Stjórn BÍL hefur sent allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis svohljóðandi umsögn við 101. þingmál:

Bandalag íslenskra listamanna hefur fengið til umsagnar 101. þingmál á 146. löggjafarþingi, frumvarp um breytingu á 95. grein almennra hegningarlaga, sem fjallar um viðurlög við móðgun við erlenda þjóðhöfðingja, smánun þjóðartákna á borð við fána og eignaspjöll á sendiráðum og lóðum þeirra.

BÍL eru heildarsamtök íslenskra listamanna og sem slík eiga þau aðild að alþjóðlegu samtökunum ARTSFEX, sem helga sig baráttunni fyrir tjáningarfrelsi listamanna um heim allan. Þó vestrænar þjóðir gætu talið slíka baráttu léttvæga eða jafnvel óþarfa, þá er raunin sú að þörfin hefur sjaldan verið jafn mikilvæg.

Í ljósi þess að BÍL er málsvari tjáningarfrelsis er það mat stjórnar BÍL að Alþingi beri að samþykkja tillögu þá sem hér er til umfjöllunar.

Rökstuðningurinn kemur skilmerkilega fram í greinargerð tillögunnar og vega þar þyngst eftirfarandi rök:

  • Sýnileg tilhneiging stjórnvalda víða um heim til að þrengja að tjáningarfrelsinu, m.a. dæmið um Jan Böhmermann sem þýsk stjórnvöld heimiluðu að yrði sóttur til saka fyrir að flytja háðsádeilu um Tyrklandsforseta í þýsku sjónvarpi.
  • Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Le Monde um að vernd af þessu tagi sé ónauðsynleg í lýðræðisríkjum.
  • Dómarnir tveir sem íslenskir rithöfundar Þórbergur Þórðarson og Steinn Steinarr hlutu á sínum tíma á grundvelli lagagreinarinnar.
  • Eignir sendiráða á Íslandi eru varðar að lögum þó 95. grein almennra hegningarlaga verði felld úr lögunum.