Stjórn BÍL átti fund með fjárlaganefnd Alþingis í morgun. Rætt var almennt um stöðu menningar og skapand greina í því kreppuástandi sem nú ríkir. Einnig var farið yfir nokkur verkefni sem stjórn BÍL tekur mikilvægt að fjárlaganefnd skoði sérstaklega í því vinnuferli sem framundan er hjá nefndinni. Hér á eftir fylgir minnisblað það sem stjórn BÍL lagði fram á fundinum:

 

Starfsemi BÍL hefur ekki verið með fastan fjárlagalið en hefur fengið framlag af safnlið 02-999-1.98. Á fjárlögum 2009 var upphæðin 2,3 milljónir króna en 2010 lækkaði hún í 1,8 milljónir eða um rúm 20%. Til að BÍL geti staðið undir lágmarksstarfsemi þyrfti upphæðin að vera 2,3 milljónir.

BÍL vill vekja athygli fjárlaganefndar á eftirfarandi:

Það er mikilvægt að standa vörð um sjóði, sem hafa það lögbundna hlutverk að fjármagna verkefni á sviði lista og menningar. Þar er um að ræða m.a. Kvikmyndasjóð, Bókmenntasjóð, Tónlistarsjóð, Starfsemi atvinnuleikhópa og launasjóð listamanna. Á síðasta ári var samningi menntamála-ráðuneytis við kvikmyndagerðarmenn kippt úr sambandi og sjóðurinn skorinn umfram aðra sjóði. BÍL telur mikilvægt að samningurinn verði vakinn til lífsins á ný svo áform um stóreflingu kvikmyndageirans geti gengið eftir.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga mikilvægi skapandi greina við gjaldeyrissköpun fyrir þjóðarbúið. Það er t.d. mikilvægt að sjóðir á borð við Tónlistarsjóð hafi möguleika á að veita styrki með útflutnings- og þróunaráherslum. Barátta fyrir slíkum áherslum hefur staðið árum saman en ekki skilað árangri sem skyldi.

Stjórn BÍL tekur virkan þátt í starfi Íslandsstofu, sem ætlað er að auka möguleika skapandi greina á erlendum vettvangi, enn er ekki ljóst hvaðan fjármunir til slíkra verkefna eiga að koma. Í því sambandi bendir stjórn BÍL á mikilvægi kynningarmiðstöðva í skapandi greinum; Hönnunarmiðstöð, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kvikmyndamiðstöð, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Íslenska tónverkamiðstöð, Bókmenntasjóð og Sviðslistamiðstöð Íslands sem er í burðarliðnum.

Þá biður BÍL um að endurskoðuð verði sú ákvörðun að hætta stuðningi við verkefnið „Tónlist fyrir alla“ 02-982-1.27.

Loks biður stjórn BÍL um að fjárlaganefndarmenn hafi í huga hina miklu grósku sem verið hefur í listum og menningu eftir að bankarnir hrundu og kreppa skall á í efnahagslífi þjóðarinnar. Listahátíðir af ýmsu tagi hafa blómstrað og aðsókn á menningarviðburði hefur sjaldan verið meiri (það er að hluta til vegna þess hversu miðaverði er stillt í hóf vegna aðstæðna). Skal í því sambandi sérstaklega bent á þátt danslistarinnar, sem er yngsta listgreinin okkar og nýafstaðna glæsilega alþjóðlega danslistahátíð. Einnig ber að nefna tónlistarhátíðir á borð við Iceland Airwaves, hátíð sem laðar yfir 2000 erlenda gesti til landsins og skilar á annan milljarð í veltu fyrir ferðaþjónustuna á fáeinum dögum.