Á sama tíma og listir og menning skapa störf og bæta samfélagið þá er heildarskerðing fjármagns á milli áranna 2024 og 2025 á sviði menningarmála 365,4 milljónir króna m.v. fjárlagafrumvarp næsta árs. Niðurskurður á Kvikmyndasjóði frá árinu 2021 er 27,3%, niðurskurður á Bókasafnssjóði á milli áranna 2024 og 2025 er 22,8%, niðurskurður Sviðslistasjóða á milli áranna 2024 og 2025 er 20,7% og niðurskurður Myndlistarsjóðs á milli áranna 2024 og 2025 er 17,6%. Ef núverandi fjárlagafrumvarp verður samþykkt óbreytt mun það hafa neikvæðar afleiðingar á starfsumhverfi listamanna til frambúðar. Munuð þið beita ykkur fyrir því að styrkja sjóðakerfi listgreina á næsta kjörtímabili?
Já. Sjóðakerfið ásamt starfslaunum listamanna skipta höfuðmáli fyrir frumsköpun okkar frábæru listamanna. Það er viðvarandi verkefni að sækja aukið fé í menningarmál, þar á meðal í sjóðakerfið. Það hefur gengið vel á undanförnum árum að ná í nýtt fé í menningarmál. Til dæmis voru framlög í Bókasafnssjóð höfunda voru þannig 76,4 m.kr árið 2019 en verða 146 m.kr á næsta ári og Myndlistarsjóður fékk 50,4 m.kr árið 2019 en fær 77,6 m.kr á næsta ári, þá var talsverðum upphæðum varið í sjóðakerfið í tengslum við sjóðakerfin til þess að standa með menningunni í gegnum heimsfaraldur svo dæmi séu tekin. Það má þó alltaf gera betur og það viljum við í Framsókn gera.
_
BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld hækki mánaðarlega fjárhæð listamannalauna, en upphæðin hefur rýrnað verulega í samanburði við launaþróun á undanförnum árum. Núverandi mánaðargreiðsla er kr. 538.000 sem er verktakagreiðsla og listamaðurinn þarf því að standa skil á öllum launatengdum gjöldum sjálfur. Á árunum 2011-2024 hækkuðu starfslaun listamanna um 96% meðan launavísitalan hækkaði um 160%. Hefðu starfslaun ársins 2011 verið verðtryggð með þróun launavísitölu væri upphæð þeirra 32% hærri en nú eða 713.000 kr. Þetta skýtur skökku við því að mánaðarleg fjárhæð listamannalauna er lægri en viðmið skattsins um lágmarks reiknað endurgjald fyrir vinnu listafólks. Munuð þið beita ykkur fyrir því á næsta kjörtímabili að hækka mánaðarlega fjárhæð starfslauna?
Já, Framsókn hefur tekið skref í þá veru að hækka þau og varði til þess fjármunum árið 2022 sem hækkaði starfslaunin um 20%, en þau voru eins og rakið er í spurningunni mjög lág. Í framhaldinu var forgangsraðað í að fjölga starfslaunamánuðum með breytingum sem samþykktar á lögum sem starfslaun listamanna á vorþingi, en það voru fyrstu breytingarnar í 15 ár. Með þeim verður starfslaunamánuðum fjölgað úr 1.600 í 2.490 á 4 árum.
_
Á undanförnum tveimur áratugum hefur hverju rýminu á fætur öðru verið lokað, ýmist vegna hertra öryggisstaðla eða skorts á fjármagni, og stendur grasrótarstarfsemi í tónlist, myndlist og sviðslistum frammi fyrir fordæmalausum húsnæðisskorti.BÍL hefur kallað eftir því að stjórnvöld skoði heildrænar lausnir fyrir vinnuaðstöðu fyrir listamenn, bæði rými listsköpun, æfingar, tónleika, sýningar og hvers konar miðlun listaverka og menningararfs. Muni þið beita ykkur fyrir því að listamenn hafi aðgang að vinnurýmum og sýningarýmum fyrir sviðslist, myndlist og tónlist á viðráðanlegu verði á næsta kjörtímabili?
Já, hefur menningar- og viðskiptaráðherra meðal annars átt í samstarfi við Reykjavíkurborg vegna þessara mála til að skoða hvaða leiðir eru færar í þessum efnum ásamt því að hafa stutt við rekstrargrunn Tjarnarbíós.
Þá hafa verið tekin skref til að styðja við Samband íslenskra myndlistarmanna um rekstur skapandi miðstöðvar í Skipholti 37 sem mun geta hýst vinnustofur SÍM ásamt æfingarýmum fyrir mismunandi listform. Hugmyndir um Danshús eru einnig á borðinu.
Þá var tekin sú ákvörðun að klára uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni, áform sem má tekja aftur til ársins 1999 en höfðu aldrei klárast. Þannig hefur góð aðstaða til listsköpunar og sýninga risið á Egilsstöðum, skrifað hefur verið undir byggingu menningarhúss fyrir Norðvesturland á Sauðárkróki og stutt hefur verið við Edinborgarhúsið á Ísafirði.
Það er mikilvægt að landsmenn allir hafi aðgang að menningu og aðstöðu til listsköpunar.
_
Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að bæta stöðu íslenskra bókmennta og íslenskrar tungu ef þið komist til valda?
Íslensk tunga og bókmenntir haldast hönd í hönd.
Mikilvæg skref hafa verið tekin á undanförnum árum til þess að efla íslenskrar bókmenntir með tilfinnanlegum hætti.
Má þar nefna endurgreiðslukerfi fyrir útgáfu bóka á íslensku, Bókasafnssjóður höfunda hefur verið efldur, og Auður, nýr sjóður fyrir barnabókmenntir verið settur á laggirnar ásamt því að starfslaunum rithöfunda verður fjölgað úr 555 í 640 á næstu árum í samræmi við samþykktar lagabreytingar á starfslaunum listamanna.
Okkar framtíðarsýn til þess að efla íslenska bókaútgáfu liggur fyrir í þingályktun um nýja Bókmenntastefnu til ársins 2030 sem hefur að geyma 19 aðgerðir sem skipt er upp í fjóra flokka: Umgjörð og stuðningur; Börn og ungmenni; Menningararfur, rannsóknir og miðlun; og Nýsköpun og sjálfbærni. Aðgerðirnar leggja ekki síst áherslu á börn og ungmenni annars vegar og íslenska tungu hins vegar en víða er komið við. Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskipraráðherra hafði mælt fyrir stefnunni á Alþingi en ekki náðist að klára málið í ljósi aðstæðna. Þessari stefnu viljum við hrinda til framkvæmda.
Skrifum söguna áfram á íslensku
Að sama skapi hafa fjölmörg skref, stór sem smá, verið tekin til að efla íslenska tungu. Allt frá því að Disney + streymisveitan hóf að sýna kvikmyndir og sjónvarpsþætti talsetta á íslensku yfir í að snjalltæki og forrit eru farin að skilja, skrifa og nú tala góða íslensku.
Árið 2019 lagði Lilja Alfreðsdóttir þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra fram þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Snéri hún meðal annars að vitundarvakningu um íslenska tungu, menningu og listir, menntun og skólastarfi, tækniþróun og fleira. Öllum aðgerðunum hefur hrint til framkvæmdar.
Þá hefur máltækniáætlun 1 verið lokið, sem snéri að uppbygginu innviða í máltækni. Máltækniáætlun 2 hefur verið kynnt og er þegar komin í framkvæmdarfasa. Hún snýr að hagnýtingu íslenskra máltæknilausna í samfélaginu og hana viljum við klára.
Verkefnin fram undan í þágu tungumálsins birtast einnig í aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2024–2026, þar sem er meðal annars lögð rík áhersla á íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
_
Það er stefna stjórnvalda að sameina ríkisstofnanir og í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu er lagt til að Þjóðarópera verði stofnuð innan Þjóðleikhússins. Þannig náist samlegðaráhrif sem skili sér í minni yfirbyggingu og margþættri samnýtingu á innviðum og stoðdeildum. Á sama tíma er stigið fyrsta skrefið í átt að framtíðarfyrirkomulagi þar sem allar sviðlistastofnanir ríkisins verði reknar undir einum hatti með jafnræði milli listrænna stjórnenda hverrar listgreinar. BÍL styður þá framtíðarsýn sem fram kemur í frumvarpi um stofnun Þjóðaróperu að lagður verði grunnur að sameinaðri sviðslistastofnun líkt og er í Dannmörku.
Styður ykkar flokkur þessa framtíðarsýn?
Já. Unnið hefur verið að málinu undir forystu Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra og málið er tilbúið til framlagningar á Alþingi en ekki náðst að leggja það fram í ljósi aðstæðna. Við í Framsókn viljum klára málið.
_
Hvernig hyggst þinn flokkur tryggja gæði í byggingarlist á Íslandi?
Við höfum lagt áherslu á að auka vægi hönnunar og arkítektúrs innan málaflokks skapandi greina. Í tíð Lilju Alfreðsdóttur sem menningar- og viðskiptaráðherra var ný stefna á málefnum hönnunar- og arkítektúrs kynnt þar sem lögð er áhersla á hönnun sem breytingaafl og sjálfbæra innviðauppbyggingu sem að Framsókn styður. Sem dæmi um leiðir til að tryggja gæði í byggingarlist er að auka áherslu á notendur og gæði í reglugerðum stjórnvalda um opinber innkaup og vægi hönnunargreina og þverfaglegra vinnubragða í opinberum útboðum og innkaupum. Kortleggja nauðsynlegar breytingar á reglugerðum og hvata til að innleiða hringrásarhagkerfi í mannvirkjagerð. Það að hlutfall fjármagns til opinberra framkvæmda og stuðnings við innviðauppbyggingu fari í rannsóknir og nýsköpun, sem undirbyggi starfsemi óháðs rannsóknarvettvangs sem stuðlað getur að nauðsynlegri umbreytingu í mannvirkjagerð.
_
Í sviðslistum má finna ýmsar stofnanir og menningarsjóði sem eru reknar að meirihluta fyrir opinbert fé (t.d Þjóðleikhús, Íslenski dansflokkurinn, sviðslistasjóður, kvikmyndasjóður, Listaháskóli Íslands o.s.frv). Listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag eiga ekki allir skjól í kjarasamningi. Fjölmargir vinna í verktöku á kjörum sem eru undir lágsmarkslaunum eða viðmiðunarsamningum.
Hvernig ætlar flokkurinn þinn að vinna gegn því að listamenn sem vinna fyrir opinbert fjárframlag í gegnum sjóðakerfið eða hjá opinberum stofnunum séu hlunnfarnir?
Kæmi til greina af ykkar hálfu, að skilyrða styrkveitingu eða rekstrarframlag af hálfu hins opinbera þannig að viðkomandi greiði listamönnum samkvæmt kjarasamningi við viðeigandi stéttarfélag?
Framsókn leggur áherslu á að kjarasamningar séu virtir og styður listamenn á þeirri vegferð. Í tíð flokksins í menningarmálaráðuneytinu hefur verið stutt við nýja kjarasamninga, má þar til dæmis nefna fyrstu kjarasamninga sem gerðir voru við danshöfunda í Þjóðleikhúsinu 2022. Áfram þarf að huga að þessum málum og gera betur.
_
Listaháskólinn hefur búið við mikinn húsnæðisvanda frá stofnun skólans og skólinn er í dag í sex mismunandi byggingum víðsvegar um borgina sem mætir engan veginn kröfum háskóla í nútíma samfélagi. Nú liggja fyrir áform um að skólinn komist undir eitt þak í húsnæði gamla Iðnskólans á Skólavörðuholti. Styður þinn flokkur framtíðaráform Listaháskólans um að komast undir eitt þak næstu árum þar sem kröfum og þörfum skólans er mætt. Ætlið þið að forgangsraða þessu verkefni á næsta kjörtímabili?
Já. Þetta er vegferð sem hófst á síðasta kjörtímabili þegar að fjármunum var veitt í að hefja í þarfagreiningu og grunnvinnu. Fjármunum hefur verið forgangsraðað í nýtt húsnæði fyrir Listaháskólann á þessu kjörtímabili og Framsókn vill klára þá vegferð og koma skólanum undir eitt þak.
_
Þegar haft er í huga hvernig rannsóknir sýna fram á mikilvægi lista, bæði hvað varðar farsæld nemenda, sjálfsskilning og víðari sjóndeildarhring (að ónefndu efnahagslegu gildi lista og menningar sbr. nýlega skýrslu Ágústs Ólafs Ágústssonar) þá má spyrja: Hvernig telja frambjóðendur að megi efla hlut lista í menntun og skólastarfi? Hvert teljið þið að hlutverk ríkisins sé í því að tryggja menntun í listum og skapandi greinum fyrir ungt fólk á Íslandi og hvernig viljið þið sjá þessa menntun þróast?
Framsókn vill að nemendum sé tryggð fullnægjandi kennsla í listgreinum auk kynningar á framboði til framhaldsnáms í þessum greinum, má þar nefna fyrstu kvikmyndadeild landsins á háskólastigi við Listaháskóla Íslands var komið á laggirnar. Þar er nú boðið upp á 180 eininga BA nám með kjörsvið í leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu eða hljóðtækni. Klára þarf flutning Listaháskólans undir eitt þak á Skólavörðuholti til að auka slagkraft í starfsemi skólans. Framsókn ályktað um að aðalnámskrár leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóla verði endurskoðaðar og samrýmdar til að auka og bæta samfellu í námi barna. Skoða þarf nánara samstarf ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að listnámi, t.d. þegar kemur að tónlistarnámi.
_
Ef þið væruð að lýsa “fullkomnu samfélagi” í ykkar augum, hvernig myndi efnahagsleg aðild ríkisins að menningarmálum?
Við í Framsókn viðurkennum mikilvægi lista- og menningar fyrir samfélagið og þá staðreynt aðkoma ríkisins að menningarmálum sköpum í jafn fámennum samfélagi og okkar. Framsókn viðurkennir listir og menningu einnig sem atvinnugreinar sem hafa fjölbreytt, jákvæð efnahagsleg og andleg áhrif á samfélagið okkar. Við höfum náð miklum árangri í menningu og listum svo eftir er tekið á erlendri grundu og það fyllir okkur stolti sem þjóð. Listamenn eru okkar öflugustu sendiherrar. Það gerist ekki af sjálfu sér að ná árangri sem þessum. Það þarf að halda áfram að skapa skilyrði fyrir menningu og listir til að vaxa og dafna og að framlög til menningar og lista haldi áfram að aukast í takt við aukna verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Við í Framsókn treystum okkur í þá vegferð og að halda áfram að starfa þétt með hagaðilum í listum og menningu.