Hér fer á eftir skýrsla forseta BÍL Kolbrúnar Halldórsdóttur um starfið á vettvangi stjórnar á því herrans ári 2010. Af mörgu er að taka og eðli máls samkvæmt og ekki síst tímans vegna verður einungis stiklað á stóru. Fyrst ber að geta þeirra sem setið hafa í stjórn á árinu en það eru:
Arkitektafélag Íslands, AÍ, – formaður: Logi Már Einarsson (tók við af Sigríði Magnúsdóttur í nóv)
Félag íslenskra leikara; FÍL, – formaður: Randver Þorláksson
Félag íslenskra listdansara; FÍLD, – formaður: Karen María Jónsdóttir
Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT, – formaður: Kristín Mjöll Jakobsdóttir
Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH, – formaður: Björn Th. Árnason
Félag kvikmyndagerðarmanna FK, – formaður: Hrafnhildur Gunnarsdóttir
Félag leikstjóra á Íslandi FLÍ, – formaður: Steinunn Knútsdóttir
Rithöfundasamband Íslands RSÍ, – formaður: Kristín Steinsdóttir (tók við af Pétri Gunnarssyni í apríl)
Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM, – formaður: Hrafnhildur Sigurðardóttir (tók við af Hlyni Hallssyni í mars)
Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL, – formaður: Ragnar Bragason
Tónskáldafélag Íslands; TÍ, – formaður: Kjartan Ólafsson
Félag tónskálda og textahöfunda; FTT, – formaður: Jakob Frímann Magnússon
Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB, – formaður: Egill Ingibergsson
Leikskáldafélag Íslands; – formaður: Hávar Sigurjónsson
Starfsáætlun 2010
Það fórst fyrir að leggja starfsáætlun fyrir aðalfund 2010, sem þó er áskilið í lögum, svo stjórn útbjó áætlun um starfið og samþykkti á fundi sínum 8. febrúar 2010. Hér á eftir verður gerð grein fyrir starfsáætluninni og stöðu einstakra mála.
Opinber stefna í menningu og listum
Vinna BÍL við mótun opinberrar menningarstefnu hélt áfram á árinu. Eftir hvatningu Katrínar Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um þátttöku í slíkri stefnumótun réð stjórn BÍL Njörð Sigurjónsson forstöðumann Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Bifröst til að stýra vinnunni innan vélbanda BÍL. Fimm starfshópar voru skipaðir um mitt ár 2009 og haldnir voru tveir stefnumótunarfundir. Þriðji stefnumótunarfundur BÍL var með þjóðfundarsniði haldinn 24. apríl 2010 í húsakynnum FÍH undir yfirskriftinni „Þankatankur um framtíð hinna skapandi greina“. Starfshópur undir forystu Lárusar Ýmis Óskarssonar vann að fundinum sem rúmlega hundrað listamenn sóttu, unnið var á 11 borðum. Í maí 2010 skilaði Njörður áfangaskýrslu með samantekt frá vinnuhópunum fimm og í lok sumars var tilbúin samantekt apríl-fundarins. Á sama tíma vann Haukur F. Hannesson að stefnumótuninni fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Í desember 2009 var kynnt greining Hauks á menningarstefnu eins og hún leit út á þeim tímapunkti; „Er til menningarstefna á Íslandi?“ Í framhaldinu setti ráðuneytið saman starfshóp með aðild BÍL til að undirbúa umfangsmikið stefnumótunarþing undir yfirskriftinni „Menningarlandið 2010“. Þingið var haldið 30. apríl og í október voru lokadrög skýrslu send starfshópnum. Afrakstur þessara tveggja stóru stefnumótunarfunda ársins 2010 liggur nú fyrir og er, ásamt skýrslu Njarðar Sigurjónssonar, aðgengilegur efniviður fyrir ritstjóra menningarstefnu ráðuneytisins. Hvernig þeirri vinnu miðar verður kynnt á málþingi um menningarstefnu sem haldið verður í kjölfar aðalfundar BÍL 22.01.11.
Þjóðhagslegur ágóði listanna
BÍL tók virkan þátt í undirbúningi kortlagningarverkefnis um skapandi greinar. Það var ÚTÓN sem leiddi undirbúningsvinnuna og í júní gekk mennta- og menningarmálaráðuneytið frá samkomulagi við Colin Mercer, breskan sérfræðing í kortlagningu skapandi greina, um að hann stýrði verkefninu. Fimm ráðuneyti og Íslandsstofa fjármagna verkefnið, sem hefur þegar kostað 7 milljónir króna. Fullveldisdaginn 1. desember voru svo fyrstu niðurstöður kortlagningarinnar kynntar fyrir fullu húsi í Bíó-Paradís. Helstu tölulegar niðurstöður eru þær að heildarvelta skapandi greina á Íslandi hafi verið 191 milljarður árið 2009. Hlutur ríkis og sveitarfélaga í þeirri veltu er 13% sem er sambærilegt við nágrannalönd okkar.
Til að ljúka vinnunni við kortlagninguna og koma henni í þann farveg að skapandi greinar verði framvegis hluti af skráðum þjóðhagsstærðum Hagstofunnar og stjórnvalda, hefur menntamálaráðherra skipað starfshóp sem BÍL á aðild að. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum í mars 2011.
Í tengslum við kortlagningarverkefnið hefur forseti setið fund starfshóps á vegum Alþingis sem vinnur að tillögum um „grænt hagkerfi“ og hafa fulltrúar BÍL verið boðaðir til hugmyndaþings á vegum þess starfshóps á næstunni.
Kjör listamanna
Fulltrúar BÍL fóru á fund fjármálaráðherra í febrúar og lögðu fram minnisblað með kröfum BÍL í sambandi við skattaleg réttindi listamanna og skattlagningu tekna af hugverkum. Og þegar tilkynnt var í apríl að ríkisstjórnin hefði skipað starfshóp til að móta heildstæðar tillögur um umbætur og breytingar á skattkerfinu gerði BÍL kröfu um að eiga aðkomu að þeirri vinnu. Í maí var svo skipuð ráðgjafarnefnd sem starfa átti í nánum tengslum við starfshópinn og situr forseti fyrir hönd BÍL í þeirri nefnd. Vinnunni miðaði nokkuð á árinu og í október skilaði hópurinn áfangaskýrslu. Þau mál er varða sérstöðu listamanna voru hins vegar látin bíða seinni áfanga sem gert var ráð fyrir að vinna hæfist við í janúar. Það kom BÍL því nokkuð á óvart þegar fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um virðisaukaskatt í desember sl því þar er tekið á málum er varða virðisaukaskatt sem listamönnum sem selja listmuni er gert að greiða. Gerði BÍL athugasemdir við að ekki skyldi hafa verði beðið með að leggja frumvarpið fram þar til vinna starfshópsins hefði verið til lykta leidd. BÍL sendi svo efnismikla umsögn um frumvarpið til efnahags- og skattanefnar Alþingis, sem fékk litla umfjöllun í nefndinni en vonir standa til að fulltrúar BÍL fái að hitta nefndina á næstunni til að ræða skattalega sérstöðu listamanna.
Meginkröfur BÍL eru þær að upphæð listamannalauna, sem nú er kr. 274.000.-, verði hækkuð til samræmis við flokkun skattyfirvalda, en þar eru sjálfstætt starfandi listamenn í starfsflokki C þar sem viðmiðunarfjárhæð reiknaðs endurgjalds er kr. 414.000.- Þá gerir BÍL kröfu um að listamönnum verði gert kleift að sækja um og fá atvinnuleysisbætur þegar aðstæður þeirra verða með þeim hætti að slíkt reynist nauðsynlegt. Eins og málum er nú háttað er nánast ómögulegt fyrir starfandi listamenn að sækja slíkan rétt. Loks má nefna kröfu BÍL um að skattprósenta af leigu höfundarréttar verði sú sama og af öðrum eignatekjum, t.d. leigutekjum vegna húseigna. Eins og málum er nú háttað eru slíkar greiðslur skattlagðar sem launatekjur. Öll þessi atriði verða tekin til umfjöllunar í fyrrnefndum ráðgjafarhópi þegar vinnu hans verður fram haldið.
Ímynd BÍL
Hugmyndir stjórnar BÍL um bætta ímynd tengjast m.a. heimasíðu og merki BÍL. Vegna erfiðrar fjárhagsstöðu var þó ákveðið að slá frekari vinnu við endurnýjun heimasíðu og merkis á frest um sinn. Að öðru leyti hefur stjórn BÍL gert sér far um að koma sjónarmiðum BÍL að í opinberri umræðu jafnt í fjölmiðlum sem meðal stjórnvalda. Ekki verður annað séð en nokkuð hafi orðið nokkuð ágengt í þeim efnum.
Í janúar uppgötvaðist að spjallsvæði á heimasíðu BÍL hafði safnað miður skemmtilegu efni um nokkurt skeið. Svæðinu var umsvifalaust lokað og ákveðið að kanna frekar möguleika listamanna á að skiptast á skoðunum með öðrum hætti, t.d. á samskiptavefnum Facebook. Það verk er enn óunnið.
Sjóræningjastarfsemi á netinu
BÍL hefur sent fulltrúa sína til tveggja funda sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur boðað til á árinu vegna höfundarréttarmála. Í þeirri vinnu er leitast við að þróa greiðslukerfi sem geti þjónað hagsmunum þriggja ólíkra aðila; þ.e. höfunda, notenda efnisins og fjarskiptafyrirtækjanna sem gera efnið aðgengilegt. BÍL hefur samráð við systursamtök listamanna á Norðurlöndunum varðandi þessa vinnu, en baráttan er sú sama þar og hér. Þó samtal milli aðila sé í gangi verður viðurkennast að lausnirnar virðast enn nokkuð langt undan.
Lottómál
Fulltrúar BÍL fóru á fund dómsmálaráðherra Rögnu Árnadóttur á miðju ári þar sem þess var óskað að ráðuneytið beitti sér fyrir því að skipting ágóða af íslenska lottóinu verði skoðuð með það að markmiði að listirnar eignist þar sanngjarna hlutdeild. Ráðherra hafði góð orð um það að stofna starfshóp í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, sem fengi það verkefni að skoða slíka möguleika. Ekki auðnaðist henni þó að klára það mál áður en hún hvarf úr embætti og hefur BÍL nú tekið málið upp við nýjan ráðherra Ögmund Jónasson. Ekki hafa enn borist viðbrögð úr ráðuneyti Ögmundar við erindi BÍL.
Fjáröflun til starfsemi BÍL
Starfsemi BÍL er fjármögnuð með þrennum hætti; með aðildargjöldum frá aðildarfélögunum og með opinberum framlögum frá ríki og Reykjavíkurborg. Á árinu voru framlög ríkis skorin úr 2,3 milljónum 2009 í 1,8 milljónir. Framlög borgarinnar voru skorin úr einni milljón í 900 þúsund. Þetta er samtals niðurskurður um tæp 20%. Gjaldkeri BÍL, Kristín Mjöll Jakobsdóttir, hefur skoðað fjármál BÍL ofan í kjölinn, greint kostnaðarliði og unnið fjárhagsáætlanir í samræmi við þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar. Sú vinna skilaði sér í nokkrum sparnaði í rekstri en einnig í tillögum um hækkuð árgjöld aðildarfélaganna, sem lagðar verða fyrir aðalfund BÍL 2011. Verði þær tillögur, sem ganga út á vísitölubindingu aðildargjaldanna, samþykktar má segja að skotið sé styrkari stoðum undir rekstur BÍL til frambúðar. Á árinu var gert nýtt samkomulag við Reykjavíkurborg um samstarf, sem gildir til loka árs 2012. Ekki reyndist unnt að fá borgina til að hækka framlagið til BÍL, svo það verður 900 þúsund krónur í ár og næsta ár. Þá verður samið að nýju. Hvað ríkið varðar þá gerði fjárlaganefnd Alþingis ekki tillögur um neina krónutölu til starfsemi BÍL, heldur beindi því til ráðuneytisins að semja um upphæð. Nú liggur það fyrir að mennta- og menningarmálaráðuneytið er tilbúið að hækka árlegt framlag til BÍL í 2,4 milljónir og verður samkomulag þar um undirritað í tengslum við aðalfund BÍL.
Greining hagsmuna BÍL
Alltaf lenda einhver atriði í svona áætlunum milli þils og veggjar, það má segja um þennan punkt, en starfið í ár hefur þó varpað ljósi á meginhagsmuni BÍL. Stjórnin vinnur út frá því meginsjónarmiði að sameiginleg hagsmunamál allra aðildarfélaganna séu málefni BÍL en atriði er varða einstök félög séu leyst á vettvangi hvers um sig.
Er nú lokið að gera grein fyrir stöðu þeirra mála sem starfsáætlun 2010 hefur að geyma, en til að halda til haga áhersluatriðum stjórnar BÍL frá fyrri árum má nefna eftirfarandi atriði: List í skólum – tengsl listamanna við ungt fólk, sjúkratryggingar & eftirlaun, viðvera á skrifstofu, frágangur á gömlum skjölum og ritun sögu BÍL, samstarf við Útflutningsráð um útrás listgreinanna, málefni tengd menningarhlutverki Ríkisútvarpsins og loks alþjóðlegt samstarf ekki síst miðlun upplýsinga um styrki -norræna og evrópska.
Þá koma hér önnur atriði sem unnið hefur verið að á árinu:
Samningur við mennta- og menningarmálaráðuneyti
Á árlegum samráðsfundi BÍL og menntamálaráðherra sem haldinn var 10. febrúar lagði stjórn BÍL fram minnisblað með áhersluatriðum varðandi skattalega stöðu listamanna og réttindi listamanna til atvinnuleysisbóta. Þá var mótmælt niðurskurðinum til kvikmyndagerðar og ráðherrann hvattur til að standa gegn handahófskenndri úthlutun fjárlaganefndar Alþingis til menningarmála en sjá þess í stað til þess að efldir verði sjóðir þeir sem hafa lögbundnu hlutverki að gegna í fjármögnun lista- og menningarstarfsemi. Segja má að ráðherra hafi fylgt eftir ósk BÍL um að skattaleg staða listamanna verði skoðuð með ítarlegu erindi sem hún sendi fjármálaráðherra um þau mál. Það erindi liggur til grundvallar hluta vinnunnar við endurskoðun skattkerfisins, en að öðru leyti hefur fjármálaráðuneytið ekki brugðist við erindinu.
Á árinu rann út samningur sá sem í gildi hefur verið milli BÍL og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í október var hafist handa við endurnýjun samningsins en ákveðið að slá því á frest þar til fjárlög lægju fyrir. Fjárlaganefnd ákvað í sinni vinnu að leggja það í hendur ráðuneytisins hversu há upphæð færi í samstarfið við BÍL og nú liggur það fyrir að árlegt framlag til BÍL verður 2,4 milljónir 2011, 2012 og 2013 og verður samkomulag þar um undirritað í tengslum við aðalfund BÍL.
Samningur við Reykjavíkurborg
Þ. 12. maí 2010 var haldinn samráðsfundur borgaryfirvalda og BÍL. Við það tilefni var undirritaður nýr samningur um samstarf þessara aðila. Samningurinn felur í sér árlegt framlag til starfsemi BÍL upp á 900.000,- krónur gegn því að BÍL láti borgaryfirvöldum í té umsagnir álitsgerðir, upplýsingar og ráðgjöf um mál sem borgin vísar til BÍL. Einnig er í samningnum getið um annars konar samstarf sem báðir aðila telja mikilvægt að sé til staðar, en BÍL telur að rúmist tæpast innan þess fjárhagsramma sem borgaryfirvöld setja samstarfinu. Þar er m.a. átt við kynningu á íslenskri list í skólum borgarinnar og fjölþjóðlegt samstarf á sviði lista. Meðal þess sem BÍL óskaði eftir frekari samræðu um við borgaryfirvöld má nefna nauðsyn þess að skapa rými fyrir listgreinarnar innan grunnskóla borgarinnar, óskað var eftir því að tækifæri ungra sem aldinna borgarbúa til að taka þátt í skapandi starfi og njóta menningar séu jafn mörg og tækifærin til að stunda íþróttir. Þá var minnt á baráttu arkitekta fyrir störfum sínum og þörfina á fagmennsku og málefnanlegum sjónarmiðum við val á arkitektum. Loks var lögð áhersla á þörfina á kortlagningu menningarstarfsemi utan menningarstofnana borgarinnar, m.ö.o. í grasrót hinna skapandi greina.
Ljóst er að stjórnar BÍL og aðildarfélaga bíða ærin verkefni í samstarfi við Reykjavík og önnur sveitarfélög varðandi aðgengi grunnskólabarna að listmennt og listtengdu starfi. Mikilvægt er að átak verði gert í þeim efnum, sem leiði til farsællar niðurstöð.
Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur
BÍL á tvo áheyrnarfulltrúa í Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur. Það eru forseti BÍL og formaður SÍM sem þar sitja. Starf MOFR á árinu hefur einkennst nokkuð af stjórnarskiptum í borginni en einnig af þröngum fjárhagsramma. Talsvert hefur verið hagrætt í rekstri menningarstofnana borgarinnar en einnig hefur verið bryddað upp á ánægjulegum nýjungum. Þar ber hæst ákvörðun um að ljúka við endurgerð Tjarnarbíós og rausnarlegan stuðning borgaryfirvalda við Dansverkstæði við Skúlagötu. Einnig má nefna stuðning borgarráðs við Bíó Paradís.
BÍL hefur átt samstarf við MOFR um úthlutun styrkja til menningarstarfs með því að tilnefna einstaklinga innan úr listageiranum til starfa í úthlutunarnefnd. Tilnefndir eru 15 einstaklingar, sem MOFR velur úr fimm til að annast úthlutunina. Úthlutunarnefndin 2011 er þannig skipuð: Sólrún Sumarliðadóttir menningarfræðingur og tónlistarmaður, Lárus Ýmir Óskarsson leikstjóri, Gunnar Hrafnsson tónlistarmaður, Hrafnhildur Hagalín leikskáld og Þóra Þórisdóttir, myndlistarmaður. Í ár hefur nefndin til úthlutunar 56,6 milljónir (voru 66 milljónir 2010). Úthlutað er samkvæmt umsóknum og verður tilkynnt um úthlutunina fyrir lok janúar. Til viðbótar við þetta leggur MOFR tæpar 5 milljónir til samstarfssamninga um tiltekið menningarstarf og hefur auk þess til ráðstöfunar á árinu í svokallaða „skyndistyrki“ tæplega 3,2 milljónir króna.
Samstarfið innan MOFR hefur verið gott á árinu, en þess ber þó að geta að eitt af stærstu baráttumálum listamanna, samstarf listamanna og grunnskóla, heyrir undir menntasvið borgarinnar þar sem BÍL á enga beina aðkomu. Á nýju starfsári þyrfti að leita leiða til að hefja formlegt samstarf við menntasvið um listmennt og störf listamanna í skólum borgarinnar.
Breytingar á lögum BÍL
Á stjórnarfundi 18. janúar var skipaður starfshópur sem fékk það verkefni að yfirfara lög BÍL og gera tillögur til úrbóta. Hópinn skipuðu auk forseta Björn Th. Árnason og Karen María Jónsdóttir. Hópurinn skilaði af sér tillögum til stjórnar 21. júní og í framhaldinu kynntu formenn tillögurnar hver fyrir sinni stjórn. Á stjórnarfundi 13. desember samþykkti stjórn að leggja tillögurnar lítið breyttar fyrir aðalfund BÍL. Þær fela m.a. í sér breytingu á fyrirkomulagi tiltekinna atriða varðandi aðalfund BÍL og gera ráð fyrir vísitölubindingu árstillags aðildarfélaga.
Umsagnir um þingmál
Eitt af reglubundnum verkefnum stjórnar BÍL er að sinna óskum Alþingis um álit þingmála er varða listir og menningu. Á árinu hefur BÍL fengið eftirtalin þingmál til umfjöllunar: Tillaga til þingsályktunar um árlegan Vest-Norrænan dag, frv. til laga um breyt. á höfundalögum, tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun 20/20, tillögu til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins, frv. til laga um Íslandsstofu og frumvarp til laga um virðisaukaskatt. Þar að auki sendi BÍL umsögn til fjárlaganefndar og mennta- og menningarmálanefndar um fjárlagafrumvarpið 2011.
Allar umsagnir BÍL eru aðgengilegar á heimasíðu BÍL ásamt minnisblöðum sendum þingnefndum.
Fjárlög 2011 og framlög ríkisins til BÍL
Svo sem fram kemur hér að framan þá sendi stjórn BÍL umsögn til fjárlaganefndar Alþingis og raunar einnig til mennta- og menningarmálanefndar þingsins. Þá heimsóttu fulltrúar stjórnar BÍL báðar nefndirnar og ræddu við þingmenn um þau atriði varðandi menningu og listir sem betur máttu fara í frumvarpinu. Í umsögn BÍL um frumvarpið var sérstök áhersla lögð á Kvikmyndasjóð og kröfuna um að samkomulag kvikmyndagerðarmanna og stjórnvalda frá 2006 yrði efnt, að danslistin fengi viðurkenningu í fjárlögum, að horfið yrði frá því að hætta stuðningi við verkefnið „Tónlist fyrir alla“ og að fagleg úthlutun fjármuna til menningar- og listastarfsemi yrði í heiðri höfð með því að efla lögbundna sjóði sem ætlaðir eru til menningarstarfsemi í stað handahófskenndrar úthlutunar fjárlaganefndar. Loks var óskað eftir hækkun á framlagi til BÍL, sem var skorið úr 2.3 milljónum 2009 í 1,8 millj. 2010.
Við lokafgreiðslu fjárlaga var ljóst að nokkur árangur hafði náðst varðandi kröfur BÍL. Þannig var verkefnið „Tónlist fyrir alla“ sett aftur inn með 6,3 milljónir, 1,5 milljónir voru settar í Danshús og 10 milljónir voru settar í Bíó Paradís. Kvikmyndasjóður fékkst hins vegar ekki hækkaður og ákvörðun um framlag til BÍL var sett undir safnlið sem ráðuneytinu var gert að útdeila vegna ýmissa samninga við listamannasamtök. Nú hefur ráðuneytið tekið ákvörðun um að veita BÍL 2,4 milljónir til starfsemi sinnar, sem staðfest verður með undirritun nýs þriggja ára samkomulags í tengslum við aðalfund BÍL 2011.
Íslandsstofa
Á árinu samþykkti Alþingi lög um Íslandsstofu, sem er arftaki Útflutningsráðs á vettvangi stuðnings við íslenskar útflutningsgreinar. Í lögunum er það nýmæli að Íslandsstofu er ætlað hlutverk varðandi kynningu á íslenskri list og menningu erlendis. Ætlun stjórnvalda með frumvarpinu um Íslandsstofu var að móta heildstæða stefnu um ímyndar og kynningarmál þjóðarinnar og að flétta þá stefnumótun saman við útflutning, ferðaþjónustu og erlendar fjárfestingar. Í umsögn sinni gagnrýndi BÍL það hversu illa ígrunduð sú ákvörðun var að spyrða kynningu á íslenskri menningu erlendis við hefðbundinn vöruútflutning, en lýsti sig jafnframt reiðubúið til að koma þar að málum. BÍL gerði m.ö.o. kröfu um að eignast aðild að stjórn Íslandsstofu. Það gekk nú ekki beinlínis eftir, en fór þó á endanum svo að menntamálaráðherra skipaði forseta BÍL sinn fulltrúa í stjórn Íslandsstofu.
Síðan stofan tók til starfa, 29. júní, hefur stjórn hennar unnið að stefnumótun sem m.a. hefur skilað sér í stofnun 5 fagráða, þ.á.m. fagráði í listum og skapandi greinum. Þar eiga fulltrúar allra listgreina sæti gegnum kynningarmiðstöðvar listgreinanna; Bókmenntasjóð, Hönnunarmiðstöð, IGI – Icelandic Gaming Industry, Íslenska Tónverkamiðstöð, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Leiklistarsambandið sem vinnur að stofnun sviðslistamiðstöðvar og ÚTÓN – Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar.
Á fjárhagsáætlun Íslandsstofu fyrir 2011 er gert ráð fyrir umtalsverðum fjármunum til skapandi greina, t.d. gegnum ÚTÓN og Hönnunarmiðstöð, en ekki hefur verið gengið frá því með hvaða hætti stuðningur við aðra aðila verður á árinu, enn er unnið í að móta stefnuna hvað það varðar. Tilkoma Íslandsstofu þarf að skipta máli fyrir kynningu á íslenskri list erlendis, en til þess að svo megi verða þarf að marka stefnu sem tekur mið af sérstöðu listanna, þar sem um þær gilda önnur lögmál en um hefðbundinn útflutning á íslenskum framleiðsluvörum. Stefnumótun varðandi þessa þætti heldur áfram innan stjórnar Íslandsstofu og fagráðs í listum og skapandi greinum.
Barátta kvikmyndagerðarmanna & baráttan fyrir bættu Ríkisútvarpi
BÍL hefur tekið virkan þátt í baráttu kvikmyndagerðarmanna fyrir því að samningur þeirra við stjórnvöld verði virtur og mótmælti BÍL áformum útvarpsstjóra um að spara í rekstri RÚV með því að hætta að kaupa íslenskar bíómyndir og draga úr sýningum á efni frá sjálfstæðum framleiðendum til sýningar í sjónvarpi. Í framhaldi af umræðu innan stjórnar BÍL um skarðan hlut innlends efnis í sjónvarpi og veikrar stöðu lista og menningar í dagskrá Ríkisútvarpsins almennt boðaði stjórn BÍL stjórn RÚV á sinn fund 14. október. Á fundinum var lagt fram minnisblað þar sem fram kemur að BÍL líti svo á að báðir aðilar (BÍL og RÚV) telji RÚV eina af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og að það sé sameiginlegt hagsmunamál beggja aðila að RÚV geti staðið undir lögbundnu hlutverki sínu af metnaði. Síðan er lýst þeim atriðum sem valda BÍL áhyggjum, þar er m.a. um að ræða að ekki skuli staðið við þjónustusamning menntamálaráðuneytis og RÚV, það hversu erfiðlega gengur að eiga málefnanleg samskipti við stjórnendur RÚV, það hversu lítið er framleitt af leiknu sjónvarpsefni og hversu treglega sjálfstæðum framleiðendum gengur að koma efni sínu á framfæri við RÚV, það hversu erfitt er að fá RÚV til að greiða eðlilegt endurgjald fyrir íslenskar kvikmyndir, það hversu mikið vantar upp á að hægt sé að bera RÚV saman við stofnanir nágrannalandanna, t.d. Danmarks Radio og BBC, það hversu mikill samdráttur hefur orðið í framleiðslu útvarpsleikhússins á síðustu árum og það hversu lítið notuð „gullkistan“ svokallaða er, sem leikarar færðu stofnuninni af talsverðum rausnarskap til að losa um áralanga tregðu við að flytja innlent efni. Í lok fundarins sammæltust stjórnirnar um að halda sambandi sín í milli, skiptast á upplýsingum og sameina kraftana með það m.a. að markmiði að RÚV fái staðið undir metnaðarfullri framleiðslu á innlendu menningarefni svo sem lög gera ráð fyrir.
Skattamál
Systursamtök BÍL í Danmörku hafa útbúið viðamiklar leiðbeiningar til aðildarfélaga sinna um skattamál og skattaleg réttindi þeirra sem starfa innan skapandi geirans. Þessi bæklingur er unninn í samvinnu við dönsk skattayfirvöld og er uppfærður reglulega. Það er mat stjórnar BÍL að mikilvægt sé að BÍL fái stuðning stjórnvalda til að þýða þennan bækling með það að markmiði að bera saman skattalega meðferð þeirra sem starfa innan skapandi greina hér á landi og í Danmörku. Þess hefur verið farið á leit við fjármálaráðuneytið að það styrki BÍL í þessari viðleitni, enda gagnist upplýsingarnar starfshópi fjármálaráðuneytisins sem vinnur að endurskoðun skattkerfisins. Ekki hafa borist svör við málaleitan þessari frá fjármálaráðherra.
Í umsögn BÍL við frumvarp um breytingar á lögum um virðisaukaskatt koma fram sjónarmið varðandi ákvæði laganna er varða undanþágur frá álagningu virðisaukaskatts. BÍL telur eðlilegt að undanþágan nái til allra listamanna er selja handunna listmuni og gagnrýnir það fyrirkomulag sem nú er viðhaft að tollayfirvöld skeri úr um hvað fellur undir undanþáguna og hvað ekki. Þá gerir BÍL kröfu um að undanþágan gildi um alla handunna listmuni listamanna burtséð frá aðferðinni sem notuð er við söluna og að grunnskrá virðisaukaskatts verði breytt til samræmis við það. Í umsögn sinni lýsir BÍL þó því sjónarmiði að hugsanlega megi ræða mögulegar breytingar á álagningu virðisaukaskatts á listmuni þannig að undanþágan verði bundin við ákveðið frítekjumark en lága skattprósentu eftir að þeim mörkum er náð. Þá er í umsögn BÍL krafa um að lögum um virðisaukaskatt verði breytt þannig að tónlist og hljóðbækur til niðurhals beri einungis 7% virðisaukaskatt, slík ráðstöfun myndi styrkja það markmið að stuðla beri að því að notendur taki löglega kosti fram yrir ólöglega eintakagerð. Allar þessar kröfur BÍL eru studdar af mennta- og menningarmálaráðherra sem hefur sent fjármálaráðherra bréf þar sem óskað er leiðréttinga af því tagi sem BÍL hefur leitað eftir.
Launasjóðir listamanna
Á árinu var í fyrsta sinn úthlutað samkvæmt nýjum lögum um listamannalaun. Alls bárust 712 umsóknir um starfslaun listamanna 2010. Er það mikil fjölgun frá því sem áður var, því umsóknir voru 560 árið 2009 og 514 árið 2008.
Skipting umsókna milli sjóða 2009/2010 var eftirfarandi:
Launasjóður rithöfunda 163/161 umsóknir
Launasjóður myndlistarmanna 177/217 umsóknir
Launasjóður tónskálda 41/66 umsókn
Listasjóður *179/268 umsóknir, þar af 51/77 umsókn frá leikhópum
*Launasjóður hönnuða: 45, launasjóður tónlistarflytjenda 82, launasjóður sviðslitafólks 141 ( þ.a. 77 frá hópum)
27. apríl gekkst FÍH fyrir opnum fundi um listamannalaun þar sem mætt var til leiks stjórn listamannalauna ásamt úthlutunarnefndum tónskáldasjóðs og sjóðs tónlistarflytjenda. Umræðan leiddi í ljós mikilvægi þess að áfram verði unnið í þróun launamála listamanna og mun stjórn BÍL beita sér fyrir því að launasjóðirnir verði efldir enn frekar og vinnubrögðin við úthlutunina þróuð, t.d. er mikilvægt að dansarar fái fagfólk til að fjalla um sínar umsóknir í sviðslistasjóð.
Eðlileg vinna og venjulegt fólk
Ekki var öllum að skapi sú 35 milljóna hækkun sem varð á launasjóðum listamanna á fjárlögum 2011. Ásbjörn Óttarsson 1. þingmaður norð-vesturkjördæmis viðhafði ummæli um þetta á Alþingi í fyrstu umræðu um fjárlög, sem vöktu talsverða athygli. Ásbjörn varpaði fram þeirri spurningu hvers vegna listamenn kæmu sér ekki bara í eðlilega vinnu eins og allt venjulegt fólk. Af þessu tilefni kallaði stjórn BÍL Ásbjörn á sinn fund 8. október. Fundurinn fór hið besta fram og fræddu fulltrúar stjórnar BÍL þingmanninn um ýmislegt er varðar gildi lista og menningar, stöðu listamanna og um hagrænt gildi skapandi greina. Þingmaðurinn viðurkenndi vanþekkingu sína með því að biðjast afsökunar á ummælunum. Frásögn af fundinum er að finna á heimasíðu BÍL.
Norrænt samstarf
Nordisk Kunstnerråd hélt fund í Stokkhólmi 15. september þar sem forseti flutti skýrslu BÍL. Um er að ræða óformlegt samstarf systursamtaka BÍL á Norðurlöndunum, en öll Norðurlönd nema Noregur hafa sambærileg regnhlífarsamtök og BÍL. Málefni sem bar hæst á fundinum var, auk baráttunnar um höfundarréttinn, krafa norrænna listamanna um aukið samstarf við stjórnvöld, -ráðuneyti og ráðherra menningarmála. Talsvert var kvartað undan sambandsleysi, sérstaklega í Danmörku og Svíþjóð, og var ákveðið að senda erindi til menningarmálaráðherra Norðurlandanna þar sem þess var óskað að samstarf ráðherranna/ráðuneytanna við fulltrúa listamanna yrði aukið og því komið í formlegri farveg. Það er til marks um sambandsleysið að sama dag og fundur Nordisk Kunstnerråd var haldinn hélt Norræna ráðherranefndin „Kulturforum“ í Kaupmannahöfn án þess að leitað hafi verið til forystumanna norrænna listamanna um sjónarmið, hvað þá að listamannaforystan hafi verið boðuð til fundarins. Þá komu fram á fundinum harðar gagnrýnisraddir vegna breytinga á verkefnum Kultur Kontakt Nord og menn voru sammála um að þar hafi verið haldið inn á ranga braut áður en reynsla var komin á kjarna verkefnisins sem innleitt var 2006. Stjórn BÍL hefur beðið þess að vera kölluð til samráðs í menntamálaráðuneytinu um stefnu KKN allt árið, en ekki hefur orðið af því.
Ítarlega frásögn af fundi Nordisk Kunstnerråd er að finna á heimasíðu BÍL.
ECA – Evrópusamtök listamanna
Forseti sótti ársfund ECA – European Council of Artists, sem haldinn var í Zagreb í Króatíu 4. – 6. nóvember. Þar voru tilkynntar breytingar á högum skrifstofu ECA, en hún verður færð frá Kaupmannahöfn til Madridar um áramótin, en spænsk yfirvöld menningarmála hafa lofað fjármagni til að reka skrifstofuna næstu árin. ECA fékk ekki stuðning frá Evrópusambandinu í ár og verður sett af stað rannsókn á því hverju það sætir. Í tengslum við ársfundinn var haldið málþing með yfirskriftinni Arts Funding – Artistic Freedom. Þar var rætt um vaxandi erfiðleika listamanna við að fjármagna verkefni sín, auknar kröfur um að verkefni sem fá styrki skili tekjum og áhyggjur listamanna af listrænu frelsi í ljósi kröfunnar um arðsemi. Þá var mikið rætt um höfundarréttarmál og þær ógnir sem glímt er við í netheimum.
Ítarlega frásögn af fundinum er að finna á heimasíðu BÍL.
Mótun menningarstefnu
Menntamálaráðherra óskaði strax vorið 2009 liðsinnis BÍL við mótun lista- og menningarstefnu og hefur verið unnið að verkinu með margvíslegum hætti þó endanleg afurð liggi ekki enn fyrir. Á vordögum 2009 settust listamenn á rökstóla, ræddu aðferðafræði og innihald stefnumótunar í listum og skipuðu nokkra starfshópa. Þeir skiluðu af sér tillögum í lok september 2009, sem gerð er grein fyrir í áfangaskýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Bifröst frá í maí 2010. 24. apríl 2010 gekkst BÍL fyrir hugarflugsfundi, þar sem rúmlega 100 listamenn ræddu daglangt um stefnu í listum og skapandi greinum. Afurðir þess fundar hafa verið settar saman í aðgengilegt plagg. Svo hélt mennta- og menningarmálaráðuneytið stefnumótunarþing 30 aprílMenningarlandið 2010. Drög að skýrslu frá því voru tilbúin á haustdögum og hafa afurðir þessara tveggja stóru funda verið grundvöllur áframhaldandi vinnu ritstjóra stefnunnar Hauks F. Hannessonar sem menntamálaráðherra réið til verksins. Undanfari vinnu Hauks var skýrsla sem hann tók saman með greiningu á menningarstefnu íslenska ríkisins „Er til menningarstefna á Íslandi?“ Einnig gekkst ráðuneytið fyrir könnun á menningarneyslu Íslendinga í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Tvær skýrslur um kvikmyndagerð komu út á árinu, önnur í mars „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk?“, sem greinir frá könnun á fjármögnun íslenskra kvikmynda. Hin kom út í desember og fjallar um starfsskilyrði kvikmyndagerðar á Íslandi. Ekki má gleyma vandaðri stefnumótun danslistarinnar til næstu 10 ára, sem Félag íslenskra listdansara birti nýverið. Sjálfstæðu leikhúsin hafa blásið til stefnumótunarfundar um næstu helgi þar sem þeirra stefna sem mótuð var 2002 verður endurnýjuð. Þá mótaði ÚTÓN á árinu stefnu um áframhaldandi útflutning íslenskrar tónlistar. Síðast en ekki síst ber að nefna kortlagningu skapandi greina, en 1. desember sl. voru fyrstu niðurstöður þeirrar viðamiklu kortlagningar kynntar. Hún varpar ljósi á umfang skapandi greina í atvinnulífi landsmanna og efnahagslega þýðingu þeirra. Ráðgert er að vinnu við kortlagninguna ljúki í mars 2011. Af þessari upptalningu má ljóst vera að mikið stefnumótunarstarf hefur verið unnið innan menningargeirans á árinu þó ekki sé því lokið. Meðal þess sem taka þarf afstöðu til í menningarstefnu er ýmislegt er lýtur að listkennslu á öllum skólastigum. Gefa þarf gaum að rannsóknum í listum og skapandi greinum. Skoða þarf hlutverk og starfsskilyrði helstu menningarstofnana. Greina með hvaða hætti stoðkerfi atvinnulífsins nýtist skapandi greinum. Kanna grundvöll og hlutverk kynningarmiðstöðva listgreinanna og kynningu á íslenskri list og menningu erlendis. Auk þess sem mikilvægt er að huga að varðveislu og miðlun menningararfsins. Umræða af þessum toga er liður í mótun menningarstefnu, sem setja mun mark sitt á breytt og betra samfélag.
Í tengslum við aðalfund BÍL verður stefnumótunarumræðunni haldið áfram, með því að haldið verður málþing um menningarstefnu þar sem menntamálaráðherra verður meðal frummælenda. Það er eðlilegt að BÍL vilji skoða stöðuna í upphafi ársins 2011 þó ekki væri nema til þess að vinna gegn þeirri tilfinningu sem óneitanlega leitar á að listamönnum hafi verið haldið uppteknum í tæp tvö ár við að skapa menningarstefnu sem engin eftirspurn er eftir.
Lokaorð
Eitt af mikilvægustu hlutverkum BÍL, sem hagsmunagæsluaðila listamanna, er að hafa auga með stjórnvöldum menningarmála, tryggja þeim ráðgjöf, láta þeim í té góðar hugmyndir og styðja þau við að koma þeim í framkvæmd. Í stefnuyfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr er getið um menningarstarfsemi á nokkrum stöðum. Meðal þess sem þar segir er þetta: #Hlúa verður að menningarstarfsemi um allt land með áherslu á íslenska frumsköpun. #Mótuð verði menningarstefna til framtíðar í samráði við listamenn og aðra þá sem starfa að menningarmálum. #Ráðist verði í markaðssókn erlendis á sviði lista, menningar, hönnunar og hugvitsgreina.
Það hefur ríkt einbeittur vilji í stjórn BÍL allt árið til að standa vörð um hagsmuni menningarinnar. Við höfum minnt á okkur í flestum ráðuneytunum, á Alþingi hjá fleiri en einni þingnefnd og hjá Reykjavíkurborg. Og það er ásetningur stjórnarinnar að halda áfram á sömu braut. Í því augnamiði hafa stjórnarmenn sett saman einar 7 ályktanir sem fjallað verður um á þessum aðalfund auk þess sem ný starfsáætlun verður lög fram. Það þarf að fylgja þeim verkefnum, sem þegar eru hafin, eftir af miklum krafti eigi árangur að nást. Við lok þessarar skýrslu hvet ég almenna félagsmenn aðildarfélaga BÍL til að vera nú virkir í starfi félaganna, því kraftmikil og iðandi grasrót er það sem forystan þarf til að bit sé í verkum hennar.
22. janúar 2011
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL