Á sama tíma og listir og menning skapa störf og bæta samfélagið þá er heildarskerðing fjármagns á milli áranna 2024 og 2025 á sviði menningarmála 365,4 milljónir króna m.v. fjárlagafrumvarp næsta árs. Niðurskurður á Kvikmyndasjóði frá árinu 2021 er 27,3%, niðurskurður á Bókasafnssjóði á milli áranna 2024 og 2025 er 22,8%, niðurskurður Sviðslistasjóða á milli áranna 2024 og 2025 er 20,7% og niðurskurður Myndlistarsjóðs á milli áranna 2024 og 2025 er 17,6%. Ef núverandi fjárlagafrumvarp verður samþykkt óbreytt mun það hafa neikvæðar afleiðingar á starfsumhverfi listamanna til frambúðar. Munuð þið beita ykkur fyrir því að styrkja sjóðakerfi listgreina á næsta kjörtímabili?
Óhætt er að segja að innan Miðflokksins sé margt fólk sem lætur sér mjög annt um menningu og listir. Að njóta listar er persónuleg upplifun og oft og tíðum sterk því margir tengja við tiltekin listform, listamenn eða stefnur. Listin hefur mikil áhrif á menningu okkar og því sjálfsagt fyrir skattgreiðendur að styðja við hana að einhverju marki þó að við leggjum áherslu á að hinn persónulegi stuðningur sé mikilvægastur.
Framlög til listar verða að taka mið af hinum efnahagslega veruleika hverju sinni en Miðflokkurinn leggur í senn áherslu á að standa við þær skuldbindingar sem í lögum felast en um leið lofa ekki meiru en hægt er að standa við.
_
BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld hækki mánaðarlega fjárhæð listamannalauna, en upphæðin hefur rýrnað verulega í samanburði við launaþróun á undanförnum árum. Núverandi mánaðargreiðsla er kr. 538.000 sem er verktakagreiðsla og listamaðurinn þarf því að standa skil á öllum launatengdum gjöldum sjálfur. Á árunum 2011-2024 hækkuðu starfslaun listamanna um 96% meðan launavísitalan hækkaði um 160%. Hefðu starfslaun ársins 2011 verið verðtryggð með þróun launavísitölu væri upphæð þeirra 32% hærri en nú eða 713.000 kr. Þetta skýtur skökku við því að mánaðarleg fjárhæð listamannalauna er lægri en viðmið skattsins um lágmarks reiknað endurgjald fyrir vinnu listafólks. Munuð þið beita ykkur fyrir því á næsta kjörtímabili að hækka mánaðarlega fjárhæð starfslauna?
Ef á annað borð er komið upp launagreiðslukerfi eins og felst í listamannalaunum er ósanngjarnt að láta greiðslurnar rýrna jafnt og stöðugt eins og hér er raunin. Miðflokkurinn mun styðja skynsama og farsæla nálgun á þau mál.
_
Á undanförnum tveimur áratugum hefur hverju rýminu á fætur öðru verið lokað, ýmist vegna hertra öryggisstaðla eða skorts á fjármagni, og stendur grasrótarstarfsemi í tónlist, myndlist og sviðslistum frammi fyrir fordæmalausum húsnæðisskorti.BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld skoði heildrænar lausnir fyrir vinnuaðstöðu fyrir listamenn, bæði rými listsköpun, æfingar, tónleika, sýningar og hvers konar miðlun listaverka og menningararfs. Muni þið beita ykkur fyrir því að listamenn hafi aðgang að vinnurýmum og sýningarýmum fyrir sviðslist, myndlist og tónlist á viðráðanlegu verði á næsta kjörtímabili?
Miðflokkurinn hefur skilning á því að gott vinnurými skiptir listamenn miklu þó að það geti verið umdeilanlegt að láta hið opinbera sjá um það. Það mætti hins vegar sjá fyrir sér að beita skattalegum hvötum til þeirra sem vilja koma að slíkum verkefnum. Í einhverjum tilvikum getur hið opinbera boðið húsnæði í sinni eigu sem ella nýttist ekki til annarra nota og væri sjálfsagt að gera það.
_
Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að bæta stöðu íslenskra bókmennta og íslenskrar tungu ef þið komist til valda?
Skemmst er frá því að segja að Miðflokkurinn lætur sér mjög annt um íslenskuna, bæði sem rit- og talmál. Miðflokkurinn leggur áherslu á að íslenska sé í forgrunni hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum og að samfélagið taki saman höndum um eflingu íslensku meðal fólks í framlínustörfum. Miðflokkurinn leggur áherslu á að íslenskukennsla barna og unglinga verði efld. Ef íslenskan lifir sterku lífi, þarf ekki að hafa áhyggjur af íslenskum bókmenntum.
Miðflokkurinn styður áframhaldandi stuðning við íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu og leggur sérstaka áherslu á að almenningi verði gert auðvelt að njóta þeirra. Ef styðja á við íslensku í skólakerfinu hljóta bókmenntir að skipta miklu máli.
_
Það er stefna stjórnvalda að sameina ríkisstofnanir og í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu er lagt til að Þjóðarópera verði stofnuð innan Þjóðleikhússins. Þannig náist samlegðaráhrif sem skili sér í minni yfirbyggingu og margþættri samnýtingu á innviðum og stoðdeildum. Á sama tíma er stigið fyrsta skrefið í átt að framtíðarfyrirkomulagi þar sem allar sviðlistastofnanir ríkisins verði reknar undir einum hatti með jafnræði milli listrænna stjórnenda hverrar listgreinar. BÍL styður þá framtíðarsýn sem fram kemur í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu að lagður verði grunnur að sameinaðri sviðslistastofnun líkt og er í Dannmörku.
Styður ykkar flokkur þessa framtíðarsýn?
Miðflokkurinn hefur ekki mótað tiltekna stefnu í þessu máli en styður aðgerðir sem eru til hagræðingar. Þó er sérstök ástæða að minna á frumkvæði þeirra einstaklinga sem settu Íslensku óperuna á stofn. Þeir sýndu að djarfir og framsýnir hugsjónamenn geta lyft grettistaki ef því er að skipta.
_
Hvernig hyggst þinn flokkur tryggja gæði í byggingarlist á Íslandi?
Óhætt er að segja að formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi beitt sér mjög á sviði byggingalistar og skipulagsmála. Þannig eru núverandi lög um verndarsvæði í byggð, sem tóku gildi 24. júlí 2015, alfarið hans framtak en þau stuðla að annarri og heildstæðari sýn í skipulagsmálum. Þar er lögð áhersla á gildismat sem tekur til listfræði og byggingarlistar. Allt hvetur þetta til þess að tryggja að byggingalist sé viðurkennd sem listform.
_
Í sviðslistum má finna ýmsar stofnanir og menningarsjóði sem eru reknar að meirihluta fyrir opinbert fé (t.d Þjóðleikhús, Íslenski dansflokkurinn, sviðslistasjóður, kvikmyndasjóður, Listaháskóli Íslands o.s.frv). Listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag eiga ekki allir skjól í kjarasamningi. Fjölmargir vinna í verktöku á kjörum sem eru undir lágsmarkslaunum eða viðmiðunarsamningum.
Hvernig ætlar flokkurinn þinn að vinna gegn því að listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag í gegnum sjóðakerfið eða hjá opinberum stofnunum séu hlunnfarnir?
Kæmi til greina af ykkar hálfu, að skilyrða styrkveitingu eða rekstrarframlag af hálfu hins opinbera þannig að viðkomandi greiði listamönnum samkvæmt kjarasamningi við viðeigandi stéttarfélag?
Miðflokkurinn leggur áherslu á að menn standi við gerða samninga og komi fram af heiðarleika og ábyrgð. Það hlýtur að eiga við um alla sem sýsla með opinbert fé eða koma fram fyrir hönd almennings gagnvart tilteknum starfsstéttum.
_
Listaháskólinn hefur búið við mikinn húsnæðisvanda frá stofnun skólans og skólinn er í dag í sex mismunandi byggingum víðsvegar um borgina sem mætir engan veginn kröfum háskóla í nútíma samfélagi. Nú liggja fyrir áform um að skólinn komist undir eitt þak í húsnæði gamla Iðnskólans á Skólavörðuholti. Styður þinn flokkur framtíðaráform Listaháskólans um að komast undir eitt þak næstu árum þar sem kröfum og þörfum skólans er mætt. Ætlið þið að forgangsraða þessu verkefni á næsta kjörtímabili?
Miðflokkurinn hefur skilning á því að miklu skipti að húsnæðismál Listaháskólans séu leist á farsælan hátt. Um leið þarf að huga að kostnaði við verkefnið. Margt virðist styðja það að Listaháskólanum verði komið fyrir húsnæði gamla Iðnskólans á Skólavörðuholti.
_
Þegar haft er í huga hvernig rannsóknir sýna fram á mikilvægi lista, bæði hvað varðar farsæld nemenda, sjálfsskilning og víðari sjóndeildarhring (að ónefndu efnahagslegu gildi lista og menningar sbr. nýlega skýrslu Ágústs Ólafs Ágústssonar) þá má spyrja: Hvernig telja frambjóðendur að megi efla hlut lista í menntun og skólastarfi? Hvert teljið þið að hlutverk ríkisins sé í því að tryggja menntun í listum og skapandi greinum fyrir ungt fólk á Íslandi og hvernig viljið þið sjá þessa menntun þróast?
Miðflokkurinn hefur ríkan skilning á mikilvægi lista og skapandi greina fyrir sjálfsmynd hverrar þjóðar. Ísland á ríkulega sögu og hefur státað af fjörugu og innihaldsríku menningar- og listalífi. Það hlýtur að vera markmið allra Íslendinga að styðja við slíkt starf og sjá það halda áfram að blómstra. Nákvæmlega hvernig það er gert frá einni grein til annarrar þegar kemur að fjárhagslegum stuðningi getur verið vandasamt að leysa. Með skynsemina að vopni ættu alltaf að vera til svör sem duga.
_
Ef þið væruð að lýsa “fullkomnu samfélagi” í ykkar augum, hvernig myndi efnahagsleg aðild ríkisins að menningarmálum?
Miðflokkurinn hefur efasemdir um að afskipti ríkisins af málefnum lista séu alltaf til góðs eða stuðli að nýrri hugsun eða framsækinni listasköpun. Stundum getur aðkoma hins opinbera orðið að varðstöðu um tiltekin sjónarmið, rekstrarform eða stefnur. Miðflokkurinn styður frelsi listamannsins og að hver finni sér viðfangsefni og farveg sem hann kýs sjálfur og ber þá um leið ábyrgð á sjálfur.