Frá fundi BÍL 30. september 2006

Sigurbjörg Þrastardóttir:

Fjörtíu tommu plasma

Ef eitt stykki sjónvarp – og þá er ég ekki að meina gamalt svarthvítt Nordmende, segjum heldur glænýr plasmaskjár með útsendingu Ríkissjónvarpsins – ef þannig sjónvarp væri eina heimild grandalauss útlendings um lífið sem lifað er í þessu landi, er hætt við að hann fylltist furðulegum hugmyndum. Jafnvel verulegum ranghugmyndum. Jú, hann myndi fljótt átta sig á því að konur á Íslandi eru almennt yngri en karlar, og betur tenntar. Hann myndi sjá að íþróttir eru stundaðar í miklum mæli, allan ársins hring og oft í viku. Sér í lagi kappakstur. Hann myndi læra að hér er í gildi hamingjustuðull sem heitir úrvalsvísitala og mikilvægt að vita daglega hvort hann fer upp eða niður. Hann myndi fræðast um bankakerfið, hestamennsku, lífið í sveitum, veðrið, hann myndi skilja gildi leiðinlegra stjórnmála og læra að á Íslandi er helst ekki hlegið og helst ekki spilað á píanó nema um helgar. Hann myndi gera sér ljósa grein fyrir mikilvægi námsmanna, klósetthreinsa og vatnsdrykkja – þ.e. ef hann horfði líka á auglýsingarnar – og af lokaorðum valinna fréttatíma myndi hann sjá að leikrit eru stöku sinnum æfð á Íslandi, en aldrei sýnd.

Nefnilega. Í íslensku sjónvarpi er meira og minna aldrei sýnt frá, né rætt af viti um, þær 30 leiksýningar sem að meðaltali lifa á íslenskum fjölum á hverjum tíma, ef frá er talin handahlaupsgagnrýni í Kastljósi, sem í vetur hefur þó ekki enn verið efnt til, og er þó starfsemi allra leikhúsa komin í gang. Samkvæmt sjónvarpinu er varla lögð hér nokkur stund á myndlist, hér er engin nútímatónlist samin, vídeó-list, sem beinlínis er gerð fyrir sjónvarpsskjái, er óþekkt og sama gildir um grafíska hönnun, arkitektúr og aðrar sjónrænar greinar. Sem einmitt ættu svo vel heima, og kæmu svo ágætlega út, í sjónvarpi. Og bækur? Einmitt, góðir hálsar, gesturinn ímyndaði, sem aðeins hefði svarthvítt Ríkissjónvarpið, nei fyrirgefiði, sem aðeins hefði hánútímalegan plasma-Ríkis-kassann sem heimild um líf okkar, hann fengi ekki með nokkru móti séð að hér væru skrifaðar bækur. Þótt hann sæti allur af vilja gerður við skjáinn í nokkra daga, heila viku, já, þótt hann horfði á sjónvarpið í 11 mánuði samfleytt, væri fullkomlega mögulegt að hann heyrði aldrei minnst á ljóð, skáldsögur, smásögur, skáldævisögur, sagnaþætti, bloggbókmenntir, ferðabækur, glæpasögur, myndasögur eða annan skáldskap. Hann myndi ekki heyra hvar orðsnilld fólksins eflist, hvar máltilfinningin skerpist, hann myndi vita næstum ekki neitt um túlkun samtímans, hvaðan hugmyndir að kvikmyndum og málsháttum koma, hvernig þjóðin varðveitir sögur og kortleggur sjálfa sig. Hann myndi standa upp frá sjónvarpinu í sínu ónefnda útlandi, labba sig inn í eldhús og segja yfir borðið: skrýtið, þarna uppi á látlausum hólma býr læs og vel hirt þjóð, með kauphöll og hvaðeina, en það er skrýtið, hún á engar bækur.

 

Gott og vel. Kannski hugsa einhverjir sem svo að plasmasjónvarpið sé einfaldlega komið í stað sófamálverksins, að listin sé úreld og einfeldni yfirborðsins hafi tekið völdin. Flatskjárinn, í bókstaflegri merkingu. En sú rökfærsla gengur samt ekki upp, því sköpunarkrafturinn í þessu landi er svo yfirþyrmandi að hér er næstum því freistandi að fara út í tölur til að undirstrika sannleikann. Á að giska þrjú þúsund manns hafa beina atvinnu af því að skrifa og gefa út bækur, skapa myndlist, reka gallerí, semja tónlist og aðra list eða koma henni í umferð. Þá eru ótaldir allir þeir sem af ástríðu njóta verkanna, og væru til í að heyra um fleiri verk, sjá umræður um þau, dæmi, túlkun og almennar pælingar. Þetta grunar mig að gætu verið hátt í þrjú hundruð þúsund manns. Hvar er þá samræmið í eftirspurn og framboði? Eða hefur manni ekki verið innprentað að slíkt lögmál sé heilagt og stýri fjölmiðlamarkaði? Ég veit það ekki, ég var bara boðin hér í afmæli og veit ekki hvað mér leyfist að segja mikið.

Maður hefði allavega haldið að ef sjónvarp í eigu fólksins ætti að gera eitthvað, þá væri það að tjá lífið eins og það er. Sýna það jafnvel í fersku ljósi. Eða endurspeglar RÚV kannski bara lífið eins og við vildum að það væri? Varla. Slagsíða morða, vaxtafrétta og Disneyhunda er of mikil til þess að nokkur gæti óskað sér þannig tilveru.

 

Fyrir skömmu hitti ég frægan mann og við fórum að ræða þessa sorgarsögu: skort á umfjöllun um menningu og listir í sjónvarpinu. Mósaík leystur upp og horfinn af dagskrá, ekki haldið áfram með Regnhlífarnar í New York, jafnvel einfaldur þáttur eins og Tónlistinn, umfjöllun um rokk og popp, fékk ekki að halda plássi sínu á þeirri forsendu að „annar unglingaþáttur” væri þegar á dagskrá. Eins og tónlist sé bara fyrir tvo árganga. En jafnvel unglingaþættirnir, At, Óp og Ok, þættir um menningu og margvíslega krafta ungs fólks, eru ekki lengur inni í myndinni. Og sá ágæti, ódýri þáttur Tvípunktur á Skjá einum, sá eini í íslensku sjónvarpi sem á þeim tíma var helgaður bókmenntum, hefði hann ekki átt skilið lengri lífdaga? Gat hann a.m.k. ekki verið fyrirmynd að samskonar þáttum á öðrum stöðvum, eða um aðrar listgreinar? Eini þátturinn sem ég man eftir nýlega er Taka tvö, upplýsandi spjall um íslenskar kvikmyndir, en það er ekki nóg. Við viljum samhengi, samfellda umræðu um það sem er að gerast á hverjum tíma í íslenskum hugmyndaheimi, menningu, í því hvernig ein þjóð sér sig og tjáir sig. Og þá dettur mér í hug að nota tækifærið og óska útvarpsþættinum Víðsjá til hamingju með 10 ára afmælið, og missa jafnvel út úr mér að margt gæti nú sjónvarpið lært af útvarpinu.

Nema hvað, ég gleymdi að halda áfram með söguna, ég hitti sumsé þennan fræga mann þarna á barnum – já, þetta var á bar og ég legg sérstaka áherslu á frægð hans svo þið leggið áreiðanlega við hlustir – og þá varð honum að orði:

Kannski, sagði maðurinn, kannski er staðreyndin sú að einfeldnin og yfirborðið í sjónvarpi hafa sigrað. Sjónvarp, sem slíkt, telur sig greinilega ekki lengur fært um að endurvarpa neinu nema síbylju, sýndarveruleika og skrumi, og þá skulum við bara láta því það eftir. Í stað þess að fjargviðrast skulum við einbeita okkur að því að halda öllu sem okkur er kært, öllu sem hefur dýpt og vigt, utan við sjónvarp svo það skemmist ekki. Allt sem skiptir okkur máli, menning, list og líf, nærum það á öðrum vettvangi en á skjánum.

 

Ég verð að viðurkenna að þarna og þá, á barnum, þegar allir í kringum okkur voru nýkomnir af frumsýningu á íslensku listaverki, glaðir og reifir og bjartsýnir, hljómaði þetta viðhorf svolítið flott. Hættum þessu eymdarvæli. Látum sjónvarpið bara eiga sig.

Um leið laust niður í huga minn hvernig ég gæti endað þetta erindi í dag. Ég gæti sagt sem svo: Það var nógu slæmt þegar okkur var tjáð, á okkar einkennilegu pó-mó-tímum, að Guð væri dauður. Svo vöndumst við því. En fjárinn hafi það, er sjónvarpið dautt líka?!

Mér fannst þetta soldið flottur endir, en í húsi Rithöfundasambandsins daginn eftir var mér snarlega kippt niður á jörðina: Þetta er fullkomin og ótímabær uppgjöf, sagði formaðurinn, og hann er vanur að hafa rétt fyrir sér.

En hvað á maður samt að halda, þegar þúsundir lifa fyrir ný sjónarhorn og frjóa túlkun veruleikans, en nær engu af því er endurvarpað. Hvað á maður að halda, þegar hugmynd að tónlistarþætti, og ekki bara hugmynd heldur heilt tökuplan, hefur að sögn legið inni á sjónvarpsdeild í nokkur misseri en ekki sinnt, ekki einu sinni svarað. Og hvað á maður ennfremur að halda, þegar áhugasamt fyrirtæki úti í bæ býðst til að halda áfram með vel heppnaðan bókaþátt, en er afþakkað.

 

Góðir hálsar. Þá á maður ekki að halda neitt sérstakt, heldur bara hinkra augnablik. Og sjá, í gegnum þokuna sem myndast hefur yfir og allt um kring, fer allt í einu að móta fyrir samningi. Rétt eins og yfirvöld ríkis og sjónvarps hafi loksins fundið á sér að sjónvarpið væri að deyja. Og maður tekur samningsdrögin í hendurnar, lítur yfir þau og hver er þar sögð fyrsta skylda almannasjónvarps? Áhersla skal lögð á að miðla íslenskri menningu og skal RÚV vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu. Nefnilega. Og hvað segir í 2. grein? RÚV ber að uppfylla menningarlegar, þjóðfélagslegar og lýðræðislegar þarfir í íslensku samfélagi… Og hvað meira? RÚV skal hafa frumkvæði að því að miðla íslenskri menningu, listum og menningararfi.

Og þá hlýtur maður að hvísla: sagði ég ekki!

 

Við vissum þetta allan tímann, við í samtökum plasmasjúklinga, eðlisávísunin sagði okkur að á þessu ættum við heimtingu, en það var alltaf minna og minna ljóst á sjálfum skjánum. Þangað til enginn menningarþáttur var eftir.

Í öllum alvöru útlöndum er slíkum þáttum haldið úti af metnaði, hefð og framsýni í sjónvarpi og sífellt verið að vitna í þá á öðrum vettvangi, sem segir sitt um slagkraftinn. Og hér? Ég ætla ekki að bæta við að hér skulu samt Formúluáhugamennirnir fimmtán alltaf fá hringinn sinn sýndan, því þetta er ekki þannig stríð. Þetta erum við, með hvítan fána.

 

Í stuttu máli: Sjónvarp gefur möguleika á tvenns konar efni, minnst, þegar kemur að menningu. Annars vegar er miðillinn opinn fyrir tjáningu (listræna, sjónræna), þá erum við að tala um kvikmyndir, leikna þætti og annað efni með sögu, inntaki og merkingu í sjálfu sér. Hins vegar dokúmenterar sjónvarp það sem er gert og hugsað í umhverfinu, í öðrum miðlum og öllum listgreinum, háum, lágum, dægurbundnum og tímalausum. Á hvorugum vettvangnum, finnst mér, sinnir íslenskt sjónvarp brýnu hlutverki sínu sem skyldi. Og er þá engin stöð undanskilin.

Í dag á nefnilega ekki bara Ríkissjónvarpið afmæli, í sömu andrá á íslenskt sjónvarp yfirhöfuð afmæli, og því er full ástæða til að brýna allar stöðvar, stórar sem smáar. Þær eiga allar sjens.

Því hvorki hingað til, né hér eftir, snýst málið um peninga eina saman. Það getur ekki verið dýrara að fjalla um leikhús en hesthús. Það getur ekki verið erfiðara að tala við heimspekinga en fegurðardrottningar. Íslensk dagskrárgerð hlýtur alltaf að snúast um hugmyndaauðgi, forgangsröðun og hugrekki; þá fyrst verða peningar vandamál þegar þeim er sóað í einsleitni.

 

Mér finnst ægilega vænt um Ríkissjónvarpið. Og ég óska því til hamingju með afmælið. Og mér finnst sem við værum fátækari án þess.

En það er ekki lengur forsvaranlegt að íslenskir sjónvarpsáhorfendur fari á mis við svona furðulega margt. Nú, þegar við höfum loks uppgötvað til fulls hvað sjónvarp er sniðugt og áhrifaríkt, á þessum tímum óvenjumargra stöðva og forvitnilegrar tækni, já, á tímum efnahagslegrar kátínu – þá reynir loks á frumleika og forystu RÚV. Og keppnisskap allra hinna.

 

Því til hvers að fá sér plasmaskjá, en hann virkar ekki sem spegill? Til hvers að fá sér 40 tommu skjá, ef hann stækkar ekki lífið? Til hvers að fara á bar, ef þar eru einungis fyrir frægir menn sem spá sjónvarpinu dauða?

 

Ég veit það ekki, en happí ending hlýtur að vera í nánd.