Þann 17. mars síðastliðinn hélt stjórn BÍL fund með ráðherra menntamála og ráðuneytisfólki. Fundurinn fór fram í Ráðherrabústaðnum yfir heitu súkkulaði og rjómapönnukökum. Var mál manna að fundurinn hefði farið einkar vel fram, enda er ánægja listamanna mikil með frumvarp um starfslaun listamanna sem nú liggur fyrir þinginu. Ennfremur eru framkvæmdir við Tónlistarhús í samræmi við vilja BÍL, svo sem sjá má í ályktunum síðasta aðalfundar.

 

Málefni á samráðsfundi menntamálaráðuneytisins með Bandalagi íslenskra listamanna 17. mars 2009:

 

Listdans

Á þessum samráðsfundi höfum við orðið sammála um að vekja sérstaka athygli á listdansinum og stöðu hans sem atvinnulistgreinar.

Spurt er: Hver er stefnumörkun menntamálaráðuneytisins í málum listdansins til framtíðar?

 

Ríkisútvarpið

Við viljum hvetja til átaks í málefnum RÚV í þá veru að stórauka umfjöllum um íslenska menningu í mjög víðum skilningi. Breyttar forsendur í kjölfar hrunsins hafa fært í brennipunkt að sú auðlegð sem við hljótum að byggja á er menning okkar fyrst og fremst, hlutskipti okkar hér í fortíð, nútíð og framtíð.

RÚV er oft mjög utangátta þegar kemur að þessum meginstærðum og brýnt að það verði vakið til vitundar um hlutverk sitt og skyldur.

Ennfremur skal á það bent að eigi Ríkisútvarpið að geta staðið undir nafni þarf innlend dagskrá að geta skartað vönduðu, leiknu efni.

 

Listnám

Breytt verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga í listnámi hefur víðast ekki náð fram að ganga. Má nefna tónlist, myndlist og dans í þessu samhengi. Nýlega komst á nýtt skipulag í danskennslu fyrir öll skólastig, svo dæmi sé tekið, en það vantar að fylgja því eftir í raun.

Spurt er: Hvert er stefnt í fræðslumálum listanna? Er verið að vinna að þeim á vegum ráðuneytisins, og sé svo, hverjir koma að þeirri vinnu?

 

Listskreytingar

Um listskreytingar opinberra bygginga gilda ákveðnar reglur, sem gjarnan eru brotnar. BÍL leggur til að prósentið eina, sem í listskreytingar á að verja, fari í gegnum Listskreytingasjóð til að tryggja að ekki verði farið á svig við lögin.

 

Skattprósenta á tekjur af hugverkum

Viðurkenna ber hugverk sem eign, er lúti sömu lögmálum og aðrar eignir, svo sem hlutabréf eða innstæður í banka. Tekjur af slíkri eign ættu að bera sama skatt og fjármagnstekjur.

 

Byggingarlist

Arkitektar vilja ræða safnamál byggingarlistar í landinu og hlutverk byggingarlistasafna við að framfylgja menningarstefnu í mannvirkjagerð; ennfremur að komið verði upp fullgildu námi í arkitektúr á Íslandi.

 

Höfundarréttur

Sem fyrr leggur BÍL megináherslu á að hverskonar höfundarréttur verði varinn. BÍL skorar á ráðherra að hún sjái til þess að þær stofnanir sem heyra undir menntamálaráðuneytið semji við myndlistarmenn um greiðslu fyrir notkun mynda af verkum íslenskra myndlistarmanna, ekki síst þeim verkum sem eru í eigu hins opinbera.

 

Ályktanir

Á aðalfundi Bandlags íslenskra listamanna 31. janúar sl. voru samþykktar þrjár ályktanir. Nú þegar hefur menntamálaráðuneytið orðið við tveim þeirra: um starfslaun listamanna og um tónlistarhúsið. Náðst hefur samstaða um nýtt frumvarp um starfslaun listamanna, sem menntamálaráðherra mun leggja fyrir Alþingi. Þessu fagna íslenskir listamenn. Ekki er síður ánægjulegt að áfram verði unnið að Tónlistar- og ráðstefnuhúsi.

Þriðja ályktunin var almenn athugasemd , sem hér fer á eftir –

 

“Um atvinnuöryggi listamanna

Bandalag íslenskra listamanna minnir á að árið 2009 er ár sköpunar og nýbreytni í Evrópu. Hugvit og sköpunargáfa verður æ hærra metin, jafnt í listum sem sprotafyrirtækjum.

Hins vegar fer atvinnuleysi vaxandi um þessar mundir. Verkefnastaða listamanna er orðin verulega slæm líkt og margra annarra, verkefni daga uppi þar sem vandasamt reynist að fjármagna þau. Fjölmargir listamenn eiga því erfitt með að skapa sér og öðrum atvinnu lengur. Við munum ekki heyra tölur af hópuppsögnum þar sem listamenn reka sig flestir sjálfir, en atvinnuleysið í þessum geira er að stóraukast, og er það mikið áhyggjuefni.

Því er rétt að benda á að litla fjárfestingu þarf til að viðhalda störfum í menningu og listum miðað við margar aðrar atvinnugreinar. Menning og listir leggja til 4% af landsframleiðslu og standa fyrir kraftmiklu og fjölbreytilegu menningarlífi sem ber á viðsjárverðum tímum út hróður lands og lýðs um heim allan, auk þess sem menning og listir eru í auknu mæli notuð til þess að endurreisa og endurnæra samfélög með góðum árangri.

BÍL hvetur öll stjórnvöld til að hafa þetta í huga. Sérstaklega er því beint til sveitarstjórna að standa vörð um fjárveitingar til menningarráða.”

 

Við þetta má bæta eftirfarandi tilvitnunum í bréf frá myndlistarmönnum til efnahags- og skattanefndar Alþingis:

“… Við áætlun reiknaðs endurgjalds eru myndlistarmenn í starfaflokki C, ásamt skemmtikröftum, fasteignasölum og öðrum ágætum starfsstéttum. Árið 2008 var gengið út frá því að þessi hópur hefði á bilinu 414 til 663 þúsund í mánaðarlaun en það er víðs fjarri raunveruleika myndlistarmanna…

…Fyrir 6 árum sendi stjórn SÍM þáverandi fjármálaráðherra, Geir Haarde, bréf þar sem m.a. var bent á galla starfaflokkunarkerfisins og óskað eftir breytingu gagnvart myndlistarmönnum. Svar ráðuneytisins þá var að ekki væri ástæða til að aðhafast í málinu…”