FLB er fagfélag leikmynda- og búningahöfunda sem stendur vörð um höfundarétt og stefgjöld félagsmanna. Félagið er sameiginlegur vettvangur til að örva samstarf og kynningu á verkum félagsmanna sem og standa vörð um réttindamál þeirra.

Félagið er aðili að Myndstef sem fer með umboð félagsmanna og höfundaréttargæslu verka þeirra. FLB skipar einn aðila (Þórunn María Jónsdóttir) í stjórn Myndstef. FLB er einnig aðili að og skipar fulltrúa (Hlín Gunnarsdóttir) í stjórn Leikminjasafns Íslands. Formaður félagsins situr í stórn BÍL.

Stjórn FLB skipa síðan 28 febrúar 2012:
Rebekka A. Ingimundardóttir formaður (síðan 2011)
Þorvaldur Böðvar Jónsson ritari (síðan 2011)
Úlfur Grönvold gjaldkeri. (síðan 2011)
Varamenn: Gunnar H. Baldursson (síðan 2011) og Þórunn María Jónsdóttir (síðan 2012)

Félagar í Félagi leikmynda- og búningahöfunda voru í árslok 59 talsins en á árinu 2014 voru alls 2 nýjar aðildarumsóknir samþykktar. Stjórnin vinnur jafnt og þétt að því að kynna félagið fyrir nýjum félagsmönnum og sóttu 3 nýir félagar um aðild árið 2014.

Á starfsárinu 2014-2015 mun stjórn FLB leggja áherslu á að gera starf leikmynda- og búningahöfunda sýnilegra. Stefnt er að samvinnuverkefni leikmyndahöfunda og á áframhaldandi umræður og vakningu meðal félagsmanna.

Símenntunarstefna FLB
Vorið 2011 hóf stjórnin símenntunarstefnu félagsins og hefur hún síðan þá einbeitt sér að því að þróa hana áfram. Símenntunarstefnan var tekin upp til að bjóða upp á fjölbreytta fyrirlestra og námskeið sem gætu reynst félagsmönnum gagnlegir í sinni sköpun.

Einn fyrirlestur var haldin árið 2014 í tengslum við sýninguna: Der Klang der Offenbarung des Göttlichen eftir Ragnar Kjartansson. Félagið bauð félagsmönnum sínum á þessa sýningu auk fyrirlesturs og kynningu á leikmyndinni sjálfri og vinnsluferli hennar, baksviðs eftir sýningu.

Stjórnin er með í vinnslu og er að skipuleggja námskeið fyrir félagsmenn á eldun búninga nú í ár auk röð fyrirlestra sem munu koma félagsmönnum vel við þróun og viðhald í sinni listræni sköpun.

Alþjóðleg leikmynda- og búningasýning Prague Quadrennial 2015
Íslenskum leikmynda- og búningahöfundum hefur verið boðin þátttaka í Prague Quadrennial 2015 (P.Q.15). P.Q.15 er stærsta alþjóðlega hönnunarsýning leikmynda- og búningahöfunda í heimi og er hún haldin 4 hvert ár í Prag í Tékklandi.

Ísland hefur tekið þátt í Prague Quadrennial síðan 1989 og er fulltrúi Íslands að þessu sinni Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir.

Formaður FLB er að vinna að því að kynna P.Q og sækja um styrki fyrir hönd félagsins fyrir næsta fulltrúa Íslands. Seinasta framlag Íslands vakti mikla athygli sýningahaldara, sýningargesta og fjölmiðla sem hafði þær jákvæðu afleiðingar að formaður FLB er einn af listrænum ráðunautum þessarar virtu og metnaðarfullu heimssýningar.

Sýning þessi vex stöðugt að umfangi og mun sú sem haldin verður nú í júní 2015 verða sú umfangsmesta hingað til, en 64 lönd munu taka þátt. Þar verður til sýnis allt það markverðasta á sviði leikmynda- og búningahönnunar hvaðanæva úr heiminum auk ýmissa viðburða, fyrirlestra og kynninga. Feræringurinn gefur mjög góða innsýn í allt það nýjasta sem er að gerast á þessu sviði í heiminum. Hugmyndir, straumar og stefnur, framkvæmd og þróun hvers verkefnis fyrir sig eru sérlega áhugaverð og auðga mjög sýn þeirra sem sýninguna sækja. Það er afar mikilvægt fyrir íslenska leikmynda og búningahönnuði að sækja þessa sýningu, sýna það sem hæst ber af okkar hönnun og skoða það sem önnur lönd hafa fram að færa. Íslendingar hafa nú þegar skapað sér sess og virðingu. Sýningin vekur alþjóðlega athygli og er því mikið til kostað til að gera framlag hverrar þjóðar sem mest og best. Það yrði mikill missir ef að Íslendingar yrðu að hætta við þátttöku.

Framlag Menntamálaráðuneytisins hefur hingað til gert okkur kleift að taka þátt og verður sýningin næstkomandi sumar sú áttunda sem Íslendingar taka þátt í og er undirbúningur hennar nú þegar hafinn. Framlag Menntamálaráðuneytisins var 800.000 krónur árið 2007 en árið 2011 var styrkurinn lækkaður niður í 500.00,-kr. Að þessu sinni sér ráðuneytið sér ekki fært að styrkja okkur um meira en 600.000 kr., sem við erum þakklát fyrir að sjálfsögðu. En það segir sig sjálft að þessi upphæð dugar ekki fyrir kostnaði við ferðir, uppihald, uppsetningu og viðveru á sýningarsvæði og það þótt að fulltrúi Íslands fái ekki laun fyrir sína vinnu. Því situr félagið nokkuð ráðalaust um hvernig hægt sé að halda áfram þátttöku Íslands í þessari merkilegu heimssýningu.

Reykjavík í janúar 2015
Fyrir hönd stjórnar FLB
Rebekka A. Ingimundardóttir formaður