Minnisblað fyrir samráðsfund BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra 16. maí 2017
Það sem hvílir þyngst á stjórn BÍL um þessar mundir er sú staðreynd að ekki hefur reynst unnt að ná samkomulagi um áframhaldandi samstarf ráðuneytisins og BÍL um málefni lista og menningar til næstu þriggja ára. Stjórn BÍL telur mikilvægt að vita ástæður þessa og telur ekki fullnægjandi að slegið sé fram ótilgreindum breytingum á lögum um opinber fjármál, heldur óskar nánari skýringa með tilvísun til lagaákvæða, sbr. erindi sent ráðherra 18.04.2017.

Fjármálaáætlun 2018 – 2022
Í nýrri fjármálaáætlun 2018 – 2022 eru gerðar þær breytingar á málaflokki 18 að íþrótta og æskulýðsmál eru færð undir málaflokkinn, en upphæðirnar til lista og menningar breytast lítið. Það er áhyggjuefni þegar litið er til þeirra list- og menningartengdu verkefna sem áætlunin gerir ráð fyrir:

– auðvelda öllum landsmönnum, konum og körlum, að njóta menningar og list
– jafna og bæta aðstöðu til menningar- og listastarfsemi í landinu
– efla stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu með viðeigandi hætti á grundvelli íslenskrar málstefnu
– stuðla að því að íslensk tunga verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags með sérstakri áherslu á máltækniverkefni og í listum og menningarstarfi
– endurskoða stofnana- og stuðningskerfi ríkisins í málefnum menningar og lista
– einfalda stjórnsýslu og efla þjónustu safna, menningarstofnana, miðstöðva listgreina og sjóða á málefnasviðinu og búa þeim hagstæð skilyrði til að sinna verkefnum sínum svo landsmenn og gestir eigi óháð búsetu aðgang að öflugu menningar- og listalífi sem byggir á menningarlegri fjölbreytni
– stuðla enn frekar að því að efla og jafna tækifæri til nýsköpunar innan allra sjóða sem veita styrki til verkefna á sviði menningar og lista, einkum með aðgengi ungs listafólks í huga
– lögð er áhersla á að nýsköpun á sviði menningar og lista búi við hagstæð fjárhagsleg skilyrði og eigi möguleika á að ná til almenning
– greina stöðu og þörf menningarstofnana fyrir húsnæði og búnað og gera áætlun um uppbyggingu
– útfæra og hrinda í framkvæmd ánægjuvog, könnun á nýtingu þeirrar þjónustu sem sótt er til menningarstofnana
– bjóða upp á listviðburði í grunnskólum sem og í menningarhúsum víða um land
– skilgreina árangursvísa og setja viðmið í samráði við hagsmunaaðila
– skapa betri skilyrði fyrir fjölbreytni, nýsköpun og frumkvæði í íslenskum listum og menningu. Umgjörð stuðnings við menningu og listir verður einfölduð með sameiningu og samhæfingu sjóða og stuðningskerfa. Stuðningsumhverfi listafólks verði eins gott og kostur er. Tækifæri til nýsköpunar innan allra listgreina verða jöfnuð og efld með mótun stefnu um skiptingu framlaga til launa- og verkefnasjóða og slíkri stefnu hrint í framkvæmd. Í henni verði staða ungs listafólks, kvenna og karla, í stoðkerfi listanna skoðuð sérstaklega
– efla íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu. Stuðlað verður að því að konur og karlar fái jöfn tækifæri á sviði kvikmyndagerðar. Um stuðning við kvikmyndagerð er m.a. vísað til markmiðs um innlenda dagskrárgerð og framboð af íslensku barna- og menningarefni í málaflokknum fjölmiðlun.

BÍL spyr hvort líta beri á fjármálaáætlunina sem aðgerðaáætlun á grunni menningarstefnu sem Alþingi samþykkti í mars 2013, eða hvort vænta megi samstarfs um slíka aðgerðaáætlun sem samrýmdist betur nútímalegri aðferðafræði við stefnumótun.

Stefnuyfirlýsing stjórnarflokkanna
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að forgangsraðað verði í þágu innviða samfélagsins. Meðal þess sem þar er nefnt er kraftmikið og samkeppnishæft atvinnulíf fyrir íbúa um land allt. BÍL fýsir að vita með hvaða hætti stjórnvöld hyggjast styrkja atvinnugrundvöll listamanna utan höfuðborgarsvæðisins?

Þá eru yfirlýsingunni áform um að móta sérstaka höfuðborgarstefnu í samvinnu við Reykjavík og önnur sveitarfélög. Hvar er það verkefni á vegi statt?

Óljóst er af orðalagi yfirlýsingarinnar hvort „listir“ séu með í menginu „skapandi greinar“, það þarf að skýra með einhverjum hætti. Hvaða sjónarmið hefur ráðherrann í þeim efnum?

Í kaflanum um menntamál er gengist við því að listir og menning séu meðal þess sem skiptir sköpum fyrir uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða í landinu, einnig er því heitið að öll skólastig verði efld í þágu þessara meginmarkmiða. Hvernig má þá skýra skeytingarleysi stjórnvalda gagnvart háskólamenntun í listum, sem einungis er hægt að stunda gegn háum skólagjöldum, auk þess sem aðstaðan sem listnemum er búin er óviðunandi?

BÍL hefur barist fyrir því að stjórnvöld viðurkenni hlut rannsókna í listum og að hlutur lista innan Vísinda- og tækniráðs verði aukinn, einnig að rannsóknarþátturinn í starfsemi Listaháskóla Íslands verði fullfjármagnaður með sama hætti og innan annarra háskóla. Hvernig er unnið að þessum málum innan ráðuneytisins, hvenær er ný stefna Vísinda- og tækniráðs væntanleg og hver verður staða listanna í henni?

Frá árinu 2006 hefur staðið til að breyta fyrirkomulagi listdansnáms innan skólakerfisins. Hvað líður reglugerð um nám í listdansi og hvaða breytinga er að vænta á næstunni varðandi fyrirkomulag listdansnámsins á grunn- og framhaldsstigi?

Tölfræði skapandi greina
Nú eru bráðum sjö ár síðan ráðuneytið birti skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina (des. 2010). Talsvert vantaði uppá að sú skýrsla veitti fullnægjandi upplýsingar og þá strax voru gefin fyrirheit um áframhaldandi þróun slíkrar kortlagningar, sem ekki hafa gengið eftir. Hvers er að vænta í þessum efnum?

Ný sænsk skýrsla um stöðu listgreinanna þar í landi sýnir að 35.000 listamenn starfa í Svíþjóð, kortlagningin nær til 29 þús. þeirra, þ.a. eru 25 þús. á aldrinum 20 – 66 ára., stærsti hluti eldri listamanna starfar innan myndlistar og ritlistar, 50% listamanna býr í Stokkhólmi og 70% í þremur stærstu þéttbýlisstöðunum (Stokkhólmi, Gautaborg og Málmey), kynjaskiptingin innan geirans er nánast jöfn, 48% konur og 52% karlar, 3,8 listamenn eru á hverja 1000 íbúa í Svíþjóð og 16% þeirra eru af erlendum uppruna, menntunarstig listamanna er hærra en landsmeðaltal en tekjurnar lægri. Upplýsingar af þessu tagi liggja fyrir á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi. Telur ráðherra norrænnar samvinnu tímabært að Ísland verði með í tölfræði af þessu tagi og hvenær má gera ráð fyrir að svo verði?

Hvaða líður starfi Myndigheden for kulturanalys í Svíþjóð, sem samið hefur verið við um að safna upplýsingum um tölfræði norrænna menningarmála?

Hvers vegna hefur skýrsla um Menningarlandið 2015, sem fjallaði um tölfræði skapandi greina, ekki verið birt á vef ráðuneytisins og hvaða áform eru uppi um vinnu á grundvelli ráðstefnunnar og áframhald slíkra ráðstefna?

Eru einhver áform uppi um að styrkja hlut lista og menningar undir hatti sóknaráætlana landshlutanna? Í skýrslu starfshóps byggðastofnunar um sóknaráætlanirnar frá 2015 kemur fram að skráningu verkefna og tölfræði sá ábótavant, t.d. sé líklegt að fjöldi verkefna, bæði umsókna og styrkja, sem flokkast sem „menningarstarfsemi“ séu í raun ferðaþjónustuverkefni. Eru uppi áform um að bæta úr þessum vanköntum?

Myndlist, sviðslistamiðstöð og ferðaþjónusta
Myndlistarmenn hafa staðið í baráttu fyrir því að opinber söfn greiði myndlistarmönnum vinnuframlag og sanngjarna þóknun þegar verk þeirra eru tekin til sýninga. Hreyft hefur veirð hugmynd um sérstakan „þóknunarsjóð“. Þar að auki hafa myndlistarmenn sett fram hugmyndir um breytingar á myndlistarsjóði, m.a. að hann verði einungis opinn fyrir umsóknir frá myndlistarmönnum en ekki stofnunum á borð við söfn. Hvers er að vænta af hálfu ráðuneytisins varðandi þessi baráttumál?

Listskreytingasjóður hefur verið óstarfhæfur síðan 2011 þegar framlög til hans voru skorin úr 7 milljónum í 1,5. Hvenær er þess að vænta að sjóðurinn verði endurreistur og gerður fær um að sinna lögbundnu hlutverki sínu?

Myndlistarráð sendi ráðherra menningarmála tillögu að stefnu í málefnum myndlistarinnar 2015, sambærilega við gildandi hönnunarstefnu. Enn hafa engin viðbrögð borist við tillögunni. Er hún enn til skoðunar í ráðuneytinu eða hafa áform um hana verið lögð á ís?

Miðstöðvar listgreina og hönnunar vinna mikilvæg störf í þágu sinna greina þegar kemur að kynningu og markaðssetningu erlendis. Sviðslistirnar eru einar um að eiga ekki bakland í slíkri miðstöð, sem þó hefur verið lengi í undirbúningi að stofna. Slíkt verður þó ekki gert án fulltingis stjórnvalda. Á hverju stendur?

Í inngangi að menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 6. mars 2013 segir: Menningarlífið er […] lykilþáttur í uppbyggingu ferðaþjónustu. Undir það sjónarmið tekur BÍL en telur að móta þurfi stefnu um samstarf skapandi greina og ferðaþjónustunnar. BÍL á sæti í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum, sem er mikilvægt en hefur sáralítið vægi í heildarsamhenginu. Hvernig sér ráðherrann fyrir sér samstarf menningarmálaráðuneytis og ferðamálaráðuneytis í þessu augnamiði?

Það sem út af stendur eftir síðasta samráðsfund
Í samskiptum stjórnar BÍL við ráðuneytið í framhaldi af síðasta samráðsfundi með ráðherra komu fram nokkur atriði sem óskað er frekari upplýsinga um. Því er haldið fram í bréfi ráðuneytisins til BÍL [MMR 16030181/12.11.0-] að áformað sé að skoða heildarstuðning ríkisins til tónlistarmála. Hvaða áform er um að ræða í því sambandi?

Í sama bréfi er sagt frá verkefnastjórn sem starfar á vegum ráðuneytisins með það að markmiði að gera tillögur um kvikmyndanám í grunn- og framhaldsskólum og að efla hlut kvenna í íslenskri kvikmyndagerð, sem er hluti af samkomulagi kvikmyndagerðarmanna og stjórnvalda. Mikilvægt er að stjórnvöld átti sig á því að þetta mikilvæga verkefni verður ekki leitt til lykta nema að auknu fjármagni verði veitt til Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasjóður efldur. Það er því nauðsynlegt að óska upplýsinga um hvar er þessi vinna er á vegi stödd og hverjir skipa verkefnastjórnina?

Í fyrrgreindu erindi er fjallað um drög að skilagrein samstarfshóps sem starfar á grundvelli skýrslunnar frá 2012 „Skapandi greinar – sýn til framtíðar“. Hvenær er þess að vænta að skilagreinin verði tilbúin til dreifingar?

Að lokum; þrjú mikilvæg mál
Tæp 20 ár eru síðan BÍL sendi stjórnvöldum fyrst bænaskjal um breytingar á skattlagningu höfundagreiðslna, sem miðuðu við að slíkar greiðslur fengju sambærilega skattalega meðferð og fjármagnstekjur, enda um sambærilegar greiðslur að ræða. Mikilvægt er fyrir BÍL að vita hvort vænta megi stuðnings við þá kröfu hjá núverandi ríkisstjórn?

Í umsögn BÍL til fjárlaganefndar Alþingis vegna fjárlagafrumvarps 2017 er því haldið fram með nokkrum rökum að málaflokkurinn listir- og menning sé stórlega undirfjármagnaður. Gerð er nákvæm grein fyrir stöðu og fjárþörf helstu menningarstofnana og sjóða sem mynda grundvöll að starfsskilyrðum listafólks. Stjórn BÍL þykir mikilvægt að fá viðbrögð ráðherra við þeim sjónarmiðum sem þar er lýst.

Á síðustu árum hefur stjórnsýsla málaflokksins „listir og menning“ dreifst mikið og verið skipt niður á ólík ráðuneyti, þannig heyra málefni listanna nú undir 5 ráðherra, mennta- og menningarmála, atvinnuvega- og nýsköpunar, samgöngu- og byggðamála, utanríkis og fjármála. BÍL hefur sett fram óskir um að menningarmálin verði sameinuð undir nýtt ráðuneyti menningarmála, en ekki fengið hljómgrunn fyrir slíkri breytingu. Meðan sú staða er uppi leggur stjórn BÍL til að ráðherra hafi forgöngu um að hefja markvisst starf til efla samstarf milli ráðuneyta um málaflokkinn. Stjórn BÍL lýsir sig reiðubúna til að koma að slíku starfi og er raunar tilbúin að taka þátt í hverju því verkefni sem ráðherra myndi vilja hrinda af stað í þágu bættrar stjórnsýslu í málefnum lista og menningar með öflugt lista- og menningarlíf að leiðarljósi.