13. desember 2010 Stjórn BÍL hefur gert athugasemdir við frumvarp til laga um virðisaukaskatt sem nú liggur fyrir Alþingi. Eftirfarandi umsögn hefur verið send efnahags- og skattanefnd Alþingis:

 

Umsögn um 208. mál 139. löggjafarþings – Frv. til laga um virðisaukaskatt

Bandalag íslenskra listamanna – BÍL hefur fengið til umsagnar 208. mál á dagskrá 139. löggjafarþings frumvarp til laga um virðisaukaskatt. Beðist er velvirðingar á því að ekki skyldi nást að senda umsögnina innan tilskilins frests (10.12.10), vonandi nær umsögnin eyrum þingmanna í efnahags- og skattanefnd áður en málið verður afgreitt frá nefndinni, enda um mikilvæga hagsmuni listamanna og handverksfólks að ræða.

 

Skattkerfið endurskoðað

BÍL hefur tekið þátt í vinnu við endurskoðun skattkerfisins, með því að við eigum fulltrúa í samráðsnefnd starfshóps sem fjármálaráðherra skipaði þ. 23. apríl 2010. Starfshópurinn fékk það hlutverk að móta og setja fram heildstæðar tillögur um breytingar og umbætur á skattkerfinu í framhaldi af breytingum sem gerðar voru á skattalöggjöfinni á árinu 2009, en sér til ráðgjafar hefur hópurinn fyrrnefnda samráðsnefnd þar sem BÍL á fulltrúa. Hópurinn skilaði áfangaskýrslu sl. október, sem lýsir fyrri áfanga vinnunnar. Þau mál er lúta að sérstöðu listamanna bíða hins vegar síðari áfanga, sem gert er ráð fyrir að fari af stað eftir áramót. Þar er m.a. átt við stöðu listamanna gagnvart ákvæðum laga um virðisaukaskatt. Það kom BÍL því nokkuð á óvart að fjármálaráðherra skyldi mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um virðisaukaskatt, þegar vitað var að starfshópurinn og samráðsnefndin höfðu ekki náð að fjalla um breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Fréttatilkynningu um hlutverk starfshópsins og áfangaskýrslu hans er að finna á hjál. slóð

Á bls. 32 í áfangaskýrslunni segir:

Fljótlega varð ljóst að þær hugmyndir sem fram komu af hálfu samráðsnefndarinnar þyrftu nær allar frekari skoðunar við í nánu samhengi við heildarendurskoðun á skattkerfinu. Þar af leiðandi endurspeglast einstakar hugmyndir samráðsnefndarinnar að breyttri tekjuöflun að takmörkuðu leyti í þeim tillögum sem fram koma í þessari áfangaskýrslu. Því hefur hins vegar verið komið á framfæri við samráðsnefndina að starfshópurinn muni að ræða einstakar hugmyndir nefndarmanna frekar og verður sú umræða stór þáttur í framhaldsstarfi hópsins um heildarendurskoðun á íslenska skattkerfinu.

 

Ófært að tollyfirvöld ákvarði um listrænt gildi

Þau atriði sem listamenn vilja að lagfærð verði í lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 eru eftirfarandi: Undanþágu frá skattskyldu skv. 2.tl. 4.gr laganna verði breytt þannig að hún nái til allra listamanna er selja listmuni og að skilgreiningu tollskrár verði breytt til samræmis við það. Undanþegnir skattskyldu skv. lögunum eru: Listamenn, að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000–9703.0000. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir breytingu á þessum tölulið, en BÍL telur nauðsynlegt að skoða ágallana sem eru á framkvæmd þessa lagaákvæðis.

Þar sem undanþáguheimild ákvæðisins er bundin tollskrárnúmerum, er það í raun í verkahring tollyfirvalda að skilgreina hvað fellur undir undanþáguna og hvað ekki; m.ö.o. fela lögin tollyfirvöldum að ákveða hvað er list/listmunir og hvað ekki. Á yfirstandandi ári hafa listamenn í auknum mæli fengið tilkynningar og/eða heimsóknir frá tollyfirvöldum þar sem þeim hefur verið gert að standa skil á virðisaukaskatti af listmunum sem í skilningi tollyfirvalda „hafa einkenni verslunarvöru“ og falla því ekki undir undanþáguna. Listamenn hafa óskað eftir fresti til að gera upp slíkar kröfur þar sem þessi ákvæði laganna séu í endurskoðun. Það er því mikilvægt að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis breyti 2.tl. 4.gr. laganna þannig að tekin séu af öll tvímæli um hvað heyri undir undanþáguna og hvað ekki.

Skilgreining tollskrár á þeim listaverkum sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 er eftirfarandi:

1. Málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, þó ekki:

A) uppdrættir og teikningar til notkunar í húsagerð, verkfræði, iðnaði,viðskiptum,landslagsfræði eða þess háttar handgerð frumverk;

B) handskrifaður texti;

C) ljósmyndir á ljósnæman pappír;

D) handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir.

2. Klippimyndir og áþekk veggskreytispjöld

3. Frumverk af stungum, þrykki og steinprenti þ.e myndir sem þrykktar eru beint í svörtu og hvítu með einni eða fleir plötum sem listamaðurinn hefur gert að öllu leyti í höndum án tillit til þeirra aðferða eða efnis sem hann notar, þó ekki með neins konar vélrænum eða ljósvélrænum aðferðum.

4. Frumverk af höggmyndum og myndastyttum úr hverskonar efni. Til þessa teljast ekki fjöldaframleiddar endurgerðir af listaverkum eða venjulegar handiðnaðarvörur sem hafa einkenni verslunarvöru. Rammar um málverk, teikningar, pastelmyndir, klippimyndir eða áþekk veggskreytispjöld, stungur, þrykk eða steinprent skoðast sem hluti af þessum vörum enda séu þeir að gerð og verðmæti í eðlilegu samræmi við þær.

 

Vilji mennta- og menningarmálaráðherra

Þ. 14. apríl sl. ritaði mennta- og menningarmálaráðherra bréf til fjármálaráðherra þar sem greint er frá ýmsum álitamálum er varða listamenn og lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Í bréfinu er þess óskaðað fjármálaráðuneytið hafi þessi álitamál í huga við væntanlegar skattkerfisbreytingar. Bréfið hefur verið lagt fram í vinnu fyrrgreinds starfshóps um skattkerfisbreytingar og það fylgir umsögn þessari.

Í bréfinu eru nefnd tvö álitamál er varða 2.tl. 4.gr. laga nr. 50/1988. Annars vegar varðandi skilgreiningu „grunnskrár virðisaukaskatts“ varðandi sölu listamanna á nytjamunum sem hafa einkenni venjulegrar verslunarvöru og hins vegar varðandi aðferð listamanna við að selja listmuni. Í bréfinu er vitnað til úrskurðar yfirskattanefndar, sem gerir ráð fyrir að undanþágan frá skattskyldu sé takmörkuð við þá listamenn sem hafa bein og milliliðalaus persónuleg viðskipti við kaupendur sína. M.ö.o. hún gildi ekki um þá listamenn sem sameinast tveir eða fleiri undir merkjum lögaðila um sölu á nytjalist til almennings.

BÍL gerir það að tillögu sinni að 2. tl. 4.gr. laganna kveði skýrt á um það að undanþágan gildi um alla handunna listmuni framleidda af listamönnum burtséð frá aðferðinni sem notuð er við söluna og að „grunnskrá virðisaukaskatts“ verði breytt til samræmis við það.

Vefjist þessar breytingar fyrir löggjafanum og verði þeim hafnað, sér BÍL ekki aðra leið færa en að skoðaðar verði grundvallarbreytingar varðandi skattlagningu listamanna, sem fælust í því að undanþágan í 2.tl. 4.gr. laga nr. 50/1988 yrði felld niður og listamenn hreinlega settir undir virðisaukaskattskerfið, -þá í lægsta þrepi þ.e. 7%. Slík ákvörðun er þó svo viðurhlutamikil að ómögulegt er að taka hana nema að undangengnu víðtæku samráði aðila. Meðan ekki verður endanlega skorið úr um þessi álitamál leggur BÍL til að löggjafinn hlutist til um að umdeildum kröfum toll- og skattyfirvalda á hendur listamönnum verði frestað þar til fundin er lausn til frambúðar.

 

Gagnast áhugamönnum ekki atvinnufólki

Frumvarpið gerir ráð fyrir breytingu á 3.tl. 4. gr. laganna og að hann orðist svo: Þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir 1.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili frá því að starfsemi hefst.

Þessi breyting er að mati BÍL sjálfsögð sérstaklega þegar horft er til verðlagshækkana sem orðið hafa frá 2006 þegar ákveðið var að krónutalan væri 500.000 kr. Þó verður að hafa hugfast að þessi breyting hefur lítið með listamenn að gera, hún gagnast fyrst og fremst þeim sem selja lítið af skattskyldri vöru. Undir ákvæðið falla þeir sem stunda einhvers konar framleiðslu í tómstundum sínum en það skiptir sáralitlu eða engu máli fyrir listamenn sem eru að reyna að hafa atvinnu af list sinni.

Framkvæmd þessa ákvæðis er með þeim hætti að listamaður, sem framleiðir muni sem ekki falla undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 og selur yfir 500.000 kr. á fyrstu tólf mánuðum sem hann stundar iðju sína, skal sækja um virðisaukaskattsnúmer og eftir að hann hefur fengið það þá greiðir hann 25,5% vsk af allri sinni sölu þar til hann hættir framleiðslu. Það er ekki gert ráð fyrir að listamaður skili inn vsk-númeri sínu í upphafi hvers 12 mánaða tímabils og sæki svo um það aftur þegar 500.000 kr. markinu er náð. Það er mikilvægt að þingmenn átti sig á því að ákvæðið í frumvarpinu er ekki ávísun á einnar milljónar króna undanþegna veltu á ári.

Sambærilegt frítekjumark og í Danmörku

Listamenn hafa bent á mikilvægi þess að þeir sitji við sama borð og listamenn í nágrannalöndum okkar hvað frítekjumark varðar. Í fyrrnefndu bréfi mennta- og menningarmálaráðherra til fjármálaráðherra er getið um þetta atriði og þess óskað að gætt sé samræmis við nágrannalönd okkar. Eftir bestu fáanlegu upplýsingum er dönskum listamönnum heimilt að selja list sína að DKK 300.000 á ári (6 millj. ISK), eftir það er innheimtur 5% virðisaukaskattur. Þar virðist frítekjumarkið virka sem árleg ívilnun, þ.e. að fyrstu 300.000 DKK á ári eru alltaf undanþegnar vsk. Um þetta þyrfti þó að afla áreiðanlegra upplýsinga.

Af framansögðu er ljóst að ákvæði 3.tl. 4.gr. laganna varðar einungis þá aðila sem selja mjög lítið af skattskyldri vöru, en hefur lítið með skattlagningu listaverka/listmuna að gera. Það er ósk BÍL að efnahags- og skattanefnd taki afstöðu til kröfunnar um sex milljóna króna frítekjumark fyrir listamenn og höfunda listmuna, að því gefnu að niðurstaðan verði sú að slík starfsemi verði látin bera virðisaukaskatt. Í því sambandi mætti hugsa sér að listamenn og höfundar listmuna gætu átt val um það hvort þeir heyri undir virðisaukaskattskerfið eða verði undanþegnir því.

 

Ársskil virðisaukaskatts

Breytingin sem frumvarpið gerir ráð fyrir á 7. grein er sjálfsögð en skiptir ekki miklu máli fyrir listamenn sem hafa atvinnu af list sinni.

 

Ójöfn samkeppnisstaða eftir miðlunaraðferð

Í áðurnefndu bréfi mennta- og menningarmálaráðherra frá 14, apríl sl. er vakin athygli fjármálaráðuneytisins á því að lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988 mismuni þeim sem selja tónlist og hljóðbækur til niðurhals. Skv. 14.gr. laganna er almenn vsk-prósenta 25,5% en skv. 10.tl. greinarinnar er gert ráð fyrir lægri skattprósentu á geisladiska, hljómplötur, segulbönd og aðra sambærilega miðla með tónlist en ekki með mynd. Þessi mismunun á sinn þátt í því að sala á tónlist til löglegs niðurhals á erfitt uppdráttar gagnvart ólöglegri dreifingu tónlistar á netinu. Slík mismunun stríðir gegn því markmið menningaryfirvalda að stuðla beri að því að notendur taki löglega kosti fram yfir ólöglega eitakagerð.

BÍL fer þess á leit við efnahags- og skattanefnd að bætt verði við 10.tl. 14.gr. laganna ákvæði um að tónlist og hljóðbækur til niðurhals beri 7% virðisaukaskatt.

 

Lokaorð

Bandalag íslenskra listamanna telur að skynsamlegt hefði verið að bíða með breytingar á lögum um virðisaukaskatt þar til starfshópur sá, sem settur var á laggirnar til að endurskoða skattkerfið, hefði lokið störfum. En úr því farið er af stað með þær breytingar sem liggja fyrir í þingmáli 208 er mikilvægt að skoða sérstaklega þær tillögur sem hér eru settar fram af hálfu forystusveitar listamanna:

• Að undanþágu frá skattskyldu skv. 2.tl. 4.gr laganna verði breytt þannig að hún nái til allra listamanna er selja listmuni og að skilgreiningu tollskrár verði breytt til samræmis við það.

• Að 2. tl. 4.gr. laganna kveði skýrt á um það að undanþágan gildi um alla handunna listmuni framleidda af listamönnum burtséð frá aðferðinni sem notuð er við söluna og að „grunnskrá virðisaukaskatts“ verði breytt til samræmis við það.

• Að bætt verði við 10.tl. 14.gr. laganna ákvæði um að tónlist og hljóðbækur til niðurhals beri 7% virðisaukaskatt.

 

Virðingarfyllst

f.h. Bandalags íslenskra listamanna,

Kolbrún Halldórsdóttir, forseti