Hér fer á eftir ávarp Kolbrúnar Halldórsdóttur forseta BÍL, sem hún hélt á samráðsfundi stjórnar BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra 16. maí sl.
Þó uppsetning fundarins gefi til kynna að hér séu komnar saman tvær fylkingar, sem sitji hvor sínu megin borðs (gráar fyrir járnum), þá lítur stjórn BÍL ævinlega svo á að samráðsfundir þessir séu samstarfsfundir, hugsaðir til að stilla saman strengi og blása til sameiginlegrar sóknar í málefnum lista og menningar. Á það leggjum við mikla áherslu.
Listir og menning eru mikilvægar heilbrigði samfélagsins og ein af máttarstoðum fjölbreytts atvinnulífs í landinu, auk þess sem listirnar skera úr um það hvort okkar aldagamla tungumál lifir eða deyr. Í því sambandi þarf að hafa hugfast að listir og menning þrífast einungis í virku samstarfi grasrótar, menningarstofnana og stjórnvalda.
Til að slíkt samstarf skili árangri þarf að móta stefnu og tímasetja aðgerðir á grundvelli hennar. Alþingi samþykkti í fyrsta sinn menningarstefnu vorið 2013. Enn hefur ekki verið unnin aðgerðaáætlun á grunni hennar. Úr því þarf að bæta. BÍL hefur lagt fram tillögu að sóknaráætlun, sem tekur mið af sambærilegum áætlunum í nágrannalöndum okkar og við teljum raunhæfa. Þó stjórnvöld hafi aldrei brugðist við þeirri tillögu þá teljum við hana enn góðan samstarfsgrundvöll og myndum gjarnan vilja að ný ríkisstjórn tæki hana til skoðunar og kallaði til áframhaldandi vinnu við mótun hennar.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er þess getið að listir og menning séu meðal þess sem skiptir sköpum fyrir uppbyggingu þess fjölbreytta atvinnulífs sem stefna beri að og fyrir þá eflingu lífsgæða sem stjórnvöld vilja beita sér fyrir. BÍL vill leggja stjórnvöldum til starfskrafta og hugmyndir til að þessi áform gangi eftir. Meðal þess sem við höfum lagt til í þeim efnum er málþing sem haldið verður 11. ágúst nk. á Suðureyri við Súgandafjörð í samstarfi við leiklistarhátíðina ACT ALONE og við vonum sannarlega að ráðherra taki boði forsvarsmanna hátíðarinnar um að vera þar með okkur og setji þingið.
Eins og minnisblaðið sem liggur til grundvallar þessum fundi gefur til kynna þá telur stjórn BÍL að ýmislegt megi betur fara í stjórnsýslu lista og skapandi greina, auk þess sem við teljum að samstarf ráðuneytis, menningarstofnana og grasrótar listamanna um hagsmunamál listgreinanna þurfi að vera virkara, -skila meiri árangri. Við vonum sannarlega að á grundvelli þess samtals, sem við nú hefjum við nýjan ráðherra, verði barið í brestina og blásið lífi í glæðurnar og lýsum yfir vilja og löngun til að takast á við þau verkefni sem við blasa og leiða þau til lykta í góðu samstarfi við ykkur.