Framtíðarsýn

6. september 2003 voru liðin 75 ár frá stofnun Bandalags íslenskra listamanna. Af því tilefni var efnt til yfirgripsmikillar stefnumótunarvinnu, þar sem stjórn BÍL, ásamt gestum, alls um 40 manns lögðu saman krafta sína. Niðurstaðan varð skýrsla sem kölluð er „Framtíðarsýn of stenumútun í íslenski listalífi“.

Við hvetjum alla til að kynna sér þær fjölmörgu góðu hugmyndir og tillögur sem þar er að finna og nýta þær sér til áminningar og hvatningar.

Inngangur
Sagan
Uppbygging starfseminnar
Stefnumótun
– Viðauki við stefnumótun
Vinnuferlið
Niðurstöður
Verkefni – List og samfélag
Framtíðarsýn – Menntun
Verkefni – Menntun
Framtíðarsýn – Samráð við listamenn
Verkefni – Samráð
Framtíðarsýn – Starfsumhverfi listmanna
Verkefni – Starfsumhverfi
Framtíðarsýn – Listviðburðir og útrás
Verkefni – Listviðburðir og útrás
Framtíðarsýn – List í fjölmiðlum
Verkefni – List og fjölmiðlar
Frekari úrvinnsla
Sérstakar þakkir

Inngangur

Sú tilhneiging virðist rík í íslenskri stjórnsýslu að líta á listamenn fyrst og fremst sem hagsmunaaðila eða þrýstihóp, en ekki fagaðila, enda hefur aðkoma þeirra oftar en ekki verið mörkuð af bónbjörgum eða beiðni um lausn tiltekinna mála. Halldór Laxness lýsir aðstæðum listamanna á Íslandi í Alþýðubókinni sem kom út árið 1928 með þessum hætti:

„Sem stendur skrölta skáld og listamenn mestmegnis utan við þjóðlífið, nema þegar þeir sækja um fimm hundruð krónur, eða svo, í styrk. Þaðanafsíður að þeir hafi nokkur áhrif . Stétt þessi, sem á vorum dögum er orðin svo utangátta, minnir einkum á skepnur frá öðru tímabili jarðsögunnar sem kallaðar eru fornfygli og voru blendingar úr fugli og skriðdýri, en eru nú löngu liðnar undir lok.”

Með stofnun Bandalags íslenskra listamanna, BÍL, sem raunar var stofnað sama ár og Alþýðubókin kom út, hófst sameiginleg barátta listamanna fyrir tilverurétti sínum og um leið barátta þeirra fyrir auknum skilningi stjórnvalda á gildi lifandi listalífs fyrir samfélagið í heild.

Á þeim rúmu sjötíu og fimm árum sem liðin er frá stofnun BÍL, hafa samskipti þess og ráðamanna oft stuðlað að framgangi mála sem telja verður mikilsverð.
Lög um listamannalaun eru talandi dæmi um vel heppnaða samvinnu af þessu tagi, en aðkoma forseta og stjórnar BÍL á sínum tíma hafði án efa afgerandi áhrif á að samstaða náðist um málið og að ástæða þótti til að veita því brautargengi að hálfu stjórnvalda, með lagasetningu árið 1991. Á svipaðan máta hefur BÍL oft tekist að draga athygli stjórnvalda að ýmsu því sem til menningarauka hefur orðið með ályktunum, greinargerðum og beinum tillögum.

Með vaxandi víðsýni og ekki síst alþjóðavæðingu, má segja að það sé orðið viðtekið viðhorf stjórnmálamanna á Íslandi að öflugt lista og menningarlíf sé forsenda menningarlegs sjálfstæðis og sjálfsvitundar þjóðarinnar og jafnframt að ekki beri að líta á fjárveitingar til listalífsins sem styrki, heldur fjárfestingu.

Í dag er BÍL heildarsamtök fagfélaga í listum. Það er samráðsvettvangur listamanna um leið og það er sameiginlegur snertiflötur listamanna við stjórnvöld.

Árlegur fundur stjórnar og forseta BÍL með menntamálaráðherra og hans nánustu samstarfsmönnum hefur reynst þýðingarmikill vettvangur upplýsingamiðlunar og skoðanaskipta. Þar gefst gott tækifæri til að ræða sameiginlegar áherslur listamanna, auk þess sem formenn hinna einstöku félaga fá tækifæri til að tala máli sinnar listgreinar.
Samráð menntamálaráðherra og BÍL var staðfest með sérstökum samningi haustið 1998. Í því samkomulagi fólst ákveðin fjárveiting, en á móti var heitið faglegri ráðgjöf um tiltekin álitamál ef eftir því yrði óskað að hálfu ráðuneytisins.

Til efnisyfirlits

Sagan

Bandalag Íslenskra Listamanna, BÍL, var stofnað 6. september árið 1928 á Hótel Heklu í Reykjavík.

Aðal hvatamaður að stofnun BIL, var Jón Leifs, tónskáld og fékk hann í lið með sér þá listamenn á Íslandi sem vildu starfa að listsköpun sinni á atvinnugrundvelli.

Nokkrir listamenn úr hópi stofnfélaga;

Emil Thoroddsen, Finnur Jónsson, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Guðmundur G. Hagalaín, Guðmundur Kamban, Gunnar Gunnarsson,
Gunnlaugur Blöndal, Halldór Kiljan Laxness, Indriði Einarsson,
Jóhann Jónsson, Jóhannes Kjarval, Jón Leifs, Jón Stefánsson,
Júlíana Sveinsdóttir, Jón Þorleifsson, Kristmann Guðmundsson,
Kristín Jónsdóttir, Nína Sæmundsson, Páll ísólfsson, Ríkarður Jónsson, Sigfús Einarsson, Stefán frá Hvítadal, Þórbergur Þórðarson o.fl.

Í upphafi var BÍL heildarsamtök listamanna, en klofnaði fljótlega upp í deildir sem síðar urðu að sérstökum félögum.
Í dag er BÍL regnhlífasamtök 13 fagfélaga í listum og eru formenn þeirra sjálfkjörnir í stjórn.
Eðli starfsins hefur breyst í áranna rás, enda hafa hin einstöku fagfélög tekið yfir að sinna sértækri hagsmuna- stéttabaráttu fyrir sína félagsmenn.

Skiptar skoðanir voru um það, strax á fyrstu árum starfseminnar, hvernig best yrði unnið að hagsmunamálum listamanna. Jón Leifs, sem starfað hafði erlendis, vildi að BÍL yrði einskonar akademía, eða listráð, sem hefði það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um þau mál er vörðuðu opinbera aðkomu að listalífinu.
Aðrir vildu að samtökin einbeittu sér að því að efla samstöðuna um þau málefni er vörðuðu beina hagsmuni og afkomumöguleika listamanna.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á umliðnum 75 árum og íslenskt menningarlíf í raun tekið stakkaskiptum. Staða BÍL hefur vissulega verið mis-sterk og á tímabilum hefur starfsemin svo gott sem legið niðri, en í annan tíma hefur hún verið blómleg og árangursrík. Á síðari árum hefur BÍL í meira mæli einbeitt kröftum sínum að stóru málunum, svo sem málefnum er varða menningarhlutverk Ríkisútvarpsins, listuppeldi og menntun barna, skatta- og lagaumhverfi og almennar fjárveitingar til listalifsins.

Þessi greinargerðar er sett fram í tengslum við stefnumótun og framtíðarsýn fyrir íslenskt listalíf til ársins 2008, en grunnur að þeirri vinnu fór fram á sérstökum hugarflugsfundi sam boðað var til þann 6. september 2003.

Til efnisyfirlits

Uppbygging starfseminnar

Aðalfundur fer með æðsta vald í öllum málum, þar fer fram kjör forseta og þar er stefnan mörkuð fyrir næstu misseri með samþykktum og ályktunum. Kjör forseta fer einnig fram á aðalfundi og er hann talsmaður stjórnar útávið og gagnvart stjórnvöldum. Stjórn BÍL hittist að jafnaði tvisvar í mánuði á stjórnarfundum, en forseti sér um daglegan rekstur og undirbýr stjórnarfundi.

Til efnisyfirlits

Stefnumótun

BíL setti sér fyrst stefnuskrá árið 1937 og endurskoðaði hana síðan árið 1958 og gaf út í litlum bæklingi árið 1959. Nokkur eintök hafa varðveist.

Stefnumótun hefur ekki farið fram með jafn formlegum hætti, síðan þessi litli bæklingur kom út. Stefnumál BÍL hafa víða komið fram í gegnum tíðina, með formlegum og óformlegum hætti, svo sem með ályktunum og yfirlýsingum, umsögnum um frumvörp, blaðaskrifum og á fundum með ráðamönnum.

Framtíðarsýn og stefnumótun í íslensku listalífi.

Í tilefni af langri sögu og merkum tímamótum á síðasta ári, en þá voru 75 ár liðin frá stofnun BÍL, ákvað stjórnin að freista þess að móta sýn til framtíðar.

Boðað var til hugarflugs fundar á Hótel Borgarnesi og þangað stefnt stjórnum aðildarfélaganna og gestum þeirra, eða alls um 40 manns.

Viðauki við stefnumótunarkaflann

Til efnisyfirlits

Vinnuferlið

Við stefnumótunar verkefnið var stuðst við aðferðafræði sem þróuð hefur verið hjá Samtökum Iðnaðarins og m.a. notuð við stefnumörkun ólíkra starfsgreina, félaga, stofnana og stærri fyrirtækja.
Tekið var mið af því að að sá tími sem var til ráðstöfunar hjá þátttakendum var takmarkaður og miðað að því að ferlið yrði í senn fljótvirkt og skilvirkt.
Byrjað var á vinnufundi sem stóð frá hádegi til hádegis daginn eftir.
Á þeim sólahring fór fram megin hugmyndavinnan og að honum loknum lá fyrir skýr framtíðarsýn og lýsing á þeim forsendum sem eru afgerandi til að gera hana að veruleika. Frekari úrvinnsla fór síðan fram í vinnuhópum á næstu mánuðum, þar sem settar voru fram hugmyndir að aðgerðum og verkefnum sem gert gætu sýnina að veruleika.

Niðurstaðan varð mikið safn hugmynda og verkefna-banki með samtals 60
verkefnum. Frekari úrvinnsla skilaði hnitmiðaðri framtíðarsýn í sex liðum, sem fylgir á næstu síðum. Einnig eru tekin dæmi af örfáum verkefnum á hverju sviði,
tengdum framtíðarsýninni. Niðurstöður stefnumótunarvinnunar voru einnig settar fram í sérstökum bæklingi sem gefinn var út í júnímánuði árið 2004 á íslensku og ensku, en um útlitshönnun bæklingsins sá Guðmundur Oddur, prófessor.

“Sérhæfð sérviska á sviði lista er verðmæt sérstaða”

“þrískipting ríkisvaldsins gildir ekki lengur, sköpunarvaldið er orðið fjórða valdið.“

“Þjóðin hefur ákveðið að listbika hinn andlega hringveg.

Til efnisyfirlits

Niðurstöður

Framtíðarsýn – List og samfélag.
Fjölbreytt listsköpun og öflug listastarfsemi er meðal mikilvægustu innviða samfélagsins.
Glæsilegt tónlistarhús við austurhöfnina og aðrar lista- og menningarstofnanir ríkis og borgar starfa með miklum blóma í höfuðborginni og skerpa ímynd hennar sem menningarborgar á heimsmælikvarða.
Bókakaffi, gallerí, klúbbar, miðstöðvar og upplýsingaveitur starfa jafnt í stærri og smærri byggðarkjörnum landsins í tengslum við frjálsan markað listanna.
Listin er samofin daglegu lífi fólks, því búseta, atvinnulíf og listastarfsemi tengist með skipulegum hætti.

Til efnisyfirlits

Verkefni – List og samfélag

þjóðartónlistarhúsið – Tónlistarhúsráð.
Hvetja til aukins samráðs við tónlistarmenn um byggingu og rekstur Tónlistarhúss, svo það megi nýtast tónlistarlífi þjóðarinnar til framtíðar á sem fjölbreyttastan hátt . Leggja áherslu á nauðsyn þess að ríki og borg fjármagni rekstur hússins. Á þann eina hátt verður til þjóðartónlistarhús.

Til efnisyfirlits

Framtíðarsýn – Menntun

List og skapandi hugsun er veigamikill hluti af uppeldi barna og ungmenna og aðgangur þeirra að listum og listviðburðum er tryggður.
Rík áhersla er lögð á listgreinakennslu á öllum skólastigum.
Víðtækt samstarf er milli listamanna og skóla og listasmiðjur og verkefnavinna er snar þáttur í öllu skólastarfi.
Listkynningar og skipulagðar heimsóknir listamanna í skóla eru reglulegir viðburðir. Víðtæk fag – og framhaldsmenntun í listum og tengdum greinum er í boði á framhalds- og háskólastigi.

Til efnisyfirlits

Verkefni – Menntun

Listgreinakennsla
Að stuðla að því að listgreinakennsla verði stórefld í skólakerfinu, frá leikskólastigi og til loka framhaldsskólastigsins.
List fyrir alla.
Að stofna til kynningar- og samvinnuverkefna milli skóla og listamanna í líkingu við “Tónlist fyrir alla” í öllum listgreinum.
Listamenn í skóla
Samvinnuverkefni einstakra listamanna og skóla í tiltekinn tíma að fyrirmynd menningarborgarverkefnisins “listamenn í skólum”.
Menningarkort – til útleigu á bókasöfnum.
Kort sem veita aukið aðgengi að viðburðum og þjónustu á sviði menningar og lista á tilteknum forsendum.

Til efnisyfirlits

Framtíðarsýn – Samráð við listamenn

Víðtækt samráð er við listamenn um stefnumótun í menningarmálum.
Opinber stjórnsýsla menningarmála er í sérstöku menningarmálaráðuneyti.
Fjármagn til listastofnana og listalífsins er i samræmi við verðmætasköpun listanna og ber vott um menningarlegan metnað og víðsýni stjórnmálamanna.
Fjöldi starfslauna listamanna á vegum ríkis og sveitarfélaga er endurskoðaður reglulega með hliðsjón af áætlaðri þörf og fagleg umsýsla er tryggð við úthlutun.

Til efnisyfirlits

Verkefni – Samráð

Samráðsfundir.
Efna til samráðsfunda með fleiri ráðamönnum og stuðla að því að koma sjónarmiðum listamanna og samtaka þeirra á framfæri.
Aðkoma listamanna að stjórnsýslu
Stuðla að því að listamenn eigi fulltrúa í öllum þeim nefndum og ráðum sem fjalla um málefni listalífsins og stuðningskerfi ríkis og sveitarfélaga.
Endurskoðun laga
Efna til samráðs við ráðamenn og embættismenn um ný lög og reglugerðir eða endurskoðun þeirra sem fyrir eru.
Listamannalaun.
Minna sérstaklega á álitsgerð stjórnar BÍL frá árinu 2002, um nauðsynlega endurskoðun laga um listamannalaun og fjölgun starfslauna í öllum greinum.

Til efnisyfirlits

Framtíðarsýn – Starfsumhverfi listamanna

Menningarleg verðmæti eru metin til jafns við veraldleg gæði og arðsemi menningarinnar er viðurkennd hagstærð.
Sérstaða vinnuumhverfis listamanna er tryggð með sértækum aðgerðum í þágu skapandi starfs. Listrænar afurðir bera lágan virðisaukaskatt. Arður af nýtingu höfundaverka er skattlagður með sama hætti og fjármagnstekjur.
Víðtækt samstarf milli fyrirtækja og listastofnana þjónar hagsmunum beggja og fjárfesting í listum er að fullu frádráttarbær til skatts.
Listalottó er mikilvæg tekjulind menningarlífsins.

Til efnisyfirlits

Verkefni – Starfsumhverfi

Lækkað virðisaukaskattsstig og jöfnuður milli listgreina.
Hvetja ríkisvaldið til að endurskoða löggjöf um virðisauka á listrænnar afurðir og afnema eða lækka hann verulega og samræma milli greina.
Höfundatekjur.
Fylgja eftir áskorun stjórnar BÍL frá 1998 þess efnis að höfundatekjur verði skattlagðar sem eignatekjur en ekki launatekjur.
Jákvæð mismunun skatta í þágu skapandi starfs.
Stuðla að rannsóknum á framlegð menningarlífsins og hvetja til ívilnandi aðgerða og einföldunar á skattalegu umhverfi listamanna.
Listalottó
Samstaða hlutaðeigandi aðila um að ákveðinn hluti Lottó-tekna renni til listastarfsemi.

Til efnisyfirlits

Framtíðarsýn – Listviðburðir og útrás

Atvinnusvæði íslenskra listamanna nær til alls heimsins og listsköpun er ein stærsta atvinnu- og útflutningsgrein þjóðarinnar.
Upplýsinga- og kynningarmiðstöðvar sinna fjölbreyttu starfi og tengslamyndun á alþjóðlegum grundvelli.
Ísland er vettvangur alþjóðlegra listviðburða um leið og íslenskt listalíf er hluti alþjóðasamfélagsins.
Hátíðir og viðburðir á sviði allra listgreina laða að sér innlenda og erlenda gesti og veita alþjóðlegum listastraumum til og frá landinu.

Til efnisyfirlits

Verkefni – Listviðburðir og útrás

Brimbrjótar í erlendri útrás
Að stækka starfsvettvang listamanna heima og heiman í samstarfi við atvinnuvegina.
Umboðsskrifstofa listamanna
Að kynna íslenskra list og veita íslenskum listamönnum þjónustu og ráðgjöf við að koma sér á framfæri á erlendum vettvangi.

Til efnisyfirlits

Framtíðarsýn – List í fjölmiðlum

Öflug innlend dagskrárgerð situr í öndvegi í íslenskum fjölmiðlum og sérstök rækt er lögð við alla frumsköpun í listum.
Umfjöllun um listir og listsköpun er fagleg, vönduð og fjölbreytt og menningafréttir eru fastur liður í öllum fréttamiðlum landsins.
Íslenskt samfélag hefur öðlast öflugan samtímaspegil í ríkissjónvarpinu þar sem leiknir þættir og þáttaraðir eru reglulega á boðstólum
Ríkisútvarpið gegnir lykilhlutverki í sköpun, miðlun og varðveislu menningarefnis.

Til efnisyfirlits

Verkefni – List og fjölmiðlar

þjóðarsjónvarpið
Halda vakandi umræðunni um menningarhlutverk RÚV og hvetja til þess að lögð verði aukin rækt við metnaðarfulla innlenda dagskrárgerð.
Sjónvarpsmyndasjóður
Hvetja til samráðs fagaðila og stjórnvalda um markvissa uppbyggingu sjóðs fyrir leikið sjónvarpsefni.
Fréttaflutningur á sviði lista
Stuðla að því að koma upp gagnvirkri upplýsingaveitu og vinna markvisst að því að auka hlut lista og menningar í fréttum. Einnig að teknar verði upp sérstakar menningafréttir í fréttatíma sjónvarps í líkingu við íþróttafréttir, eða daglegt fréttamagasín um listir og menningarviðburði.

Til efnisyfirlits

Frekari úrvinnsla – nokkrir afgerandi árangursþættir

Víðsýni og áræði stjórnmálamanna til að forgangsraða í þágu skapandi hugsunar og lifandi listastarfs í öllum sínu fjölbreyttu birtingarmyndum.
Vilji til að endurskoða reglulega lög og reglugerðir er varða starfsumhverfi listamanna og endurmeta gildi þeirra og erindi á faglegum forsendum og með samráði við listamenn.
Skilningur á því að fjárveiting ríkisins til þessa málaflokks er fjárfesting sem skilar margföldum arði til samfélagsins með beinum og óbeinum hætti.

Metnaður og vilji borgar og sveitarfélaga til að skapað sér ímynd sem menningarsamfélag með mótun faglegrar og framsækinnar menningarstefnu og fjármagni til að fylgja henni eftir.
Skilningur borgaryfirvalda og sveitarstjórnarmanna á uppeldishlutverki listanna og nauðsynlegri samþættingu listastarfs, fræðslustarfs og skólastarfs í þágu barna og ungmenna.

Vilji stjórnenda til að skapa fyrirtækjum sínum menningarlega ímynd með beinum styrkveitingum til stofnana og verkefna á sviði lista, eða uppbygging sjóða í þágu mennta- og menningarstarfs. Skilningur þessara aðila á gagnkvæmum hagsmunum í fyrirtækjarekstri og listastarfsemi og gildi samvinnu um margháttuð verkefni í þágu beggja.

Sköpunargleði, atorka og metnaður listamanna til að standa að öflugu og þróttmiklu listastarfi og koma verkum sínum á framfæri.

Reykjavík, 24. júlí, 2004.

Til efnisyfirlits

Sérstakar þakkir

Samtök Iðnaðarins

menntamálaráðuneytið

Listaháskóli Íslands

Til efnisyfirlits