Á sama tíma og listir og menning skapa störf og bæta samfélagið þá er heildarskerðing fjármagns á milli áranna 2024 og 2025 á sviði menningarmála 365,4 milljónir króna m.v. fjárlagafrumvarp næsta árs. Niðurskurður á Kvikmyndasjóði frá árinu 2021 er 27,3%, niðurskurður á Bókasafnssjóði á milli áranna 2024 og 2025 er 22,8%, niðurskurður Sviðslistasjóða á milli áranna 2024 og 2025 er 20,7% og niðurskurður Myndlistarsjóðs á milli áranna 2024 og 2025 er 17,6%. Ef núverandi fjárlagafrumvarp verður samþykkt óbreytt mun það hafa neikvæðar afleiðingar á starfsumhverfi listamanna til frambúðar. Munuð þið beita ykkur fyrir því að styrkja sjóðakerfi listgreina á næsta kjörtímabili?

Á kjörtímabilinu hafa fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins beitt sér fyrir auknum ráðstöfunartekjum listamanna, t.a.m. breytingum á lögum um tekjuskatt þannig að höfundarréttargreiðslur eru nú skattlagðar sem fjármagnstekjur en ekki launatekjur. Þannig hafa skattar, ekki síst á listamenn, lækkað verulega að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins.
Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hafa stóraukist og á þessu ári hafa um 5,3 milljarðar verið endurgreiddir vegna þeirra. Þá hafa framlög til lista, menningar, íþrótta og æskulýðsmála hækkað að raunvirði 4,4 milljarða frá árinu 2017 og nema samkvæmt fjárlögum ársins nær 22 milljörðum. Á undanförnum vikum hafa sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd bætt úr erfiðri stöðu sviðslistasjóðs og kvikmyndasjóðs. Samþykkt var hækkun á báðum sjóðum, um 25 milljónir í sviðslistasjóð, 100 milljóna aukning í gegnum fjáraukalög fyrir kvikmyndasjóð á yfirstandandi ári og 300 milljónir á næsta ári, samtals 400 milljónir í kvikmyndasjóð.
Mikilvægt er að leggja rækt við grasrót listamanna þar sem frumsköpun blómstrar og styðja við unga og upprennandi listamenn þegar þeir stíga sín fyrstu skref. Tækifæri eru í sameiningu sjóða til að meira skili sér til listgreina og listamanna og minna í yfirbyggingu sjóðanna.

_

BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld hækki mánaðarlega fjárhæð listamannalauna, en upphæðin hefur rýrnað verulega í samanburði við launaþróun á undanförnum árum. Núverandi mánaðargreiðsla er kr. 538.000 sem er verktakagreiðsla og listamaðurinn þarf því að standa skil á öllum launatengdum gjöldum sjálfur. Á árunum 2011-2024 hækkuðu starfslaun listamanna um 96% meðan launavísitalan hækkaði um 160%. Hefðu starfslaun ársins 2011 verið verðtryggð með þróun launavísitölu væri upphæð þeirra 32% hærri en nú eða 713.000 kr. Þetta skýtur skökku við því að mánaðarleg fjárhæð listamannalauna er lægri en viðmið skattsins um lágmarks reiknað endurgjald fyrir vinnu listafólks. Munuð þið beita ykkur fyrir því á næsta kjörtímabili að hækka mánaðarlega fjárhæð starfslauna?

Tryggja þarf áframhaldandi grósku í íslensku menningarlífi um allt land sem auðgar lífið og hefur jákvæð hagræn áhrif. Endurskoða þarf starfslaunakerfi listamanna þannig að það sé sanngjarnt, hvetjandi, ýti undir grósku í menningarstarfi og styðji við upprennandi listafólk. Hlúa þarf vel að skapandi greinum sem fela í sér mikil tækifæri. Lækkun á skattlagningu höfundaréttargreiðslna, sem ráðist var í að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins, er liður í að hlúa að skapandi greinum.
Til greina kemur að endurskoða sjóðakerfi listgreina. Við höfum t.a.m. áhuga á að skoða atvinnuhvetjandi launatryggingakerfi að norrænni fyrirmynd til að byggja undir öruggara starfsumhverfi sjálfstætt starfandi listamanna sem og að auka fyrirsjáanleika.

_

Á undanförnum tveimur áratugum hefur hverju rýminu á fætur öðru verið lokað, ýmist vegna hertra öryggisstaðla eða skorts á fjármagni, og stendur grasrótarstarfsemi í tónlist, myndlist og sviðslistum frammi fyrir fordæmalausum húsnæðisskorti.BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld skoði heildrænar lausnir fyrir vinnuaðstöðu fyrir listamenn, bæði rými listsköpun, æfingar, tónleika, sýningar og hvers konar miðlun listaverka og menningararfs. Muni þið beita ykkur fyrir því að listamenn hafi aðgang að vinnurýmum og sýningarýmum fyrir sviðslist, myndlist og tónlist á viðráðanlegu verði á næsta kjörtímabili?

Ef vel á að takast til þyrfti slíkt að vera á grundvelli samstarfs við sveitarfélögin. Nauðsynlegt er að kortleggja stöðuna þegar kemur að aðstöðu fyrir listamenn og skoða hvar vöntun er á rýmum við hæfi. Í þeirri vinnu skiptir máli að hentugt húsnæði finnist fyrir þá starfsemi sem undir er og hvort huga mætti að frekari samnýtingu rýma í eigu ríkis og sveitarfélaga.

_

Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að bæta stöðu íslenskra bókmennta og íslenskrar tungu ef þið komist til valda?

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að varðveita þurfi íslenskrar tungu í nútímasamfélagi með því að vinna áfram af fullum krafti að máltækni. Auka þarf aðgengi að hljóð- og rafbókum á íslensku fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi. Auka þarf aðgengi að listnámi.
Við viljum styðja við íslenskar bókmenntir og rithöfunda með því að tryggja gott umhverfi fyrir listir og menningu. Flokkurinn styður við fjölbreytni í listum og skapandi greinum og hefur meðal annars komið til leiðar skattalegum umbótum til að bæta stöðu þeirra sem starfa á þessu sviði.
Áhersla flokksins er á að styðja íslenska menningu í alþjóðlegu samhengi og viðhalda sérstöðu íslenskrar tungu. Með stafvæðingu hins opinbera og þróun stafrænnar tækni eru sköpuð tækifæri sem gera bókmenntir aðgengilegri almenningi og ýta undir lestrarmenningu.
Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt sérstaka áherslu á bætta íslenskukennslu innflytjenda og að ung börn njóti íslensks málumhverfis í leikskólum. Tryggt aukið aðgengi að fjarnámi í íslensku í háskólunum.
Þá er grundvallaratriði að læsi verði aukið meðal grunnskólabarna. Sjálfstæðisflokkurinn talar m.a. fyrir því að börn sem koma til landsins og tala ekki íslensku taki sín fyrstu skref í grunnskólagöngunni í móttökuskóla eða -deild þar sem öll áhersla er á íslensku og íslenska menningu. Lestrarfærni þeirra verði metin áður en þau hefja nám með sínum jafnöldrum hérlendis til að geta stutt öll börn betur.
Aðgengi að bókum og sýnileiki bóka skiptir höfuðmáli og það þarf að tryggja að áfram verði öflug bókasöfn, bókabúðir og barnabókum gert sérstaklega hátt undir höfði, s.s. með lestrarátaki í leik- og grunnskólum. Sjálfstæðisflokkurinn styður menntun og rannsóknir sem efla þekkingu og viðhald tungunnar og hefur beitt sér fyrir verkefnum og stuðningi sem miða að bókmenntum og tungumálinu. Ísland er bókaþjóð og við höfum átt og eigum rithöfunda á heimsmælikvarða, þann auð þarf að varðveita.

_

Það er stefna stjórnvalda að sameina ríkisstofnanir og í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu er lagt til að Þjóðarópera verði stofnuð innan Þjóðleikhússins. Þannig náist samlegðaráhrif sem skili sér í minni yfirbyggingu og margþættri samnýtingu á innviðum og stoðdeildum. Á sama tíma er stigið fyrsta skrefið í átt að framtíðarfyrirkomulagi þar sem allar sviðlistastofnanir ríkisins verði reknar undir einum hatti með jafnræði milli listrænna stjórnenda hverrar listgreinar. BÍL styður þá framtíðarsýn sem fram kemur í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu að lagður verði grunnur að sameinaðri sviðslistastofnun líkt og er í Dannmörku.
Styður ykkar flokkur þessa framtíðarsýn?

Já, Sjálfstæðisflokkurinn er fylgjandi sameinaðri sviðslistastofnun þar sem margþætt samnýting á innviðum og stoðdeildum fer fram og felur í sér minni yfirbyggingu. Þar sem hver og ein listgrein hefur listrænan stjórnanda og ákveðið sjálfstæði.


_

Hvernig hyggst þinn flokkur tryggja gæði í byggingarlist á Íslandi?

Byggingaframkvæmdir eru að stærstum hluta á forræði sveitarfélaga. Áherslur Sjálfstæðisflokksins miða að því að einfalda regluverk og endurskoða byggingarreglugerðir með áherslu á vistvæna mannvirkjagerð. Þessar breytingar miða að því að skapa hagkvæmara og sveigjanlegra umhverfi fyrir byggingariðnaðinn, en einnig að auka frelsi framkvæmdaraðila við uppbyggingu.
Flokkurinn vill einnig stuðla að hraðari og hagkvæmari uppbyggingu, sem á að tryggja fjölbreytt húsnæðisframboð með minni sóun og aukinni skilvirkni. Þessar áherslur endurspegla vilja flokksins til að styðja við nýsköpun og hönnun sem getur hvort tveggja bætt gæði bygginga hvað varðar fagurfræði og sjálfbærni.

_

Í sviðslistum má finna ýmsar stofnanir og menningarsjóði sem eru reknar að meirihluta fyrir opinbert fé (t.d Þjóðleikhús, Íslenski dansflokkurinn, sviðslistasjóður, kvikmyndasjóður, Listaháskóli Íslands o.s.frv). Listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag eiga ekki allir skjól í kjarasamningi. Fjölmargir vinna í verktöku á kjörum sem eru undir lágsmarkslaunum eða viðmiðunarsamningum.
Hvernig ætlar flokkurinn þinn að vinna gegn því að listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag í gegnum sjóðakerfið eða hjá opinberum stofnunum séu hlunnfarnir?

Kæmi til greina af ykkar hálfu, að skilyrða styrkveitingu eða rekstrarframlag af hálfu hins opinbera þannig að viðkomandi greiði listamönnum samkvæmt kjarasamningi við viðeigandi stéttarfélag?

Fagfélög og stéttarfélög listamanna standa vörð um stéttina gagnvart opinberum rekstraraðilum, þ.m.t. hvað varðar launamál. Það er brýnt að opinber framlög skili sér til listamanna ef svo er ekki, enda er það tilgangur framlaganna. Þar skiptir hagræðing og ný hugsun í rekstri höfuðmáli.

Já það kæmi til greina. Það skiptir máli að listamenn séu varnir að einhverju leyti og geti átt skjól, t.a.m. í kjarasamningi. Allar menningarstofnanir landsins eru að miklu leyti reknar fyrir opinbert fé hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélögum.

_

Listaháskólinn hefur búið við mikinn húsnæðisvanda frá stofnun skólans og skólinn er í dag í sex mismunandi byggingum víðsvegar um borgina sem mætir engan veginn kröfum háskóla í nútíma samfélagi. Nú liggja fyrir áform um að skólinn komist undir eitt þak í húsnæði gamla Iðnskólans á Skólavörðuholti. Styður þinn flokkur framtíðaráform Listaháskólans um að komast undir eitt þak næstu árum þar sem kröfum og þörfum skólans er mætt. Ætlið þið að forgangsraða þessu verkefni á næsta kjörtímabili?

Já, sannarlega. Sjálfstæðisflokkurinn hyggst ljúka við þau áform sem hófust undir forystu núverandi háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra um að koma Listaháskólanum undir eitt þak í framtíðarhúsnæði sem samræmist þörfum og kröfum skólans á Skólavörðuholti. Í því samhengi er mikilvægt að taka ábyrgar ákvarðanir sem raunverulega eru til þess fallnar að tryggja framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskólann sem fyrst, enda er afar aðkallandi að leysa húsnæðisvanda skólans. Skólavörðuholtið hentar skólanum vel, byggingin var byggð fyrir skóla og áhrif, niðurrif og viðbyggingar minni. Þá er þetta hagkvæm lausn sem við munum forgangsraða að gangi eftir.

Þegar haft er í huga hvernig rannsóknir sýna fram á mikilvægi lista, bæði hvað varðar farsæld nemenda, sjálfsskilning og víðari sjóndeildarhring (að ónefndu efnahagslegu gildi lista og menningar sbr. nýlega skýrslu Ágústs Ólafs Ágústssonar) þá má spyrja: Hvernig telja frambjóðendur að megi efla hlut lista í menntun og skólastarfi? Hvert teljið þið að hlutverk ríkisins sé í því að tryggja menntun í listum og skapandi greinum fyrir ungt fólk á Íslandi og hvernig viljið þið sjá þessa menntun þróast?

Þar þarf samstillt átak ríkis og sveitarfélaga og þarf að vera samfella frá leikskóla til háskóla um að styðja við skapandi greinar. Lykilatriði er að listgreinar blómstri, öflugar listabrautir verði áfram starfræktar og áfram verði sterkur Listaháskóli rekinn. Við höfum lagt sérstaka áherslu á listir, STEAM kennslu, raunvísindi, og tækni er lykilatriði hvað varðar öflugan geira skapandi greina, hugverka og tækni.
Á kjörtímabilinu, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, voru skólagjöld afnumin við Listaháskóla Íslands sem hefur skilað sér í margfalt fleiri umsóknum um nám í skólanum. Það er að mati Sjálfstæðisflokksins rétt forgangsröðun og undirstrikað að jöfn tækifæri til alls náms séu tryggð á Íslandi. Við viljum að ríkið haldi áfram að styðja við skapandi greinar og að listnám hafi frjóan jarðveg til að blómstra á Íslandi.



_

Ef þið væruð að lýsa “fullkomnu samfélagi” í ykkar augum, hvernig myndi efnahagsleg aðild ríkisins að menningarmálum?

Í „fullkomnu samfélagi“ að mati Sjálfstæðisflokksins væri hlutverk ríkisins í menningarmálum fyrst og fremst að skapa ramma og umgjörð sem stuðlar að sjálfstæði og sköpun listamanna og menningarstofnana. Ríkið myndi tryggja að menning væri ekki háð of miklum afskiptum eða stýringu, heldur að hún gæti þróast á sjálfbæran hátt. Fjölbreytni í listum og menningu væri tryggð með jafnræði í úthlutun styrkja og aðgengi fyrir ólíka hópa samfélagsins. Sérstaða íslenskrar tungu og menningar væri í forgrunni með fjármögnun verkefna sem efla skilning og áhuga á íslenskri menningu bæði innanlands og utan.