Síðastliðið ár hefur verið afar erfitt. Mikill niðurskurður hefur verið víða og hefur það óneitanlega komið hart niður á leiklistinni. Verkefnum hefur fækkað í stofnanaleik-húsunum og hefur það komið illa við okkar félagsmenn. Með fækkun verkefna hafa atvinnumöguleikar minnkað verulega. Samningar eru nú lausir en ekki ríkir mikil bjartsýni um beinar launahækkanir, mögulegar kjarabætur verður að sækja öðruvísi.
Ríkisútvarpið hefur verið nokkuð stór atvinnuveitandi okkar félagsmanna í gegnum árin, en vegna niðurskurðar og að mínu viti lélegrar stjórnunar, hefur nánast ekkert leikið efni verið í sjónvarpinu á síðasta ári og nýjum útvarpsleikritum fækkar stöðugt. Við þessu verðum við að bregðast og það sem allra, allra fyrst. Það er óþolandi að stofnun sem hefur 3 – 4 milljarða á ári til að reka tvær útvarpsstöðvar og eina sjónvarpsstöð skuli forgangsraða á þann hátt sem hún gerir. Stjórnendur RÚV þurfa að uppgötva hvert er þeirra hlutverk í íslensku samfélagi. Það er þeim til ævarandi skammar að einkastöðin 365 miðlar skuli sýna nánast allt það íslenska leikna efni sem framleitt er. Við hér hjá Félagi íslenskra leikara erum tilbúin í einhversskonar aðgerðir gegn RÚV ef þeir fara ekki að taka sig saman í andlitinu og sinna meginhlutverki sínu, sem er að vera ein helsta menningarstofnun þessarar þjóðar.
Það hefur stundum verið sagt að leikhúsin blómstri á krepputímum og það má með sanni segja að eitthvert sannleikskorn sé í því a.m.k. hvað aðsókn varðar. Tel ég að þessi mikla aðsókn skýrist að talsverðu leiti af mjög lágu miðaverði . Ótrúleg tilboð hafa verið í gangi hjá húsunum og mér hefur reiknast til að miðarnir hafi verið komnir niður í um 1800 krónur. Það er auðvitað gott og blessað ef hægt er að halda miðaverði svo lágu en erfitt held ég verði að reka húsin fyrir þessa innkomu ef ofan á leggst líka niðurskurður frá ríki og bæ.
Félag íslenskra leikara verður 70 ára í september næstkomandi, en félagið var stofnað einmitt hér í Iðnó, af nokkrum leikurum hjá Leikfélagi Reykjavíkur þann 22. september árið 1941. Á þessum árum var leiklistin hjá flestum einungis áhugamennska og laun voru nánast engin. Leikararnir voru í vinnu (svokallaðri venjulegri vinnu) en léku og æfðu öll kvöld. Örfáir einstaklingar höfðu farið til náms, en náðu aldrei að gera leiklistina að sínu aðalstarfi. Einu tekjumöguleikar leikara voru vegna vinnu hjá Ríkisútvarpinu.
Fyrstu samningar sem FÍL gerði voru einmitt við Ríkisútvarpið. Af þessu tilefni ætlum við að gera okkur einhvern dagamun í haust og býð ég ykkur hér með að vera með okkur í að fagna afmæli hjá einu elsta stéttarfélagi landsins.