Um miðjan desember sendi stjórn BÍL frá sér umsögn um drög að atvinnustefnu Reykjavíkurborgar. Umsögnin fer hér á eftir:

Það er fagnaðarefni að nú skuli mótuð heildstæð stefna um þróun atvinnumála í Reykjavík og Bandalag íslenskra listamanna þakkar tækifærið sem hér gefst til að gefa umsögn um drög að slíkri stefnu, sem bárust BÍL þriðjudaginn 6. desember sl.

Snemma árs 2010 hófst skipulögð vinna við kortlagningu hagrænna áhrifa skapandi greina. Verkefnið var unnið að frumkvæði samráðsvettvangs skapandi greina með stuðningi fimm ráðuneyta auk Íslandsstofu og voru fyrstu tölulegar niðurstöður verkefnisins kynntar 1. desember 2010. Í maí 2011 var svo kynnt endanleg skýrsla verkefnisis. Hún er aðgengileg á vef iðnaðarráðuneytisins: http://www.idnadarraduneyti.is/media/frettir/SkapandiGreinar_2011.pdf

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að skapandi greinar séu burðarstoð í íslensku atvinnulífi, virðisaukaskattskyld velta þeirra sé a.m.k. 189 milljarðar á ári, þær skapi um 10.000 störf og hafi vaxandi þýðingu í útflutningstekjum þjóðarbúsins. Í framhaldi af útgáfu skýrslunnar voru sett af stað tvö verkefni; annað á vegum iðnaðarráðuneytis, sem felur í sér úttekt á stoðkerfi greinanna með það að markmiði að kanna rekstrarskilyrði fyrirtækja og einyrkja í skapandi greinum. Það verkefni er unnið af Rannsóknarstofnun skapandi greina við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hitt verkefnið er á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins, unnið af starfshópi, sem ætlað er að gera tillögur um bætt starfsumhverfi þeirra sem starfa innan skapandi greina, nýta tækifærin sem til staðar eru, auk þess að gera tillögur um efldar rannsóknir, menntun, stefnumótun og útflutning skapandi greina. Skýrsla starfshópsins er væntanleg síðar í þessum mánuði og er hér lagt til að borgaryfirvöld nýti sér skýrsluna við endanlega gerð atvinnustefnu Reykjavíkur.

Bandalag íslenskra listamanna hefur tekið virkan þátt í því ferli sem hér hefur verið rakið og mun í umsögn sinni um drög að atvinnustefnu Reykjavíkur taka mið af niðurstöðum sem þessar rannsóknir hafa leitt í ljós.

Fyrst ber að fagna því að atvinnustefnan skuli eiga að grundvallast á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, sem felur í sér að allar ákvarðanir stjórnvalda skuli byggja á jafnvægi milli þriggja meginstoða; þeirrar efnahagslegu, þeirrar félagslegu og þeirrar umhverfislegu. Þannig er hafnað þróun sem byggir á hefðbundinni auðlindanýtingu, sem veldur álagi á náttúru og umhverfi, en þess í stað horft til þeirra auðlinda sem ekki ganga á gæði náttúrunnar. Þá er gott að geta boðið upp á valkost sem má nýta án nokkurra náttúruspjalla og gengur aldrei til þurrðar, þ.e. hugvit, þekkingu og sköpunarmátt. Með þessa grundvallarþætti að leiðarljósi mun hlutur skapandi greina í atvinnuþróun næstu ára verða mjög veigamikill, eins og raunar yfirskrift atvinnustefnunnar ber með sér „Reykjavík – Skapandi borg“.

Það sem vekur umhugsun í þessu sambandi þegar drögin eru lesin er skortur á skilgreiningum hugtaka á borð við „græna og sjálfbæra borgarþróun“ eða „grænt og skapandi atvinnulíf“. Víða í stefnudrögunum er t.d. talað um „sjálfbæran vöxt“, „sjálfbæran hagvöxt“, „grænan vöxt“, „grænan iðnað“, „sjálfbærar samgöngur“ og „vistvæn innkaup“. Í sömu málsgrein og talað er um „vistvæn innkaup“ er jafnframt sagtað að í „hverju verki [skuli] leita hagkvæmustu lausna hverju sinni“ (bls. 39). Þar er um augljósa mótsögn að ræða þar sem „vistvænar“ lausnir eru í flestum tilfellum dýrari í krónum talið en þær lausnir sem geta skaðað umhverfið. Það verður því að vera alveg ljóst í atvinnustefnu borgarinnar hvað meint er með notkun grundvallandi hugtaka á borð við „sjálfbærni“, „grænt“ og „vistvænt“ annars verða þetta marklaus hugtök sem virðast sett fram sem „grænþvottur“.

Til að koma í veg fyrir ágreining um merkingu hugtaka væri skynsamlegt að fela skrifstofu borgarhagfræðings og fjármálaskrifstofu, í samráði við umhverfissvið, að gera greiningu á efnisinntaki mikilvægra hugtaka samhliða mælikvörðum þeim sem mælt er fyrir um að þessar skrifstofur vinni (bls. 5) og varða framgang markmiða stefnunnar. Eitt af þeim hugtökum sem mikilvægt er að greina skilmerkilega er „endurnýjanleg orka“, ekki síst í ljósi þess að orkumál borgarinnar byggja á nýtingu jarðhita. Það er viðurkennd staðreynd að raforkuframleiðsla með jarðhita er ekki sjálfbær og að nýting jarðvarma á Hengilssvæðinu flokkast undir „ágenga nýtingu“ (sjá kafla um Hengilssvæðið í Rammaáætlun: http://www.rammaaaetlun.is/media/lysingar-kosta/Hengill.pdf) og getur því ekki að óbreyttu talist endurnýjanleg.

Það er einlæg von BÍL að borgaryfirvöld sjái sér hag í því að bæta við skýrsluna texta þar sem tekin eru af öll tvímæli um að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar verði beitt við allar stjórnvaldsákvarðanir í atvinnumálum borgarinnar ekki síst ákvörðunum varðandi orkumál og orkuframleiðslu.

En látum þetta nægja um þætti, sem ekki falla beint undir verksvið Bandalags íslenskra listamanna. BÍL fagnar þeim þunga sem er á hvers konar sköpun og fjölbreytni í stefnudrögunum, einnig því að talsverð áhersla skuli lögð á samstarf við hagsmunaaðila og að unnið skuli þverfaglega að verkefnunum. Það mætti jafnvel auka hinn þverfaglega þátt með því að fela í auknum mæli fleiri en einu stjórnsýslusviði borgarinnar að fjalla sameiginlega um tiltekin mál. Einnig mætti hugsa sér að bætt yrði við skýrsluna kafla um framkvæmd hinnar þverfaglegu nálgunar og einnig um lýðræðislega þáttinn, þ.e. með hvaða hætti almenningur og hagsmunaaðilar verði þátttakendur í ákvörðunum.

Kafli 2.4. Menningarborgin
Textinn „leiðarljós“ 2.4.1 (bls. 15) er mun rýrari að innihaldi en sambærilegur kafli á bls. 53 „Menningarborgin“, þar sem fram kemur að leiðarljós Reykjavíkur í menningarmálum sé að „Reykjavík eflist sem höfuðborg menningar í landinu. Sjálfsmynd borgarinnar byggi á menningararfi, frjórri hugsun og frumkvæði. Menningarlífið einkennist af fjölbreytni og virkri þátttöku íbúa og gesta“. Það er tillaga BÍL að textinn á bls. 53 verði í heild sinni settur sem „leiðarljós“ á bls. 15 og endurtekinn á bls. 53. Þannig er því t.d. háttað varðandi „leiðarljós“ Lífsgæðaborgarinnar 2.7.1 á bls. 21, þar er nokkurn veginn sami textinn og finna má á bls. 54 um Lífsgæðaborgina. Réttast er að samræmis sé gætt að þessu leyti.

Kafli 2.4.2 tl. 1. Hér mætti gjarnan nefna þá staðreynd að flestar öflugustu menningarstofnanir landsmanna er að finna innan borgarmarka höfuðborgarinnar. Það eitt gefur Reykjavík aukin tækfæri fyrir fjölbreytt atvinnulíf á forsendum lista og menningar, m.ö.o. skapandi greina. Það vekur athygli að í kaflanum er ekki heldur getið um lykilstofnanir Reykjavíkurborgar á svið menningar og lista með markvissum hætti, t.d. er hvorki minnst á Borgarleikhús eða Tjarnarbíó, en hafa verður í huga hlutdeild slíkra stofnana í atvinnulegu tilliti og geta þeirra með viðeigandi hætti í kafla sem fjallar um menningarborgina.

Kafli 2.4.2 tl. 2. Hér er fjallað um mögulega samlegð, tengsl og hagræðingu (trúlega fjárhagslega), sem hljótast muni af því „að mynda klasa þar sem aðstaða geti verið samnýtt fyrir skapandi greinar“. Ekki kemur fram textanum við hvað er átt. Er verið að tala um leikhús, gallerí, dansstúdíó og söfn? Eða er mögulega verið að tala um kynningamiðstöðvar listgreina og hönnunar? Ef svo er þá er rétt að segja það berum orðum. Þær miðstöðvar sem um væri að ræða kynnu þá að vera Bókmenntasjóður (Sögueyjan), Hönnunarmiðstöð Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kynningarmiðstöð íslenskrar sviðslista (sem raunar er óstofnuð enn), Kvikmyndamiðstöð, Tónverkamiðstöð og Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar. Milli þessara miðstöðva er þegar talsvert samstarf, flestar þeirra hafa komið sér fyrir í umhverfi sem tengist listgreinunum sjálfum, t.d. er Kvikmyndamiðstöð í sambýli við Bíó Paradís, KÍM í sambýli við SÍM o.fl. myndlistartengd félög í húsi myndlistarinnar að Hafnarstræti 22, Hönnunarmiðstöð er í einkar heppilegu rými í bakhúsi við Vonarstræti etc. Ef farið verður út í breytingar á núverandi staðsetningum miðstöðvanna myndi það hafa talsverðan kostnað í för með sér sem miðstöðvarnar eru ekki færar um að leggja fram að óbreyttu. Borgaryfirvöld þyrftu að meta í því ljósi hinn hagræna þátt, sem nefndur er sem forsenda klasamyndunar.

Það er mat BÍL að óskynsamlegt sé að stjórnvöld Reykjavíkurborgar setji fram í atvinnustefnu sinni óljósa hugmynd um samlegð, tengsl og hagræðingu aðila, sem ekki hafa sett fram óskir um slíkt sjálfir eða verið hafðir með í ráðum við gerð atvinnustefnunnar.

Kafli 2.4.2 tl. 3. BÍL fagnar því að stjórnvöld í Reykjavíkurborg hyggist koma á fót bókmenntamiðstöð í tengslum við verkefnið Reykjavík bókmenntaborg UNESCO en leggur jafnframt áherslu á að slíkt sé unnið í nánu samstarfi við Bókmenntasjóð, Rithöfundasamband Íslands, Hagþenki, Félag bókaútgefenda og aðra sem annast kynningu á íslenskum bókmenntum, jafnt hérlendis sem erlendis.

Kafli 2.4.2 tl. 4. BÍL fagnar stofnun Borgarhátíðasjóðs, en gerir athugasemd við orðalagið í greininni að einkum verði efldar „atvinnuskapandi hátíðir“. Það er mat BÍL að allar menningartengdar hátíðir séu atvinnuskapandi, bæði beint og óbeint, og ættu því að vera gjaldgengar til stuðnings úr Borgarhátíðarsjóði. Jafnframt þyrfti að útfæra stefnu sjóðsins, sem kveður á um með hvaða hætti úthlutunum fjármuna til einstakra hátíða er háttað. Þar þarf að hafa í huga reglu hæfilegrar fjarlægðar, eins og alls staðar þar sem opinberum fjármunum er úthlutað skv. umsóknum og menningar- og ferðamálaráð hefur verið í fararbroddi við að móta á seinni árum.

Kafli 2.4.2 tl. 5. Hér er fjallað um erlent samstarf, sem er sannarlega mikilvægt að sinna með virkum hætti og býr yfir kraftmiklum tækifærum í atvinnulegu tilliti. En það sama má segja um samstarf við önnur sveitarfélög, ekki síst nágrannasveitarfélögin. Það væri í samræmi við drögin að öðru leyti að nefna tækifærin sem felast í menningartengdu samstarfi allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þess er t.a.m. getið í köflum um Ferðamannaborgina (kafli 2.5.2 tl. 4) og Þekkingarborgina (kafli 2.6.2 tl. 1) að sinna skuli sérstaklega slíku samstarfi. Það væri því fengur að því í þessum tölulið að nefna mögulegt samstarf á sviði safnanna í sviðslista- ,tónlistar- og hönnunargeiranum, en í Hafnarfirði er starfrækt Kvikmyndasafn Íslands, í Garðabæ Hönnunarsafn Íslands, í Kópavogi Tónlistarsafn Íslands og í Reykjavík Leikminjasafn Íslands. Saman geta þessi söfn myndað klasa og verið rannsóknarbakhjarl fyrir Listaháskóla Íslands, sem hefur nú fengið heimild menntamálayfirvalda til að fjölga tækifærum listnema til meistaranáms. Allt getur þetta haft áhrif á almenna atvinnuuppbyggingu en ekki síst atvinnumöguleika innan skapandi greina.

Kafli 2.4.2 tl. 6. Í þessum tölulið er fjallað um nauðsyn þess að Listasafn Reykjavíkur styðji sérstaklega við samtímalist. Sjálfsagt er óþarfi að minna á það hér að Listasafn Reykjavíkur er rekið samkvæmt samþykktri safnastefnu sem innifelur einmitt áherslu á samtímalist. Ganga verður út frá því að slíkt sé tekið fram hér í þeim tilgangi að hafa jákvæð áhrif á atvinnumöguleika myndlistarmanna. Til að auka enn frekar á atvinnumöguleika myndlistarmanna mætti, í atvinnustefnu, nefna möguleika Listasafns Reykjavíkur til samstarfsverkefna við önnur söfn í borginni, sem sérstaklega sinna samtímalist, t.d. Nýlistasafnið.

Kafli 2.4.2 tl. 9. BÍL fagnar því að stjórnvöld í Reykjavík skuli ætla að beita sér fyrir byggingu Listaháskóla Íslands á stjórnarráðsreit, sem ganga verður út frá að sé reiturinn norð-austan við Arnarhól. Í þessum tölulið mætti gjarnan hafa nokkur orð um mikilvægi Listaháskóla Íslands, sem einu menntastofnunarinnar sem sinnir menntun listafólks á háskólastigi. Þegar skólinn var stofnaður, á grunni þeirra skóla sem fyrir voru; Leiklistarskóla Íslands og Myndlista og handíðaskóla Íslands, var það öðru fremur gert með samlegð og hagræðingu að leiðarljósi. Mikilvægur þáttur í þeirri samlegð átti að vera að koma skólanum undir eitt þak. Það er því sannarlea fagnaðarefni að Reykjavíkurborg skuli nú leggjast á árar í þeirri baráttu.

Kafli 2.5 Ferðamannaborgin
Hér er mikilvægt að kaflinn um Ferðamannaborgina á bls. 53 verði settur inn í stað kaflans „leiðarljós“ á bls. 17. Í orðalagi kaflans á bls. 53 er hlutverk menningartengdrar ferðaþjónustu undirstrikað með skilmerkilegri hætti en í textanum á bls. 17.

Kafli 2.5.4 tl. 4. Hér leggur BÍL til breytingu á texta; í stað „s.s. varðand íþróttaviðburði og meiri aðkomu annarra sveitarfélaga innan SSH“ komi „s.s. varðandi menningarviðburði hvers konar þ.m.t. íþróttaviðburði og meiri aðkomu annarra sveitarfélaga innan SSH“. Einnig væri skynsamlegt að nefna kynningarmiðstöðvar listgreinanna og Hönnunarmiðstöð sem samstarfsaðila varðandi viðburði, enda liggur þar yfirgripsmikil fagþekking á þeim viðburðum sem eru í undirbúningi langt fram í tímann.

Kafli 2.5.tl. 6. Hér mætti einnig nefna kynningarmiðstöðvar listgreinanna og Hönnunarmiðstöð sem samstarfsaðila í upptalningunni á eftir Nýsköpunarmiðstöð, Ferðamálastofu og SAF. Fulltrúar kynningarmiðstöðvanna eiga allir sæti í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum og eru sem slíkir einnig í tengslum við fagráð Íslandsstofu í ferðaþjónustu. Þar er því um lykilaðila að ræða.

Kafli 2.7 Lífsgæðaborgin
Kafli 2.7.1. BÍL leggur til smávægilega breytingu á annarri setn. fyrstu mgr., bætt verði inn í upptalninguna orðinu „menningar-“. Setningin verði þannig: Reykjavíkurborg leggur áherslu á heilbrigt og kraftmikið borgarlíf, félagslegt öryggi og góða skóla, fjölbreytt menningar-, íþrótta- og frístundastarf, margskonar útivistarmöguleika í borgarlandinu g óskert aðgengi að náttúru.

Kafli 2.7.2. tl. 2. Hér leggur BÍL til að bætt verði inn menningar- og ferðamálaráði, sem ábyrgðaraðila í lok töluliðarins, þar sem mál tengd fegrun miðborgarinnar og endurnýjun gamalla húsa heyra líka undir það ráð. Nægir að nefna Minjasafn Reykjavíkurborgar og Byggingarlistasafn Reykjavíkur, sem lykilstofnanir á þessu sviði.

Kafli 2.8 Hafnarborgin
Kaflinn um Hafnarborgina er afar nákvæmlega útfærður, þar sem sett er fram tímasett aðgerða- eða framkvæmdaáætlun varðandi Hafnarborgina. Skynsamlegt væri að skoða samræmingu við aðra kafla stefnunnar með þennan kafla sem fyrirmynd.

Kafli 2.8.2 tl. 2. BÍL leggur til að í þessum tölulið verði getið um „miðborgarásinn“ sem skýrt er frá á bls. 33, í kafla 3.5.3, en þar segir að gert sé ráð fyrir fjölbreyttri starfsemi á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu, matarmenningar, hönnunar, lista og nýsköpunar etc… Í 2.tl., staflið a. mætti gjarnan geta um þessi áform tengd uppbyggingu á Mýrargötu og slippasvæði.

Kafli 2.8.2 tl. 3. Mikilvægt er að nefna Minjasafn Reykjavíkur og jafnvel Víkina – Sjóminjasafn, í tengslum við verkefnið í b-lið um merkingar við markverða staði í Gömlu höfninni.

Kafli 5 Fjárfestingarstefna Reykjavíkurborgar
Í þessum kafla, tölulið 4, leggur BÍL til að skapandi greinum verði bætt inn í upptalninguna þannig: Greitt verði fyrir markvissri uppbyggingu í þágu einstakra lykilgreina í atvinnustefnunni, s.s. skapandi greina, þekkingariðnaðar og ferðaþjónustu.

Kafli 6.7 Bakland skapandi atvinnulífs
BÍL leggur til að orðinu „menningarstofnanir“ verði bætt við upptalningu efst á síðunni, í fjórðu setningu þannig að þar standi: Aðrar lykilmenntastofnanir, menningarstofnanir og þekkingarfyrirtæki o.s.frv.

Kafli 6.9 Skrifstofa atvinnu- og borgarþróunar
BÍL ítrekar þörfina á merkingarbærum hugtökum í texta atvinnustefnunnar og leggur til að orðalagi í tölulið 1 verði breytt þannig að þar standi: Að skjóta styrkari stoðum undir efnahag borgarinnar með því að fjölga atvinnutækifærum í Reykjavík. Í tölulið standi: Að skapa skilyrði fyrir nýja atvinnustarfsemi á grunni sjálfbærrar þróunar. Tölulið 9 verði breytt þannig: Vera leiðandi í mótun og framkvæmd atvinnustefnu fyrir höfuðborgarsvæðið. Efla samstarf fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka á höfuðborgarsvæðinu og vinna að klasamyndun í samráði við hagsmunaaðila.

Loks vill BÍL vekja athygli borgaryfirvalda á lítilli stofnun sem til skamms tíma var starfrækt í þágu skapandi greina og var á forræði Listaháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík; það er Hugmyndahús Háskólanna, sem staðsett var við Grandagarð 2. Þegar háskólarnir tveir sáu sér ekki lengur fært að leggja hugmyndahúsinu til fjármagn var það lagt af, en það er mat BÍL að borgaryfirvöld gætu eflt skapandi atvinnugreinar umtalsvert með því að endurvekja Hugmyndahúsið. Auðvitað væri gott ef mennta- og menningarmálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og jafnvel fleiri ráðuneyti væru samstarfsaðilar borgarinnar við slíka endurreisn. Slík aðgerð myndi óumdeilanlega styrkja þá ágætu atvinnustefnu sem borgaryfirvöld leggja nú fram og væri einnig í fullu samræmi við stefnumótun ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum.

Að lokum þakkar BÍL fyrir að hafa fengið stefnudrögin til umsagnar og vill gjarnan vera með í ráðum um frekari útfærslu aðgerðaáætlunar á grunni stefnunnar.