Á sama tíma og listir og menning skapa störf og bæta samfélagið þá er heildarskerðing fjármagns á milli áranna 2024 og 2025 á sviði menningarmála 365,4 milljónir króna m.v. fjárlagafrumvarp næsta árs. Niðurskurður á Kvikmyndasjóði frá árinu 2021 er 27,3%, niðurskurður á Bókasafnssjóði á milli áranna 2024 og 2025 er 22,8%, niðurskurður Sviðslistasjóða á milli áranna 2024 og 2025 er 20,7% og niðurskurður Myndlistarsjóðs á milli áranna 2024 og 2025 er 17,6%. Ef núverandi fjárlagafrumvarp verður samþykkt óbreytt mun það hafa neikvæðar afleiðingar á starfsumhverfi listamanna til frambúðar. Munuð þið beita ykkur fyrir því að styrkja sjóðakerfi listgreina á næsta kjörtímabili?

Það er löngu kominn tími til að afbyggja þá hugmynd að listafólk sé að leika sér í vinnunni og þar af leiðandi þurfi það ekki að fá mannsæmandi laun fyrir vinnuna sína. Einkum í ljósi verðmætis menningar og lista fyrir þjóðarbúið. Listafólk á, eins og aðrar stéttir, að fá laun fyrir sína vinnu sem endurspegla menntun, reynslu og gildi vinnu þess fyrir samfélagið. Vinstri græn hafa alltaf staðið með fjárframlögum til lista og menningu og beittum okkur til dæmis fyrir auknum framlögum í Kvikmyndasjóð í fjárlögum þessa árs.

_

BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld hækki mánaðarlega fjárhæð listamannalauna, en upphæðin hefur rýrnað verulega í samanburði við launaþróun á undanförnum árum. Núverandi mánaðargreiðsla er kr. 538.000 sem er verktakagreiðsla og listamaðurinn þarf því að standa skil á öllum launatengdum gjöldum sjálfur. Á árunum 2011-2024 hækkuðu starfslaun listamanna um 96% meðan launavísitalan hækkaði um 160%. Hefðu starfslaun ársins 2011 verið verðtryggð með þróun launavísitölu væri upphæð þeirra 32% hærri en nú eða 713.000 kr. Þetta skýtur skökku við því að mánaðarleg fjárhæð listamannalauna er lægri en viðmið skattsins um lágmarks reiknað endurgjald fyrir vinnu listafólks. Munuð þið beita ykkur fyrir því á næsta kjörtímabili að hækka mánaðarlega fjárhæð starfslauna?

Að sjálfsögðu. Listamannalaun eru undirstaða verðmætasköpunar í greininni og þau verðmæti eru ekki aðeins metin til fjár eins og segir í nýrri skýrslu heldur líka í lýðheilsu, vellíðan, sjálfsmynd, landkynningu og svo mætti lengi telja. Þá er óásættanlegt að það að velja líf í listum sé fátæktargildra eins og er því miður allt of algengt..

_

Á undanförnum tveimur áratugum hefur hverju rýminu á fætur öðru verið lokað, ýmist vegna hertra öryggisstaðla eða skorts á fjármagni, og stendur grasrótarstarfsemi í tónlist, myndlist og sviðslistum frammi fyrir fordæmalausum húsnæðisskorti.BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld skoði heildrænar lausnir fyrir vinnuaðstöðu fyrir listamenn, bæði rými listsköpun, æfingar, tónleika, sýningar og hvers konar miðlun listaverka og menningararfs. Muni þið beita ykkur fyrir því að listamenn hafi aðgang að vinnurýmum og sýningarýmum fyrir sviðslist, myndlist og tónlist á viðráðanlegu verði á næsta kjörtímabili?

Á Íslandi búum við að fjölskrúðugu menningarlífi og njótum sköpunarkrafts metnaðarfullra listamanna sem miðla listsköpun sinni Já, við munum beita okkur fyrir því. Sjónlistir og tónlistir þurfa rými til að eiga í samtali við áhorfendur og það er sorglegt hversu sviðum hefur fækkað. Danshús hefur lengi verið á stefnuskrá Vinstri grænna og í framhaldi af því mætti hugsa sér vinnuaðstöðu fyrir listamenn, Listhús þar sem listafólk úr öllum listrgreinum gæti sinnt æfingum og sköpun, bæði ein og í samhengi, jafnvel samsköpun þvert á greinar sem gagnast myndi listafólk og listnjótendum og neytendum.

_

Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að bæta stöðu íslenskra bókmennta og íslenskrar tungu ef þið komist til valda?

Ef við ætlum að halda áfram að tala og skrifa og hugsa á íslensku verður að styðja vel og rækilega við bókaútgáfu og ritlistir. Vinstri græn hafa alltaf lagt ríka áherslu á að hlú að bókmenntaarfinum, bæði hinum forna og þeim sem er í sköpun á hverjum degi og áfram skal haldið í þeim efnum með eflingu listamannalauna og áframhaldandi styrkja til bókaútgáfu. Styðja á útrás íslenskra bókmennta inn í stærri lessamfélög með öflugu kynningar- og þýðingarátaki. Sérlega mikilvægt er að styrkja og efla útgáfu barna- og ungmennabóka og styðja sérstaklega við höfunda sem sinna þeim mikilvægasta lesendahópi svo til verði virkir lesendur næstu áratugina. Til að viðhalda örtungumáli þarf einnig að leggja áherslu á þýðingar, einkum á barna- og ungmennabókum. Þá er einnig mikilvægt er að auka vægi íslenskunnar í málheimi barna til að gera barnaefni á íslandi aðgengilegra fyrir fólk óháð efnahag Möguleikar íslenskrar tungu í stafrænum heimi hafa verið stórefldir og brýnt er að halda áfram á þeirri braut þannig að íslensk tunga verði gjaldgeng á stafrænu formi og nothæf í öllum tölvum og tækjabúnaði. Á næstu árum þarf að vinna ötullega að því að tryggja nægar fjárveitingar til þessa verkefnis. Að auki þarf að gera gangskör að því að koma menningararfinum á stafrænt form þannig að hann verði öllum aðgengilegur, m.a. á netinu. Það á einnig við um myndir og hljóðrit í opinberri eigu. Hvað varðar aðrar aðgerðir til eflingar íslenskunni má nefna stóraukna áherslu á íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna sem hluta af inngildingu í samfélagið.

_

Það er stefna stjórnvalda að sameina ríkisstofnanir og í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu er lagt til að Þjóðarópera verði stofnuð innan Þjóðleikhússins. Þannig náist samlegðaráhrif sem skili sér í minni yfirbyggingu og margþættri samnýtingu á innviðum og stoðdeildum. Á sama tíma er stigið fyrsta skrefið í átt að framtíðarfyrirkomulagi þar sem allar sviðlistastofnanir ríkisins verði reknar undir einum hatti með jafnræði milli listrænna stjórnenda hverrar listgreinar. BÍL styður þá framtíðarsýn sem fram kemur í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu að lagður verði grunnur að sameinaðri sviðslistastofnun líkt og er í Dannmörku.
Styður ykkar flokkur þessa framtíðarsýn?

Vinstri græn hafa ekki fjallað sérstaklega um þessa spennandi hugmynd en hreyfingin telur fulla ástæðu til að skoða hana í ljósi samlegðrar og samspils ólíkra listgreina sem þar ætti sér stað, enda mikilvægt að næstu skref og framtíðarsýn séu unnin í samráði við menningargeirann og listamenn.

_

Hvernig hyggst þinn flokkur tryggja gæði í byggingarlist á Íslandi?

Vinstri græn vilja að byggingarreglugerð og utanumhald um gæði bygginga séu með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi en um lei gæta að fagurfræðilegum, listrænum og faglegum sjónarmiðum og samspili við opin svæði, almannarými og skipulag. Mikilvægt er að huga að sjónarhornum, mikilvægum sjónlínum í skipulagi, götumyndum og heildarsýn.

_

Í sviðslistum má finna ýmsar stofnanir og menningarsjóði sem eru reknar að meirihluta fyrir opinbert fé (t.d Þjóðleikhús, Íslenski dansflokkurinn, sviðslistasjóður, kvikmyndasjóður, Listaháskóli Íslands o.s.frv). Listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag eiga ekki allir skjól í kjarasamningi. Fjölmargir vinna í verktöku á kjörum sem eru undir lágsmarkslaunum eða viðmiðunarsamningum.
Hvernig ætlar flokkurinn þinn að vinna gegn því að listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag í gegnum sjóðakerfið eða hjá opinberum stofnunum séu hlunnfarnir?

Kæmi til greina af ykkar hálfu, að skilyrða styrkveitingu eða rekstrarframlag af hálfu hins opinbera þannig að viðkomandi greiði listamönnum samkvæmt kjarasamningi við viðeigandi stéttarfélag?

Vinstri græn berjast fyrir jöfnuði og gagnsæi á öllum sviðum og kjaramál eru okkur ofarlega í huga. Það er grundvallaratriði að listamenn sem aðrir fá sanngjörn laun fyrir vinnuna sína. Mikilvægt er að skilyrði um kjarasamningsgreiðslur til listamanna sé sett fyrir styrkveitingum í geiranum og því fylgt eftir í uppgjörsskýrslum. Þá er líka möguleiki að skýra boðleiðir innan kerfisins ef fólk vill leggja fram ábendingar eða umkvartanir til opinberra styrkveitenda ef einhverju er ábótavant í þessum efnum. Einnig væri ráð að styrkja stéttarfélög listafólks í því að auka og ydda kjaravitund og samstöðu innan stéttanna.

_

Listaháskólinn hefur búið við mikinn húsnæðisvanda frá stofnun skólans og skólinn er í dag í sex mismunandi byggingum víðsvegar um borgina sem mætir engan veginn kröfum háskóla í nútíma samfélagi. Nú liggja fyrir áform um að skólinn komist undir eitt þak í húsnæði gamla Iðnskólans á Skólavörðuholti. Styður þinn flokkur framtíðaráform Listaháskólans um að komast undir eitt þak næstu árum þar sem kröfum og þörfum skólans er mætt. Ætlið þið að forgangsraða þessu verkefni á næsta kjörtímabili?

Nýtt húsnæði fyrir Listaháskólann hefur verið á stefnuskrá VG síðan 2021 ásamt því að afnema skólagjöld í skólann. Seinna takmarkinu er nú náð en það fyrra er í vinnslu og hafa margir kostir verið nefndir í því sambandi. Það er alveg ljóst að til að standa undir nafni verður Listaháskólinn að búa við viðunandi húsa- og tækjakost sem stenst samanburð við sambærilega skóla erlendis og þessu verkefni munum við Vinstri græn, forgangsraða á næsta kjörtímabili, héðan af sem hingað til.

_

Þegar haft er í huga hvernig rannsóknir sýna fram á mikilvægi lista, bæði hvað varðar farsæld nemenda, sjálfsskilning og víðari sjóndeildarhring (að ónefndu efnahagslegu gildi lista og menningar sbr. nýlega skýrslu Ágústs Ólafs Ágústssonar) þá má spyrja: Hvernig telja frambjóðendur að megi efla hlut lista í menntun og skólastarfi? Hvert teljið þið að hlutverk ríkisins sé í því að tryggja menntun í listum og skapandi greinum fyrir ungt fólk á Íslandi og hvernig viljið þið sjá þessa menntun þróast?

Vinstri græn telja að endurskoða þurfi lagaumhverfi listmenntunar. Unnið hefur verið að því að tryggja samstarf ríkis og sveitarfélaga um tónlistarmenntun en það þarf að gera á fleiri sviðum eins og t.d. á sviði listdans, kvikmyndagerðar, myndlistar og leiklistar. Aðgengi að faglegu listnámi allt frá grunnnámi til háskólastigs er undirstaða blómlegs lista- og menningarlífs og þar á ríkið að sjálfsögðu að koma að borðinu með því að tryggja aðgengi fyrir öll börn, óháð efnahag foreldra. Við myndum vilja sjá vægi skapandi greina og lista aukast í skólakerfinu sem bæði styður við lýðheilsu og vellíðan en byggir einnig undir verðmætasköpun þjóðfélagsins í framtíðinni sem mun byggja á skapandi hugsun og lausnum. 


_

Ef þið væruð að lýsa “fullkomnu samfélagi” í ykkar augum, hvernig myndi efnahagsleg aðild ríkisins að menningarmálum?

Allar gerðir lista blómstra á Íslandi. Hlúð er að listum og menningu á öllum sviðum samfélagsins með myndarlegum fjárframlögum og sérhannaðri og vel búinni aðstöðu fyrir hverja listgrein fyrir sig. Áhersla er lögð á að öll hafi aðgang að list í sínu umhverfi og listnám er í hávegum haft og gjaldfrjálst á öllum skólastigum. List er mikilvægur hluti af umhverfinu, í nýbyggingum er gert ráð fyrir listaverkum sem hluti af ferlinu og hugað er að hljóðvist og möguleika til sýninga í öllum skólabyggingum, spítölum og dvalarheimilum aldraðra, í raun í öllum opinberum rýmum. Listin er fyrir öll og aðstöðumunur eftir búsetu, líkamlegu eða andlegu atgervi eða fjárhagsstöðu er ekki fyrir hendi. Listmeðferð er viðurkenndur og mikils metinn hluti heilbrigðiskerfisins og læknar skrifa upp á listiðkun við ýmsum andlegum og líkamlegum sjúkdómum. Menningararfurinn er vel varðveittur og aðgengilegur. Íslenskar listir og menning af öllum toga er vel þekkt og metið víða um heim og stutt er við listir og menningu eins og annan arðbæran útflutningsiðnað.