Á sama tíma og listir og menning skapa störf og bæta samfélagið þá er heildarskerðing fjármagns á milli áranna 2024 og 2025 á sviði menningarmála 365,4 milljónir króna m.v. fjárlagafrumvarp næsta árs. Niðurskurður á Kvikmyndasjóði frá árinu 2021 er 27,3%, niðurskurður á Bókasafnssjóði á milli áranna 2024 og 2025 er 22,8%, niðurskurður Sviðslistasjóða á milli áranna 2024 og 2025 er 20,7% og niðurskurður Myndlistarsjóðs á milli áranna 2024 og 2025 er 17,6%. Ef núverandi fjárlagafrumvarp verður samþykkt óbreytt mun það hafa neikvæðar afleiðingar á starfsumhverfi listamanna til frambúðar. Munuð þið beita ykkur fyrir því að styrkja sjóðakerfi listgreina á næsta kjörtímabili?
Sterkt og fyrirsjáanlegt styrkjakerfi skapandi greina eru forsenda fyrir blómlegu menningarlífi á Íslandi. Óvissa og síendurtekin niðurskurður á sjóðunum er skaðleg fyrir greinarnar og hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir starfsumhverfi listamanna. Niðurskurður á sjóðunum afhjúpar að mati Samfylkingarinnar skilningsleysi á fjárhagslegu gildi skapaandi greina.
_
BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld hækki mánaðarlega fjárhæð listamannalauna, en upphæðin hefur rýrnað verulega í samanburði við launaþróun á undanförnum árum. Núverandi mánaðargreiðsla er kr. 538.000 sem er verktakagreiðsla og listamaðurinn þarf því að standa skil á öllum launatengdum gjöldum sjálfur. Á árunum 2011-2024 hækkuðu starfslaun listamanna um 96% meðan launavísitalan hækkaði um 160%. Hefðu starfslaun ársins 2011 verið verðtryggð með þróun launavísitölu væri upphæð þeirra 32% hærri en nú eða 713.000 kr. Þetta skýtur skökku við því að mánaðarleg fjárhæð listamannalauna er lægri en viðmið skattsins um lágmarks reiknað endurgjald fyrir vinnu listafólks. Munuð þið beita ykkur fyrir því á næsta kjörtímabili að hækka mánaðarlega fjárhæð starfslauna?
Að mati Samfylkingarinnar er eðlieg og sanngjörn krafa að þróun listamannalaunum fylgi launavísitölu. Þá er óeðlilegt að fjárhæð listamannalauna nái ekki viðmiði skattsins um reiknað endurgjald fyrir vinnu listafólks. Samfylkingin mun beita sér fyrir því að fjárhæð listamannalauna verði leiðrétt til samræmis við þróun launavísitölu.
_
Á undanförnum tveimur áratugum hefur hverju rýminu á fætur öðru verið lokað, ýmist vegna hertra öryggisstaðla eða skorts á fjármagni, og stendur grasrótarstarfsemi í tónlist, myndlist og sviðslistum frammi fyrir fordæmalausum húsnæðisskorti.BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld skoði heildrænar lausnir fyrir vinnuaðstöðu fyrir listamenn, bæði rými listsköpun, æfingar, tónleika, sýningar og hvers konar miðlun listaverka og menningararfs. Muni þið beita ykkur fyrir því að listamenn hafi aðgang að vinnurýmum og sýningarýmum fyrir sviðslist, myndlist og tónlist á viðráðanlegu verði á næsta kjörtímabili?
Á Íslandi búum við að fjölskrúðugu menningarlífi og njótum sköpunarkrafts metnaðarfullra listamanna sem miðla listsköpun sinni um land allt og út um allan heim. Við erum stolt af því að eiga fjölda fulltrúa á sviði menningar og lista sem eru í fremstu röð á heimsvísu. Ekkert af þessu er sjálfsagður hlutur. Til að viðhalda góðum árangri og sækja fram er brýnt að hlúa vel að hvers kyns menningarstarfsemi í landinu og vinna markvisst að bættu starfsumhverfi listafólks. Hluti af því er að tryggja listafólki aðgengi að fjölbreyttum vinnu- og sýningarrýmum á viðráðanlegu verði.
_
Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að bæta stöðu íslenskra bókmennta og íslenskrar tungu ef þið komist til valda?
Íslenskar bókmenntir gegna lykilhlutverki í farsælu lífi íslenskunnar. Án sköpunar, skrifa og lesturs landsmanna töpum við tungumálinu. Því skipir miklu að styðja við íslenskar bókmenntir, sköpun þeirra, útgáfu og dreifingu um land allt. Tryggja þarf höfundum viðunnandi afkomu og starfsumhverfi. Skoða þarf þær leiðir sem farnar hafa verið hjá öðrum þjóðum sem bera ábyrgð á framgangi örtungumála, svo sem Norðmönnum.
Efla þarf málskilning barna og ungs fólks á öllum skólastigum og ein besta leiðin til þess er að hvetja til aukins lesturs en þá þurfa að vera til góðar bækur. Því þarf að huga sérstaklega að bókum fyrir börn og ungt fólk og aðgengi ungra lesenda að vönduðu lesefni í sínu nærumhverfi, m.a. á skólabókasöfnum. Þá þarf að tryggja þarf gott aðgengi að íslenskunámi innflytenda svo það verði raunverulegur valkostur að nota íslensku á öllum sviðum þjóðlífsins.
Þá er áfram brýnt er að tryggja stöðu íslensku í alþjóðavæddum og stafrænum heimi enda er málsvæði okkar smátt og tæknibreytingar örar. Þörf er á sérstakri vitundarvakningu um viðkvæma stöðu íslenskunnar í málumhverfi sem er meira og minna enskt. Gæta þarf sérstaklega að höfundarétti er kemur að gervigreind.
_
Það er stefna stjórnvalda að sameina ríkisstofnanir og í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu er lagt til að Þjóðarópera verði stofnuð innan Þjóðleikhússins. Þannig náist samlegðaráhrif sem skili sér í minni yfirbyggingu og margþættri samnýtingu á innviðum og stoðdeildum. Á sama tíma er stigið fyrsta skrefið í átt að framtíðarfyrirkomulagi þar sem allar sviðlistastofnanir ríkisins verði reknar undir einum hatti með jafnræði milli listrænna stjórnenda hverrar listgreinar. BÍL styður þá framtíðarsýn sem fram kemur í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu að lagður verði grunnur að sameinaðri sviðslistastofnun líkt og er í Dannmörku.
Styður ykkar flokkur þessa framtíðarsýn?
Samfylkingin styður Þjóðaróperu í þeirri mynd sem var lögð til enda var undirbúningsferlið vandað og vel útfært þó svo vissulega sé verið að fara nýjar leiðir þegar kemur að samstarfi milli stofnana. Það er mikilvægt að það verði ekki frekari töf á þessu ferli því skaðinn sem hefur orðið fyrir klassíska söngvara og menninguna í heild er mikill nú þegar engin óperustofnun er til staðar. Styðja þarf áfram við aðrar sviðslistastofnanir, bæði Þjóðleikhús og Íslenska dansflokkinn en Samfylkingin hefur ekki mótað sýn varðandi sameinaðar sviðslistastofnun.
_
Hvernig hyggst þinn flokkur tryggja gæði í byggingarlist á Íslandi?
Við stöndum andspænis miklum áskorunum þegar kemur að íslenskri mannvirkjagerð. Gríðarleg innviðaskuld hefur hlaðist upp síðasta áratug og á það jafnt við um opinbera innviði, samgöngumannvirki og byggingar, en einnig íbúðahúsnæði. Það er mikilvægt að hvergi verði hnikað frá kröfum um gæði, hvorki efnisleg eða óefnisleg, við þær stóru framkvæmdir sem framundan eru.
Óvandaðar og illa hannaðar byggingar eru kostnaðarsamar fyrir samfélagið og geta auk þess skert lífsgæði fólks verulega. Mikil umræða um myglu, jafnvel í nýbyggðu húsnæði, er nærtækt dæmi um þetta. En hlutir eins og gott aðgengi fyrir alla, fullnægjandi birtuskilyrði og vel heppnuð umhverfishönnun skipta líka miklu máli, til að vel takist til.
Nærtækast er að hefja aftur opinberar byggingarrannsóknir og tryggja gott og samræmt eftirlit um allt land. Samfylkingin vill gera skipulags og byggingarferlið skilvirkara og víða má lagfæra byggingarreglugerð en aldrei þannig að það gangi á kröfu um gæði.
Mannvirki standa í áratugi, eru þráður í langri sögu og fyrirferðarmikill hluti af daglegu lífi fólks. Það skiptir því máli að staðið sé vel að verki og byggt sé á fagurfræði, gæðum, varanleika og samhengi.
Samfylkingin vill Menningarstefnu í mannvirkjagerð, sem var fyrst lögð fram árið 2007, verði ekki bara pappír upp í hillu, heldur fylgt.
_
Í sviðslistum má finna ýmsar stofnanir og menningarsjóði sem eru reknar að meirihluta fyrir opinbert fé (t.d Þjóðleikhús, Íslenski dansflokkurinn, sviðslistasjóður, kvikmyndasjóður, Listaháskóli Íslands o.s.frv). Listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag eiga ekki allir skjól í kjarasamningi. Fjölmargir vinna í verktöku á kjörum sem eru undir lágsmarkslaunum eða viðmiðunarsamningum.
Hvernig ætlar flokkurinn þinn að vinna gegn því að listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag í gegnum sjóðakerfið eða hjá opinberum stofnunum séu hlunnfarnir?
Kæmi til greina af ykkar hálfu, að skilyrða styrkveitingu eða rekstrarframlag af hálfu hins opinbera þannig að viðkomandi greiði listamönnum samkvæmt kjarasamningi við viðeigandi stéttarfélag?
Samfylkingin og samtök launafólks eiga sameiginlegar rætur og skýra málefnalega samleið. Stéttarfélög eru þýðingarmikil í lýðræðissamfélagi því að þau verja hag vinnandi fólks í krafti samstöðu, standa vörð um lífskjör almennings og vega upp á móti valdi fjármagnsins. Skipulagður og heilbrigður vinnumarkaður er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga. Taka verður á félagslegum undirboðum og brotum gegn kjarasamningum af festu og gera launaþjófnað refsiverðan. Samfylkingin vill vinna gegn þeirri óheillaþróun að atvinnurekendur ráði fólk í verktöku sem ætti með réttu að hafa stöðu launafólks. Gerviverktaka grefur undan samtökum launafólks og réttindum þess á vinnumarkaði. Engu að síður er mikilvægt að gæta að stöðu og réttindum einyrkja og efla tengsl þeirra við stéttarfélögin sem þeir eiga yfirleitt samleið með. Ofangreind sjónarmið eiga jafnmikið við um listafólk og annað launafólk. Samfylkingin telur það bæði eðlilega og sanngjarna kröfu að opinberar styrkveitingar eða rekstrarframlög séu skilyrt við að styrkhafi greiði listamönnum í samræmi við kjarasamninga.
_
Listaháskólinn hefur búið við mikinn húsnæðisvanda frá stofnun skólans og skólinn er í dag í sex mismunandi byggingum víðsvegar um borgina sem mætir engan veginn kröfum háskóla í nútíma samfélagi. Nú liggja fyrir áform um að skólinn komist undir eitt þak í húsnæði gamla Iðnskólans á Skólavörðuholti. Styður þinn flokkur framtíðaráform Listaháskólans um að komast undir eitt þak næstu árum þar sem kröfum og þörfum skólans er mætt. Ætlið þið að forgangsraða þessu verkefni á næsta kjörtímabili?
Já, Samfylkingin styður eindregið endurbætur og uppbyggingu á gamla Iðnskólanum svo Listaháskólinn geti flutt í húsnæðið eins fljótt og verða má. Samfylkingin mun leggja áherslu á að fyrirhuguð áform komist í framkvæmd og mun stuðla að framgangi þess.
_
Þegar haft er í huga hvernig rannsóknir sýna fram á mikilvægi lista, bæði hvað varðar farsæld nemenda, sjálfsskilning og víðari sjóndeildarhring (að ónefndu efnahagslegu gildi lista og menningar sbr. nýlega skýrslu Ágústs Ólafs Ágústssonar) þá má spyrja: Hvernig telja frambjóðendur að megi efla hlut lista í menntun og skólastarfi? Hvert teljið þið að hlutverk ríkisins sé í því að tryggja menntun í listum og skapandi greinum fyrir ungt fólk á Íslandi og hvernig viljið þið sjá þessa menntun þróast?
Það er ljóst að menning og skapandi greinar eru orðin að einni af undirstöðu atvinnugreinum á Íslandi. Menning og skapandi greinar hafa ótvírætt gildi í sjálfu sér og er menning grundvallarþáttur í tilveru manneskjunnar, alltumlykjandi og órjúfanlegur hluti af daglegu lífi okkar allra. Hún er sameiningarafl í samfélögum og stuðlar að aukinni hamingju og velferð fólks og alveg sérstaklega ef unnið er á markvissan hátt með krafta hennar.
Samfylkingin leggur ríka áherslu á að auka aðgengi allra að listnámi og þátttöku í menningarstarfi, jafna tækifæri barna og ungmenna sem og fólks úr jaðarsettum hópum. Þá er hægt að nýta menningu og skapandi greinar betur með markvissum hætti til að vinna með þær samfélagslegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Nýta þær sem tæki til að vinna að aukinni vellíðan og hamingju fólks með því að búa til jarðveg sem getur ræktað tengsl á milli einstaklinga og stuðlað að því að fólk upplifi að það tilheyri samfélagi. Í þessu samhengi er hægt að horfa til unga fólksins okkar, en ekki síður til eldri borgara, fólks með geðrænan vanda og nýbúa í landinu.
Tónlistarskólarnir eru mikilvægar skólastofnanir sem þarf að halda áfram að styrkja. Samhliða verður líka að þróa tónlistarnám sem hefur samfélagslegar áherslur, þar sem lagt er áherslu á að vinna í hópum og hljómsveitarstarfi sem er aðgengilegt öllum. Það sama á við um aðrar lisgreinar. Það er mikilvægt að nýta krafta þeirra til að vinna betur og markvisst með í samfélaginu, t.d. í gegnum félagsmiðstöðvar sem Samfylkingin vill lögfesta og á sama tíma setja gæðaviðmið um starfsemi þeirra. Nýlega fór af stað ný námsbraut í LHÍ, Listir og velferð, sem miðar að því að leiða saman breiðan hóp fagfólks sem hefur áhuga á að þróa leiðir til að nýta listir í þágu félags- og heilsueflingar svo það er mikil gerjun í gangi sem þarf að virkja. Þar skiptir opinber stuðningur máli.
Það þarf að tryggja list- og verknám á öllum skólastigum. Aðbúnaður fyrir listkennslu og menntun kennara er þar aðalatriðið og framfaraskref stigið þegar námsgjöld í Listaháskóla Íslands voru lögð niður. Þá skiptir einnig máli viðurkenning skólasamfélagsins á mikilvægi list- og verkgreina og því rétt að leggja enn ríkari áherslu á mikilvægi þeirra í Aðalnámskrá. Það er áríðandi að Listaháskóli Íslands komist inn í framtíðarhúsnæði sem samræmist þörfum og kröfum skólans. Huga þarf sérstaklega að börnum og ungmennum á landsbyggðinni og finna leiðir til að jafna aðgengi þeirra að menningu og sköpun. Barnamenning þarf að fá að blómstra áfram og þá skipta uppbyggingasjóðir landshlutanna og barnamenningarsjóður miklu máli.
_
Ef þið væruð að lýsa “fullkomnu samfélagi” í ykkar augum, hvernig myndi efnahagsleg aðild ríkisins að menningarmálum?
Í fullkomnu samfélagi værum við með öfluga stuðningssjóði og listamannalaun, sem væru tryggð til framtíðar til þess að mynda nauðsynlegan fyrirsjáanleika fyrir listafólk. Menningarstofnanirnar væru einnig öruggar með fjármagn til margra ára í senn, öflugum leiðtogum og skapandi fjölbreyttu starfi sem höfðaði til ólíkra hópa í samfélaginu. Listir og verknám hefði jafnmikið vægi í skólastofnunum eins og aðrar mikilvægar námsgreinar, með vel menntuðum kennurum. Ungmenni hefðu aðgengilegt og vel búið rými til listsköpunar út um allt land og menningarsjóðir landshlutanna hefðu einnig fyrirsjáanleika um tryggt fjármagn. Nýsköpun blómstrar með öflugu stuðningskerfum og nýsköpunarsetrum víða um land. Öflug íslenskukennsla er aðgengileg þeim sem flytja til landsins.