Á stjórnarfundi BÍL í gær var ákveðið að óska eftir sundurliðun úthlutunar listamannalauna 2010. Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir stjórn BÍL að fylgjast með því að áform um bætt kjör listamanna gangi eftir.

Nú er lokið fyrstu úthlutun listamannalauna skv. nýjum lögum um listamannalaun nr. 57/2009. Í yfirlýsingu menntamálaráðherra, þegar málinu var fylgt úr hlaði á Alþingi 12. mars 2009, kom skýrt fram með hvaða hætti nýju lögin ættu að bæta hag listamanna, bæði með fjölgun sjóða og fjölgun mánaða sem væru til ráðstöfunar. Í umræðum um fjárlög 2010 á Alþingi kom fram að þrátt fyrir niðurskurð til flestra þátta mennta og menningar, ætluðu stjórnvöld sér að standa vörð um fyrirheitin sem gefin voru með breytingum á lögunum um listamannalaun. Í ræðu ráðherrans kom fram að meiningin hafi verið að fjölga mánaðarlaunum um 145 við úthlutun 2010, þ.e. úr 1200 í 1345. Einnig að kostnaðarauki af breytingunni væri áætlaður 38,7 milljónir árið 2010.

Í ljósi hlutverks Bandalag íslenskra listamanna, sem annast sameiginlega hagsmuni fagfélaga listamanna, hefur verið óskað eftir því við stjórn listamannalauna að hún láti BÍL í té sundurliðun sem sýni fjölda mánaðarlauna í úthlutuninni. Til að hægt sé að fylgjast með því að áform stjórnvalda gangi eftir er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um fjölda mánaðarlauna sem sótt var um og fjölda úthlutaðra mánaða, sundurliðað eftir sjóðum. Varðandi sviðslistasjóðinn, þá er nausynlegt að fyrir liggi upplýsingar um fjölda mánaðarlauna sem sótt var um til sviðslistahópa og fjölda úthlutaðra mánaða sem úthlutað var til hópanna.

Fyrir þá sem vilja kynna sér vilja stjórnvalda með breytingu laganna, þá er ræða menntamálaráðherra aðgengileg á vef Alþingis.