Haukur F. Hannesson:

Framsöguerindi flutt á málþingi Bandalags íslenskra listamanna 31. janúar 2009 í Skíðaskálanum í Hveradölum

 

Á þeim umbrotatímum sem við lifum á er athyglisvert að velta fyrir sér hvar listamaðurinn er staddur í öllu umrótinu. Hvaða stöðu eða hlutverk hefur hann í kreppunni ef staða hans hefur þá einhvern hátt breyst við umrót hins ytri veruleika.

Sömuleiðis er hægt að velja sér mismunandi sjónarhorn til að skoða listamanninn á þessum tímum. Ég gæti persónulega valið að skoða hann úr nafla listamannsins sjálfs, frá sjónarhorni tónlistarmannsins – sellóleikarans. Ég gæti líka valið mér sjónarhorn fræðimannsins, doktorsins í listrekstrarfræði og menningarstjórnmálum og frá þeirri stöðu greint og gagnrýnt aðgerðir eða aðgerðaleysi, stefnu eða stefnuleysi. Síðan gæti ég reynt að setja listamanninn í kreppunni í samhengi við hinn víða heim opinberrar menningarstefnu og hvaða áhrif kreppan getur mögulega haft á þessa opinberu stefnu. Ég get líka valið mér sjónarhorn liststjórndans, þess sem rekur listastofnun og missir svefn vegna þeirra slæmu fjárhagslegu áhrifa sem kreppan hefur á rekstur stofnunarinnar.

 

Sjónarhorn liststjórnandans.

Ég er nýfluttur aftur til Íslands eftir fimmtán ára búsetu erlendis. Í störfum mínum í Svíþjóð, m.a. sem framkvæmdastjóri tveggja atvinnuhljómsveita, var ég ekki allskostar ókunnugur kreppu og því andlega og fjárhagslega ástandi sem hún færir.

Það reið bankakreppa yfir Svíþjóð árið 1992 sem hafði víðtæk áhrif á sænskt þjóðfélag. Allt í einu urðu kjörnir fulltrúar landsins að setja sig í kreppustellingar og gera grundvallarbreytingar á ýmsum þáttum þjóðlífsins, sérstaklega þeim þáttum þar sem hið opinbera hafði borgað brúsann. Mikill niðurskurður átti sér stað í ríkisfjármálum og á nokkrum árum voru útgjöld hins opinbera skorin niður um tugi prósenta. Þetta hafði líka áhrif á listir og menningarstarfsemi, en þó, þegar upp er staðið og litið er yfir síðustu fimmtán ár eða svo, kemur líka í ljós að á mörgum stöðum varð líka athyglisverð nýsköpun.

Ég gegndi undir lok þessa niðurskurðartíma starfi framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gävle. Gävle er u.þ.b. 90.000 manna borg rétt rúmlega 200 km fyrir norðan Stokkhólm. Atvinnulíf borgarinnar hefur alltaf einkennst af fáum stórum verksmiðjum og öðrum stórfyrirtækjum þar sem stór hluti borgarbúa hefur haft atvinnu sína. Fjöldi ófaglærðra starfsmanna hefur verið mikill og ekki hefur verið mikill áhugi á því að sækja æðri menntun, þar sem auðvelt var að feta í fótspor kynslóðarinnar á undan og byrja afla tekna í verksmiðjunni á unga aldri.

 

Bygging tónlistarhúss í miðjum niðurskurði

Gävle á þó sína eigin sinfóníuhljómsveit sem var stofnsett árin 1911. Þar var þó ekkert tónlistarhús og hélt hljómsveitin tónleika sína í leikhúsi borgarinnar, gamalli fallegri byggingu með afleitum hljómburði fyrir tónlist. Þegar kreppan fór að gera vart við sig á tíunda áratug síðust aldar ræddu sveitarstjórnrmenn og aðrir góðir borgarar í Gävle, svo og stjórnmálamenn á landsvísu, hvernig hægt væri að bregðast við þeim aðstæðum sem upp voru komnar. Eitt var talið nauðsynlegt: Þrátt fyrir að mikill niðurskurður yrði á mörgum sviðum þjóðlífsins var talið mikilvægt að ekki yrði niðurskurður til menntamála og að niðurskurður til menningarmála yrði ekki of mikill.

Í Gävle voru framlög til Háskólans í Gävle aukin mikið og fjölgaði nemendum úr tvö þúsund í sex þúsund á tíunda áratugnum. Sérstaklega var lögð áhersla á að ná til þeirra sem hætta var á að yrðu atvinnulausir þegar bankakreppan gerði það að verkum að stórar verksmiður og vinnustaðir í borginni voru lagðir niður eða starfsemi þeirra flutt til útlanda. Með þessu tókst að auka hlut æðri menntunar og gera hana sjálfsagðari kost fyrir ungt fók í Gävle. Áhrif þessar stefnu eru enn að koma fram í fjölgun sprotafyrirtækja, í nýsköpun og meiri fjölbreytni í atvinnulífi borgarinnar.

Hitt sem gert var í Gävle var að þar var byggt tónlistarhús. Miklar deilur stóðu um byggingu þess og héldu margir því fram í fjölmiðlum að hér væri verið að leggja peninga í dekurverkefni og minnisvarðabyggingu stjórnmálamanna, algerlega ónauðsynleg útgjöld sem betra væri að nota til félagslegra útgjalda svo sem heilsugæslu. Sveitarstjórnarmenn héldu þó ótrauðir áfram með bygginguna og töldu hana vera nauðsynlega fjárfestingu í framtíð borgarinnar.

 

Fjárfesting í menningarlegu burðarvirki borgar sig

Það kom líka í ljós að þeir höfðu rétt fyrir sér. Skyndilega komst þessi iðnaðarborg, sem einu sinni var valin leiðinlegasta borg Svíþjóðar af einu dagblaðanna, á kortið fyrir alvöru. Stjórnmálaflokkar landsins sóttust eftir því að halda landsfundi sína í tónlistarhúsinu og Gävle fékk mikla auglýsingu og eftirtekt um allt land. Sinfóníuhljómsveit Gävle flutti inn í húsið og var upp frá því önnur hljómsveit. Nú sköpuðust skilyrði fyrir listrænum vexti hljómsveitarinnar sem ekki höfðu verið fyrir hendi áður. Enda varð mikill vöxtur. Áheyrendum á tónleika hljómsveitarinnar fjölgaði um helming og hljómsveitinni var boðið í tónleikaferð til Hollands þar sem hún vann mikinn listsigur með glæsilegum tónleikum í tónleikahöllinni Concertgebow í Amsterdam. Engum hefði dottið í hug nokkrum árum fyrr að bjóða þessari héraðshljómsveit frá Svíþjóð í slíka ferð. En nú voru afleiðingar hins nýja tónlistarhúss, hinnar nýju aðstöðu listamannanna, að koma í ljós og það var ekki sama hljómsveit sem kom heim og sú sem fór. Hið listræna sjálfstraust var miklu meira og ekki dró úr að ég lét hljóðrita tónleikana og gefa út á geisladiski. Sá geisladiskur varð til þess að ég náði samningum við hljómplötufyrirtækið Naxos i Hong Kong um að hljómsveitin léki inn á nokkra geisladiska. Það varð enn frekar til þess að hvetja tónlistarmennina til dáða.

Allt þetta gerðist undir áhrifum þeirrar kreppu sem leiddi til mikils niðurskurðar í fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Vissulega var framkvæmdastjóranum ekki svefnsamt þegar stórar fjárhæðir vantaði til að endar næðu saman og neyðarlausnin var að hann stóð á sviðinu fyrir framan áheyrendur á tónleikum og stóð fyrir samskotum meðal tónleikagesta í plastruslafötur skrifstofu hljómsveitarinnar til að eiga fyrir Hollandsferðinni!

En þetta var allt þess virði, vegna þess að þrátt fyrir kreppu varð hljómsveitin betri, tónlistarmennirnir ánægðri og áheyrendur himinlifandi.

Svona getur bygging tónlistarhúss á krepputímum haft góð áhrif. Það er vonandi að íslensk stjórnvöld hafi þá framtíðarsýn að byggingu tónlistarhússins okkar verði að ljúka sem fyrst, til gagns fyrir alla landsmenn.

 

Fræðimaðurinn

Nú hoppa ég úr hlutverki liststjórnandans og yfir í hlutverk fræðimannsins sem horfir á kreppuna utanfrá og reynir að setja menningarstefnu, listastofnanir og listamanninn sjálfan í samhengi akademískrar greiningar.

Menning og listir eru í stöðugu samspili við umhverfi sitt. Í þessu samspili eru þeir sem njóta listsköpunar sem áheyrendur, áhorfendur eða lesendur nauðsynlegur mótaðili listamannsins hvort sem að starf hans er stundað í kreppu eða góðæri. Annar mótaðili listamannsins er hið opinbera og hvernig það kemur að stefnumótun í listum og listfræðslu og hvernig fjárveitingum til lista er háttað frá einum tíma til annars. Þriðji mótaðili listamannsins er velgjörðamaðurinn eða kostarinn, sem helst lætur kræla á sér í góðæri þegar peningar eru afgangs í rekstri fyrirtækja. Hér er því um að ræða samspil listamanns og hins almenna markaðar, samspil listamanns og stjórnvalda en einnig samspil listamanns og athafnamannsins í hlutverki kostarans.

Í heiminum eru til mismunandi menningarstefnulíkön sem hvert um sig hafa mótast útfrá pólitískri og menningarlegri hefð mismunandi landa og heimshluta. Gerð og eðli menningarstefnu innan þessa mismunandi menningarstefnulíkana getur verið mjög mismunandi. Það er því mikilvægt fyrir fræðimanninn á þessu sviði að spyrja ekki bara hvort menningarstefna stjórnvalda sé til heldur hvers eðlis hún sé. Hér getur fræðimaðurinn sótt skemmtilegar aðferðir í smiðju stefnumótunarfræða opinberrar stjórnsýslu, í hagrannsóknir og viðskiptafræði til að bregða ljósi á það umhverfi sem listum og menningu, og þar með talið listamanninum sjálfum er búið. Hægt er að reikna út þær tekjur sem þjóðfélagið hefur af list og menningu, hægt að sjá hvers konar fyrirkomulag á rekstri listastofnanna gefur bestan listrænan árangur svo og hvernig þjóðfélagið getur skapað góðar forsendur fyrir list og listamenn og þar með stutt við sína eigin framtíð og lífsgæði þegnanna.

 

Listamaðurinn í góðæri

Það sem er skemmtilegast í þessum vangaveltum að menn verða aldrei á eitt sáttir um hvernig á að gera hlutina. Gagnvart listunum finnst sumum að í gangi sé algert stefnuleysi og kaos á meðan öðrum finnst allt of niðurnjörvað og heftandi í hinni opinberu stefnu. Hér er hægt að gera athyglisverða úttekt og greiningu á stöðu listamannsins í kreppu og kannski ekki síður á stöðu og hlutverki listamannsins í góðæri. Það er kannski alveg eins rík ástæða fyrir Bandalag íslenskra listamanna að efna til málþings um listamanninn í góðæri. Hvaða áhrif hafði góðærið á listamanninn og listina? Var góðærið til góðs fyrir listina og þá sem hana stunda? Eða urðu menn of bjartsýnir og roggnir með sig og verða eins og stjórmálamenn og bankafólk að leggjast í naflaskoðun til að greina hvar eða hvort listamaðurinn lenti á villigötum á meðan á veislunni stóð?

Menningarstefna á krepputímum er sérstaklega athyglisvert umfjöllunarefni. Ég kom áður að því hvernig sveitarstjórnarmenn í borginni Gävle í Svíþjóð leystu sín mál í sinni kreppu og víst er að forvitnilegt verður að fylgjast með því hvernig þessi mál þróast hér á landi á næstu mánuðum og árum.

 

Hver er listamaðurinn í kreppunni?

Að lokum sjónarhorn listamannsins sjálfs.

Listamaðurinn í kreppunni er í raun hinn sami og listamaðurinn í góðærinu. Hann lítur lögmálum sama listræna handverks, innsæi og innblásturs hvort sem um er að ræða góða eða slæma tíma. Það tekur mig jafn langan tíma að æfa verk á sellóið til að spila á tónleikum núna í kreppunni eins og það gerði það í góðærinu.

Kreppan getur þó haft þau áhrif að möguleikar listamannsins til að stunda og ná árangri í list sinni minnka, sérstaklega þar sem ástundun listarinnar er samofin efnahagsþáttum hins fallvalta þjóðarbús. Kreppan heftir þar með möguleika listamannsins á samskiptum við umhverfi sitt, alla vega þegar till skamms tíma er litið.

Það er hins vegar listamanninum og yfirvöldum nauðsynlegt á slíkum tímum að haft stærri sýn en bara þá sem sér kvöl stundarinnar. Listirnar og listamennirnir verða líka að vera til á morgun, næsta ár og næstu áratugi. Þess vegna verða listamennirnir og samtök þeirra að benda á leiðir til að listin geti lifað áfram í breyttu þjóðfélagi. Hinn menningarlegi infrastrúktúr eða burðarvirki menningarinnar, ef svo má að orði komast, gegnir hér mikilvægu hlutverki og það má ekki brjóta niður. Það verður að ljúka við byggingu tónlistarhússins til að tónlistin fái að vaxa, listaskólarnir verða að halda áfram að mennta listamenn framtíðarinnar og Lánasjóður íslenskra námsmanna verður að halda áfram að lána námsmönnum í listnámi þó að það sé kreppa í landinu.

Listamaðurinn verður að vera til staðar bæði í kreppu og góðæri. Það er þörf fyrir listamanninn til að skapa þjóðfélagi þá sjálfsmynd og speglun sem nauðsynleg er til að geta talist þjóð og til þess að eiga framtíð. Það er þörf fyrir listamanninn til að ögra og kalla fram breytingar. En það er líka þörf fyrir hið síkvika samspil listarinnar og þess umhverfis sem hún endurspeglar og hrærist í. Samtalið milli listar og þjóðfélags er forsenda þess að bæði list og þjóðfélag geti verið til.

 

========

Haukur F. Hannesson er sellóleikari, tónlistarkennari og listrekstrarfræðingur. Hann lauk einleikara- og kennaraprófi frá Guildhall School of Music and Drama í London og síðar meistara- og doktorsprófum í listrekstrarfræði og menningarstjórnmálum frá City University í London. Haukur starfaði sem sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, skólastjóri Suzukitónlistarskólans í Reykjavík, framkvæmdastjóri Kammerhljómsveitarinnar í Sundsvall í Svíþjóð og síðar framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gävle. Síðustu árin hefur hann starfað sem aðstoðarskólastjóri við Tónlistarskólann í Nacka í Svíþjóð og stundakennari við Háskóla Íslands þar sem hann kennir menningarstjórnun í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu. Haukur er formaður Evrópska Suzukisambandsins og Alþjóða Suzukisambandsins.