Á sama tíma og listir og menning skapa störf og bæta samfélagið þá er heildarskerðing fjármagns á milli áranna 2024 og 2025 á sviði menningarmála 365,4 milljónir króna m.v. fjárlagafrumvarp næsta árs. Niðurskurður á Kvikmyndasjóði frá árinu 2021 er 27,3%, niðurskurður á Bókasafnssjóði á milli áranna 2024 og 2025 er 22,8%, niðurskurður Sviðslistasjóða á milli áranna 2024 og 2025 er 20,7% og niðurskurður Myndlistarsjóðs á milli áranna 2024 og 2025 er 17,6%. Ef núverandi fjárlagafrumvarp verður samþykkt óbreytt mun það hafa neikvæðar afleiðingar á starfsumhverfi listamanna til frambúðar. Munuð þið beita ykkur fyrir því að styrkja sjóðakerfi listgreina á næsta kjörtímabili?

Listir eru arðbær iðnaður sem ber að styrkja og gera hátt undir höfði. Í stefnu okkar um menningarmál tölum við um að auka styrki til listgreina. Okkur finnst mikilvægt að framlög frá ríkinu taki mið af fjölbreytileika íslenskrar menningar á 21. öld og fjölmenningu sem hluta af íslensku samfélagi. Þannig skulu framlög ríkisins einnig vera tæki til jöfnuðar þegar kemur að sköpun og aðgengi að menningu allra sem hér búa.

_

BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld hækki mánaðarlega fjárhæð listamannalauna, en upphæðin hefur rýrnað verulega í samanburði við launaþróun á undanförnum árum. Núverandi mánaðargreiðsla er kr. 538.000 sem er verktakagreiðsla og listamaðurinn þarf því að standa skil á öllum launatengdum gjöldum sjálfur. Á árunum 2011-2024 hækkuðu starfslaun listamanna um 96% meðan launavísitalan hækkaði um 160%. Hefðu starfslaun ársins 2011 verið verðtryggð með þróun launavísitölu væri upphæð þeirra 32% hærri en nú eða 713.000 kr. Þetta skýtur skökku við því að mánaðarleg fjárhæð listamannalauna er lægri en viðmið skattsins um lágmarks reiknað endurgjald fyrir vinnu listafólks. Munuð þið beita ykkur fyrir því á næsta kjörtímabili að hækka mánaðarlega fjárhæð starfslauna?

Sósíalistaflokkurinn vill tryggja listafólki efnahagslegt öryggi til þess að starfa sjálfstætt að list sinni óháð væringum markaðarins og útilokunar klíkusamfélagsins. 
Kjör listafólks skulu tryggð betur með því að fjölga starfslaunum og lengja þann tíma sem þau eru veitt ásamt fjölgun vekefnastyrkja en einnig að tryggja réttindi og kjör þeirra listamanna sem starfa við stofnanir sem njóta opinberra styrkja.  Þá eru starfslaunasjóðir sviðslistafólks aðkallandi þegar oft er hlé á milli verkefna og mörg þeirra sjálfstætt starfandi allan sinn feril.  Hvað varðar hækkun mánaðarlegra fjárhæða þá er það á stefnuskrá flokksins að stokka upp í skattkerfinu og afnema skatta á lægstu laun og bætur og þætti okkur eðlilegt að endurreikna upphæðir og aðferðir við útreikning starfslauna. Við stöndum alfarið gegn láglaunastefnu svo svar okkar hlýtur að vera já.

_

Á undanförnum tveimur áratugum hefur hverju rýminu á fætur öðru verið lokað, ýmist vegna hertra öryggisstaðla eða skorts á fjármagni, og stendur grasrótarstarfsemi í tónlist, myndlist og sviðslistum frammi fyrir fordæmalausum húsnæðisskorti.BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld skoði heildrænar lausnir fyrir vinnuaðstöðu fyrir listamenn, bæði rými listsköpun, æfingar, tónleika, sýningar og hvers konar miðlun listaverka og menningararfs. Muni þið beita ykkur fyrir því að listamenn hafi aðgang að vinnurýmum og sýningarýmum fyrir sviðslist, myndlist og tónlist á viðráðanlegu verði á næsta kjörtímabili?

Til þess að gera listinni hátt undir höfði þarf listafólk og stofnanir að hafa þak yfir höfuðið það segir sig sjálf.

_

Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að bæta stöðu íslenskra bókmennta og íslenskrar tungu ef þið komist til valda?

Hvað varðar bókmenntir þá ber okkur að gera vel við allar listgreinar en gera ekki upp á milli þeirra. Við höfum einnig í okkar stefnuskrá að lögfest verði höfundarréttarstefna í samræmi við gildandi hugverkastefnu og að tryggja rekstur bókasafna og menningarmiðstöðva um allt land. Þá verði sjálfstæði fjölmiðla tryggt og sjálfstætt starfandi fræðimönnum fjölgað. Íslenskukennsla verði aukin fyrir íbúa af erlendunum uppruna og skólakerfið allt eflt í tengslum við menningu og listir.

_

Það er stefna stjórnvalda að sameina ríkisstofnanir og í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu er lagt til að Þjóðarópera verði stofnuð innan Þjóðleikhússins. Þannig náist samlegðaráhrif sem skili sér í minni yfirbyggingu og margþættri samnýtingu á innviðum og stoðdeildum. Á sama tíma er stigið fyrsta skrefið í átt að framtíðarfyrirkomulagi þar sem allar sviðlistastofnanir ríkisins verði reknar undir einum hatti með jafnræði milli listrænna stjórnenda hverrar listgreinar. BÍL styður þá framtíðarsýn sem fram kemur í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu að lagður verði grunnur að sameinaðri sviðslistastofnun líkt og er í Dannmörku.
Styður ykkar flokkur þessa framtíðarsýn?

Við erum flokkur sem styðjum allt samráð við þá sem málin snerta. Það er í stefnuskrá okkar að lögfesta Þjóðaróperu og Danshús og ef þetta er leiðin sem tónlista og sviðslistafólk vill fara þá stiðjum við það.

_

Hvernig hyggst þinn flokkur tryggja gæði í byggingarlist á Íslandi?

Við viljum tryggja gæði í byggingarlist með því að farið sé eftir öllum stöðlum í byggingariðnaði og eftirliti með byggingaraðilum sé sinnt vel. Aðgengisstaðlar skulu vera í lagi þegar kemur að fötluðu fólki. Við styðjum svo einnig rannsóknir og nýskopun í byggingariðnaði sem öðrum verk og listgreinum. Þá skal stutt við nám í arkítektúr og smíðum og ný þekking ávallt sótt jafnóðum.

_

Í sviðslistum má finna ýmsar stofnanir og menningarsjóði sem eru reknar að meirihluta fyrir opinbert fé (t.d Þjóðleikhús, Íslenski dansflokkurinn, sviðslistasjóður, kvikmyndasjóður, Listaháskóli Íslands o.s.frv). Listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag eiga ekki allir skjól í kjarasamningi. Fjölmargir vinna í verktöku á kjörum sem eru undir lágsmarkslaunum eða viðmiðunarsamningum.
Hvernig ætlar flokkurinn þinn að vinna gegn því að listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag í gegnum sjóðakerfið eða hjá opinberum stofnunum séu hlunnfarnir?

Kæmi til greina af ykkar hálfu, að skilyrða styrkveitingu eða rekstrarframlag af hálfu hins opinbera þannig að viðkomandi greiði listamönnum samkvæmt kjarasamningi við viðeigandi stéttarfélag?

Það kemur vel til greina enda í okkar stefnum mikið uppúr því lagt að fólk sé ekki hlunnfarið um laun og sé upplýst um réttindi sín. Þá sé láglaunastefna ekki liðin.

_

Listaháskólinn hefur búið við mikinn húsnæðisvanda frá stofnun skólans og skólinn er í dag í sex mismunandi byggingum víðsvegar um borgina sem mætir engan veginn kröfum háskóla í nútíma samfélagi. Nú liggja fyrir áform um að skólinn komist undir eitt þak í húsnæði gamla Iðnskólans á Skólavörðuholti. Styður þinn flokkur framtíðaráform Listaháskólans um að komast undir eitt þak næstu árum þar sem kröfum og þörfum skólans er mætt. Ætlið þið að forgangsraða þessu verkefni á næsta kjörtímabili?

Já okkur finnst gríðarlega mikilvægt að fjárfest sé í menntakerfinu sem og menningarlífinu og í stefnu okkar um menningarmál segir að mikilvægt sé að menntamálin ýti undir skapandi greinar og tryggi aðgengi allra að listnámi. Þá finnst okkur mikilvægt að auka list- og verknám á öllum skólastigum og að styðja í auknum mæli við rannsóknir og stofnun nýrra námsbrauta einkum í grunnnámi á háskólastigi til að búa okkur undir framtíðina. Þar gegn listgreinar stóru hlutverki. Töluvert er orðið um samvinnu milli deilda í Listaháskóla Íslands og þurfa nemendur oft að ferðast töluverðar vegalengdir milli bygginga. Þetta er óhagræði sem ekki aðeins kemur niður á nemendum í tilteknum áföngum heldur kemur þetta í veg fyrir að gjörnýta alla þá samvinnu vinkla milli listgreina sem hægt er að nýta. Það ætti einnig að vera hagkvæmara að reka slíka skólastofnun undir sama þaki en dreyfa henni hist og her um bæinn eins og gert hefur verið í áratugi eða frá stofnun skólans.

_

Þegar haft er í huga hvernig rannsóknir sýna fram á mikilvægi lista, bæði hvað varðar farsæld nemenda, sjálfsskilning og víðari sjóndeildarhring (að ónefndu efnahagslegu gildi lista og menningar sbr. nýlega skýrslu Ágústs Ólafs Ágústssonar) þá má spyrja: Hvernig telja frambjóðendur að megi efla hlut lista í menntun og skólastarfi? Hvert teljið þið að hlutverk ríkisins sé í því að tryggja menntun í listum og skapandi greinum fyrir ungt fólk á Íslandi og hvernig viljið þið sjá þessa menntun þróast?

Mikilvægt er að menntamálin ýti undir skapandi greinar og tryggi aðgengi allra að listnámi með afnámi skólagjalda og sér átaki varðandi jaðarhópa og þá er sýna sig að skili sér síður í listnám. Til þess að allir geti notið menningar og lista óháð efnahag, stétt eða stöðu er mikilvægt að fella niður almennan aðgangseyris að menninga- og listastofnunum í opinberum rekstri en einnig stuðla að öflugri undirstöðu lista- og menningarlífs með menntun í skapandi greinum. Stafræn menning skal einnig studd af ríkinu og gerð aðgengileg öllum skólum og menntastofnunum. Efla skal allt menningarstarf á Íslandi og gera sérstakt átak í að efla sjálfstæði, sjálfsmynd, auka sýnileika og hvetja til þátttöku jaðarsetta hópa svo sem fanga og fólks á sjúkrastofnunum en einnig innflytjenda og fólks af öðrum þjóðarbrotum. Mikilvægt er að framlög frá ríkinu taki mið af fjölbreytileika íslenskrar menningar á 21. öld og fjölmenningu sem hluta af íslensku samfélagi. Þannig skulu framlög ríkisins einnig vera tæki til jöfnuðar þegar kemur að sköpun og aðgengi að menningu allra sem búa á Íslandi. Fjárframlög ríkisins í hvaða formi sem er verði því einnig metin af þverfagaðilum á sviði lista og menningar en einnig á sviði félagsvísinda. Þá sé stuðlað að samvinnu menningarstofnana um allt land svo að fjármunir nýtist hinni faglegu starfsemi með besta móti. Þá viljum við auka list- og verkgreinakennslu á öllum skólastigum.

_

Ef þið væruð að lýsa “fullkomnu samfélagi” í ykkar augum, hvernig myndi efnahagsleg aðild ríkisins að menningarmálum?Sósíalistaflokkur Íslands

Menningunni væri gert hátt undir höfði og væri ríkur þáttur í skólastarfi með aðgengi allra að listviðburðum og listnámi á framhaldsskóla og háskólastigi. Hlúð sé að efnahagslegu öryggi lsitamanna svo þeir fái notið sín. Listin er samfélagsspegill sem þjónar gríðar mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi en má ekki vera rekin af sjálfboðavinnu hugsjónafólks sem brennur af sköpunarþrá.