Í tengslum við aðalfund BÍL verður haldið í málþing um menningarstefnu, sem fram fer í Iðnó við Tjörnina laugardaginn 22. janúar kl. 15:00 – 17:00.

Frummælendur verða:

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra

Jóhannes Þórðarson, deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ

Hrafnhildur Hagalín leikskáld

Fríða Björk Ingvarsdóttir bókmenntafræðingur og blaðamaður

Atli Ingólfsson tónskáld

Stjórnandi málþingsins verður Guðrún Erla Geirsdóttir myndhöfundur

Hugmyndin að baki málþinginu tengist því starfi sem unnið hefur verið á vettvangi BÍL og aðildarfélaga BÍL á síðustu tveimur árum, eða frá því mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir óskaði eftir því að BÍL kæmi með beinum hætti að opinberri stefnumótun í menningu og listum. Á þeim tíma hefur BÍL haldið fundi af öllum stærðum og gerðum, starfshópar hafa verið settir á laggirnar, skýrslur skrifaðar og stefnumótun í einstökum listgreinum litið dagsins ljós. Vinnunni við mótun menningarstefnu er þó ekki lokið og kannski lýkur henni aldrei. Það er a.m.k. full ástæða til að skoða stöðuna í upphafi ársins 2011 svo tryggt verði að vinnan, sem listamenn hafa innt af hendi við stefnumótun hingað til, verði til að skjóta styrkari stoðum undir starf að menningu og listum.

Að loknum framsöguerindum verða almennar umræður þar sem frummælendur sitja fyrir svörum. Þegar málþinginu lýkur, kl. 17:00, verður gestum boðið upp á léttar veitingar. Málþingið er öllum opið meðan húsrúm leyfir.

 

Stjórn BÍL – Bandalags íslenskra listamanna