Viðauki við liðinn Stefnumótun í framtíðarsýn

Framtíðarsýn til ársins 2008

Stefnumótandi greining, sett fram í tilefni af 75. ártíð BÍL, Bandalags íslenskra listamanna

STEFNUSKRÁ BANDALAGS ÍSLENSKRA LISTAMANNA

 

Sett 1937 ,

endurskoðuð og samþykkt einróma

á aðalfundi Bandalagsins

23. nóv. 1958.

 

Bandalag íslenskra listamanna vinnur að því:

 

A. Í almennum málum:

1. að Bandalagið fái tillögurétt um öll opinber íslensk listmál og listræn viðskipti við önnur lönd, enda feli það hlutaðeigandi bandalagsfélagi meðferð málanna,

2. að gæta hagsmuna höfunda og annarra listamanna og auka bæði innanlands og utan lagavernd og atvinnuvernd þeirra og verka þeirra svo sem frekast er unnt,

3. að höfundarréttur verði, að loknu því tímabili frá dauða höfundar, sem erfðaréttur nær til í hverju landi, eign hlutaðeigandi höfundafélags Bandalagsins,

4. að listamannalaun og styrkir, heiðurslaun og verðlaun séu undanþegin skatti og ekki tekin upp í skatta,

5. að höfundar og erfingjar þeirra og síðan hlutaðeigandi höfundafélög Bandalagsins fái með lögum hlutdeild í ágóða af endursölu listaverka,

6. að hugsjón og anda listaverka sé ekki misþyrmt með óviðeigandi afnotum, flutningi, útsetningu eða staðsetningu,

7. að eignast í Reykjavík félagsheimili fyrir Bandalagið og bandalagsfélögin,

8. að stofna í sveit og í bæjum á Íslandi listamannaheimili, eitt eða fleiri, þar sem íslenskir listamenn hafi endurgjaldslaust athvarf og fullan vinnufrið,

9. að tryggja – meðal annars með hlutdeild fulltrúa listamanna – sem réttlátasta úthlutun launa og styrkja frá ríkinu,

10. að halda uppi sambandi við erlend listafélög og listastofnanir og annast viðskipti við þau,

11. að ríkisstjórn Íslands, menningarstofnanir, félög og einstaklingar geri samninga við erlenda aðila um listræn viðskipti og þeim verði framfylgt í samráði við Bandalagið. Með samningum þessum sé reynt að tryggja, að íslenskir listamenn og íslensk list njóti ekki síðri fyrirgreiðslu erlendis en erlendir listamenn og erlend list hér á landi,

12. að haldnir verði við og við innlendar og alþjóðlegar listahátíðir í Reykjavík,

13. að ríkissjóður Íslands, bankar og opinberir sjóðir kaupi sem verðfastar eignir sígild myndlistaverk, frumhandrit, gömul strokhljóðfæri og fleira, sem hækkar sífellt í verði,

14. að vekja skilning á því, hve mikilvægt það er fyrir allt listrænt starf, bæði listastofnana og einstaklinga, að rituð sé gagnrýni fyrir almenning og til þess valdir þeir menn, er þekkingu hafa á þeim málum, hver á sínu sviði, og undir fullu nafni,

15. að stjórn listrænna mála í menningarstofnunum ríkisins verði ekki í höndum stjórnmálamanna, eða manna sem til þess eru kjörnir vegna stjórnmálaskoðana, heldur ráði þekking og hæfileikar því, hverjum þessi störf eru falin,

16. að breytt verði, í samræmi við 15. gr., lögum um kosningu í útvarpsráð, þannig, að í stað þess að kjósa í ráðið fulltrúa stjórnmálaflokka á Alþingi verði menningarstofnunum og listasamtökum (t. d. Háskóla Íslands, Bandalagi ísl. listamanna 0. fl.) falið að skipa fulltrúa í ráðið, og listrænt og menningarlegt hlutverk útvarpsráðs sem dagskrárstjórnar Ríkisútvarpsins þá fyrst og fremst haft í huga,

17 . að kröfur séu gerðar til stjórnarvalda um fullan skilning á þýðingu Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar fyrir alþjóð, er komi fram í verki á þann hátt að Ríkisútvarpið fái hið fyrsta eigin byggingu, er sniðin sé við vöxt og þróun stofnunarinnar og sé með fullkomnum tækniútbúnaði.

 

B. Í byggingarlist og myndlist:

1. að réttindi til að teikna hús hafi þeir einir, sem Arkitektafélag Íslands telur til þess hæfa,

2. að uppdrættir að opinberum byggingum séu í samráði við hlutaðeigandi bandalagsfélag boðnir út til samkeppni og listamenn og sérfræðingar eigi sæti í dómnefnd,

3. að listamönnum verði falið að skreyta opinberar byggingar og opin svæði í bæjum – og að efnt verði til samkeppni um verkefnin og sérfróðir menn valdir í dómnefnd,

4. að ríkisvaldið haldi uppi vinnustofum fyrir listamenn, þar sem þeim gefist kostur á að vinna fyrir sjálfa sig og aðra að listrænni bókagerð, myndagerð og myndprentun, til dæmis í sambandi við myndlistaskóla og ríkisprentsmiðju,

5. að stofnað verði, í samráði við hlutaðeigandi bandalagsfélög, til samkeppni um uppdrætti að frímerkjum, bankaseðlum og peningamótum, og eigi listamenn og sérfræðingar sæti í dómnefnd,

6. að taka þátt í listsýningum erlendis, halda þar íslenskar listsýningar og erlendar listsýningar hér,

7 . að listasafni ríkisins verði sem fyrst tryggt eigið hús, og að einnig verði komið upp húsi í Reykjavík fyrir listsýningar með vinnustofum handa listamönnum,

8. að sýningarnefnd Félags íslenskra myndlistamanna hafi tillögurétt um listverkakaup Menntamálaráðs og um staðsetningu listaverka á almannafæri og að Menntamálaráð og listasafn ríkisins haldi að minnsta kosti annaðhvert ár sýningar á listaverkum þeim, sem það kaupir,

9. að myndlistarmenn án kennaraprófs hafi til jafns við þá, sem því prófi hafa lokið, rétt til kennslustarfa í teikningu og annarri myndlist við opinbera skóla.

 

C. Í Tónlist:

1. að öll tónlistarstarfsemi í skólum, stofnunum og félögum landsins verði skipulögð undir sameiginlegri yfirstjórn til betri samvinnu og afkasta,

2. að Sinfóníuhljómsveit Íslands verði komið á varanlegan grundvöll sem opinberri stofnun, og eigi bandalagsfélög tónlistarmanna og hljómsveitin sjálf fulltrúa í stjórn hennar,

3. að komið verði upp fullkomnu hljómleikahúsi,

4. að Menningarsjóður styðji útbreiðslu og útgáfu íslenskra tónverka,

5. að allir, sem atvinnu hafa af tónlistarstörfum, hafi kunnáttuvottorð,

6. að erlendum tónlistarmönnum verði ekki veitt atvinnuleyfi, nema leitað sé áður umsagnar innlendra stéttarfélaga.

 

D. Í bókmenntum. leiklist og listdansi:

1, að fullt verð sé greitt fyrir bækur til bókasafna,

2. að fyrir endurprentun úr ritverkum greiðist höfundum ævinlega fullt gjald,

3. að Menntamálaráð hlutist til um útgáfu og kynningu íslenskra bókmennta erlendis,

4. að kennsla í íslenskum bókmenntum og kynning þeirra verði aukin í skólum landsins, enda verði fræðsla kennara í bókmenntum meiri en nú er, og þeir æfðir í kynningu bókmennta,

5. að örva þróun og stuðla að auknum gæðum innlendra leikbókmennta, m. a. með því að tekin verði til sýninga í leikhúsum landsins ný leikrit, þótt gölluð kunni að vera, ef þau hafa skáldskapargildi, en þeim verkum hafnað er eigi bera vott neinum hæfileikum höfunda til leikritunar né kunnáttu og vandvirkni í vinnubrögðum,

6. að bæjarsjóður Reykjavíkur og ríkissjóður styðji nú þegar með ríflegum fjárframlögum, viðleitni Leikfélags Reykjavíkur til þess að koma upp nýju leikhúsi, og viðurkenni á þann hátt hve nauðsynlegt það er til framfara og heilbrigðrar samkeppni í leiklistarlífi landsins að til séu í höfuðstaðnum fleiri en eitt fullkomið leikhús,

7 . að leikfélag Reykjavíkur verði nú þegar undanþegið skemmtanaskatti,

8. að efla listdans á Íslandi, með það takmark fyrir augum að innlendir kraftar geti sem fyrst tekið við þessari listgrein í starfi leikhúsanna. Verði að þessu stefnt með fyrirkomulagi og starfi Listdansskóla Þjóðleikhússins og hann sniðinn eftir erlend um ballettskólum, sem gegnt hafa sambærilegu hlutverki og eiga langa reynslu að baki. (T. d. ballettskóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn). Einnig að Þjóðleikhúsið setji fyrst um sinn á svið a. m. k. eina ballettsýningu á ári.

 

Í stefnuskrárnefnd B. Í. L.

ÞORSTEINN Ö. STEPHENSEN, form. (sign)

SIGURÐUR GUÐMUNDSSON, ritari (sign)

JÓHANNES JÓHANNESSON (sign)

GUÐMUNDUR G. HAGALÍN (sign)

JÓN LEIFS (sign)

GUÐMUNDUR MATTHÍASSON (sign)

BRYNDÍS SCHRAM (sign)

 

Aftur til Stefnumótunar í Framtíðarsýn