem sinna málefnum hins skapandi geira. Mikilvægt er að halda þessari hugmynd vakandi enda er hún í samræmi við niðurstöðu rannsókna sem gerðar hafa verið innan stjórnsýslufræða og skýrslur sem stjórnvöld hafa látið vinna á undanförnum árum, sérstaklega má nefna skýrslu starfshóps um samhenta stjórnsýslu frá desember 2010. En til að því sé til haga haldið sem vel er gert skal hér vakin athygli á nýung í kynningu á lagafrumvörpum sem eru í vinnslu í ráðuneytunum. En nýverið var opnuð „samráðsgátt“ á heimasíðu stjórnarráðsins, þar sem kynnt eru stjórnarfrumvörp sem eru í undirbúningi og til stendur að leggja fyrir Alþingi. Þar eru einnig kynntar breytingar á reglugerðum sem ráðherrar hyggjast gera. Gegnum þessa samráðsgátt er hægt að senda inn athugasemdir og hugmyndir, sem gætu ratað inní frumvörpin þegar þau verða lögð fram í endanlegri mynd. Ástæða er til að þakka þetta framtak og hvetja fagfélög listafólks til að fylgjast vel með „gáttinni“. Um þessar munir eru þar í kynningu 3 lagafrumvörð sem varða listir og menningu; drög að frumvarpi til breytingar á kvikmyndalögum, frumvarp um skil á menningarverðmætum til annarra landa og frumvarp um sameiginlega umsýslu höfundaréttar. Þá er von á að kynnt verði frumvarp til nýrra sviðslistalaga innan skamms. https://samradsgatt.island.is/

List um allt land
Leiklistarhátíðin ACT ALONE og BÍL leiddu saman hesta sína í ágúst og héldu málþing um atvinnutækifæri listamanna utan höfuðborgarinnar. Málþingið var haldið í tengslum við hátíðina sem fram fór á Suðureyri við Súgandafjörð föstudaginn. Frummælendur voru þau Jón Páll Eyjólfsson leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar, Karna Sigurðardóttir forstöðumaður​ Menningarstofu Fjarðabyggðar og Einar Þór Gunnlaugsson leikstjóri. Þá var boðið upp á pallborðsumræður um inntak málþingsins, þar tóku þátt Teitur Björn Einarsson alþingismaður og Elfar Logi Hannesson leikari og stjórnandi hátíðarinnar Act Alone. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar Gísli H. Halldórsson setti málþingið og forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir var fundarstjóri. Segja má að málþingið hafi heppnast vel og fékk það talsverða umfjöllun í landsbyggðatengdum fjölmiðlum, en erfiðara var að vekja áhuga annarra fjölmiðla. Ástæður þess kunna að vera skortur á skilningi á mikilvægi þess að listir á atvinnugrundvelli fái þrifist utan höfuðborgarsvæðisins, en eitt af mikilvægum verkefnum BÍL er að freista þess að vekja áhuga fjölmiðla á málefnum listanna í víðum skilningi.

Úr kynningartexta málþingsins: Þegar fjallað er um atvinnulífið í opinberum skýrslum eða rannsóknum félagsvísindanna koma oftar en ekki í ljós veikleikar sem flestir virðast sammála um að þurfi að lagfæra. Meðal þeirra er áberandi einhæfni atvinnulífsins, sérstaklega á dreifbýlli svæðum, og lögð er áhersla á mikilvægi þess að aukið verði við fjölbreytnina, enda almennt talið að kraftmikið og fjölbreytt atvinnulíf sé grundvöllur þess að ungt fólk vilji setjast að á landsbyggðinni. En viðleitni stjórnvalda til að hafa áhrif á kraftinn og fjölbreytnina í atvinnulífinu hefur ekki skilað ásættanlegum árangri fram til þessa. Ýmsar leiðir til úrbóta hafa verið kannaðar og undanfarið hefur mátt greina sameiginlegar áherslur stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, þar sem horft hefur verið til möguleika nýsköpunar, rannsókna og þróunar. Í því sambandi er oftar en ekki vísað til þess geira atvinnulífsins sem kallaður hefur verið „skapandi greinar“. Listamenn hafa staldrað við framsetningu stjórnvalda á hugmyndum um eflingu „skapandi greina“ og telja oft á tíðum óljóst hvort listir tilheyri því mengi sem þar er vísað til, enda virðist áherslan oft vera á framleiðslu eða þjónustu sem andlag viðskipta.

Lifað af listinni – málþing um höfundarréttarstefnu
BÍL gekkst fyrir þriðja málþinginu um höfundarrétt, í samstarfi við Höfundaréttarráð, STEF, RSÍ, IHM og Myndstef, og var í þetta sinn fjallað um þörfina á opinberri stefnu í málefnum höfundarréttar. Málþingið var haldið í Norræna húsinu 22. september og var fundarstjóri Rán Tryggvadóttir formaður Höfundaréttarráðs. Kveikjan að málþinginu var sú að haustið 2014 skipaði ráðherra iðnaðar- og viðskipta starfshóp sem fékk það verkefni að móta framtíðarsýn um hugverkaréttindi á Íslandi. Hópurinn skilaði tillögu að fullbúinni stefnu um hugverkaréttindi og var hún gefin út í júní 2016 sem opinber Hugverkastefna 2016-2022 undir heitinu „Hugverkaréttindi sem verðmæti og viðskiptatæki“.

Það er mat Höfundaréttarráðs og samstarfshóps höfundarréttarsamtaka að nauðsynlegt sé að halda áfram á þessari braut og hefja vinnu við að móta svipaða framtíðarsýn um höfundarétt. Fyrirkomulag málþingsins var þannig að haldin voru tvö innlegg um grundvallaratriði höfundaréttarstefnu og leitað rökstuðnings fyrir mikilvægi slíkrar stefnu, auk þess sem kynnt var vinnan við hugverkastefnuna. Síðan var boðið upp á vinnu í hópum, þar sem þátttakendur skiptu sér á borð eftir listgreinum og gafst kostur á að setja sitt mark á væntanlega stefnu, bæta við rökstuðningi og sjónarmiðum. Markmiðið var að málþingið skilaði efniviði sem Höfundaréttarráð gæti byggt á endanlega tillögu að Höfundaréttarstefnu 2018 – 2024. Greinargerð málþingsins, sem m.a. hefur að geyma efniviðinn sem varð til í hópavinnunni, var sendi mennta- og menningarmálaráðuneytinu í lok nóvember og er aðgengileg á vefsíðu BÍL.

Staða fagfélaga listafólks innan BHM
Í maí hafði stjórn BÍL frumkvæði að því að haldinn var fundur með formanni og framkvæmdastjóra BHM um stöðu fagfélaga listafólks innan samtakanna. Þær Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM og Erna Guðmundsdóttur framkvæmdastjóri upplýstu fundarmenn um að staða félaganna innan BHM væri nokkuð mismunandi, að hluta til vegna þess að sum félögin hafa átt aðild að BHM lengur en önnur, en mikilvægt væri að hefja vinnu við að jafna þessa stöðu með einhverju móti. Áhugi var meðal félaganna að halda þessari umræðu áfram og kanna þá hvort mögulegt væri að félögin fengju til liðs ráðgjafa til leiðsagnar, sem launaður yrði gegnum starfsþróunasetur BHM. Könnun á því er ekki lokið og óvíst hvernig mál þróast, en þó er mikilvægt að finna áhuga hjá forystu BHM á því að styrkja stöðu fagfélaga listafólks innan heildarsamtaka háskólamenntaðs launafólks.

BÍL og utanríkismálin
BÍL á ekki í miklu beinu erlendu samstarfi ef undan er skilið samstarfið við norrænu systursamtökin: Dansk Kunstnerråd, KLYS í Svíþjóð, Kunstnernettverket í Noregi, Forum Artis í Finnlandi, Lisa í Færeyjum, Sámi Dáiddárráðði í Samalandi og Grønlandsk Kunstnerråd. BÍL átti aðild að ECA – European Council of Artists, sem voru samtök sem stofnuð voru 1995 fyrir danskt frumkvæði, en smám saman dvínaði þörfin fyrir það samstarf og endaði með því að þau voru formlega lögð niður á síðasta ári. Forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir var forseti samtakanna síðustu árin eða frá 2011.

Þau málefni lista og menningar er helst varða erlent samstarf og utanríkismál tengjast starfi Íslandsstofu og kynningarmiðstöðvum lista og hönnunar. Frá því Íslandsstofa var stofnuð og stofnuð fagráð innan hennar hefur BÍL átt fulltrúa í fagráði um listir og skapandi greinar. Starf fagráðanna hefur þróast talsvert og smám saman opnast samstarfsmöguleikar við önnur fagráð, ekki síst fagráð ferðaþjónustunnar. Nú stendur til að breyta lögunum um Íslandsstofu og skv. frumvarpi sem hefur verið til kynningar á heimasíðu utanríkisráðuneytis verða fagráðin lögð niður. Það hefur ekki lagst vel í forstöðumen kynningarmiðstöðvanna sem eru hryggjarstykkið í fagráði lista og skapandi greina. Á fundi forseta BÍL með utanríkisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni um miðjan janúar sl. voru áhyggjur geirans af þessum breytingum reifaðar. Þar var lögð áhersla á hlut listanna í ímynd Íslands og þann veigamikla þátt sem þær leika sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Í fagráði lista og skapandi greina koma saman þeir aðilar sem skipuleggja þátttöku íslenskra listamanna og hönnuða í hátíðum, messum og kaupstefnum lista- og menningargeirans, innan lands sem utan. Einnig sitja í fagráðinu fulltrúar þriggja ráðuneyta sem koma að málefnum lista og menningar (utn, mrn og anr). Þannig hefur fagráðið um átta ára skeið greitt fyrir samstarfi listageirans og opinberra aðila, enda fundar það reglulega og er upplýst um starfsáætlanir kynningarmiðstöðvanna, sem tryggir að stuðningur Íslandsstofu við kynningu lista og menningar á erlendri grund er á forsendum miðstöðanna, sem enda búa yfir sérfræðikunnáttu og fagþekkingu geirans. Það er mat stjórnar BÍL að uppbygging fagráða Íslandssofu sé enn í mótun og þurfi lengri tíma til að festast í sessi. Stjórnin leyfði sér því á fundinum með ráðherra að vara við áformum um að leggja fagráðin niður og hvatti þess í stað til að samtal list- og menningargeirans við fulltrúa stjórnvalda yrði eflt enn frekar t.d. með því að stofna á ný embætti menningarfulltrúa utanríkisráðuneytisins, en slík staða er ekki skilgreind innan ráðuneytisins um þessar mundir. Þá hvatti stjórn BÍL ráðherra til að leggjast á sveif með kynningarmistöðvunum, efla fjárhagsgrundvöll þeirra og gera þær að virkari þátttakanda í utanríkisstefnu stjórnvalda.

Kínversk sendinefnd á ný
Sumarið 2016 tók BÍL á móti opinberri sendinefnd kínverskra listamanna undir hatti CFLAC – China Federation of Literary and Art Circles. BÍL bauð til fundar í Iðnó þar sem ræddir voru möguleikar á auknum samskiptum listamanna frá þessum löndum, en eins og kunnugt er þá er mikill áhugi á Íslandi í Kína og fjöldi kínverskra ferðamanna hér vex hratt. Nú hefur borist nýtt erindi frá CFLAC, sem hyggst koma með sendinefnd til Íslands í júní og býður m.a. til tónleika í Hörpu. Þess hefur verið óskað að BÍL hitti sendinefndina og að undirrituð verði viljayfirlýsing um frekara samstarf. Ekki er ólíklegt að ítrekuð verði ósk um þátttöku Íslands í listahátíð í Kína 2019, 11th China International Folk Arts Festival (eða einhverri annarri sambærilegri hátíð) og boð til forseta BÍL um að heimsækja Kína. Slíkt boð var þegið 2016, en með þeim fyrirvara þó að tækist að fjármagna slíka ferð.

BÍL 90 ára
Bandalag íslenskra listamanna á 90 ára afmæli í ár 2018, það var stofnað 6. september 1928 og er elsta starfandi listamannasamband á norðurlöndunum. Stjórn BÍL hefur reifað hugmyndir að viðburðum af þessu tilefni, m.a. þá hugmynd að halda „Listamannaþing“ í anda hins sögufræga þings sem BÍL hélt síðla í nóvember 1942. Það stóð í 8 daga og afgreiddi, með afar vönduðum hætti, fjölda harðorðra ályktana um stöðu og starfskjör listamanna. Blöðin fjölluðu í löngu máli um ályktanirnar og var sérstaklega fjallað um hversu litla virðingu ríkisstjórnin sýndi þinginu, með því að einungis einn ráðherra var viðstaddur setningu þess, það var menntamálaráðherra. Í þessu sambandi hefur stjórn BÍL rætt mögulega skráningu sögu Bandalagsins í tilefni afmælisins, sem mögulega væri hægt að framkvæma í áföngum á næstu 10 árum, þannig að hún teldist fullbúin á 100 ára afmælinu. Slíka sagnaritun mætti vinna með ýmsum hætti, t.d. með því að hugsa hana sem vefútgáfu, sem hægt væri að prjóna við eftir því sem fjármunir og starfskraftar leyfa. Þá hefur einnig verið orðað hvort BÍL geti með einhverjum hætti tengt 90 ára afmælið við hátíðarhöldin í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands, sem standa munu allt árið.

Harpa
Af öðrum málum sem BÍL sinnti á starfsárinu má nefna málefni Hörpu, en í Listráði Hörpu sitja formenn allra fjögurra fagfélaga tónlistarmanna auk Ásmundar Jónssonar sem er fulltrúi BÍL og formaður ráðsins. Innan ráðsins hefur verið kallað eftir því að skerpt verði á hlutverki þess, það virkjað betur og fái meira að segja um fyrirkomulag starfsemi tónlistarhússins. Snemma árs kom nýr forstjóri til starfa í Hörpu, Svanhildur Konráðsdóttir, og í júní funduðu forseti BÍL og fulltrúi BÍL í listráðinu með henni til að freista þess að koma hreyfingu á stefnumótunarvinnu og setningu starfsreglna fyrir listráðið. Til að hreyfa þessum málum þarf atbeina stjórnar Hörpu, en þar hafa verið nokkuð tíð mannaskipti og á endanum var talið ráðlegt að bíða með fundahöld þar til ljóst yrði hvernig ný ríkisstjórn myndi skipa málum varðandi Hörpu, bæði hvað varðar stjórnarmenn en ekki síður varðandi rekstrargrundvöllinn. Á fjárlögum 2018 voru gerðar ráðstafanir til að rétta fjárhagsstöðu Hörpu að einhverju marki og raunar var einnig bætt við framlagið 2017, í heildina nam viðbótin 2 x 243 milljónum króna. Það má sjá á ummælum meiri hluta fjárlaganefndar í nefndaráliti með fjárlögum 2018 að aukið framlag er ekki óumdeilt, þar segir:

Framlög til menningarmála hafa á undanförnum árum aukist nokkuð. Í fjárlagafrumvarpinu er til að mynda veruleg hækkun á framlagi til Hörpu í Reykjavík sem er mikilvæg menningarbygging. Það er álit meiri hlutans að rýna verði rekstur hússins og mögulega endurskoða tekjugrunn. Á það er bent að meðan framlög hækka jafn ríflega og raunin er, þá er á sama tíma ekki það sama um menningarmál annars staðar á landinu að segja. Við ákvörðun um byggingu Hörpu var horft til eflingar á menningarlífi víða um land og ætlunin var að styðja við menningarhús eða -sali. Vegna efnahagshruns var þeim áætlunum slegið á frest. Því er mikilvægt að mennta- og menningarmálaráðherra marki stefnu um framtíð þeirra áætlana. Enn hefur ekki verið lokið við menningarsali eða hús á Sauðárkróki, Egilsstöðum og Selfossi. Víðar voru áætlanir um stuðning við minni áform. Það er því eindreginn vilji meiri hlutans að samhliða stórhækkuðum framlögum til Hörpu verði tekin ákvörðun um framtíð þessara áforma.

Varðandi áformaðan fund formanns listráðs Hörpu og forseta BÍL með stjórnarformanni og forstjóra Hörpu, þá er hann enn á dagskránni en hefur ekki verið dagsettur.

Ný stefna RÚV, Iðnó og meiri Lennon
BÍL hefur gegnum tíðina litið á Ríkisútvarpið sem eina af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og hafa þau sjónarmið m.a. komið fram í umsögn BÍL um fjárlög, en einnig hefur stjórn BÍL fundað reglulega með útvarpsstjóra og hans nánasta samstarfsfólki um menningarhlutverk RÚV og skyldur þess við listirnar í landinu. Í maí sl. var kynnt ný stefna RÚV „RÚV okkar allra – Til framtíðar“ og á grunni hennar aðgerðaáætlun. Opinn kynningarfundur var haldinn og stefnunni dreift á vef RÚV. Þegar líða tók á árið mat stjórn BÍL það svo að fresta bæri árlegum samráðsfundi með útvarpsstjóra í ljósi þess að treglega hefur gengið í samningamálum Ríkisútvarpsins og fagfélaga listafólks, en stjórn BÍL hefur einungis haft sjónarmið um stóru drættina í stefnu RÚV en gætt þess að blanda sér ekki með beinum hætti í þætti er varða kaup og kjör listamanna eða samningsmarkmið fagfélaganna. BÍL bíður því átekta með samráðsfund þar til ljóst verður hvort úr samningamálum rætist.

Þann 1. október var skipt um rekstraraðila í Iðnó og kvaddi stjórn BÍL Möggu Rósu af alúð og þakkaði henni áralangt samstarf, góðan stuðning og endalaust dekur við stjórn og forseta. Óhjákvæmilega verða einhverjar breytingar með nýjum rekstraraðilum, sem eru Gómsætt ehf, þeir sömu og reka Bergsson Mathús. BÍL væntir góðs af samstarfinu við nýja rekstraraðila og hafa þeir lýst vilja til að hýsa áfram stjórnarfundi BÍL og aðalfund, en rýmið sem BÍL hafði til umráða í risinu hefur verið sett undir annað. Því hafa Þjóðskjalasafni verið afhent þau gögn sem þar höfðu safnast fyrir síðustu árin og bíður það fræðimanna framtíðarinnar að fara í gegnum söguna sem þar hefur verið komið fyrir.

Oft koma góðar hugmyndir upp á fundum stjórnar BÍL sem eru þess virði að þeim sé haldið vakandi. Ein slík kom inn á borð stjórnar frá áhugsömum Lennon-aðdáanda, sem vill hvetja BÍL til að beita sér fyrir því að friðarsúla Yoko Ono í Viðey verði betur nýtt, en nú er gert, bæði í þágu lista og menningar en líka sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Slíkt mætti t.d. gera með því að kynna hugmyndirnar að baki friðarsúlunni og störf Yoko og Johns að friðarmálum fyrir áhugasömum Íslendingum á öllum aldri, en einnig mætti nýta hana sem vettvang til að fjalla um framlag þessara merku listamanna Yoko og Johns til heimsmenningarinnar. Hugmyndinni hefur verið komið á framfæri við nýjan sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur Örnu Schram og Guðbrand Benediktsson forstöðumann Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem hefur yfirumsjón með allri starfsemi í Viðey, en það bíður nýs forseta að fylgja henni eftir á þeim vettvangi.

Lokaorð
Nú er komið að tímamótum hjá þeim forseta sem þetta ritar, því eftir átta ára starf í þágu BÍL skal nú þakkað fyrir sig og haldið á önnur mið, en baráttumálin á vettvangi BÍL verða þau sömu:

  • Sjálfstætt menningarmálaráðuneyti – öflugur talsmaður lista og menningar í ríkisstjórn.
  • Listamannalaun – áætlun um fjölgun mánaðarlauna og hækkun mánaðargreiðslna.
  • Menningartölfræði – regluleg skráning upplýsinga um hlut lista og skapandi greina í atvinnulífi og framlagi greinanna til þróunar efnahagslífsins, með sambærilegum hætti og aðrar atvinnugreinar eru skráðar.
  • Menningarstefna – aðgerðaáætlun á grundvelli menningarstefnu með tímasettum markmiðum.
  • Listaháskóli Íslands –fullfjármögnuð starfsemi skólans og bindandi áætlun um hvar og hvernig hann verður byggður upp til frambúðar.
  • Listmenntun – alvöru átak verði gert til að auka hlut listmenntunar í skólakerfinu, stefnumótun varðandi grunn- og framhaldsnám í listgreinunum, verkefnið „list fyrir alla“ vaxi og dafni.
  • Rannsóknir í listum – viðurkenna hlut rannsókna í listum, efla hlut þeirra innan Vísinda- og tækniráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar og fjármagna rannsóknarþátt Listaháskólans til jafns við aðra háskóla.
  • Miðstöðvar lista og skapandi greina – stofna sviðslistamiðstöð og vinna langtímaáætlun um kynningu á listum og skapandi greinum utan landssteinanna í samstarfi við miðstöðvarnar, tryggja rekstargrundvöll þeirra og styrkja rödd þeirra innan utanríkisþjónustunnar.
  • Starfsumhverfi listamanna – fjölgun atvinnutækifæra listamanna, öflugri menningarstofnanir og skattprósenta á greiðslum til rétthafa fylgi skattprósentu fjármagnstekna.
  • Menningarsamningar við landshlutasamtök – koma samningunum aftur undir stjórnsýslu menningarmála og byggja upp raunhæf atvinnutækifæri fyrir listafólk á landsbyggðinni.
  • Fagleg úthlutun fjármuna til lista og menningar – á grundvelli samninga og sjóða þar sem faglega skipaðar úthlutunarnefndir gera tillögur um úthlutun á grunni jafningjamats.