Ágúst Guðmundsson:

 

Í ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins um menningarmál er lagt til að “lög um listamannalaun verði endurskoðuð með það að markmiði að taka upp verkefnatengda listsköpunarsjóði”.

Þarna virðist gæta ákveðins misskilnings. Starfslaun listamanna eru í raun verkefnatengdur listsköpunarsjóður. Það var einmitt með lögunum frá 1991 sem tekin var upp sú skipan að greiða listamönnum laun fyrir að vinna ákveðin verkefni. Úthlutað er á grundvelli umsókna þar sem listamenn tilgreina ítarlega í hverju viðkomandi verkefni felast og á hvaða tíma þau verði unnin.

Starfslaun listamanna eru þar með ekki viðurkenning fyrir störf fortíðarinnar, heldur þvert á móti eins verkefnatengd og hugsast getur. Góður árangur af fyrri störfum styrkir vissulega allar umsóknir, en það gildir ekki frekar um starfslaun listamanna en önnur viðlíka umsóknarferli.

Ef til vill er hér verið að blanda starfslaunum listamanna saman við heiðurslaun listamanna sem Alþingi veitir beint, en þau eru, eins og nafnið bendir til, ætluð til að heiðra nokkra af elstu og helstu listamönnum þjóðarinnar og eru þar með ekki verkefnatengd.

“Lista- og menningarlíf þjóðarinnar hefur blómstrað á undanförnum árum” segir í upphafi ályktunarinnar, og vafalaust má rekja það að verulegu leyti til starfslauna listamanna, sem hafa ýtt mörgu verkefninu úr vör sem annars hefði aldrei farið á flot. Stærsti sjóðurinn er sá sem greiðir rithöfundum starfslaun, og á hann verulegan þátt í uppgangi bókmenntanna undanfarin ár

Rétt er að taka undir óskir landsfundarins um að áfram verði haldið “að hlúa að þeim grunni sem lagður hefur verið í lista- og menningarlífi þjóðarinnar”. Reyndar segir einnig að Sjálfstæðisflokkurinn leggi “áherslu á stuðning við skapandi listir”, og því fagna íslenskir listamenn.

Bandalag íslenskra listamanna getur tekið undir það að lög um listamnannalaun eigi að taka reglulega til endurskoðunar, en þó ekki með þeim formerkjum sem koma fram í drögum að ályktun Landsfundarins og enn má lesa á heimasíðu flokksins, en þar stendur í fjórða lið: „Landsfundur vill leggja niður listamanna- og heiðurslaun í núverandi mynd”. Því hlýtur Bandalag íslenskra listamanna að fara þess á leit við talsmenn Sjálfstæðisflokksins að þeir útlisti nánar hvað í ályktun þeirra um menningarmál felst. Tíminn styttist óðum til kosninga og íslenskir listamenn munu aldrei una því að áratuga barátta þeirra fyrir starfsskilyrðum sé fyrir borð borin og að engu höfð.

 

Birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 3. apríl 2009