Á aðalfundi BÍL fyrr í dag var saþykkt tillaga stjórnar BÍL að sóknaráætlun skapandi greina Áætlunin byggir á skýrslu starfshóps, sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í byrjun árs 2011. Skýrsla hópsins Skapandi greinar – Sýn til framtíðar kom út í september 2012. Í febrúar 2013 var stofnaður samtarfshópur ráðuneytanna og fleiri aðila, sem fékk í það verkefni að vinna að samræmdri uppbyggingu skapandi greina í anda skýrslunnar, gera tillögur til stjórnvalda um nauðsynlegar aðgerðir og fylgja þeim eftir.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er skýrt tekið fram að leggja eigi áherslu á að styðja við skapandi greinar á kjörtímabilinu, gera listnám aðgengilegt og viðurkennt, auk þess sem gera eigi úttekt á starfsumhverfi skapandi greina með það að markmiði að þær eflist og sæki fram. Og í áramótaávarpi sínu, 31. desember 2013 sagði forsætisráðherra: „Menntamálaráðherra og ríkisstjórnin hafa að undanförnu unnið með markvissum hætti að sóknaráætlun fyrir listir, menningu og annað nýsköpunarstarf sem birtast mun á nýja árinu. Til framtíðar hafa skapandi greinar alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs, þar sem hugvit og sköpunarkraftur fara saman.“

Bandalagi íslenskra listamanna er ekki kunnugt um að þessi sóknaráætlun sé í vinnslu, ekki hefur verið ráðgast við fagfélög listamanna um málið og tillögur BÍL um forgangsröðun í þágu listtengdra launa- og verkefnasjóða gengu ekki eftir við afgreiðslu fjárlaga 2015. Af þessum sökum hefur Bandalag íslenskra listamanna unnið eftirfarandi tillögu að sóknaráætlun fyrir skapandi greinar, sem send verður ríkisstjórninni ásamt yfirlýsingu um skýran vilja BÍL til að eiga samstarf við stjórnvöld um innleiðingu hennar.

Fjárhagslegur stuðningur og tölulegar upplýsingar
Opinber stuðningur við skapandi greinar verði kortlagður og skipulega gerð grein fyrir honum í fjárlagafrumvarpi hvers árs á grundvelli árlegrar efnahagsáætlunar fjármála- og efnahagsráðuneytis.
Opinberar stofnanir í hinum skapandi geira verði skilgreindar í samræmi var skilgreiningu UNESCO. Upplýsingar um stofnanirnar, afkomu þeirra, útflutning og mannahald, verði teknar saman undir hatti Hagstofu Íslands og þeim miðlað á vef stofnunarinnar. Fyrirtæki í hinum skapandi geira verði skilgreind í samræmi við skilgreiningu UNESCO og tölulegum upplýsingum um afkomu, útflutning og mannahald verði safnað með sama hætti og gildir um fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum. Hagstofa Íslands annist samantekt upplýsinganna og miðlun þeirra.
Verkefnasjóðir listgreina og hönnunar verði skilgreindir, enda byggja skapandi greinar afkomu sína á sjóðunum. Fylgjast þarf með þróun verkefnasjóðanna og samspili þeirra við launasjóði listamanna og hönnuða. Upplýsingum um þau verkefni sem stuðning hljóta verði haldið saman og miðlað af Hagstofu Íslands. Sjóðirnir þurfa ekki allir að heyra undir sama ráðuneyti.
Opinberir samkeppnissjóðir á sviði rannsókna og nýsköpunar verði endurskilgreindir, t.d. rannsóknarsjóður, tækniþróunarsjóður og innviðasjóður, og þeir opnaðir fólki sem starfar í skapandi greinum. Slík aðgerð er til þess fallin að ýta undir fjölbreyttari möguleika á fjármögnun verkefna í geiranum. Ef bið verður á þeirri aðgerð þá verði stofnaður tímabundinn sjóður skapandi greina undir hatti Vísinda- og tækniráðs, mögulega í formi markáætlunar líkt og tíðkast hefur í öðrum greinum, sem brúar bilið þar til framtíðarskipan verður komin til framkvæmda.
Til hliðsjónar við þessa vinnu verði hugmyndir úr sóknaráætluninni Ísland 20/20, verkefna- og fjárhagsáætlanir stofnana á vettvangi lista, hönnunar og annarrar menningartengdrar starfsemi, t.d. kynningarmiðstöðva lista og hönnunar, auk sjónarmiða þeirra sem starfa sjálfstætt í geiranum.

Markaðssetning innan lands sem utan
Formlegu samstarfi verði komið á við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Samtök skapandi greina um hlutdeild þeirra í eflingu greinanna, t.d. um aukna fjárfestingu í fyrirtækjum á sviði greinanna og um markaðssókn innanlands.
Samstarf um markaðssókn skapandi greina erlendis verði eflt með aðkomu Íslandsstofu, Samtaka atvinnulífsins og þeirra ráðuneyta sem eiga aðild að stjórn Íslandsstofu (utanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneyti).
Greina þarf vægi skapandi greina í ferðaþjónustu í samstarfi við aðila í ferðaþjónustu, slíkt má einnig gera undir hatti Íslandsstofu. Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga komi að þeirri vinnu.
Opna þarf skapandi greinum aðkomu að átaksverkefni stjórnvalda og ferðaþjónustunnar „Ísland allt árið“ sem Íslandsstofa hýsir.
Gera þarf átak í miðlun upplýsinga um hátíðir og aðra menningartengda viðburði um land allt í þágu menningartengdrar ferðaþjónustu. Verkið verði unnið jafnt með miðlun innan lands sem utan í huga. Greina verður ólíkar þarfir innlendra ferðamanna og erlendra. Skynsamlegt væri að leita til Sambands íslenskra sveitarfélaga (landshlutasamtaka sveitarfélaga) og Reykjavíkur-borgar um samstarf við verkið.
Fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum komi með beinum hætti að mótun tillagna þeirra sem getið er í þessum kafla, auk þess sem hafa þarf sendiráð Íslands með í ráðum.

Skapandi greinar verði hluti þjóðhagsreikninga
Gera þarf tillögur um reglubundna mælingu á hlut skapandi greina í verðmætasköpun hagkerfisins og ákveða með hvaða hætti þeim upplýsingum verður fundinn staður í þjóðhagsreikningum. Verkinu verði stjórnað af Hagstofu Íslands, sem leiti samstarfs við rannsóknarsetur skapandi greina við Háskóla Íslands og Samtök skapandi greina. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þyrfti einnig að koma að málinu fyrir hönd stjórnvalda.
Gera þarf áætlun um reglulegan sambanburð opinberrar skráningar við nágrannalönd okkar, sérstaklega Norðurlöndin nokkur vel valin ríki innan ESB, sem standa framarlega í slíkri skráningu. Fylgjast þarf með framgangi áætlunar um Skapandi Evrópu (Creative Europe) og þróun aðferðafræði UNESCO, með það að markmiði að auka samanburðarhæfni skráningarinnar.

Staðsetning innan stjórnsýslunnar
Gera þarf tillögur um samræmda stjórnsýslu skapandi greina. Við það verk verði höfð hliðsjón af reynslu hinna Norðurlandanna og unnið í samræmi við áherslur stýrihóps KreaNord, sem starfar undir Norrænu Ráðherranefndinni. Leitað verði samstarfs við stjórnsýslufræðinga og sérfræðinga í listum og skapandi greinum innan háskólasamfélagsins við gerð tillagnanna.

Hlutverk miðstöðva lista og hönnunar og menningarráða sveitarfélaganna
Skerpa þarf á hlutverki miðstöðva lista og hönnunar. Skilgreina þarf þátt þeirra í stefnumótun og fjármögnun verkefna. Mikilvægt er að treysta lagastoð þeirra og tryggja þeim sess í fjárlögum.
Gera þarf áætlun um þróun menningar- og vaxtasamninga við landsbyggðina. Í því sambandi þarf að skoða sérstaklega hlutverk menningarráða landshlutanna. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi forgöngu um verkið fyrir hönd stjórnvalda.
Tryggja þarf faglega úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna, ekki síst á landsbyggðinni og koma á samræmdri skráningu framlaga til að auðvelda samanburð. Sambandi íslenskra sveitarfélaga verði falin forysta í verkefni þessu og sérstaklega verði horft til árangurs Reykjavíkurborgar í þessum efnum.
Gera þarf áætlun um fjölgun starfa í skapandi greinum á landsbyggðinni. Við það verkefni verði leitað samstarfs milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kannaður verði vilji Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka skapandi greina til þátttöku.
Auka þarf hlut frumsköpunar í listum, hönnun og annari menningarstarfsemi á landsbyggðinni, til að tryggja stoðir atvinnulífsins og auka fjölbreytni þess. Sérstaklega verði horft til árangurs verkefna á borð við Handverk og hönnun, auk þess sem leitað verði í smiðju Reykjavíkurborgar sem hefur verið í fararbroddi sveitarfélaga í þessum efnum.
Móta þarf formlegt samstarf milli ríkis og höfuðborgarinnar í málefnum menningar, lista og hönnunar. Mikilvægt er að koma á formlegum ferlum sem eru til þess fallnir að miðla upplýsingum um það sem vel hefur verið gert í þessum efnum hvar sem er á landinu. Verkefninu sé ætlað að byggja brýr milli höfuðborgar og landsbyggðar og efla hugmyndir um samstarf. Verkefnið verði samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fyrir hönd ríkisins, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tryggja þarf landshluta-samtökum sveitarfélaga aðkomu að þeirri vinnu.

Menntunarmál og rannsóknarstarf
Gera þarf úttekt á list- og starfsmenntun í skapandi greinum í framhaldskólum og móta í kjölfarið framtíðarstefnu um listmenntun á framhaldsskólastigi.
Gerð verði áætlun um eflingu meistaranáms við Listaháskóla Íslands og stofnuð kvikmyndabraut við skólann.
Greitt verði fyrir samstarfi milli háskóla um þverfaglegt meistaranám t.d. listgreina, tæknigreina, viðskiptagreina og ýmissa fræðigreina.
Gera þarf áætlun um rannsóknir í listum og skapandi greinum við Listaháskóla Íslands, auk almennra rannsókna á stöðu greinanna, veltu þeirra, virðisauka, útflutningsvirði og samkeppnishæfni á alþjóðavísu.

Skattaleg staða, aðgangur að hinu félagslega kerfi og höfundarréttur
Tryggja þarf að starfsumhverfi skapandi greina sé sambærilegt við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Í því sambandi þarf að bæta skattalega stöðu greinanna, þ.m.t. að tryggja samræmda skattalega meðferð launatekna og tekna sem aflað er með afnotum eða leigu af hugverkaeign.
Gera þarf áætlun um sanngjarnar greiðslur til rétthafa fyrir eintakagerð hugverka til einkanota í gegnum tölvur og farsíma, auk þess sem ákvæðum höfundarréttarlaga verði breytt með tilliti til stöðugt nýrrar tækni við eintakagerð og geymslu efnis sem varið er af höfundarrétti.
Þá þarf að tryggja stöðu þeirra sem starfa innan skapandi greina gagnvart opinberu kerfi atvinnuleysistrygginga, fæðingarorlofs, sjúkratrygginga og annarra slíkra þátta hins almenna vinnumarkaðar.

Samstarf við fagfélög listafólks
Við endanlegan frágang sóknaráætlunar þessarar, útfærslu hennar, tímasetningar og fjármögnun verði fagfélög listamanna höfð með í ráðum, m.a með reglulegum fundum með stjórnvöldum um framvindu og síðan eftirfylgni áætlunarinnar.