Yfirlýsing Bandalags íslenskra listamanna
vegna opinberrar heimsóknar Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína til Íslands,
20. apríl, 2012.

Vegna opinberrar heimsóknar Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína hingað til lands vill Bandalag íslenskra listamanna vekja athygli á víðtækum mannréttindabrotum kínverskra stjórnvalda.
Bandalagið leggur áherslu á manngildi, tjáningarfrelsi og upplýsta umræðu um mannréttindi.
Bein og náin stjórnmálasamskipti við Kína kalla á aukna ábyrgð í baráttunni fyrir lýðfrelsi, tjáningarfrelsi og almennum mannréttindum.
Ástand mannréttindamála er bágborið í Kína. Þungir dómar eru kveðnir upp yfir andófsmönnum. Leiðtogar stjórnarandstæðinga hverfa sportlaust. Í kínverskri stjórnsýslu kemur til tals að löggilda slík mannshvörf. Aðstæður mannréttindasamtaka sem starfa innan Kína fara stöðugt versnandi. Trúarofsóknir og kúgun kínverskra stjórnvalda í Tíbet er viðvarandi ástand.
Kínverskir listamenn eru meðal þeirra sem ógnað er vegna skoðana sinna og listsköpunar. Bandalag íslenskra listamanna lýsir yfir stuðningi við baráttu kínverskra listamanna fyrir mannréttindum og tjáningarfrelsi og sendir Wen Jiabao forsætisráðherra Kína ákall fyrir þeirra hönd.
Jafnframt hvetur Bandalagið íslenska ráðamenn til að gera mannréttindamál að mikilvægu fundarefni með gestum sínum.
Nýta ber tækifærið sem felst í þessari heimsókn til að setja mannréttindi í sviðsljósið.
Bandalag íslenskra listamanna hvetur alla landsmenn til að láta skoðanir sínar á mannréttindabrotum í Kína í ljós á friðsaman og sýnilegan hátt .

Með kveðjum í þágu tjáningarfrelsis,
Bandalag íslenskra listamanna