Bandalag íslenskra listamanna hitti borgarstjóra á samráðsfundi í Höfða. Stjórn BÍL var nánast fullskipuð og stærsti hluti fulltrúa menningar- og ferðamálaráðs og starfsmanna sviðsins sat fundinn. Nýr sviðsstjóri menningar- og ferðamálaráðs Arna Schram, sat sinn fyrsta fund með stjórn BÍL og fundinn sat einnig sviðsstjóri skóla- og fríðstundasviðs, Helgi Grímsson, enda talsverð áhersla á stöðu listmenntunar í borginni hjá stjórn BÍL, ekki síst stöðu dansmenntunar og myndlistarmenntunar.

Fyrir fundinum lá minnisblað unnið á grundvelli menningarstefnu borgarinnar og aðgerðaáætlunar hennar og fer það hér á eftir. Kaflaheitin vísa til menningarstefnu Reykjavíkur sem er aðgengileg á vef borgarinnar ásamt aðgerðaáætlun.

  1. kafli – aðgerð í farvegi: Reykjavíkurborg hvetur til og hefur samstarf um rannsóknir á hagrænum áhrifum menningar og skapandi greina. Til framtíðar verði hagræn, menningarleg, félagsleg og umhverfisleg áhrif metin, vægi hvers þáttar og samspil þeirra á milli.

BÍL telur að grundvallaratriði í kortlagningu á áhrifum lista og menningar í borginni sé að gera úttekt á þróun framlaga til lista og menningar. Greint verði hvernig framlög hafa skipst milli stofnana og sjálfstæðrar starfsemi, milli hópa og einstakra listamanna, milli hátíða og annars konar verkefna. BÍL telur frekari rannsóknir á vægi greinanna byggja á slíkri kortlagningu og að miða beri úttektina við árabilið 2009 – 2016.

  1. kafli – 5 ára áætlun: Verklagsreglur fyrir menningarstofnanir Reykjavíkurborgar mótaðar í samvinnu forstöðumanna þeirra og Bandalags íslenskra listamanna sem miða að því að réttur listamanna til launa fyrir vinnuframlag sitt sé virtur og höfundaréttur þeirra hafður í hávegum.

BÍL hefur sent erindi til Listasafns Reykjavíkur og óskað eftir að hafnar verði formlegar viðræður um verklagsreglur af því tagi sem hér um ræðir, með það að markmiði að hægt verði að innleiða þær á næstu tveimur árum. Skv. áætlunum Listasafns Reykjavíkur er gert ráð fyrir að tekjur af aðgangseyri nemi 60 milljónum 2017, en til að greiða myndlistarmönnum í samræmi við framlagssamning SÍM þyrfti einungis 6,5 milljónir vegna sýningardagskrár 2017. SÍM hefur sett fram hugmynd um sérstakan þóknunarsjóð, sem notaður verði til að standa straum af kostnaði við fjármögnun framlagssamnings. Mögulega mætti skoða samtarf ríkis, borgar og stærri sveitarfélaga um að koma á slíkum sjóði.

  1. kafli – 5 ára áætlun: Hvatt til áherslu á menningaruppeldi með því að efla fræðslustarfsemi menningarstofnana borgarinnar og að auka samstarf listamanna og skólafólks innan grunnskólans í nánu samstarfi við skóla- og frístundasvið.

Hér er lögð áhersla á samstarf listamanna og skólafólks. Á nýliðnum vetri var komið á laggirnar langþráðu verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins „List fyrir alla“. Markmið verkefnisins fellur vel að þessum áherslum borgarinnar. Því vill stjórn BÍL leggja til að borgaryfirvöld leiti eftir samstarfi við ríkisvaldið um útvíkkun verkefnisins, til að tryggja reykvísku skólafólki (nemendum og kennurum) aðgang að því.

Stefna um tónlistarfræðslu – Tillögur starfshóps maí 2011: Tónlistarnám í Reykjavík tekur mið af þremur meginmarkmiðum aðalnámskrár tónlistarskóla: Uppeldislegum markmiðum, leikni- og skilningsmarkmiðum og samfélagslegum markmiðum. […] Gæðaviðmið taka mið af viðurkenndum gæðastuðlum, s.s. aðalnámskrá og öðrum sambærilegum alþjóðlegum viðmiðum. […] Reykjavíkurborg greiðir framlag til tónlistarkennslu samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla 75/1985.

Tímamót eru nú í málefnum tónlistarnáms. Með stofnun menntaskóla tónlistarinnar og breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er mikilvægt að Reykjavík nýti það svigrúm, sem skapast við það að ríkið tekur að sér dýrustu nemendurna, til þess að endurreisa kerfið og slá öflugum stoðum undir starfsemi þeirra skóla sem starfa innan þess. Mikilvægt er að greiðslur borgarinnar til skólanna haldist í hendur við umsamin laun og að skólunum sé gert kleift að standa við ákvæði aðalnámskráar varðandi það sem lítur að bóklegri kennslu og samspili meðfram einkakennslu. Fram til þessa hafa skólarnir þurft að hækka skólagjöld frá ári til árs til að brúa bilið milli framlaga borgarinnar og launa kennara. Þetta hefur m.a. leitt til þess að skólagjöld eru hærri í Reykjavík en í öðrum sveitarfélögum, sem fer á svig við forystuhlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar.

  1. kafli – Aðgerðir í farvegi: Fjölbreytt aðstaða til listsköpunar, listflutnings, sýninga og annarrar menningarstarfsemi hvort sem um er að ræða húsnæði í eigu borgarinnar eða annarra. Auk nýrra möguleika til aðstöðu gætu ýmis opin rými borgarinnar einnig komið til móts við þarfir listalífsins.

Samtök um Danshús hafa síðustu 7 ár rekið Dansverkstæðið – vinnustofur danshöfunda við Skúlagötu í Reykjavík. Nú stendur til að breyta skipulagi á svæðinu, sem verður til þess að í sumar missa samtökin húsnæði sitt. Dansverkstæðið hefur sinnt gríðarlega mikilvægu hlutverki fyrir danslistina síðustu ár og verið bæði vinnustaður, vinnuveitandi og félagsmiðstöð. Dansverkstæðið er eina æfingarýmið fyrir atvinnufólk í sviðslistum og bara á síðasta ári voru þar unnin og þróuð 16 ný íslensk verk. Auk þess er þar ávallt góður hópur gestalistamanna við rannsóknir og styður starfsemin þannig við mikilvæga uppbyggingu greinarinnar. Markmið Samtaka um Danshús er, eins og nafnið gefur til kynna, að koma á laggirnar Danshúsi hér í borg sem sameinar alla atvinnustarfsemi í dansi; starfsemi grasrótarinnar, sjálfstæða geirans, Íslenska dansflokksins, hátíða og félagasamtaka í dansi. Þær breytingar sem óhjákvæmilega eru framundan í húsnæðismálum danslistamanna eru tækifæri til að finna framtíðarlausn – stofnun Danshúss í Reykjavík.

  1. kafli – 5 ára áætlun: Aukin aðkoma listamanna að skipulagi og mótun mannvirkja á vegum borgarinnar, í samræmi við markmið í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030, ásamt áherslu á samþættingu lista við skipulag hverfa utan miðborgarinnar.

Stjórn BÍL hefur áður gert athugasemdir við það með hvaða hætti borgin framkvæmir samkeppnir í arkitektúr og skipulagi, þ.e. að undangengnu forvali. Það er mat AÍ að framkvæmd forvalsins hafi verið gölluð, m.a. vegna þess að ákvörðun um hverjir valdir eru til endanlegrar þátttöku byggir ekki á faglegu mati heldur heppni, þar sem dregin eru nöfn úr hatti en ekki tekið mið af faglegri hæfni þeirra sem þó standast matið. AÍ hefur rætt þessi mál formlega við borgaryfirvöld og telur að ákveðin skref hafi verið stigin í rétt átt. Þannig hafa sjónarmið AÍ um breyttar kröfur í forvalskeppnum náð eyrum borgaryfirvalda og þóknanir til keppenda í þeim virðast frara hækkandi, þó þær endurspegli ekki enn eiginlegt vinnuframlag. AÍ ítrekar þó mikilvægi þess að borgaryfirvöld bjóði upp á fleiri opnar samkeppnir til að auka jafnræði meðal keppenda og auka gagnsæi í ferlinu. Þá er mikilvægt að viðunandi verðlaunafé sé í boði, en það hefur mikil áhrif á þátttöku og leiðir á endanum til faglegri tillagna. Þátttaka í samkeppni kallar á a.m.k. 200 klst. vinnu arkitekts og allt upp í 6-700 klst., eftir umfangi verks. Hugmyndin að viðurkenningu er sú að upphæð fyrstu verðlauna dugi a.m.k. fyrir vinnu við tillögugerðina. Stjórn BÍL telur skynsamlegt að tekið sé mið af því þegar verðlaunafé í arkitektasamkeppnum borgarinnar er ákvarðað.

  1. kafli – 5 ára áætlun: Tekið verði mið af 14. grein myndlistarlaga nr. 64 2012 um framlag til listaverka í nýbyggingum þar sem verja skal að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar.

Myndlistarlög mæla fyrir um að opinberar byggingar ásamt umhverfi þeirra, svo og önnur útisvæði í opinberri eigu, séu fegruð með listaverkum og að verja eigi a.m.k. 1% af heildarbyggingarkostnaði nýbygginga til að uppfylla þessa lagaskyldu. Lögin gera ráð fyrir að listaverkin séu þáttur í þeirri heildarmynd sem byggingu og umhverfi hennar er ætlað að skapa. Þá er í lögunum ákvæði um að Alþingi veiti árlega fé í listskreytingasjóð til listaverka í opinberum byggingum (ríkis og sveitarfélaga) sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999. Staðreyndin er sú að ríkið hefur forsómað Listskreytingasjóð síðustu sex árin, þar sem framlagið til hans var skorið eftir hrun úr kr. 7,1 milljón 2010 í 1,5 milljónir, sem gerir sjóðnum ókleift að starfa. SÍM, AÍ og BÍL hafa gert alvarlegar athugasemdir við þessa niðurstöðu ríkisins í sjö ár og leggur nú til við borgaryfirvöld að þau gangi í lið með listamönnum og kanni hvernig borgin sinnir þeirri lagaskyldu sem á henni hvílir, með það að markmiði að auka hlut myndlistar í opinberum byggingum og umhverfi þeirra. Slíkar aðgerðir myndu auka þrýsting á ríkið og vonandi auka það fjármagn sem Alþingi ákvarðar Listskreytingasjóði í fjárlögum framtíðarinnar.

Stjórn BÍL fagnar nýrri aðgerðaáætlun á grundvelli ferðamálastefnu Reykjavíkur
BÍL hefur um árabil lagt áherslu á aukið samtal ferðaþjónustunnar og hinna skapandi greina, m.a. með starfi innan Íslandsstofu en einnig innan menningar- og ferðamálaráðs. Það er því sérstakt fagnaðarefni að ný aðgerðaáætlun á grundvelli ferðamálastefnu Reykjavíkur skuli hafa litið dagsins ljós. Áheyrnarfulltrúar BÍL í menningar- og ferðamálaráði tóku þátt i mótun áætlunarinnar og settu sitt mark á hana. Í þessu sambandi telur stjórn BÍL mikilvægt að Reykjavíkurborg komi aðferðafræði þeirri, sem unnið hefur verið eftir í stefnumótun borgarinnar, á framfæri á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Slíkt væri liður í almennri framþróun stefnumótunar og eftirfylgni. Þá telur stjórn BÍL fullt tilefni til að borgin þrýsti á ríkið og Hagstofu Íslands um skráningu talnaefnis tengt þeim atvinnugreinum sem styðja við ferðaþjónustuna með þeim hætti sem skapandi greinar gera.