Listaháskólinn hefur búið við mikinn húsnæðisvanda frá stofnun skólans og skólinn er í dag í sex mismunandi byggingum víðsvegar um borgina sem mætir engan veginn kröfum háskóla í nútíma samfélagi. Nú liggja fyrir áform um að skólinn komist undir eitt þak í húsnæði gamla Iðnskólans á Skólavörðuholti. Styður þinn flokkur framtíðaráform Listaháskólans um að komast undir eitt þak næstu árum þar sem kröfum og þörfum skólans er mætt. Ætlið þið að forgangsraða þessu verkefni á næsta kjörtímabili?
Já. Listaháskóli Íslands á að vera mótandi afl í listalífi landsins en hefur hingað til verið fjársveltur og í óviðunandi húsnæði. Píratar vilja beita sér fyrir fullnægjandi fjármagni til Listaháskólans og að fundin sé framtíðarlausn fyrir stofnunina í einu húsnæði sem hýsir allar deildir hans.
_
Á sama tíma og listir og menning skapa störf og bæta samfélagið þá er heildarskerðing fjármagns á milli áranna 2024 og 2025 á sviði menningarmála 365,4 milljónir króna m.v. fjárlagafrumvarp næsta árs. Niðurskurður á Kvikmyndasjóði frá árinu 2021 er 27,3%, niðurskurður á Bókasafnssjóði á milli áranna 2024 og 2025 er 22,8%, niðurskurður Sviðslistasjóða á milli áranna 2024 og 2025 er 20,7% og niðurskurður Myndlistarsjóðs á milli áranna 2024 og 2025 er 17,6%. Ef núverandi fjárlagafrumvarp verður samþykkt óbreytt mun það hafa neikvæðar afleiðingar á starfsumhverfi listamanna til frambúðar. Munuð þið beita ykkur fyrir því að styrkja sjóðakerfi listgreina á næsta kjörtímabili?
Já! List er óaðskiljanleg samfélaginu sem hún sprettur úr. List speglar samfélagið og er virkt afl í mótun þess. Þess vegna er mikilvægt að ríkið styrki stofnanir og sjóði sem styðja við listir og listafólk.
_
BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld hækki mánaðarlega fjárhæð listamannalauna, en upphæðin hefur rýrnað verulega í samanburði við launaþróun á undanförnum árum. Núverandi mánaðargreiðsla er kr. 538.000 sem er verktakagreiðsla og listamaðurinn þarf því að standa skil á öllum launatengdum gjöldum sjálfur. Á árunum 2011-2024 hækkuðu starfslaun listamanna um 96% meðan launavísitalan hækkaði um 160%. Hefðu starfslaun ársins 2011 verið verðtryggð með þróun launavísitölu væri upphæð þeirra 32% hærri en nú eða 713.000 kr. Þetta skýtur skökku við því að mánaðarleg fjárhæð listamannalauna er lægri en viðmið skattsins um lágmarks reiknað endurgjald fyrir vinnu listafólks. Munuð þið beita ykkur fyrir því á næsta kjörtímabili að hækka mánaðarlega fjárhæð starfslauna?
Píratar tala fyrir borgaralaunum en þau þyrfti að innleiða í fösum, það mætti skoða hvort ekki væri gott að byrja innleiðinguna hjá listamönnum, hóp sem nú þegar þekkir til kerfis sem samsvarar borgaralaunum.
_
Á undanförnum tveimur áratugum hefur hverju rýminu á fætur öðru verið lokað, ýmist vegna hertra öryggisstaðla eða skorts á fjármagni, og stendur grasrótarstarfsemi í tónlist, myndlist og sviðslistum frammi fyrir fordæmalausum húsnæðisskorti.BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld skoði heildrænar lausnir fyrir vinnuaðstöðu fyrir listamenn, bæði rými listsköpun, æfingar, tónleika, sýningar og hvers konar miðlun listaverka og menningararfs. Muni þið beita ykkur fyrir því að listamenn hafi aðgang að vinnurýmum og sýningarýmum fyrir sviðslist, myndlist og tónlist á viðráðanlegu verði á næsta kjörtímabili?
Píratar vilja bæta aðstöðu og húsakost listafólks til muna. Tryggja þarf að kjarnastofnanir og sjálfstæða senan séu með viðunandi og heilsusamlega aðstöðu til að starfa, en reyndin er sú að liststofnanir og listafólk starfar oft í heilsuspillandi og hættulegum aðstæðum. Einnig þarf húsakostur listasenunnar að vera aðgengileg öllum, bæði starfsfólki og listunnendum, og stórbæta þarf aðgengi fatlaðra bæði að stofnununum. Bæta þarf aðstöðu sjálfstæðu senunnar til muna og skal þar miða við framlag þeirra til listasenunnar yfir höfuð. Kortleggja skal og efla aðstöðu til liststarfs á landsbyggðinni.
_
Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að bæta stöðu íslenskra bókmennta og íslenskrar tungu ef þið komist til valda?
List gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki. Píratar telja grundvallaratriði að tryggja rithöfundum mannsæmandi kjör og samfellu í starfi til að efla ritun og útgáfu bókmennta á íslensku. Píratar telja mikilvægt að sækja lausnir til þeirra landa sem hafa tekist að slá skjaldborg um og efla stöðu bókmennta, tungu og menningar. Sem dæmi hefur norsk nálgun á málaflokkinn sýnt góðan árangur með því að festa bókaverð fyrstu 12 mánuði eftir útgáfu og með því að tryggja kaup ríkisins á bókum sem er dreift til bókasafna og skóla. Píratar telja það mikilvægt að styðja vel við bókasöfn landsins og efla þau sem alhliða menningarhús.
_
Það er stefna stjórnvalda að sameina ríkisstofnanir og í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu er lagt til að Þjóðarópera verði stofnuð innan Þjóðleikhússins. Þannig náist samlegðaráhrif sem skili sér í minni yfirbyggingu og margþættri samnýtingu á innviðum og stoðdeildum. Á sama tíma er stigið fyrsta skrefið í átt að framtíðarfyrirkomulagi þar sem allar sviðlistastofnanir ríkisins verði reknar undir einum hatti með jafnræði milli listrænna stjórnenda hverrar listgreinar. BÍL styður þá framtíðarsýn sem fram kemur í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu að lagður verði grunnur að sameinaðri sviðslistastofnun líkt og er í Dannmörku.
Styður ykkar flokkur þessa framtíðarsýn?
Þingflokkur Pírata hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við Þjóðaróperu en flokkurinn sjálfur á enn eftir að taka formlega afstöðu.
8 Hvernig hyggst þinn flokkur tryggja gæði í byggingarlist á Íslandi?
_
Hvernig hyggst þinn flokkur tryggja gæði í byggingarlist á Íslandi?
Mikilvægt er að tryggja að fagfólk, oftast arkitektar, séu með aðkomu að stórum útboðum á vegum ríkisins. Í þessu samhengi eru opnar hönnunarsamkeppnir mikilvægar. Auk þess þarf að endurvekja Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins. Við Píratar höfum einnig beðið um skýrslu vegna starfa byggingarstjóra en þar kemur bersýnilega í ljós að margar brotalamir eru á því kerfi. Því þarf að bæta úr.
_
Í sviðslistum má finna ýmsar stofnanir og menningarsjóði sem eru reknar að meirihluta fyrir opinbert fé (t.d Þjóðleikhús, Íslenski dansflokkurinn, sviðslistasjóður, kvikmyndasjóður, Listaháskóli Íslands o.s.frv). Listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag eiga ekki allir skjól í kjarasamningi. Fjölmargir vinna í verktöku á kjörum sem eru undir lágsmarkslaunum eða viðmiðunarsamningum.
Hvernig ætlar flokkurinn þinn að vinna gegn því að listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag í gegnum sjóðakerfið eða hjá opinberum stofnunum séu hlunnfarnir?
Kæmi til greina af ykkar hálfu, að skilyrða styrkveitingu eða rekstrarframlag af hálfu hins opinbera þannig að viðkomandi greiði listamönnum samkvæmt kjarasamningi við viðeigandi stéttarfélag?
Meðhöndlun opinberra fjármuna þarf að vera fagleg og gagnsæ, og byggð á jafnræði. Tryggja þarf góð rekstrarskilyrði fyrir ríkisstofnanir í listum og aðrar stofnanir, svo þær geti með góðu móti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og framþróun í takt við þróun samfélagsins og greitt starfsfólki sínu laun í takt við kjarasamninga.
_
Þegar haft er í huga hvernig rannsóknir sýna fram á mikilvægi lista, bæði hvað varðar farsæld nemenda, sjálfsskilning og víðari sjóndeildarhring (að ónefndu efnahagslegu gildi lista og menningar sbr. nýlega skýrslu Ágústs Ólafs Ágústssonar) þá má spyrja: Hvernig telja frambjóðendur að megi efla hlut lista í menntun og skólastarfi? Hvert teljið þið að hlutverk ríkisins sé í því að tryggja menntun í listum og skapandi greinum fyrir ungt fólk á Íslandi og hvernig viljið þið sjá þessa menntun þróast?
Listsköpun og -þjálfun á að vera ríkur þáttur af uppeldi allra barna. Það þarf að valdefla börn til að hugsa út fyrir boxið og framkvæma hugmyndir sínar sem munu hjálpa mannkyninu að lifa af í framtíð sem við getum ekki byrjað að ímynda okkur núna. Með fram þróun gervigreindar er nauðsynlegt að efla það sem aðskilur okkur frá tækninni, eins og samkennd okkar, og eru listir og skapandi greinar grundvallaratriði í þeim áherslum. Listmenntun leikur lykilhlutverk í að rækta gagnrýna hugsun, lestrarskilning, greiningarhæfni og almennt læsi barna og fullorðinna á samfélagið. Að börn fái grunnskilning í listrænum aðferðum líkt og hljóðfæraleik, leiktúlkun eða sjálfbærri hönnun leiðir til aukinnar sköpunargáfu hjá einstaklingum á öllum sviðum samfélagsins, í listum eða í öðrum greinum. Þar vega listform líkamans þungt, eins og dansinn, sem tengir fólk við líkamann og er mikilvæg aðlögun við áhrif gervigreindar. Aðgangur barna að listmenntun eins og ritlist og menningarstofnunum eins og leikhúsum er einnig uppistaða í varðveislu og þróun íslenskrar tungu. Auka skal samstarf listastofnana og menntakerfisins.
_
Ef þið væruð að lýsa “fullkomnu samfélagi” í ykkar augum, hvernig myndi efnahagsleg aðild ríkisins að menningarmálum?
Í skýrslu menningar- og viðskiptaráðuneytisins um Framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi kemur fram að beint framlag menningar og skapandi greina nam 3,5% af landsframleiðslu árið 2023, en til samanburðar þá nam framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu 4% sama ár. Hver króna sem hið opinbera fjárfestir í menningu og skapandi greinum skilar þremur krónum til hagkerfisins. Píratar taka undir með skýrsluhöfundum að það þurfi að líta á menningu og skapandi greinar sem eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, og sem efnahagslega og samfélagslega fjárfestingu fyrir framtíðina en ekki sem kostnað líðandi stundar. Listin hefur gildi í sjálfri sér. Efnahagslegt-, samfélagslegt- og jafnræðis- gildi hennar er stórkostlegt en listrænt gildi hennar er nóg til að réttlæta tilveru hennar. Ef horft er til aukinnar sjálfvirkni í framtíðinni mun hlutverk lista og skapandi greina gjörbreytast, úr því að vera iðkun fárra og neysluvara margra yfir í að vera grunnstoð lífsstíls fólks sem hefur meiri tíma til að sinna ástríðum sínum. Jafnræði, fagmennska, gagnsæi og sjálfbærni verða að vera í fyrirrúmi til að tryggja heilbrigt listalíf framtíðarinnar.