Í dag 27.mars, eru 65 ár liðin frá því að fimm konur komu saman á heimili Ástu Norðmann til þess að stofna Félag íslenskra listdansara (FÍLD). Ásta var fyrsti formaður félagsins en auk hennar voru stofnfélagar þær Sigríður Ármann, Sif Þórz, Rigmor Hansen og Elly Þorláksson. Þær höfðu allar numið dans erlendis og voru að hasla sér völl í íslensku listalífi. Fyrsta baráttumál félagsins var viðurkenning danslistarinnnar sem sjálfstæðrar og marktækar listgreinar en tilhneigingin var að flokka hana sem hliðargrein af leiklistinni.

Á aðalfundi FÍLD í febrúar síðastliðnum var Ingibjörg Björnsdóttir útnefnd heiðurfélagi Félags íslenskra listdansara fyrir starf sitt í þágu danslistarinnar á Íslandi. Ingibjörg hefur um árabil verið óþrjótandi í sínu starfi í íslenskum dansheimi en hún var um árabil skólastjóri Listdansskóla Þjóðleikhússins – síðar Listdansskóla Íslands. Ingibjörg var formaður FÍLD 1966-70, stjórnarmaður til margra ára og núverandi formaður í Íslenska dansfræðafélaginu, sat í stjórn norræna dansfræðifélagsins NOFOD og í stjórn Norræna leiklistar og danssambandsins en síðastliðin ár hefur hún verið að rita sögu íslensks listdans. Auk Ingibjargar eru heiðursfélagar frá upphafi Ásta Norðmann, Sigríður Ármann og Sif Þórz. Þess má til gamans geta að skömmu eftir útnefningu Ingibjargar sem heiðursfélaga FÍLD voru henni veitt heiðursverðlaun menningarverðlauna DV fyrir starf sitt að listdansi hér á landi.

Listdanskennsla hefur verið eitt margra baráttumála FÍLD í gegnum tíðina en félagið rak á árum áður sinn eigin skóla. Þannig lagði félagið grunn að öflugri listdanskennslu og í dag eru fjölmargir metnaðarfullir skólar starfandi með sívaxandi nemendafjölda. Í Listaháskóla Íslands eigum við einnig unga en frjóa dansdeild og hefur námið og þeir nemendur sem útskrifast hafa úr því reynst mikil innspýting í dansflóruna á Íslandi.

Danssamfélagið dreymdi um að eignast dansflokk og árið 1973 var Íslenski dansflokkurinn stofnaður undir hatti Þjóðleikhússins, mikið til fyrir velvilja þáverandi Þjóðleikhússtjóra Sveins Einarssonar og forseta Bandalags íslenskra listamanna Hannesar Kr. Davíðssonar auk fjölmargra annara. Í dag er dansflokkurinn öflugur flokkur með sterkum dönsurum og gott alþjóðlegt orðspor eftir fjölmargar sýningarferðir erlendis.

Á síðustu árum hefur svo orðið mikil sprenging í starfsemi sjálfstætt starfandi dansara og danshöfunda ekki síst með tilkomu Reykjavík Dance Festival og Dansverkstæðisins, sem er vinnustofur danshöfunda í borginni. Það er ljóst að þannig aðstaða skiptir sköpum fyrir framþróun danslistarinnar hér á landi og mikilvægt fyrir yfirvöld bæði ríki og borg að styðja vel við framtakið.

Félagar í FÍLD tóku sig saman á vormánuðum 2010 og fóru í mikla stefnumótunarvinnu sem skilaði sér í Dansstefnunni 10/20 sem er framtíðarsýn félagsmanna á það hvernig við viljum sjá danssamfélagið þróast næstu árin. FÍLD hefur dreymt stórt á líftíma sínum og margir draumanna hafa þegar ræst. Stjórn félagsins mun áfram vinna að því að draumar okkar um öflugt danslíf rætist og að sú sýn sem birtist í Dansstefnunni verði að veruleika. Í Dansstefnunni er stóri draumurinn: Danshús – Miðstöð fyrir samtímadans á Íslandi. Í Danshúsi gætu unnið saman Íslenski dansflokkurinn, sjálfstætt starfandi danshöfundar, kynningarmiðstöð dansins, dansbókasafn, Black-box leikhús fyrir minni sýningar og þannig mætti lengi telja. Slík miðstöð yrði mikill suðupottur fyrir dansinn og gríðarleg lyftistöng fyrir listgreinina. Við eigum dansara og danshöfunda á heimsmælikvarða og ef greinin fær viðeigandi stuðning er óhætt að segja að framtíðin sé björt fyrir dansinn á Íslandi.

Guðmundur Helgason
formaður FÍLD – Félags íslenskra dansara