Fyrirvaralaus lokun Listdansskóla íslands er ekkert einkamál dansara. Hér er um að ræða aðför að þeim lýðræðislegum skoðanaskiptum og vinnubrögðum sem menning okkar á allt sitt undir. Einhliða ákvörðun og yfirkeyrsla af því tagi sem hér átti sér stað er í hrópandi andstöðu við meginstefnu BÍL í samskiptum við yfirvöld; aukin samskipti, markvisst samráð og gagnkvæm virðing.

BÍL stóð fyrir opnum fundi í samvinnu við FÍLD og Listaháskólann þar sem samþykkt var eftirfarandi ályktun:

“Opinn fundur haldinn 5. september í húsnæði Listaháskóla Íslands, mótmælir harðlega einhliða ákvörðun menntamálaráðherra um lokun Listdansskóla Íslands og krefst þess að lokun skólans verði frestað þar til framtíð listdansnáms á grunn- og framhaldsskólastigi hefur verið tryggð í samráði við fagmenn í greininni.“

Forseti fylgdi ályktuninni eftir með bréfi til ráðherra en hafði ekki erindi sem erfiði, því nokkrum dögum síðar tilkynnti ráðherra í sjónvarpsviðtali að ekki yrði kvikað frá fyrri ákvörðun. Í framhaldi af því skrifaði forseti BÍL grein í Mbl. Hana má lesa hér:

 

FELLIBYLURINN ÞORGERÐUR

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur verið öðrum ráðherrum sýnilegri í starfi og sinnt opinberum erindum á sviði funda og mannfagnaða af stakri prýði. Einstaka mál sem varða menntun og menningu okkar hafa auk þess fengið sköruglega afgreiðslu í hennar ráðherratíð og sumt af því verið til bóta. Henni bregst hins vegar bogalistin í nýjasta útspili sínu, en það felst sem kunnugt er í því að loka Listdansskóla Íslands sem um árabil hefur sinnt listdanskennslu á grunn- og framhaldsskólastigi og lagt grunninn að þeirri stórkostlegu framför sem orðið hefur í íslenskum listdansi á undanförnum árum.

Listdansarar, líkt og aðrir listamenn, eru öðrum fremur áhugasamir um ferskan hugsunarhátt og breytingar í takt við tímann og vilja síst af öllu standa í vegi fyrir þeirri sífelldu endurskoðun sem fara þarf fram á viðhorfum og starfsháttum. Slík endurskoðun er einmitt löngu tímabær til að tryggja frekari uppbyggingu Listdansskólans í …

ljósi þess góða árangurs sem starf hans hefur skilað út í samfálagið allt, ekki aðeins í formi frábærra dansara og danshöfunda en ekki síður í því forvarnar og uppbyggingarstarfi sem felst í öguðu dansnámi. Hafa fagmenn í greininni ítrekað bent á nauðsyn slíkrar endurskoðunar en ekki haft erindi sem erfiði.

En nú hefur ráðherra loksins tekið við sér og það svo um munar: Á sama tíma og opnuð er Listdansdeild innan Listaháskóla Íslands, sem byggir á þeim grunni sem lagður hefur verið í rúmlega 50 ára sögu Listadansskólans, ákveður Þorgerður Katrín að leggja skólann niður og skilja listdanskennslu í landinu eftir í höndum ótilgreindra aðila sem ennþá hafa ekki gefið sig fram. Þessi ákvörðun var tekin án nokkurs samráðs við fagfólk í greininni og afhjúpar slíka vanþekkingu á eðli listdanskennslu að ekki er sæmandi ráðherra menntamála.

Eftir standa listdansnemendur og forráðamenn þeirra, listdanskennarar, dansarar og dansunnendur, hálf ringlaðir og reyna að átta sig á því hvað hér hafi gerst. Menn vilja fá að vita hvað jafn ágætlega greind manneskja og Þorgerður Katrín hafi verið að hugsa, því ekkert í þessum gjörningi bendir til þess að hann sé ígrundaður að neinu leyti. Tilkynningu um lokun skólans fylgja engar faglegar forsendur en klifað á því að hér sé um “stjórnsýslulegar breytingar” að ræða, sem í huga embættismanna virðast jafngilda náttúrulögmálum sem ekki beri að storka. Ákvörðuninni fylgir ekki ein einasta tillaga um næstu skref, ekki eitt orð um það hvernig tryggja á að listdanskennsla næstu ára verði ekki í skötulíki né hvernig mæta á þeim kostnaði sem verið er að velta beint yfir á nemendur og forráðamenn þeirra með þeim afleiðingum að námið verði ekki á færi nema þeirra sem mest efni hafa.

Undirritaður átti fund með Þorgerði Katrínu skömmu eftir að ákvörðun hennar var tilkynnt, þar sem hún lýsti vilja sínum til viðræðu við fagfólk um framhaldið. Viðræðurnar hingað til hafa farið fram með þessum hætti: Listdansarar, listdanskennarar, listdansnemar og foreldrar, ásamt Bandalagi íslenskra listamanna sendu ráðherra sameiginlega ályktun þar sem þess er krafist að Listdansskólanum verði ekki lokað fyrr en framtíð listdansnáms á grunn- og framhaldsskólastigi hafi verið tryggð í samvinnu við fagfólk í greininni.

Þeirri áskorun hefur ekki verið svarað.

Fulltrúar listdansara, sem ráðherra hefur ekki ennþá viljað hitta, sendu henni fyrirspurnir um hvað hún hafi í hyggju um framhaldið.

Þeim fyrirspurnum hefur ekki verið svarað.

Skilað hefur verið inn ábendingum um afgerandi sérstöðu listdansnámsins, sem felst m.a. í ungum aldri nemenda, sérhæfðri og dýrri aðstöðu til æfinga og nauðsynlegri samfellu í grunn- og framhaldsnámi svo marktækur árangur náist.

Engin viðbrögð.

Þá hafa listdansnemar haldið úti þögulum mótmælum fyrir utan ráðuneytið án þess að sjá ráðherra bregða fyrir í glugga.

Einu skilaboðin sem berast eru endurteknar yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar í fjölmiðlum um að ekki verði kvikað frá þessari ákvörðun, að skólanum verði lokað og þar við sitji.

Vinnubrögð ráðherra lýsa furðu litlum skilningi á einni viðkvæmustu en jafnframt metnaðarfyllstu listgreinar okkar og afhjúpar þá sjálfsupphöfnu afstöðu sem ráðamenn hafa í vaxandi mæli gagnvart listum og menningu þessa lands. Eftir því sem íslenskir listamenn koma sterkar fram á alþjóðavettvangi og skila glæsilegri árangri, jafnt á sviði tónlistar, leiklistar, myndlistar, kvikmynda, dans, arkítektúrs, bókmennta og hönnunar, því roggnari verða ráðamenn í ræðum sínum og viljugri að baða sig í því kastljósi sem beint er að listamönnum og verkum þeirra.

Ég skora á menntamálaráðherra að leiðrétta mistök sín nú þegar og lýsa því yfir að Listdansskólanum verði ekki lokað, amk. ekki fyrr en framtíð grunn- og framhaldsnáms í listdansi er tryggð í eðlilegu samráði við fagmenn í greininni. Að öðrum kosti hljótum við ætíð að minnumst þess, þegar við sjáum Þorgerði Katrínu stilla sér upp fyrir ljósmyndara Morgunblaðsins á frumsýningu á nýju íslensku dansverki, að þetta er sú sama Þorgerður Katrín og ákvað að leggja niður Listdansskóla Íslands án þess að virða íslenskan listdansheim viðlits.

 

Þorvaldur Þorsteinsson

forseti bandalags íslenskra listamanna.