1. Ályktun um starfslaun listamanna

Eftir áralanga baráttu fyrir leiðréttingu á starfslaunum íslenskra listamanna var, undir lok sl. árs, að frumkvæði menntamálaráðuneytisins, efnt til samráðsfunda í sérskipuðum starfshópi, sem í sátu fulltrúar stjórnar listamannalauna, fulltrúar menntamálaráðuneytis og fulltrúar Bandalags íslenskra listamanna. Vinna þessa fólks skilaði mikilvægum sameiginlegum niðurstöðum.

Fallist var á fjölgun listamannalauna úr 1200 mánaðarlaunum í 1600, auk leiðréttinga á viðmiðunarmörkum. Rétt er að geta þess að lögum samkvæmt ber að endurskoða listamannalaun á 5 ára fresti, en fjöldi mánaðarlauna hefur staðið í stað síðan árið 1991 og breyting því löngu tímabær.

Bandalag íslenskra listamanna býður nýjan menntamálaráðherra velkominn til starfa, óskar honum velfarnaðar í starfi og skorar jafnframt á hann að beita sér tafarlaust fyrir fullnaðarfrágangi, framlagningu og gildistöku þessa mikilvæga lagafrumvarps .

 

2. Ályktun um atvinnuöryggi listamanna

Bandalag íslenskra listamanna minnir á að árið 2009 er ár sköpunar og nýbreytni í Evrópu. Hugvit og sköpunargáfa verður æ hærra metin, jafnt í listum sem sprotafyrirtækjum.

Hins vegar fer atvinnuleysi vaxandi um þessar mundir. Verkefnastaða listamanna er orðin verulega slæm líkt og margra annarra, verkefni daga uppi þar sem vandasamt reynist að fjármagna þau. Fjölmargir listamenn eiga því erfitt með að skapa sér og öðrum atvinnu lengur. Við munum ekki heyra tölur af hópuppsögnum þar sem listamenn reka sig flestir sjálfir, en atvinnuleysið í þessum geira er að stóraukast, og er það mikið áhyggjuefni.

Því er rétt að benda á að litla fjárfestingu þarf til að viðhalda störfum í menningu og listum miðað við margar aðrar atvinnugreinar. Menning og listir leggja til 4% af landsframleiðslu og standa fyrir kraftmiklu og fjölbreytilegu menningarlífi sem ber á viðsjárverðum tímum út hróður lands og lýðs um heim allan, auk þess sem menning og listir eru í auknu mæli notuð til þess að endurreisa og endurnæra samfélög með góðum árangri.

BÍL hvetur öll stjórnvöld til að hafa þetta í huga. Sérstaklega er því beint til sveitarstjórna að standa vörð um fjárveitingar til menningarráða.

 

3. Ályktun um Tónlistarhús

Bandalag íslenskra listamanna skorar á stjórnvöld, ríki og borg, að halda áfram byggingu Tónlistarhúss og ljúka því verki svo fljótt sem auðið verður. Tónlistarhúsið verður hornsteinn tónlistar og menningar á Íslandi og mun skapa atvinnu og styrkja ímynd þjóðarinnar. Með byggingu hússins tryggjum við best listræna sigra og framsókn um ókomna tíð.