10. febúar 2010 áttu fulltrúar stjórnar Bandalags íslenskra listamanna fund með fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni og aðstoðarmanni hans Indriða H. Þorlákssyni. Hér fylgir yfirlit yfir þau atriði sem rædd voru:

 

Skattlagning tekna af endurleigu hugverka taki mið af skattlagningu eignatekna

BÍL hefur um árabil lagt áherslu á að skattlagning tekna sem fást fyrir /endurleigu/endurflutning hugverka taki mið af skattlagningu eignatekna. 21. maí 2008 svaraði þáverandi fjármálaráðherra fyrirspurn á Alþingi um þessa hugmynd og sagði að starfshópur væri starfandi innan ráðuneytisins sem hefði málið til skoðunar. Þá var niðurstöðu hópsins að vænta í júní 2008

 

Viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra verði breytt til samræmis við listamannalaun

Samkvæmt viðmiðunarreglum ríksskattstjóra er lágmark reiknaðs endurgjalds fyrir fullt starf kr. 414.000.- á mánuði, eða kr. 4.968.000.- Þetta stangast á við upphæð listamannalauna úr opinberu listasjóðunum en úr þeim fá listamenn kr. 266.737.- á mánuði skv. lögum um listamannalaun.

 

Sjálfstætt starfandi listamönnum verði gert kleift að sækja um atvinnuleysisbætur

Reglur um atvinnuleysistryggingar kveða á um að þeir aðilar sem greiða tryggingargjald eigi rétt á atvinnuleysisbótum, þ.m.t. listamenn skv. breytingum laga frá 2008. Sá hængur er þó á að eins og nú er háttað þá er sjálfstætt starfandi einstaklingum gert að „hætta rekstri“ og skila inn virðisaukaskattnúmeri ef þeir hafa þegið bætur lengur en þrjá mánuði. Listamenn geta eðli máls samkvæmt hvorki hætt rekstri né skilað inn virðisaukaskattsnúmeri og eru því ekki gjaldgengir til atvinnuleysisbóta.

 

Niðurskurður til kvikmyndagerðar

Samkvæmt fjárlögum 2010 hefur verið ákveðið að efna ekki samning menntamálaráðherra og Íslenskrar kvikmyndamiðstöðvar um opinber framlög til kvikmyndalistarinnar. Þessi ákvörðun heggur svo nærri listgreininni að líklegt er að hún laskist til langframa auk þess sem ætla má að á annað hundrað einstaklingar lendi á atvinnuleysisbótum fyrir vikið. Þegar við bætist yfirlýsing útvarpsstjóra um að stórlega skuli dregið úr kaupum á innlendu sjónvarpsefni af sjálfstæðum framleiðendum er ljóst að markmið beggja ríkisstjórnarflokkanna varðandi RÚV eru brotin.

 

Niðurskurður til sjóða er fjármagna listastarfsemi

Kallað er eftir því að hinar skapandi greinar leiki veigamikið hlutverk við endurreisn íslensks samfélags eftir efnahagshrun. Sé það ásetningur stjórnvalda verður að leiðrétta þá stefnu sem fram kemur í fjárlögum 2010, að stofnunum sé hlíft á sama tíma og viðkvæmri starfsemi sjálfstætt starfandi listamanna er ógnað með niðurskurði á sjóðum sem styðja við starfsemi þeirra.

Fundurinn stóð í 45 mínútur og virtust ráðherrann og aðstoðarmaður hans meðtaka sjónarmið BÍL, en hver árangur fundarins verður kemur í ljós á næstunni, þegar erindunum verður fylgt eftir og spurst fyrir um afdrif þeirra.