Á fundi sem haldinn var í Bíó Paradís í morgun voru birtar niðurstöður rannsóknarverkefnis sem unnið hefur verið að í samvinnu fimn ráðuneyta og Íslandsstofu að frumkvæði samstarfsvettvangs skapandi greina. Meginniðurstöður verkefnsiins eru þær að skapandi greinar séu burðarstoð í íslensku atvinnulífi. Hér fer á eftir fréttatilkynning aðstandenda verkefnisins:

 

Undirstöðuatvinnuvegur kemur í ljós

 

° Skapandi greinar eru einn af undirstöðu atvinnuvegum þjóðarinnar

° Virðisaukaskattskyld velta í greininni nam 191 ma.kr. árið 2009

° Tæp 6% vinnuaflsins starfa við skapandi greinar

 

Tölulegar niðurstöður rannsóknar á hagrænum áhrifum skapandi greina á Íslandi sem nú liggja fyrir leiða í ljós að skapandi greinar eru einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem hagræn áhrif skapandi greina á Íslandi eru greind og metin á heildstæðan hátt. Niðurstöður rannsóknarinnar munu verða mikilvægt tæki fyrir opinbera aðila þegar kemur að stefnumótun og ákvörðunartöku varðandi atvinnuuppbyggingu.

 

Á Norðurlöndunum og í Evrópu hefur sú þróun orðið að skapandi greinar teljast nú sjálfstæður atvinnuvegur og sýna rannsóknir jafnan og stöðugan vöxt, þrátt fyrir efnahagslægð. Fimm ráðuneyti og Íslandsstofa fjármagna rannsóknina sem unnin er að frumkvæði samráðsvettvangs skapandi greina. Rannsóknina unnu Colin Mercer, sérfræðingur, Tómas Young, rannsakandi og Dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar skapandi greina.

 

Helstu niðurstöður

Tölulegar niðurstöður rannsóknarinnar sýna að heildarvelta skapandi greina var 191 ma.kr. árið 2009. Þar af var hluti ríkis og sveitarfélaga um 13% sem er sambærilegt við önnur lönd. Þetta er mun meiri velta en í landbúnaði og fiskveiðum samanlagt. Þá er virðisaukaskattskyld velta skapandi greina hærri en í byggingarstarfsemi og sambærileg við framleiðslu málma. Matvæla-og drykkjavöruiðnaður veltir talsvert meira en fyrrnefndar greinar en í þeirri tölu er fiskvinnsla og framleiðsla mjólkurafurða meðtalin.

Ársverk við skapandi greinar voru um 9.400 talsins árið 2009 og voru flest árið 2008, eða rúmlega 10.000. Stöðug aukning var í fjölda ársverka skapandi greina á árabilinu 2005-2008. Fjöldi ársverka minnkaði milli áranna 2008 og 2009, þó minna en í öðrum atvinnugreinum.

 

Um rannsóknina

Rannsóknin nær til áranna 2005 til 2009 og hófst vinna við hana í mars 2010 og er tölulegum þætti rannsóknarinnar lokið. Liður í verkefninu var að hreinsa gögn sem til voru hjá Hagstofu Íslands og skoða flokkunina en Samtök iðnaðarins komu að þeim hluta verkefnisins. Í framhaldinu verður skrifuð skýrsla um niðurstöðurnar þar sem einnig verður fjallað ítarlega um rannsóknaraðferðir og samanburð við aðrar þjóðir. Lokaskýrslan mun liggja fyrir í mars 2011.

 

Í rannsókninni eru skapandi greinar skilgreindar sem hér segir:

Sjónlistir: arkitektúr, hönnun (grafísk-, fata-, vöru-og innanhúshönnun), myndlist, listhandverk og handverk

Sviðslistir:leikhús, tónleikar, dans o.þ.h.

Bækur og útgáfa: bókmenntir, fjölmiðlun, útgáfa (hefðbundin, sem og stafræn), bókasöfn, gagnavarsla o.þ.h.

Hljóð og mynd: sjónvarp, kvikmyndir, myndbönd, útvarp, tónlistarupptökur, auglýsingar og nýmiðlar (tölvuleikir, samskiptaforrit, netið, hringitónar, forrit fyrir farsíma o.þ.h.)

Menningararfur: bæði áþreifanleg (staðir, byggingar, söfn, bókasöfn og gagnavörslur) og óáþreifanleg (hefðir, venjur, siðir, sögur o.þ.h.)

Hluti ferðaþjónustu: Í rannsókninni er ferðaþjónusta sem mikilvægur þáttur sem hefur áhrif á öll fyrrnefnd atriði hvað varðar eftirspurn á nýjum menningarafurðum og vörum skapandi greina.

 

Tölulegar niðurstöður rannsóknarinnar eru byggðar á gögnum frá Fjársýslu ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands. Í gögnum frá Fjársýslu ríkisins sem byggja á málflokkum menningar (0820) og fjölmiðlunar (0830) eru veltutölur og tölur um ársverk frá stofnunum á borð við Þjóðminjasafn Íslands, Kvikmyndasafn Íslands, Þjóðleikhúsið, Íslenska dansflokkinn, Listasjóði, Ríkisútvarpið o.þ.h. Í gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem byggja á málaflokki menningar (05) eru veltutölur um söfn, menningarhús, tónlistarkennslu, bókasöfn, listasýningar, listaverkakaup, styrki til menningarmála o.þ.h.

Innifalið í gögnum frá Hagstofu Íslands er virðisaukaskattskyld velta og tölur um ársverk þeirra fyrirtækja og einyrkja sem teljast til skapandi greina skv. ramma verkefnisins. Gögnin eru unnin upp úr VSK-skýrslum og ná til skattskyldrar veltu og veltu sem undanþegin er skv. 12. gr. laganna um virðisaukaskatt(þ.e. útflutningur). Gögnin ná hins vegar ekki til veltu í starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 2. gr. virðisaukaskattlaganna s.s. aðgangseyri að tónleikum, íslenskum kvikmyndum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum. Þá er starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi undanþegin virðisaukaskatti skv. 2 gr. og er því einnig ótalin í niðurstöðum rannsóknarinnar.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru fengnar með því að leggja saman annars vegar veltutölur og hins vegar fjölda ársverka ákveðinna atvinnugreinaflokka í samræmi við staðla frá UNESCO. Sumar atvinnugreinar eru teknar óskiptar inn í gögnin en aðrar eru vigtaðar niður í t.d. 50%, 10%, 5% og 0,5%. Til dæmis er greinin „Sérhæfð hönnun“ tekin óskipt inn í gögnin en aðeins 5% flokksins „Þráðlaus fjarskipti“ teljast til skapandi greina. Merkir það að 5% af veltu fjarskiptafyrirtækja verður til vegna skapandi greina og er því með í niðurstöðutölum rannsóknarinnar. Þar er átt við sölu hringitóna, hönnun vefsíðna, framlaga til menningarmála o.s.frv.

Lokaskýrsla rannsóknarinnar, sem áætlað er að liggi fyrir í byrjun mars 2011, mun fjalla ítarlegar um tölfræðilegar niðurstöður hennar og rannsóknaraðferðir. Að auki verður unnið úr og gerð grein fyrir viðtölum sem Colin Mercer tók á árinu 2010 við lykilaðila í skapandi greinum á Íslandi. Þá verður fjallað um næstu skref í rannsóknum tengdum skapandi greinum.

 

Bakhjarlar rannsóknarinnar

Rannsóknin er unnin að frumkvæði samráðsvettvangs skapandi greina og fjármögnuð af fimm ráðuneytum og Íslandsstofu. Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) hefur haldið utan um framkvæmd rannsóknarinnar fyrir hönd samráðsvettvangs skapandi greina sem auk ÚTÓN samanstendur af Hönnunarmiðstöð Íslands, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Leiklistarsambandi Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Icelandic Gaming Industry, Íslenskri tónverkamiðstöð og Bókmenntasjóði. Mennta-og menningarmálaráðuneytið er í forsvari fyrir ráðuneytin sem auk þess eru efnahags-og viðskiptaráðuneytið, fjármálaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið. Kostnaður við rannsóknina er sjö milljónir króna og koma samtals fimm milljónir króna frá ráðuneytunum og tvær milljónir króna frá Íslandsstofu.

 

Næstu skref

Starfshópur á vegum ríkisstjórnarinnar með það verkefni að meta hvernig hægt sé að bæta starfsumhverfi skapandi greina og nýta þau tækifæri sem til staðar eru, efla rannsóknir, menntun og stefnumótun og styðja við útflutningsstarfsemi mun hefja störf við fyrsta tækifæri. Verður hann skipaður fulltrúum frá mennta-og menningarmálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, efnahags-og viðskiptaráðuneyti, Íslandsstofu og samstarfsvettvangi skapandi greina. Er hópnum ætlað að skila stjórnvöldum tillögum um aðgerðir og úrbætur eftir því sem starfi hans vindur fram en lokaskýrsla með aðgerðaáætlun skal liggja fyrir eigi síðar en 1. mars 2011.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra hefur ákveðið að ráðuneyti hennar muni leggja fjórar milljónir króna til rannsóknar á því hvernig stoðkerfi atvinnulífsins getur betur mætt þörfum skapandi greina og stutt þær til enn frekari verðmætasköpunar og útflutnings. Rannsóknin verður samstarf iðnaðarráðuneytisins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, samtarfsvettvangs skapandi greina og háskólanna auk þess sem samráð verður haft við fagráð skapandi greina hjá Íslandsstofu. Þá mun sérstök áhersla verða lögð á skapandi greinar við auglýsingar og úthlutun styrkja úr Átaki til atvinnusköpunar á næsta ári og má því gera ráð fyrir að stuðningur við slík atvinnuskapandi verkefni verði a.m.k. 50 milljónir króna á árinu.