Stjórn BÍL hélt 10 reglulega fundi á starfsárinu, auk þess sem haldnir voru nokkrir fundir um afmörkuð málefni.
Aðildarfélög BÍL eru fimmtán talsins, eitt félag bættist í hópinn árinu, Danshöfundafélag Íslands. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum þeirra stjórnarmanna, sem komið hafa að starfi stjórnar BÍL á árinu:
Arkitektafélag Íslands; AÍ, – formaður: Aðalheiður Atladóttir
Danshöfundafélag Íslands; DHÍ – formaður: Katrín Gunnarsdóttir
Félag íslenskra leikara; FÍL, – formaður: Birna Hafstein
Félag íslenskra listdansara; FÍLD, – formaður: Ásgeir Helgi Magnússon /Arndís Benediktsdóttir (varamenn Tinna Grétarsdóttir og Katrín Ingvadóttir)
Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT, – formaður: Gunnar Guðbjörnsson /Hlín Pétursdóttir Behrens (varamenn Hallveig Rúnarsdóttir og Freyja Gunnlaugsdóttir)
Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH, – formaður: Björn Th. Árnason
Félag kvikmyndagerðarmanna FK, – formaður: Hrafnhildur Gunnarsdóttir (varamaður Anna Þóra Steinsþórsdóttir)
Félag leikstjóra á Íslandi FLÍ, – formaður: Sara Martí Guðmundsdóttir (varamenn Agnar Jón Egilsson og Tryggvi Gunnarsson)
Rithöfundasamband Íslands RSÍ, – formaður: Kristín Helga Gunnarsdóttir (varamenn Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Gauti Kristmannsson)
Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM, – formaður: Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL, – formaður: Friðrik Þór Friðriksson
Tónskáldafélag Íslands; TÍ, – formaður: Kjartan Ólafsson/Þórunn Gréta Sigurðardóttir (varamaður Páll Ragnar Pálsson)
Félag tónskálda og textahöfunda; FTT, – formaður: Jakob Frímann Magnússon (varamaður Bragi Valdimar Skúlason)
Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB, – formaður: Rebekka Ingimundardóttir (varamaður Þórunn María Jónsdóttir)
Félag leikskálda og handritshöfunda; – formaður: Margrét Örnólfsdóttir
Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2016):
Menningar- og ferðamálaráð Kolbrún Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi
Reykjavíkur Jóna Hlíf Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi
Jakob Frímann Magnússon varamaður
Birna Hafstein varamaður
Fulltrúar í faghópi menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur 2015:
Hörður Lárusson grafiskur hönnuður (Hönnunarmiðst), formaður
Jón Bergmann Kjartans Ransu myndlistarmaður
Magnea J. Matthíasdóttir rithöfundur og þýðandi
Bragi Valdimar Skúlason tónlistarmaður
Þóra Karítas Árnadóttir leikari
Kvikmyndaráð Kristín Jóhannesdóttir febrúar 2013 – febrúar 2016
Bergsteinn Björgúlfsson varamaður
Stjórn Barnamenningarsjóðs Gunnar Gunnsteinsson 15.10.2013 – 14.10.2015 Kristín Mjöll Jakobsdóttir varamaður
(skv. fjárlögum 2016 hefur Barnamenningarsjóður enga fjárveitingu og hefur því að líkindum verið lagður niður þó ekki hafi borist um það formleg tilkynning)
Fulltrúaráð Listahátíðar Kolbrún Halldórsdóttir
Stjórn listamannalauna Margrét Bóasdóttir 10.10.2012 til 01.10.2015
Randver Þorláksson varamaður
Hlynur Helgason 01.10.2015 til 10.10.2018
Hlín Gunnarsdóttir varamaður
Stjórn Skaftfells Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Kolbrún Halldórsdóttir varamaður
Fagráð Íslandsstofu Kolbrún Halldórsdóttir
í listum og skapandi greinum
Menningarfánaverkefni Karen María Jónsdóttir
Reykjavíkurborgar
List án landamæra Edda Björgvinsdóttir
Stjórn Gljúfrasteins Kolbrún Halldórsdóttir 23. apríl 2012 – 22. apríl 2016
Umsagnarnefnd v/heiðurslauna Pétur Gunnarsson 17. des. 2012
(í fyrsta sinn kölluð saman í des 2015)
Höfundarréttarráð Kolbrún Halldórsdóttir 1. ágúst 2014 – 1. ágúst 2018
Sérfræðinganefnd KKN Margrét Jónasdóttir Janúar 2014 – janúar 2017
(ferðastyrkjanefnd)
Starfshópur um Jón B. Kjartansson Ransu Október 2014
málverkafalsanir Kolbrún Halldórsdóttir varamaður
Starfshópur um ráðstefnuna Kolbrún Halldórsdóttir
Hvernig metum við hið ómetanlega?
Starfshópur um Listahátíð Kolbrún Halldórsdóttir Desember 2015
í Reykjavík – framtíðarsýn
Forseti BÍL er fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Listaháskóla Íslands, formaður þar síðan 16. desember 2011. Forseti BÍL hefur gegnt starfi forseta ECA – European Council of Artists síðan í árslok 2011 og situr í norræna listamannaráðinu Nordisk Kunstnerråd. Fyrir hönd ECA tekur hún þátt í starfi European Creative Alliance um höfundarréttarmál listamanna og er fulltrúi Nordisk Kunstnerråd í stjórn Norrænu menningarmiðstöðvarinnar Circolo Scandinavo í Róm, varamaður stjórnar CS síðan á aðalfundi 2015. Önnur trúnaðarstörf forseta eru eftirfarandi: forseti er formaður stjórnar Leikminjasafns Íslands, kjörin af fulltrúaráði safnsins, hún er fulltrúi BÍL í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar. Þá er hún gjaldkeri í stjórn Félags leikstjóra á Íslandi og starfaði í samninganefnd félagsins frá 2011 til hausts 2015.
Stjórn BÍL hefur skipt með sér verkum á árinu þannig að Margrét Örnólfsdóttir formaður Félags leikskálda og handritshöfunda hefur gegnt starfi ritara. Þá varð sú breyting á að Gunnar Guðbjörnsson fyrrum formaður Félags íslenskra tónlistarmanna – FÍT lét af starfi gjaldkera og við starfinu tók Björn Th. Árnason formaður Félags íslenskra hljómlistamanna – FÍH. Það er hins vegar fjármálastjóri FÍH, Friðgeir Kristinsson sem nú annast bókhald BÍL og skil á uppgjöri til endurskoðanda Helgu Þorsteinsdóttur. Skoðunarmenn reikninga hafa verið Ragnheiður Tryggvadóttir og Sigurgeir Sigmundsson.
Stjórn BÍL hefur komið saman til reglulegra funda 10 sinnum á árinu, þar að auki hélt stjórnin tvo fundi með útvarpsstjóra Magnúsi Geir Þórðarsyni um málefni stofnunarinnar. Þá bauð stjórn nokkrum sinnum gestum til fundar við sig á reglulegum fundartíma, þannig kynntu Elfa Lilja Gísladóttir og Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir verkefnisstjórar úr mennta- og menningarmála-ráðuneyti stöðu verkefnisins „Menningarbakpokinn“ eða „List fyrir alla“. Einnig var haldinn sérstakur fundur með Margréti Bóasdóttur um málefni launasjóða listamanna og Fríðu Björk Ingvarsdóttur rektor Listaháskóla Íslands var boðið til fundar í desember til að ræða nýjar reglur um veitingu akademískra starfa við LHÍ.
Nýr samningur við Reykjavíkurborg
Samningur BÍL við Reykjavíkurborg, um ráðgjöf í málefnum menningar og lista í borginni, rann út í árslok 2015 og hafði stjórn BÍL lagt þunga áherslu á að fá framlagið hækkað þegar samningurinn yrði endurnýjaður. BÍL hefur notið stuðnings Reykjavíkurborgar síðan 2007 þegar fyrsti samningurinn var undirritaður, þá hljóðaði árlegt framlag borgarinnar upp á eina milljón króna. Það var svo lækkað í kr. 900.000.- eftir hrun og á síðasta samningstímabili var upphæðin 1.060.000.- Krafa BÍL nú var að milljónin frá 2007 yrði uppreiknuð svo framlagið á nýju samningstímabili yrði sambærilegt og í upphafi, eða kr. 1.660.000.- Borgaryfirvöld töldu sig ekki geta gengið að því og var niðurstaðan sú að næstu þrjú árin verður árlegt framlag Reykjavíkur til BÍL hið sama og verið hefur eða kr. 1.060.000.-
Samningur BÍL við mennta- og menningarmálaráðuneytið var endurnýjaður 2014 og gildir hann út árið 2016. Greiðslur ríkisins skv. þeim samningi hafa hækkað lítillega, þær eru nú 3,5 milljónir á lokaári samningsins sem nú er gengið í garð.
Fjárlög 2016
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir fjárlagaárið 2016 var lagt fram í september og fjallaði stjórn BÍL um málið á nokkrum fundum. Í nóvember sendi stjórn BÍL fjárlaganefnd Alþingis umsögn sína, sem byggði á umsögnum einstakra aðildarfélaga. Megininntak umsagnar BÍL var eftirfarandi:
- krafa um endurnýjað samkomulag um kvikmyndagerð og ósk um 355,3 m. kr. til viðbótar við það sem frv. áætlaði í Kvikmyndasjóð auk kröfu um hækkun Kvikmyndasjóðs í 2 milljarða á næstu fimm árum.
- framlag til annarra verkefnatengdra sjóða verði sem hér segir:
- Myndlistarsjóður 52 m. kr
- Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna 107 m. kr
- Tónlistarsjóður 81,1 m. kr
- Barnamenningarsjóður 8 m. kr
- Listskreytingasjóður 10 m. kr
- safnliðurinn „Styrkir á sviði listgreina“ verði 64,6 m. kr
- gerð verði ný þriggja ára áætlun um eflingu launasjóða listamanna og fjölgun mánaða
- framtíð tónlistarskólanna verði tryggð með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum
- listdansnám á framhaldsstigi verði eflt og fjárframlag verði í samræmi við kröfur í námsskrá
- Ríkisútvarpinu verði bættar þær 173,2 m kr, sem það missir, m.a. vegna lækkunar útvarpsgjalds
- menningarsamningar landshlutanna verði uppfærðir og ætlað sama framlag og á fjárlagaárinu 2013, þ.e. samt. 270,4 m kr. og samningurinn við Akureyrarbæ verði skoðaður m.t.t. umfangs verkefna
- málefni kynningarmiðstöðva listgreinanna verði skoðuð, mat lagt á fjárþörf þeirra, gerð áætlun um eflingu starfseminnar og stofnuð Kynningarmiðstöð sviðslista í samvinnu við SSÍ með 10 m kr framlagi
- kynning á menningu, listum og skapandi greinum í sendiráðum Íslands fái 12 m. kr framlag
- þá var ítrekuð ósk um að stjórn BÍL fengi áheyrn hjá fjárlaganefnd í tilefni af erindinnu, en þeirri beiðni var ekki sinnt, frekar en þrjú undangegnin ár og í þetta sinn rataði sú framkoma nefndarinnar í fjölmiðla og vakti nokkra athygli.
Niðurstaða fjárlaganna (sem samþykkt voru fimm dögum fyrir jól) var nánast óbreytt frá frumvarpinu, svo umsögn BÍL og þrýstingur fagfélaga listafólks á stjórnvöld hafði lítið sem ekkert að segja. Eini verkefnatengdi sjóðurinn sem hækkaði eitthvað í meðförum þingsins var til sjálfstæðu leikhúsanna, sem hækkaði um 14 milljónir og svo varð 30 m.kr. hækkun á menningarsamningi við Akureyrarbæ. Annað breyttist ekki milli umræðna, en það sem var kannski mest lýsandi um viðhorf stjórnvalda til lista var sú ákvörðun fjárlaganefndar Alþingis að hækka framlög til allra háskóla í landinu nema Listaháskóla Íslands. Fjárlaganefnd hækkaði framlög til háskólanna milli annarrar og þriðju umræðu um 333 milljónir en eini háskólinn sem fékk ekki krónu var LHÍ. Sambærileg staða var uppi við afgreiðslu fjárlaga 2015, sem bendir til þess að önnur sjónarmið ráði för þegar stjórnvöld meta mikilvægi listmenntunar á háskólastigi en aðra háskólamenntun.
Umsagnir um þingmál
Fá stjórnarfrumvörp á málasviði lista hafa litið dagsins ljós á árinu. BÍL hafa borist beiðnir um umsagnir um þrjú þingmál á sviði höfundarréttar og er þar um að ræða þrjú af fimm málum sem ríkisstjórnin hefur boðað á því sviði. Þau mál sem komin eru fram eru frumvarp um einkaréttindi höfunda og samningskvaðir, frumvarp um innleiðingu tilskipunar um munaðarlaus verk og frumvarp um lengri verndartími hljóðrita. Enn bólar þó ekkert á því frumvarpi sem varðar stórfellda hagsmuni listamanna, þ.e. frumvarp til laga um eintakagerð til einkanota, en það fjallar um heimildir til að leggja gjöld á vörur í tolli, sem gera eigendum tiltekinna tækja kleift að fjölfalda eintök af höfundarvörðu efni. Höfundar og eigendur flutningsréttar hafa lengi þrýst á um slíkt frumvarp, en allt útlit er fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra skorti stuðning við að málið sé lagt fram á þinginu, einnig mun hafa orðið töf á kostnaðarmati frumvarpsins. Tvö stjórnarfrumvörp til hafa borist til umsagnar það sem af er þessu þingi, frumvarp um skatta og gjöld sem varðar m.a. ferða- og dvalarkostnað erlendra listamanna, að hann verði ekki talinn þeim til tekna og frumvarp til laga um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi, mál er fjallar um svokallaða miðastyrki. Það síðastnefnda bíður enn umsagnar fagfélaga kvikmyndagerðarmanna og mun BÍL bregðast við beiðni um umsögn þegar ljóst er hver sjónarmið fagfélaga kvikmyndagerðarmanna verða um málið. Varðandi málin á málasviði höfundarréttar er rétt að taka fram hér að stjórn BÍL hefur ákveðið að halda sérstakt málþing um inntak þeirra í marsmánuði, þar sem fulltrúum stjórnmálaflokkanna verður boðin þátttaka. Undirbúningur fyrir það málþing verður m.a. fólginn í kynningu á frumvörpunum á aðalfundi BÍL.
Samráðsfundir BÍL og menningarmálaráðherra
Í samræmi við samkomulag BÍL og mennta- og menningarmálaráðuneytisins hitti stjórn BÍL mennta- og menningarmálaráðherra ásamt starfsfólki ráðuneytisins sem sinnir listum og menningu á árlegum samráðsfundi 10. apríl 2015. Fyrir fundinum lá dagskrá sem byggði á ýmsum efnisatriðum sóknaráætlunar BÍL, sem samþykkt var á aðalfundi BÍL í febrúar 2015 og kynnt á málþingi BÍL um sjálfstæðisbaráttu 21. aldarinnar sem haldið var í tengslum við aðalfundinn. Meðal þess sem BÍL hefur bent á í baráttunni fyrir aukinni áherslu stjórnvalda á listir og skapandi greinar er eftirfarandi yfirlýsing í stjórnarsáttmálanum frá 2013:
„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styðja við skapandi greinar og vill að á Íslandi verði listnám aðgengilegt og viðurkennt. Gerð verði úttekt á starfsumhverfi skapandi greina með það að markmiði að þær eflist og sæki fram.“
Afstaða ráðherra til tillögu BÍL að sóknaráætlun kom vel fram á fundinum og fer hér á eftir í endursögn sem unnin er upp úr fundargerð fundarins:
Ráðherra telur að Sóknaráætlun BÍL sé gott innlegg í umræðuna og sagði ýmsa þætti hennar falla vel að þeim áhersluatriðum sem ráðuneytið vinnur að. Hann sagði þó ekki uppi áform um eina heildarsóknaráætlun heldur að sótt yrði fram í áföngum; stefnt væri að auknum stuðningi við útflutning á tónlist og kvikmyndum, styrkara sjóðaumhverfi skapandi greina, komið á öflugri rammalöggjöf um listmenntun á öllum skólastigum og gert átak gegn ólöglegu niðurhali höfundarvarins efnis af netinu.
Til að ná fram þessum markmiðum væri unnið á nokkrum vígstöðvum, t.d. væri áformað að stofna starfshóp um tiltekin málefni tónlistarinnar, sem fá mun það hlutverk að:
-kortleggja sóknartækifæri íslenskrar tónlistar og tónlistarflytjenda innanlands sem utan
-kortleggja viðskipta- og stuðningskerfi íslenskrar tónlistar í dag og
-gera tillögu um hvaða innviði þurfi til að auka sóknartækifæri íslenskrar tónlistar.
Á vettvangi kvikmyndanna sé unnið að endurnýjun samkomulags um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu. Þá sé í undirbúningi málþing um söfnun tölulegra upplýsinga um skapandi atvinnugreinar. Loks gerði ráðherra að umtalsefni þau þáttaskil sem urðu með samþykkt Alþingis á sérstakri menningarstefnu 2013. Þar eru fjórir meginþættir lagðir til grundvallar:
– sköpun og þátttaka í menningarlífinu
– gott aðgengi að listum og menningararfi
– samvinna stjórnvalda við þá fjölmörgu aðila sem starfa á sviði menningar og
– þátttaka barna og ungmenna í menningarlífinu.
Ráðherra lagði áherslu á aðgerðaáætlun um menningu barna og ungmenna 2014-2017 sem leit dagsins ljós í október 2014 og sagði framkvæmd hennar í burðarliðnum, m.a. með því að settur verði á laggirnar „menningarpoki“ að norrænni fyrirmynd, en honum yrði ætlað að standa að og halda utan um vandaða listviðburði í skólum um land allt og þakkaði ráðherrann BÍL sérstaklega fyrir frumkvæði og stuðning við þá vinnu.
Málflutningur BÍL á samráðsfundinum gekk út á óskir um að stjórnvöld tækju sóknaráætlun BÍL upp til að auðvelda framkvæmd öflugrar menningarstefnu. Mikilvægt væri að stjórnvöld nálguðust málefni skapandi greina með þverfaglegum hætti ekki síst í ljósi þess hversu tvístruð stjórnsýsla lista og skapandi greina er í stjórnkerfinu (sjá grein forseta í Frbl. 15.10.15). Nauðsynlegt væri að stjórnvöld gerðust bandamenn listamanna í baráttunni fyrir því að þeir fái greitt fyrir vinnu sína. Í því sambandi var vakin athygli á baráttu myndlistarmanna fyrir greiðslum til myndlistarmanna sem sýna í opinberum söfnum og sýningarsölum, en einnig minnt á mikilvægi þess að stjórnvöld greiði listafólki fyrir setu nefndum og starfshópum á vegum hins opinbera. BÍL fær iðulega óskir um að skipa fulltrúa í slíka hópa en venjulega er tekið fram í beiðninni að ekki sé greitt sérstaklega fyrir setu í viðkomandi nefnd/hópi. BÍL telur það vera lágmarkskröfu að þegar stjórnvöld óska eftir kunnáttufólki úr hópi listamanna til starfa, greiði ríkið sanngjarna þóknun fyrir þá vinnu. Annað kunni að eiga við um sérfræðinga sem þegar sinna föstum störfum innan kerfisins. [Þess má geta að ráðuneytið hefur nú viðurkennt þessa kröfu með því að það greiðir fyrir störf fulltrúa BÍL í starfshópi um málverkafalsanir).
Önnur áherslumál BÍL á fundinum voru höfundarréttarmál og krafan um að frumvarpið um breikkaðan gjaldstofn rétthafagjalds í tolli verði lagt fram á Alþingi og afgreitt í tengslum við hin þrjú frumvörpin sem fram eru komin, en það mikilvæga frumvarp hefur einungs verið kynnt á vef ráðuneytisins en ekki litið dagsins ljós á þinginu. Þá leggur BÍL áherslu á nauðsyn þess að styrkja fjárhagsramma kynningarmiðstöðvanna, sem hafa með höndum kynningu á list og menningu erlendis og eins að ráðuneytið komi að stofnun Sviðslistamiðstöðvar, sem enn hefur ekki verið formlega komið á legg. Þá kom BÍL á framfæri gagnrýni á breytingar á menningarsamningum við landshlutasamtök sveitarfélaga, með því að færa þá undir almenna vaxtasamninga sé hætta á að áhersla á listir og menningu hverfi innan um almenna uppbyggingu í landshlutunum, auk þess sem óásættanlegt sé að málefni menningar og lista skuli með breytingunum hafa fallið undir málefnasvið landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.
Ráðherra bryddaði upp á því nýmæli að boða fulltrúa Hagstofu Íslands til fundarins og einnig fulltrúa frá Rannís. Stjórn BÍL fagnaði því sérstaklega, enda má segja að þar með sé komið á beint talsamband BÍL við þessar mikilvægu stofnanir, fyrir milligöngu æðsta ráðamanns málaflokksins. Hitt verður þó að segjast að fulltrúi Hagstofunnar færði engar fréttir af áformum um frekari skráningu tölulegra gagna um listir og menningu, og var helst á honum að skilja að um slíkt yrði ekki að ræða nema með sérstöku samkomulagi milli ráðuneytisins og Hagstofnunnar.
Því er við þetta að bæta að á málþingi um tölfræði skapandi greina, sem ráðuneytið gekkst fyrir 11. nóvember sl. var nokkuð bjartara hljóð í fulltrúum Hagstofunnar og hefur stjórn BÍL uppi áform um að rækta það talsamband sem þar var komið á.
Fagleg úthlutun opinberra fjármuna til menningar og lista
Eitt þeirra baráttumála sem stjórn BÍL hefur tekist á við gegnum tíðina er fagleg úthlutun opinberra fjármuna til menningar og lista, er þess skemmst að minnast að efnt var til umræðu á Alþingi þar sem uppi var höfð sú skoðun að réttast væri að fela stjórnmálamönnum sem kjörnir eru til setu á Alþingi úthlutun úr launasjóðum listamanna. Til upprifjunar er rétt að birta hér niðurstöðu starfshóps um verkefnasjóði og kynningarmiðstöðvar frá 2013 þar sem lögð er áhersla á að framlög ríkisins til verkefna á sviði menningarmála skuli fara í gegnum lögbundna sjóði með faglegum úthlutunarnefndum sem byggja úthlutun á vönduðu jafningjamati. Í stjórnum sjóða séu viðhafðir góðir stjórnunarhættir, regla um hæfilega fjarlægð virt og almennum hæfisreglum fylgt. Starfslaunasjóðir og verkefnasjóðir verði vel skilgreindir og endurspegli fjölbreytni og þróun menningarlífsins, m.a. er varðar samstarfsverkefni. Í framhaldi af skýrslu hópsins var Rannís falin umsýsla með sjóðunum, sem hefur gefist vel og hefur BÍL fengið kynningar á framkvæmd mála hjá Rannís auk þess sem Rannís annast rekstur samkeppnissjóða, utanumhald um sjóði menningaráætlunar ESB og aðstoð við kynningu á alþjóðlegum sóknarfærum og samstarfsmöguleikum. Það er því mat stjórnar BÍL að opið samtal og góð tengsl við Rannís séu til þess fallin að auka vægi lista í akademísku rannsóknarumhverfi og styrkja um leið kröfuna um faglega úthlutun opinberra fjármuna í geiranum, sem byggi á hugmyndafræði um jafningjamat. Þessi sjónarmið eru hluti af stærri umræðu og rétt í þessu sambandi að minnast á nýlegar úthlutanir ríkisstjórnarinnar til einstakra list- og menningartengdra verkefna, þar sem forseti BÍL hefur þurft að svara fjölmiðlum um slík dæmi sem upp hafa komið. Það hefur verið stefna stjórnar BÍL, eins og hún hefur birst í starfsáætlunum undanfarinna ára, að réttast sé að stuðningi við listir sé beint gegnum verkefnatengda sjóði eða launasjóði, þar sem umsóknir eru faglega metnar og vegnar á sama eða sambærilegum skala. Á hitt hefur BÍL reyndar einnig lagt áherslu að fulltrúar, sem starfa við faglegt mat og gera tillögur til stjórnvalda eða sjóðsstjórna um úthlutanir, sitji ekki lengi samfellt í slíkum störfum þar sem slíkt kunni að draga úr fjölbreytni og víðsýni við útdeilingu fjármunanna. Það liggur því fyrir að BÍL skorast ekki undan umræðu um það kerfi sem komið hefur verið upp og hefur margsinnis rökstutt þau grundvalllaratriði sem lúta að fagmennsku við útdeilinguna.
Úthlutun úr launasjóðum og stofnun starfshóps
Það er ekki einasta að BÍL þurfi að vinna að auknum skilningi á faglegri úthlutun fjármuna til lista almennt, heldur er ekki síður mikilvægt að leitast við að skoða með hvaða hætti fagfélögin og listafólk kemur að slíkri útdeilingu. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þeirrar umræðu sem ævilega kemur upp þegar tilkynnt er um úthlutun úr launasjóðum listamanna og virðist sú umræða fara harðnandi ef marka má storminn í kringum nýafstaðna úthlutun úr launasjóðunum. BÍL brást við því ölduróti, að frumkvæði og áeggjan Rithöfundasambands Íslands – RSÍ og Tónskáldafélags Íslands – TÍ, með því að stofna starfshóp þriggja óháðra sérfræðinga í málefnum launasjóðanna og fól hópnum að skoða hvort eitthvað í verklagi úthlutunarnefnda listmannalauna sé með þeim hætti að betur megi fara, því stjórn BÍL lítur sannarlega ekki þannig á að kerfið sem nú er notað sé gallalaust og vill leitast við að bæta það þegar og ef þess gerist þörf. Sérfræðingarnir sem völdust til starfans voru Margrét Bóasdóttir fyrrum fulltrúi BÍL í stjórn listamannalauna, Birna Þórðardóttir fyrrum formaður stjórnar listamannalauna og Rúnar Helgi Vignisson dósent í ritlist við HÍ. Hópurinn hefur nú ritað bréf til stjórna allra fagfélaga listamanna sem hafa með skipan fulltrúa í úthlutunarnefndir launasjóðanna að gera og mun skila BÍL greinargerð um störf sín að skoðun lokinni. Mikilvægt er að undirstrika að hópnum var ekki falið að endurskoða launasjóðakerfið í heild sinni, heldur einungis framkvæmd þess hluta sem snýr að fagfélögunum. Hitt má þó einnig fljóta hér með að stjórn BÍL hefur árum saman hvatt stjórnvöld til að gera breytingar á lagaramma listamannalauna, t.d. sé nauðsynlegt að lögfesta ákvæði um endurnýjaða áætlun til tiltekins tíma til að hnika upp fjölda mánaðalauna í sjóðunum, til samræmis við stöðuga fjölgun í hópi starfandi listamanna, auk þess sem BÍL hefur fylgst með umræðu fagfélaga í sviðslistum þar sem krafist er endurnýjunar á stuðningi við sviðssetningar þar sem þær falli illa að núverandi kerfi launasjóðanna. Hér er rétt að undirstrika það sjónarmið BÍL að allar breytingar sem gerðar kunna að vera á lögum um listamannalaun þurfi að eiga sér stað að undangengnu öflugu samráði stjórnvalda og BÍL – heildarsamtaka listafólks.
Samstarf BÍL og borgaryfirvalda
Framar í skýrslu þessari er getið um endurnýjun þjónustusamnings BÍL og borgaryfirvalda um samvinnu á sviði menningarmála og ákvörðun borgaryfirvalda um óbreytt framlag til BÍL fyrir þá þjónustu sem veitt er. Skv. samkomulaginu er haldinn samráðsfundur þessara aðila ár hvert og var hann haldinn í Höfða 23. nóvember 2015. Hér skal nú stiklað á helstu atriðum sem til umfjöllunar voru á fundinum:
Samstarf við MOFR um styrkjaúthlutun; það er mat BÍL að vel hafi tekist að þróa þetta samstarf. Nýlega var orðið við óskum BÍL um að hverfa frá „15 nafna listanum“ svokallaða yfir í það fela BÍL að tilnefna fjóra fulltrúa í hópinn (fimmti fulltrúinn er skipaður skv tilnefningu Hönnunarmiðstöðvar). BÍL hefur gert athugasemdir við fyrirkomulag „skyndistyrkja“ sem úthlutað hefur verið fjórum sinnum af ráðinu sjálfu, en að mati BÍL væri skynsamlegra að auglýsa eftir umsóknum um stuðning við list- og menningartengd verkefni tvisvar á ári, í upphafi árs og svo að vori og fela faghópnum að gera tillögur um allar úthlutanir ráðsins. Raunar hefur niðurskurður útgjalda hjá borginni 2016 orðið til þess að engum skyndistyrkjum verður úthlutað á árinu og lækkar „styrkjapotturinn“ að auki um 12 milljónir króna frá síðasta ári.
(því má skjóta inn hér að úthlutun menningarstyrkja borgarinnar fyrir 2016 fór fram 18. janúar sl. Alls barst 201 umsókn þar sem sótt var um samtals 450 m.kr. Veitt var vilyrði fyrir 102 styrkjum sem námu samtals þeim 86 m. kr. sem lausar voru nú til úthlutunar. Fyrir voru á langtímasamningum 10 hátíðir og 4 listhópar með samtals 41.8 m.kr. Heildarupphæð styrkveitinga Reykjavíkurborgar 2016 er því tæpar 128 milljónir króna.)
Borgarhátíðasjóður; tengsl lista, menningar og ferðaþjónustu; BÍL fagnaði því þegar settur var á laggirnar Borgarhátíðarsjóður og hefur ekki gert athugasemdir við fjölgun í faghópnum sem fjallar um umsóknir í sjóðinn (en bæði ferðaþjónustan og Höfuðborgarstofa koma nú að þessum hluta styrkveitinganna), engu að síður telur BÍL mikilvægt að sjónarmið listafólks verði áfram ráðandi við val á hátíðum sem njóta stuðnings borgarinnar þó ferðaþjónustan hafi vissulega einnig hagsmuna að gæta. Það er mat stjórnar BÍL að efla þurfi samtalið milli ferðaþjónustunnar og skapandi greina um hlut einstakra hátíða í borginni en ekki síður um list- og menningartengt starf almennt. Reynt hefur verið að þróa slíkt samtal undir hatti Íslandsstofu en það hefði mátt ganga betur og skila meiru. Þá hefur BÍL gert athugasemdir við stefnumótun í málefnum ferðaþjónustunnar sem unnin hefur verið að á vettvangi ríkisins, en þó BÍL hafi boðist að sitja einstaka fundi um þá stefnumótun hafa sjónarmið listanna ekki skilað sér inn í þann „vegvísi“ sem kynntur var nýverið. BÍL hefur því hvatt borgaryfirvöld til leita leiða til að auka aðkomu okkar sem störfum innan listanna, að nauðsynlegri samræmingu opinberrar ferðamálastefnu.
Sjálfstætt starfandi listamenn; Í menningarstefnu Reykjavíkur er lögð áhersla á að hugað sé að langtímasamningum við samstarfsaðila og að nýjar listgreinar fái aukið vægi, með það að markmiði að efla fagmennsku og fjölbreytni í listalífinu. BÍL hefur lagt áherslu á mikilvægi þeirrar menningarstarfsemi sem borin er uppi af sjálfstætt starfandi listamönnum í Reykjavík og fer fram utan menningarstofnana. Því hefur BÍL fagnað nýlegum úrbótum sem gerðar hafa verið á aðstöðu sviðslistahópa í Tjarnarbíói og ítrekað nauðsyn þess skoða málefni Dansverkstæðis við Skúlagötu með tilliti til þessara sjónarmiða og í samræmi við menningarstefnu borgarinnar. Þá hefur BÍL varað við því að borgaryfirvöld stefni starfsaðstöðu fjölda myndlistarmanna í hættu með því að selja Korpúlfsstaði. Þá hefur BÍL hvatt til þess að skoðaður verði samningstími þeirra stórviðburða sem sprottnir eru úr grasrótarstarfi listafólks og lifa vart af ef samningar þar um eru einungis gerðir frá ári til árs. Ákjósanlegt væri ef sumir samningar af því tagi yrðu lengdir í fimm ár.
Átakið „Borgum myndlistarmönnum“; Í fyrsta kafla menningarstefnu Reykjavíkurborgar er fjallað um auðlindina sem menningin er og hvernig hún er undirstaða framtíðarinnar. Þar er getið um forystuhlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar í málefnum lista og menningar auk þess sem því er lýst að skapandi greinar séu hluti af grunnþáttum efnahags og atvinnulífs borgarinnar. Undir þriðja markmiði gildandi aðgerðaáætlunar menningarstefnunnar er fjallað um mótun verklagsreglna fyrir menningarstofnanir borgarinnar og undirstrikuð sú stefna borgaryfirvalda að réttur listamanna til launa fyrir vinnuframlag sitt verði virtur og höfundaréttur þeirra hafður í hávegum. Stjórn BÍL bendir borgaryfirvöldum í því sambandi á átak myndlistarmanna fyrir því að myndlistarmenn, sem fengnir eru til að sýna í opinberum söfnum, fái fyrir það sanngjarnar greiðslur á grundvelli samnings, sem um þessar mundir er verið að kynna fyrir stjórnvöldum, bæði ríkis og borgar. Það er auðitað von BÍL að borgaryfirvöld taki forystuhlutverk sitt alvarlega hvað þetta varðar og leggi átakinu lið í verki.
Skólabókasöfnin; BÍL lítur það alvarlegum augum hversu mjög hefur dregið úr krafti skólabókasafnanna á undanförnum árum, en nú er svo komið að innkaup þessara deyjandi safna eru nánast engin orðin, auk þess sem störf bókasafnskennara hafa víðast hvar verið skorin niður að einhverju eða öllu leyti. BÍL hvetur því borgaryfirvöld til að tryggja líf skólabókasafnanna svo þau geti sinn sínu mikilvæga hlutverki t.d. í þjóðarátaki í læsi sem ætti alltaf að vera í gangi svo hægt sé að ala upp fólk sem getur tjáð sig í framtíðinni, lesið og skapað.
Gröndalshús; BÍL hefur fylgst með framvindu starfsins á vettvangi Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO og hefur í þeim efnum lagt til að í Gröndalshúsi verði m.a. útbúið skáldaskjól. Það er von BÍL að á því máli finnist einhver rekstrarflötur svo tryggt verði að húsið þjóni þeim listum og fræðum, sem Benedikt Gröndal sinnti á sínum ferli, en hverfi ekki í einkaeigu og túristaleigu.
Menningarstefna í mannvirkjagerð; BÍL þreytist ekki á að minna stjórnvöld á menningarstefnu í mannvirkjagerð, sem unnin var á vettvangi mennta- og menningarmálaráðuneytis og gefin út 2007. Stefnunni er ætlað að vera fyrirmynd og tryggja gæði og vandvirkni ásamt því að stuðla að uppfræðslu og vitundarvakningu um þau verðmæti sem liggja í góðri byggingarlist. Arkitektafélagið – AÍ hefur átt í ágætu samstarfi við Reykjavíkurborg varðandi samkeppnir um manngert umhverfi, en alltaf má þó gera betur í þeim efnum, eins og stefnt er að í menningarstefnu Reykjavíkurborgar.
Efnahagsleg áhrif skapandi atvinnugreina; Talsverð vinna hefur verið lögð í að kortleggja efnahagsleg áhrif skapandi atvinnugreina og ljóst að þau áhrif eru mun meiri en almennt hefur verið viðurkennt. Á nýafstöðnu málþingi mennta- og menningarmálaráðuneytis, þar sem borgin kom að með veglegum hætti, kom fram að ætla mætti að um 14.000 störf séu til staðar í listum og skapandi atvinnugreinum eða 8% starfa á atvinnumarkaði. BÍL reiðir sig á öflugt liðsinni borgaryfirvalda í þeirri vinnu sem framundan er við að bæta skráningu tölulegra upplýsinga um listir og skapandi greinar, auk þess sem BÍL mun leita eftir virku samstarfi við þetta mikilvæga hagsmunamál við Hagstofu Íslands.
Listmenntun – átak til úrbóta; BÍL telur lítið sem ekkert hafa áunnist á síðasta ári varðandi listmenntun barna í borginni, og á það jafnt við um samstarf listamanna og skólafólks innan grunnskólans og sjálfstætt starfandi listaskóla í borginni. Ástæðurnar eru margþættar og ekki allar á valdi borgaryfirvalda, en það er mat stjórnar BÍL að tvö lykilsvið borgarinnar þurfi að sameinast við lausn þessara mála, þ.e. mennta- og frístundasvið og menningar- og ferðamálasvið. Stjórn BÍL lýsir sig reiðubúna til þátttöku í vinnu um málefni tengd listmenntun barna og ungmenna í skólum borgarinnar.
Listuppeldi barna og ungmenna – menningarpoki; BÍL hefur hvatt til þverfaglegs samstarfs ríkis og sveitarfélaga, þar sem Reykjavík hefði forystuhlutverk, varðandi innleiðingu „menningarpoka“ sem fjallað er um í menningarstefnu borgarinnar. BÍL hefur hvað eftir annað átt fundi og samtöl við skóla- og frístundaráð og starfsmenn sviðsins um þau áfrom, en erfitt hefur reynst að þoka þeim málum áfram. BÍL hefur þótt ganga hægt að fá fram vilja ríkisins til slíks samstarfs þrátt fyrir að á þeim vettvangi hafi verið unnið nokkkuð starf við mótun slíks verkefnis. Innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins er nú unnið að einhvers konar útfærslu þeirra hugmynda og í fjárlagafrumvarpi 2016 er gert ráð fyrir 18 milljóna króna framlagi til barnamenningar, sem er ríflega 14 milljóna króna hækkun frá því sem verið hefur. Það virðist hins vegar eiga að gera með því að leggja niður barnamenningarsjóð, sem er nokkuð sem BÍL hefur gert athugasemdir við. Það er mat BÍL að mikilvægt sé að Reykjavíkurborg, sem stærsta sveitarfélagið, taki þátt í þessari vinnu, en þess sjást ekki merki að borgaryfirvöld eða Samband íslenskra sveitarfélaga hafi þar formlega aðkomu.
Tónlistarskólarnir; Í lok minnisblaðs BÍL til stjórnenda Reykjavíkur var fjalllað um málefni tónlistarskólanna og það undirstrikað að listafólk hafi vænst mikils af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tónlistarmenntun, sem gert var í maí 2011, en því miður hafa forsvarsmenn tónlistarskólanna þurft að standa í stappi við borgaryfirvöld allar götur síðan, vegna þess hvernig borgaryfirvöld túlka samkomulagið. Stjórn BÍL hefur hvað eftir annað fært þennan vanda í tal við borgarstjóra og borgaryfirvöld, án þess að nokkuð breytist. Þegar stjórn BÍL átti samtal sitt við borgarstjóra í Höfða var svo komið að rekstrarvandi skólanna var orðinn óyfirstíganlegur. Krafa stjórnar BÍL var og er sú að borgaryfirvöld tryggi skólum, sem kenna samkvæmt námsskrá, framlög í samræmi við samkomulagið 201 og að þau losi þannig um átthagafjötra tónlistarnema og standi straum af kennslukostnaði við miðnám í söng og allt tónlistarnám á framhaldsstigi, enda slíkt í samræmi við lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga nr. 87/1989. Þá undirstrikaði stjórn BÍL það sjónarmið sitt að dansskólar innan borgarmarkanna, starfandi dansarar og danshöfundar hafi árum saman beðið úrlausnar í málefnum tónlistarskólanna enda muni sú niðurstaða sem þar næst að vonum styrkja stöðu reykvískra dansskóla sem kenna dans á grunn- og framhaldsstigi skv námsskrá. BÍL telur mikilvægt að halda þeirri hugsun til haga og hvetja borgaryfirvöld til að huga að málefnum dansskólanna í samhengi við niðurstöðu í málefnum tónlistarskólanna.
Heiðurslaun listamanna
27. maí 2015 boðaði BÍL til málþings um heiðurslaun listamanna sem Alþingi veitir árlega nokkrum hópi listamanna „sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþóðavettvangi“ [orðalag laga um heiðurslaun]. Kveikjan að málþinginu var fengin frá meistaraprófsritgerð sem Guðni Tómasson listsagnfræðingur varði nýlega við Háskólann á Bifröst. Guðni var frummælandi á þinginu og kallaði erindi sitt Heiður þeim sem heiður ber – Heiðurslaun listamanna, Alþingi Íslendinga og virðingin sem við sýnum afburðafólki í listum á Íslandi. Gestir í pallborði ásamt Guðna voru Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, Pétur Gunnarsson, rithöfundur og formaður starfshóps BÍL um heiðurslaun 2010-2011, Mörður Árnason, íslenskufræðingur og fyrrv. alþingismaður. BÍL hefur oftsinnis fjallað um fyrirkomulag heiðurslauna Alþingis til listamanna og reynt að benda á aðrar leiðir við framkvæmdina en tíðkast hafa, þær leiðir hafa ekki hlotið hljómgrunn hjá ráðamönnum. Umræðurnar á málþinginu snerust nokkuð um lagasetningu Alþingis um heiðurslaun frá 2012 og nefndina sem lögin gera ráð fyrir að þingmenn hafi sér til ráðgjafar við val á listamönnum inn á heiðurslaunalista. Sú nefnd hafði þá ekki enn verið skipuð, en í kjölfar málþingsins ritaði stjórn BÍL erindi til forseta Alþingis og átaldi seinaganginn við skipan nefndarinnar. Þeim málarekstri lauk með því að nefndin var loks skipuð og kölluð saman í lok árs, rétt áður en afgreiðslu fjárlaga lauk. Ekki var að sjá á niðurstöðu Alþingis að starf nefndarinnar hafi haft nokkuð að segja, a.m.k. var engum listamanni bætt á heiðurslaunalista Alþingis þetta árið, eru þeir 22 talsins og upphæð fjárlagaliðarins er rétt tæpar 70 milljónir.
Listaháskóli Íslands – bakland og staða stundakennara
Nokkur undangengin ár hefur BÍL tekið þátt í stefnumótun fyrir Bakland LHÍ, sem áform hafa verið um að taki við hlutverki Félags um Listaháskóla Íslands, sem upphaflega var stofnað til að hvetja ráðamenn til að stofna listaakademíu á Íslandi. Eftir að skólanum var komið á laggirnar hefur félagið kosið þrjá af fimm stjórnarmönnum skólans, en ekki haft önnur verkefni með höndum í þágu skólans. Hugmyndir hafa þróast að frumkvæði og í meðförum stjórnar félagsins með aðkomu BÍL og stjórnar Listaháskólans. Aðilar hafa verið sammála um mikilvægi þess að styrkja stöðu skólans í samfélaginu með því að auka tengsl hans við atvinnulífið í hinum skapandi geira og með því að kalla fleiri til liðs úr baklandi skólans. Liður í þessari vinnu hefur verið stofnun Alumni-félags LHÍ, sem stofnað var á árinu og hitt mikilvæga skrefið var að Félag um Listaháskóla samþykkti á aðalfundi sínum nýverið að leggja félagið niður en stofna þess í stað nýtt félag Bakland LHÍ, sem fái margþætt hlutverk sem bakhjarl skólans. Meðal þess sem nýju samþykktirnar gera ráð fyrir er að listgreinarnar sjálfar þurfi að koma sér saman um með hvaða hætti fulltrúar greinanna verði valdir til að sinna störfum innan baklandsins. BÍL mun fylgjast áfram með gangi mála og hefur lýst stuðningi við áformin, sem eru til þess fallin að fjölga þeim einstaklingum og stofnunum sem efla vilja háskólanám á fræðasviði lista.
Þá hefur BÍL á árinu rætt nokkra aðra þætti í tengslum við Listaháskóla Íslands, t.d. veitingu akademískra starfa en einnig stöðu stundakennara við skólann og þörfina á því að sameiginlegur vettvangur fagfélaga listamanna kæmi að úrbótum í kjaramálum þeirra. Í ljósi umræðunnar ákvað stjórn BÍL að mynda starfshóp með fulltrúum allra aðildarfélaga og síðan þriggja manna samninganefnd, sem þegar hefur hafið störf og efnt til samtals við forsvarsmenn LHÍ. Þess er vænst að árangur af starfi hópsins komi í ljós þegar líður á árið.
Dagur menningarlegrar fjölbreytni
Að frumkvæði BÍL var efnt til samstarfs við íslensku UNESCO-nefndina um alþjóðadag menningarlegrar fjölbreytni 21. maí. Fyrirmyndin að slíku samstarfi er fengin frá systursamtökum BÍL á Norðurlöndunum, sem sum hver halda árlega ráðstefnu í samstarfi við UNESCO-nefndir landanna um málefni tengd deginum. Íslenska UNESCO-nefndin tók vel í hugmyndina og sameinuðust BÍL og nefndin um að vekja athygli á þessum Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni og hvetja sem flesta til þátttöku með fjölbreytilegum listviðburðum og umræðu í samfélaginu um gildi menningarlegrar fjölbreytni. Það var gert með fréttatilkynningu sem send var til fjölda félagasamtaka og menningarstofnana. Að endingu skráði mennta- og menningarmálaráðuneytið allmarga viðburði sem tengdir voru deginum, þar voru bókasöfn einna sýnilegust en einnig félagasamtök sem vinna að umburðarlyndi, félagslegu réttlæti og gagnkvæmri virðingu menningarsamfélaga. Stjórn BÍL var stolt af því að hafa átt þátt í þessu verkefni í þágu jafnvægis, jöfnuðar og friðar, og stefnir á að rækta samstarfið við íslensku UNESCO-nefndina enn frekar.
Ríkisútvarpið
Svo sem fyrr er getið þá átti stjórn BÍL fundi með útvarpsstjóra og helstu samstarfsmönnum hans í tvígang á árinu. Á fyrri fundinum, sem haldinn var 16. apríl, voru stjórnendur RÚV að bregðast við ákalli BÍL um eflingu menningarfrétta og mikilvægi faglegrar umfjöllunar um listir og menningu í sjónvarpi allra landsmanna. Á fundinum lýsti útvarpsstjóri vilja RÚV til að gera veg menningargeirans sem mestan í miðlum RÚV og að fréttir af menningarviðburðum og menningarþættir yrðu sem næst almennum fréttum í dagskránni. Þá kynntu stjórnendur RÚV nýjan vef RÚV og kölluðu eftir viðbrögðum og athugasemdum frá BÍL um hvaðeina sem betur mætti fara á vefnum. Eftir umfjöllun um málefni RÚV samþykkti stjórn BÍL ályktun þar sem því framfaraskrefi sem hefur verið tekið með þessum nýja vef var fagnað auk þess sem fagnað var þeim einlæga samstarfsvilja sem forsvarsmenn RÚV sýna samtökum listamanna með virku samtali um málefni lista og menningar í tengslum við stofnunina, slíkt er nokkur nýlunda í samskiptamálum þessara aðila. Þá lýsti stjórn BÍL ánægju með það hversu þokast í málefnum barnamenningar á RÚV með skipan sérstaks umsjónarmanns barnaefnis KrakkaRÚV, sérstökum vef fyrir börn og ungmenni.
Á haustdögum bauð útvarpsstjóri stjórn BÍL til fundar í útvarpshúsini við Efstaleiti til að ræða framvindu mála hjá RÚV. Hann upplýsti stjórn BÍL um baráttu RÚV við fjárveitingarvaldið og erfiða fjárhagsstöðu stofnunarinnar. Samtal stjórnar BÍL við útvarpsstjóra á fundinum leiddi til þess að stjórn BÍL sendi frá sér ályktun 10. nóvember um málefni RÚV þar sem því var beint til ráðamanna að rekstrargrundvöll RÚV þyrfti að bæta í fjárlögum 2016. Ítrekuð voru þau sjónarmið BÍL að Ríkisútvarpið sé ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar, uppeldisstofnun lista- og fræðimanna, stofnun sem verðskuldar vernd og virðingu þeirra sem tímabundið halda á stjórnartaumunum.
Listráð Hörpu – stefnumótun
BÍL á aðild að Listráði Hörpu, sem komið var á fót skömmu eftir að Harpa var fullbyggð og opnuð fyrir þá starfsemi sem hún hýsir nú. Listráðið gekkst fyrir stefnumótunarfundi á árinu, sem var fjölsóttur og miðaði að því að gefa því listafólki sem starfar í Hörpu og sækir þangað þjónustu, tækifæri til að hafa áhrif á með hvaða hætti starfsemin í húsinu þróast. Fundurinn var áhugaverður, hann var vel undirbúinn, honum var vel stjórnað og á endanum var niðurstaða hans tekin saman og send út til umsagnar. Það verður að segjast að þó Listráð Hörpu sé mikilvægur liður í því að opna listafólki áhrif á mótun stefnu fyrir húsið, þá hefur það valdið vonbrigðum hversu langan tíma það hefur tekið stjórnendur hússins að ákveða hvað af tillögum stefnumótunarfundarins verður sett í forgang eða mun ná fram að ganga.
Lokun íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum
Í sumar þegar ljóst var að yfirvöld í Feneyjum höfðu lokað íslenska skálanum á Feneyja-tvíæringnum og höfðu ekki uppi áform um að opna hann aftur, sendi BÍL ályktun til stjórnvalda um að þau beittu sér í baráttunni við að fá skálann opnaðan, enda hafi með lokuninni verið ráðist gegn tjáningarfrelsi listamannsins Christoph Büchel. BÍL fékk viðbrögð frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem voru á þá lund að Kynningarmiðstöð myndlistar hefði umsjón með framlagi Íslands til Feneyjatvíæringsins og því væri málið ekki í höndum ráðuneytisins. Svarið vakti stjórn BÍL til umhugsunar um skyldur stjórnvalda til að tryggja tjáningarfrelsi listamanna þó ekki hafi verið aðhafst frekar í málinu.
Fundur fólksins
Á árinu átti BÍL aðild að undirbúningi og þátttöku í áhugaverðum fundi Norræna hússins, sem var eiginlega meiri hátíð en fundur og var tileinkuð stjórnmálum og samfélagsumræðu. Yfirskriftin var Fundur fólksins, og er tiltækið að norrænni fyrirmynd þar sem það tíðkast að einu sinni ári komi saman stjórnmálamenn og fulltrúar almannahreyfinga til að ræða landsins gagn og nauðsynjar. Fundurinn var haldinn 10. – 12. júní og komu Samtök íslenskra myndlistarmanna – SÍM einnig með beinum hætti að fundinum. Fundurinn fór hið besta fram þó úrvinnslan að honum loknum hafi sýnt að stjórnmálaflokkarnir hafi misskilið tilganginn og talið að þeir fengju þarna tækifæri til að kynna stefnu sína og þingmál. Það var alls ekki meiningin, heldur hitt að stjórnmálamennirnir kæmu til fundarins til að heyra innlegg og upplýsingar frá almannasamtökum í landinum. Forseti BÍL tók þátt í málstofu á fundinum sem fjallaði um það með hvaða hætti best væri að marka listum og skapandi greinum stöðu og umhverfi í samfélaginu. Markmiðið var að fá upp umræðu um inntak hugtaksins „skapandi greinar“ og tókst það ágætlega, eini gallinn var að stjórnmálamennirnir sem vænst var að myndu taka þátt voru allir fjarverandi. Norræna húsið hefur nú ákveðið að þessi tilraun verði ekki endurtekin fyrir atbeina þess, en ef einhver almannasamtök hafa hug á að taka upp þráðinn þá er slíkt mögulegt.
Loksins var starfshópur um málverkafalsanir kallaður saman
Haustið 2014 óskaði mennta- og menningarmálaráðherra eftir tilnefningum í starfshóp til að vinna tillögur gegn málverkafölsunum. Hópurinn var ekki formlega skipaður fyrr en í febrúar 2015 og ekki kallaður saman fyrr en í lok september sl. Fulltrúi BÍL er Jón B. K. Ransu myndlistarmaður.
Starfshópur um málefni Listahátíðar í Reykjavík
Í desember fékk BÍL beiðni frá stjórn Listahátíðar í Reykjavík um að skipa fulltrúa í starfshóp, sem stjórnin hyggðist setja á laggirnar til að koma með tillögur um framtíðarsýn Listahátíðar, nú þegar ráðamenn hefðu ákveðið að breyta henni úr árlegri hátíð, í hátíð sem haldin verður annað hvert ár. Starfshópurinn hefur þegar tekið til starfa og er gert ráð fyrir að hann skili af sér tillögum á vormánuðum. Aðrir fulltrúar í hópnum eru Þórunn Sigurðardóttir stjórnarformaður Listahátíðar, Margrét M. Norðdahl varaformaður stjórnar Listahátíðar, Svanhildur Konráðsdóttir sviðsstjóri hjá Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíku, skipuð af borgarstjóra, Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu skipuð af ráðherra.
Stjórn BÍL er sátt við að hópurinn, sem fulltrúaráð Listahátíðar samþykkti að fela stjórn hátíðarinnar að skipa 2014, skuli nú loksins hafa tekið til starfa enda hefur það verið vilji stjórnar BÍL um nokkurt skeið að málefni Listahátíðar verði tekin fyrir og skoðuð á breiðum grunni.
Þjóðin sem valdi Vigdísi
BÍL átti aðild að hátíðarhöldum á Arnarhóli 28. Júní í sumar, í tilefni af því að þá voru liðin 35 ár frá því að þjóðin kaus Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands. Fjöldi stofnana og félagasamtaka átti aðild að hátíðinni sem var fjölsótt og fór hið besta fram.
Verkefnin framundan
Mikilvægustu verkefni stjórnar BÍL á næstunni verða tengd baráttunni fyrir bættu lagaumhverfi höfunda og eigenda flutningsréttar. BÍL hefur á prjónunum málþing um þau málefni og er áformað að halda það 11. mars nk.
Þá hefur stjórn hugmyndir um öflugra samstarf við Hagstofu Íslands um tölfræði lista og skapandi greina. Í því sambandi mætti huga að átaki sem miði að því að skoða þróun opinberra fjárveitinga til listageirans og bera hana saman við stefnumótun stjórnvalda. Sömuleiðis þarf að efla möguleika íslenskra listamanna á að bera saman þátttöku hins opinbera í listum og menningu hér á landi og í helstu nágrannalöndum okkar.
Kynning lista og menningar á erlendri grund er líka á dagskrá stjórnar og mun í því sambandi verða fylgst vel með þróun Norrænnar menningarkynningar sem áformuð er 2017 á vegum Norrænu ráðherrannefndarinnar í London í samstarfi við South Bank Centre.
Virkara samtal við ferðaþjónustuna og við stjórnvöld um hlut lista og menningar í auknum straumi ferðafólks til Íslands er eitt af áherslumálum stjórnar BÍL og mikilvægi þess að listir og menning fái sess innan ferðamálastefnu landsins.
Þá má nefna mikilvægi þess að ný stefna Vísinda- og tækniráðs, sem unnið er að um þessar mundir, taki mið af mikilvægi menningar og lista við mat á mikilvægi rannsókna. Sú staðreynd að listir eða skapandi greinar skuli ekki hafa fengið sérstaka umfjöllun í stefnu ráðsins, sem samþykkt var 2014, er til marks um það starf sem framundan er í okkar ranni.