Frá fundi BÍL 30. september 2006

Kristín Helga Gunnarsdóttir:

Íslenskt barnasjónvarp í skúffum

Íslenskt sjónvarp fagnar nú fjörutíu ára afmæli. það þýðir að það verða bráðum fjörutíu ár síðan ég laumaðist út úr húsi á náttkjólnum eldsnemma á laugardagsmorgnum og hljóp á gúmmístígvélunum upp götuna heim til vinkonu minnar. Þar hittust syfjuð börn héðan og þaðan við sjónvarpstækið og horfðu saman á Köttinn Felix í svart/hvítu í boði kanans á Keflavíkurflugvelli. Við, þessi sem vorum svo ólukkuleg að búa í húsum herstöðvaandstæðinga, nutum þá góðs af ópólitískari foreldrum vina okkar.

Þannig liðu árin og uppistaðan í barnaefni sem glænýtt ríkissjónvarp bauð upp á árum saman var hin ævaforna Stundin Okkar. Mikið var maður þá þakklátur fyrir helgistundina með Rannveigu og Krumma.

Og nú langar mig svo að segja:

En mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.

Því miður get ég ekki sagt það án þess að svelgjast á. Það litla sem hefur breyst hingað til að mínu mati er að Rannveig og Krummi urðu Birta og Bárður og afkomendur kattarins Felix eru talsettir í lit. Á afmælisdegi sjónvarpsins kl 16:40 var sýnd á RÚV upptaka Sjónvarpsins á Karíusi og Baktusi. Upptaka þessi er frá 1970. Á vef RÚV var auglýst að í tilefni af 40 ára afmæli Sjónvarpsins væri allt barnaefni í morgunsjónvarpinu íslenskt. Og íslenskt skal það vera – af því að það er afmæli. Og til þess að gera þetta kleift varð að fara í safnið gamla, góða og draga fram flest það sem gert hefur verið fyrir börn frá því að ég var að elta köttinn Felix á milli húsa á náttkjólnum.

Eitt og annað hefur verið í boði fyrir börn á RÚV í fjörutíu ár, svo sem tilviljanakennd jóladagatalaframleiðsla, samnorrænar og samevrópskar barnamyndir sem RUV hefur átt aðild að. Það vil ég þó ekki kalla innlent efni með öllu þar sem myndum er á stundum ritstýrt að utan og tungumálið má alls ekki heyrast. Vandaðir þættir hafa þó ratað inn í dagskrána á löngum tíma, s.s. þættir um börn í dagsins amstri eftir Lindu Ásgeirsdóttur á liðnu ári.

Forvitnilegt er að skoða könnun Kristínar Atladóttur, kvikmyndaframleiðanda, á frumsýndu íslensku barnaefni á RUV fyrir árið 2001. Stundin okkar er þar með talin. Á heilu ári var þá frumsýnt innlent barnaefni í rúmar nítján klukkustundir. Það þýðir 22 mínútur á viku eða rétt rúmlega 3 mínútur á dag.

Ekki sýnist mér í fljótu bragði ástandið hafa batnað til muna á þeim fimm árum sem liðin eru síðan Kristín gerði sína könnun.

Barnssál í mótun þarf örvun og hvatningu. Hún þarf að geta speglað sig í veruleika sínum og séð sjálfa sig í öðrum. Hún þarf að máta sig við jafnoka sína í svipuðum aðstæðum. Hún þarf að leita samnefnara og samkenndar í samhengi hlutana, jafnvel langt aftur í tímann. Hún þarf að leita hugrekkis og frelsis. Hún leitar og finnur, velur og hafnar. Og til þess að geta gert allt þetta á leið til þroska þarf barnið að hafa fyrir augunum veruleika sem það kannast við, umber og skilur. Það þarf að horfa í spegil sem ýkir, skopast, umfaðmar og skelfir. Ef við viljum ala börnin upp í íslensku menningarumhverfi þurfa menningarmiðlar að taka duglega við sér. Þessi spegill, sjónvarpið sem barnið horfir meira í en við þorum að viðurkenna, verður að endurspegla sameiginlega upplifun okkar litla samfélags. Hann verður að sýna okkur raunveruleika þar sem fortíð kennir nútíð að takast á við ókomna framtíð. Þessi tenging er hverfandi.

Í okkar samfélagi er það staðreynd að uppalendur barnsins eru þrír: aðstandendur, skólakerfi og þriðji uppalandinn er sjónvarp og hin rafræna veröld.

Þegar Ágúst Guðmundsson bað mig að fara í þennan erfiða ratleik, sem heitir: Hvar er íslenskt sjónvarp fyrir börn? vissi ég að það yrði flókin leit sem myndi leiða mig eftir krákustígum og krókaleiðum á ólíklegustu staði. Hvar er spegillinn sem börnin okkar spegla sig í? Hvar er þriðji uppalandinn? Ég hef þegar tíundað fátæklegt barnaefni ríkissjónvarpsins og nenni ekki að taka þátt í því að tilgreina talsettar teiknimyndir sem innlent efni sem þeir ku gera á RÚV. Þá er rétt eins hægt að kalla Bráðavaktina innlent efni af því að búið er að þýða allan textann.

Og ég ákvað að leita víðar, enda á íslensk sjónvarpsflóra að hafa aukið mjög á fjölbreyttni sína með tilkomu hinna svokölluðu frjálsu sjónvarpsstöðva. Skjár einn framleiddi í árdaga barnaefni. Það lagðist fljótlega af og ekkert kom í staðinn. Hjá 365 eða Stöð tvö var farið af stað með fögur fyrirheit og brotið lítið blað í íslensku barnasjónvarpi með tilkomu Afa á laugardagsmorgnum. Þáttur þessi var ódýr í framleiðslu, hóf göngu sína árið 1987, en flestum að óvörum var hann aflagður nú á vordögum. Þar með lauk hinum litlu afskiptum 365 af framleiðslu barnaefnis í sjónvarpi í bili. En afi karlinn fylgdi nokkuð mörgum árgöngum barna inn á fullorðinsárin á þessum tæpu tuttugu árum. Búbbarnir eru framleiðsla stöðvar tvö sem ku vera svar stöðvarinnar við Prúðuleikurunum. Ég hef ekki séð þá en hef heyrt að markhópurinn sé öll fjölskyldan.

Og nú vil ég vitna í kollega minn, Andra Snæ Magnason, sem hefur furðað sig á því að ekki skuli meðvitað reynt að nýta stofur þessa lands á laugardags og sunnudagsmorgnum til þess að ná til litlu arftakanna með vandaða íslenska framleiðslu. Hefur hann orðað það svo að hér sé um að ræða stærstu kennslustofu landsins.

Þessi kennslustofa er troðfull af smáfólki, en kennarar og leiðbeinendur eru hvergi nærri og talsettri fjöldaframleiðslu er sturtað yfir mannskapinn á meðan foreldrarnir sofa.

Og hvar er þá íslenskt sjónvarp fyrir börn? Örlítið brotabrot af því býr í Stundinni okkar og því sáralitla innlenda efni sem er sýnt, endursýnt og endurendursýnt. Stundin okkar sinnir þriggja til sjö ára. Efni fyrir átta til þrettán ára sem markhóp er ekki fyrir hendi.

En samt fann ég börnin við sjónvarpstækin út um allt því miðillinn heldur áfram að vera uppalandi hvort sem hann veldur því eður ei. Á meðan framleiðsla á íslensku barnaefni fyrir sjónvarp er í algjöru lágmarki halda börnin áfram að leita. Þau leita og þau finna sitt af hverju. Ég fann íslensk sjónvarpsbörn í Los Angeles með Skjá einum hjá Magna á sviði í Rockstar-Supernova. Ég fann þau í Ædoli stöðvar tvö, bandarísku sjónvarpsefni aðlöguðu að íslenskum aðstæðum. Ég fann sjónvarpsbörnin hjá Strákunum á Stöð tvö, sem áttu sína dyggustu áhorfendur meðal grunnskólabarna. Ég fann þau fyrir framan Ameríska toppfyrirsætuþáttinn, Sörvævor og Batsjélor.

Í fjölmiðlafræði, sem ég lærði fyrir löngu í Ameríku, er mér minnisstætt hugtakið LOP- least objectionable programming, en því var mikið hampað þar vestra. Það vísar til þess að meðal áhorfandi horfir á sjónvarp hvað svo sem er í boði. Hann velur ávallt það sem honum finnst skást. Þannig neyta börn einnig sjónvarps og mörg hver eftirlitslaust. Skásti kosturinn verður alltaf fyrir valinu. Með það í huga er enn mikilvægara að vanda til verks og bjóða aðeins það besta fyrir börn.

Við erum búin að finna börnin við sjónvarpið, en hvar er þá íslenskt sjónvarp fyrir börn? Ég fann það ofan í skúffum. Ég fann það í skúffum og í tölvuskjölum um allar trissur. Það er á hörðum diskum, í skrifborðsskúffum, í möppum og rykföllnum handritum í vinnustofum listamanna og fagfólks um allt land.

Frá og með árinu 2008 lofar RÚV að framleiða innlent efni fyrir árlega viðbót upp á 150 milljóna króna. Kannski verður þessum auka 150 milljónum veitt að hluta til í gerð vandaðs innlends efnis fyrir börn. Kannski verður hann smíðaður þessi stóri íslenski barnaspegill sem sárlega vantar fyrir sjónvarp í dag og hefur í raun alltaf vantað. Fyrir mér er þetta þó sýnd veiði, en alls ekki gefin.